Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 15:07:11 (6364)

1998-05-08 15:07:11# 122. lþ. 121.3 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv. 38/1998, Frsm. 1. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[15:07]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir 1. minni hluta sjútvn. í þessu máli, sem varðar stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Ég vænti þess, herra forseti, að hæstv. sjútvrh. verði viðstaddur umræðuna, og vil einnig aðvara hæstv. forseta um að mér þætti vænt um að hæstv. utanrrh. gæti einnig verið viðstaddur umræðuna, a.m.k. að einhverju leyti. Ég hef áhuga á því að leggja spurningar fyrir hæstv. utanrrh. um stöðu samninga um nýtingu á norsk-íslensku síldinni milli okkar og annarra þjóða sem þar eiga hlut að máli. Ég tel eðlilegt og rétt að ræða það í tengslum við þetta mál. Það liggur í hlutarins eðli að það, hvernig við stöndum að nýtingunni og að við nýtum okkar heimildir, kemur beint inn á okkar samningsstöðu. Samningar hafa tekist til eins árs í senn þannig að segja má að þeir séu opnir á hverjum tíma, nema fyrir þá vertíð sem í hönd fer. Ég óska þess vegna eftir því að hæstv. utanrrh. verði einnig gert viðvart um að hans sé óskað hér við umræðuna.

Ég held, herra forseti, að óhjákvæmilegt sé að líta fyrst yfir sögulegan bakgrunn þessa máls. Ég ætla ekki að fara yfir alla síldveiðisöguna eða mannkynssöguna, þó auðvitað væri það áhugavert að ræða um þessa hluti allt frá því að Íslendingar lærðu af Norðmönnum, á síðustu áratugum síðustu aldar, hvernig hægt væri að bera sig að við að fanga þennan dyntótta fisk, síldina. Þá var gjarnan byrjað með nótaveiðum úr landi þegar síldin gekk upp í fjörusteina, ekki síst á fjörðum fyrir norðan og vestan.

Ég býst þó við að ég láti mér nægja, herra forseti, með tilliti til tímans, að rifja þetta upp í aðalatriðum frá því að veiðarnar hófust á nýjan leik árið 1994, eftir 27 ára hlé. Ef þess yrði hins vegar sérstaklega óskað, herra forseti, þá er mér ekkert að vanbúnaði að renna aðeins yfir söguna um þróun síldveiða frá síðustu áratugum síðustu aldar, gegnum veiðarnar á fyrri hluta aldarinnar og tilkomu hringnótaveiðanna og þeirrar merku uppfinningar sem kraftblökkin var og er. Hún gjörbreytti öllum aðstæðum við þessar veiðar og Íslendingar voru þar í fararbroddi við að ná tökum á þeirri tækni og urðu fyrir vikið í hópi fremstu þjóða við að nýta sér nótaveiðitæknina til veiða á uppsjávarfiskum. Það skilar ekki litlum verðmætum inn í þetta þjóðarbú í dag, herra forseti. Allir vita hvað í húfi er þegar verðmætar loðnu- og síldarvertíðir standa yfir.

En, herra forseti, til að koma því á framfæri í byrjun þá er afstaða 1. minni hluta sjútvn. sú að þetta frv. sem við erum að ræða, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, sé vanhugsað, meingallað og í raun og veru ekki tækt til afgreiðslu í óbreyttu formi. Hægt er að vísa til þess að í flestum umsögnum sem sjútvn. bárust um þetta mál kemur ýmist fram hörð andstaða við frv. eða að lagt er til að því sé breytt verulega. Sama má segja um sjónarmið flestra þeirra gesta sem til nefndarinnar komu. Fjölmargir sjómenn, útgerðarmenn, forsvarsmenn vinnslustöðva í landi o.s.frv., hafa einnig haft samband við framsögumann og án undantekninga lýst andstöðu við þetta frv., a.m.k. í óbreyttri mynd.

Fyrsta spurningin sem vaknar, herra forseti, er auðvitað hvort ástæða sé til þess að gera breytingar á gildandi lögum um úthafsveiðar. Norsk-íslenska síldin, sem flakkar út og inn úr efnahagslögsögu Íslands og reyndar efnahagslögsögu fleiri ríkja, er klassískur deilistofn í þeim skilningi þess orðs sem var lögfestur á Alþingi 1996, að stofnar sem dvelja hluta ársins innan efnahagslögsögu einstakra ríkja en hluta ársins í úthafinu eða í öðrum efnahagslögsögum kallast deilistofnar.

