Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 15:01:13 (6363)

1998-05-08 15:01:13# 122. lþ. 121.3 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv. 38/1998, Frsm. meiri hluta ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[15:01]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta hv. sjútvn., sem liggur frammi á þskj. 1312, um frv. til laga um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Í nál. kemur fram að nefndin hefur fengið ýmsa aðila á sinn fund til að fjalla um málið og borist umsagnir frá nokkrum aðilum að auki. Það er þakkarvert miðað við að skammur tími var til stefnu þegar frv. kom til nefndar.

Með frumvarpi þessu er lagt til að hið almenna ákvæði laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands varðandi úthlutun aflahlutdeildar úr svonefndum deilistofnum verði afnumið hvað snertir stjórn veiða úr þessum stofni. Þess í stað er lagt til að sett verði tímabundin ákvæði um stjórn veiðanna fyrir árin 1998, 1999 og 2000 og kveðið á um að sjávarútvegsráðherra skuli fyrir 1. nóvember árið 2000 leggja fyrir Alþingi frumvarp um stjórn þeirra veiða eftir það.

Í 2. gr. frumvarpsins eru settar fram meginreglur um stjórn veiðanna á næstu þremur vertíðum. Ákvæðin eru rammaákvæði og er sjávarútvegsráðherra ætlað að setja nánari ákvæði um framkvæmdina með reglugerð.

Samkvæmt a-lið 2. gr. verða veiðarnar leyfisbundnar en öll skip sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni eiga kost á þessu leyfi. Þar sem úthluta þarf veiðiheimildum milli skipa er nauðsynlegt að fyrir liggi í upphafi vertíðar hvaða skip koma til með að stunda veiðarnar og verður því að miða við að þau skip ein fái leyfi sem um það sækja fyrir lok tiltekins umsóknarfrests, enda fullnægi þau á því tímamarki skilyrðum um skráningu á íslenska skipaskrá og leyfi til veiða í atvinnuskyni.

Sjávarútvegsráðuneytið hefur nú þegar að höfðu samráði við sjávarútvegsnefnd tilkynnt að miðað verði við 5. maí sem upphafsdag síldarvertíðar í ár, enda var setningu reglna um stjórn veiðanna lokið fyrir þann tíma og var það gert með útgáfu reglugerðar á grundvelli laganna um veiðar utan íslenskrar efnahagslögsögu.

Í b-lið 2. gr. er kveðið á um úthlutun aflaheimilda. Skulu a.m.k. 90% aflaheimildanna koma til skipta milli þeirra skipa sem þessar veiðar hafa stundað síðastliðnar þrjár vertíðir. Skiptast þær á milli þeirra þannig að 60% er skipt miðað við burðargetu en 40% er skipt jafnt.

Í d-lið 2. gr. er ráðherra falið að setja með reglugerð nánari ákvæði um stjórn veiðanna. Getur hann m.a. ákveðið að sérstakar reglur skuli gilda um úthlutun á takmörkuðu aflamagni sem íslenskum skipum er heimilt að veiða innan lögsögu annarra ríkja. Með þessu er ráðherra fyrst og fremst veitt svigrúm til að ákveða sérstaka úthlutun á því magni (9.000 lestum 1998) sem heimilt er að veiða í lögsögu Noregs. Þá er ráðherra heimilað að ákveða að endurúthluta skuli afla eftir tiltekinn tíma sýnist það nauðsynlegt til að fullnýta leyfðan heildarafla íslenskra skipa. Meðal annars vegna þess að framsal á aflaheimildum er takmarkað samkvæmt frumvarpinu er nauðsynlegt að kveða á um endurúthlutun. Mun væntanlega koma til slíkrar endurúthlutunar á óframseljanlegum hluta aflaheimilda skipa sem ekki hafa farið til veiða fyrir tiltekið tímamark eða ekki veitt tiltekinn hluta aflaheimilda sinna fyrir slíkt tímamark. Þá gæti aftur komið til endurúthlutunar í lok vertíðar til að tryggja þetta sama markmið.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að láta það koma fram af minni hálfu að vissulega hafa verið nokkuð ólík sjónarmið um það hvernig að þessu skuli standa. Öll eru þau í sjálfu sér efnisleg miðað við það viðfangsefni sem meiri hluti nefndarinnar setti sér fyrir með niðurlagi nál. hans um frv. til laga um fiskveiðar utan lögsögu, sem nú eru gildandi lög þar um. Niðurlagið er svohljóðandi: ,,Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum verði á grundvelli leyfa til veiðanna á sambærilegum forsendum og verið hafa. Veiðireynsla úr þessum stofni myndi ekki grunn að fastri aflahlutdeild.``

Þetta álit meiri hluta sjútvn. var á þeim tíma, í desember 1996, byggt á þeirri skoðun nefndarmanna að þess muni vænta að ganga þessa stofns breytist frá því sem verið hefur undanfarin ár og líkjast meira því sem hér gerðist fyrir nokkrum áratugum. Þá verði það hentugt, miklu stærri hluta íslenska fiskiskipaflotans, að taka þátt í síldveiðum. Þau sjónarmið ríkja enn innan meiri hluta nefndarinnar og það er forsenda þessa frv., herra forseti.

Ég vil enn fremur segja að ég hefði getað hugsað mér breytingar á frv. en um það náðist ekki samkomulag á milli stjórnarflokkanna. Frv. var byggt á samkomulagi og við það viljum við standa og láta síðan reyna á í framkvæmd.