Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 14:29:44 (6348)

1998-05-08 14:29:44# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, MS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[14:29]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Með lögfestingu þessarar greinar er verið að ákveða að landinu skuli öllu skipað innan marka sveitarfélaga. Það er í fullu samræmi við þá grundvallarforsendu stjórnskipunarinnar að hér eru tvö stjórnsýslustig, ríkisvaldið annars vegar og sveitarfélögin hins vegar.

Þetta ákvæði fjallar á engan hátt um eignarrétt á landi og þetta ákvæði fjallar heldur ekki um almannarétt fólks til aðgangs að landi. Með þessu er ekki verið að afhenda nokkrum sveitarfélögum og fámennum hluta þjóðarinnar miðhálendið eins og jafnaðarmenn og aðrir andstæðingar frv. hafa ranglega haldið fram.

Samkvæmt 7. gr. frv. eru sveitarfélögunum falin ýmis verkefni með sérlögum þar um. Þannig eru sveitarfélögunum falin skipulagsmál í skipulags- og byggingarlögum. Samkvæmt núgildandi sveitarstjórnarlögum er byggð í landinu, þar með afréttum, skipað innan marka sveitarfélaga. Samkvæmt því er stærstur hluti landsins nú innan sveitarfélaga, þar á meðal mestur hluti miðhálendisins.

Fyrir tæplega einu ári voru samþykkt ný skipulags- og byggingarlög á Alþingi. Samkvæmt þeim er sveitarfélögum falið skipulagsvald á stærstum hluta hálendisins. Þau lög voru samþykkt samhljóða í atkvæðagreiðslu, m.a. af hv. þingmönnum jafnaðarmanna og fulltrúi þeirra stóð án fyrirvara að nefndaráliti umhvn. sem lagði til að þau lög yrðu samþykkt. Upphlaup þeirra í þessu máli nú er því illskiljanlegt og ber vott um ótrúlegan tvískinnung.

Herra forseti. Lögfesting þessarar greinar er fullkomlega rökrétt og eðlileg og því segi ég já.