Árið 1996 voru sett ný lög, heildarlög, sem leystu af hólmi eldri lög frá 1976 um veiðar utan fiskveiðilandhelgi Íslands. Þessi lög voru sett m.a. í ljósi niðurstöðu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna varðandi svonefndan úthafsveiðisamning. Þetta er því mjög nýleg löggjöf sem þarna var sett eftir mikla og að flestu leyti vandaða undirbúningsvinnu. Árin þar á undan hafði sérstök stjórnskipuð nefnd starfað með fulltrúum allra flokka við að undirbúa þessa löggjöf og reyndar einnig til að fylgjast með framgangi þessara mála. Þá voru mjög í deiglunni, bæði viðræðurnar um úthafsveiðisamninginn og deilur og síðan samningar Íslendinga við önnur ríki um einstaka fiskstofna.

Því hlýtur, herra forseti, að þurfa nokkuð gild rök til þess að hverfa frá þeirri rammalöggjöf sem lögfest var á árinu 1996, reyndar undir lok ársins að hluta til því að hluti frv. var afgreiddur fyrir sumarhlé 1996 og síðari hlutinn í desember 1996.

Þó ekki tækist að öllu leyti heildarsamkomulag um meðferð mála, hvorki innan úthafsveiðinefndarinnar né í sjútvn., um afgreiðslu þessa frv. að hinum nýju úthafsveiðilögum, þá held ég þó, herra forseti, að allgóð samstaða hafi orðið um lögfestingu meginrammans. Manni sýnist þess þá heldur að nokkuð sterk rök þurfi til að ákveða að undanskilja einn fiskstofn ákvæðum þessara laga. Hér á að gera það og ég veit ekki hvort allir hv. alþingismenn hafa áttað sig á þeirri óvenjulegu aðgerð að ein tegund nytjafisks er tekin út undan almennri löggjöf um stjórn fiskveiða, hvort heldur er innan efnahagslögsögunnar eða utan. 1. gr. þessa frv. felur nákvæmlega það í sér. Hún hljóðar svo:

,,Ákvæði 5. gr. laga nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, gilda ekki um úthlutun veiðiheimilda úr norsk-íslenska síldarstofninum.``

Þetta er varanleg breyting, þó að ákvæðin sem síðan er lagt til að gilda skuli næstu þrjú ár um stjórn veiða séu tímabundin og eigi að taka til áranna 1998, 1999 og 2000.

[15:15]

Þessi óvenjulega og sérstaka aðferð, herra forseti, að undanskilja eina tegund almennum lögum er mikið nýmæli að ég hygg. Ég minnist þess tæpast að þannig hafi áður verið að hlutunum staðið, að ætla að setja sérlög um eina einstaka tegund. Það má náttúrlega velta því fyrir sér hvort næst komi að íslensku síldinni, hvort sett verði sérlöggjöf um hana og svo um loðnuna og svo koll af kolli. Þá verður þetta nú orðin skrautleg löggjöf hjá hæstv. sjútvrh. og mikið verk að vinna í því ráðuneyti ef á að setja sérstakan lagabálk um hvert kvikindi. Það er í rauninni verið að halda út á þá braut án mjög öflugs rökstuðnings að mínu mati, herra forseti, án mjög öflugs rökstuðnings.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan ætla ég að rekja einstök efnisatriði í mínu nál. og í frv. Ég hef hug á að leggja spurningar fyrir hæstv. utanrrh. og einnig hæstv. sjútvrh. Það er fróðlegt að heyra álit beggja hæstv. ráðherra á hinni almennu stöðu málsins. Það varðar sérstaklega horfurnar í samningum um nýtingu á norsk-íslensku síldinni á komandi árum í ljósi þess að Íslendingar náðu nú ekki alveg að nýta veiðiheimildir sínar á síðasta ári, sem þó hafði samist um og þótti flestum heldur lítill sá hlutur sem kom í hlut okkar Íslandsmanna. En þannig var, eins og kunnugt er, að á sérstökum leynifundi í London vorið 1996 gerðu hæstv. ráðherrar samkomulag við Norðmenn og síðan var farið til Óslóar til málamynda til að ganga frá því og þar var gert opinbert að búið væri að semja um uppskiptingu á þessum stofni í fjórhliða samningum milli Íslands, Noregs, Rússlands og Færeyja. Og þá kom í okkar hlut, ef ég man rétt, rétt um 18% hlutdeild í stofninum eða um 190 þúsund tonn af rúmlega 1.100 þús. tonna heildarkvóta sem þessi ríki höfðu þá sett sér.

Þessa lágu upphafsprósentu í samningunum urðum við margir til að gagnrýna, herra forseti, mjög harðlega á Alþingi vorið 1996 og reyndar einnig vinnubrögðin við þessa samningagerð. En þá, eins og reyndar því miður stundum áður og síðar, var allt eðlilegt samráð við t.d. utanrmn. Alþingis, sjútvn. og aðra slíka aðila gjörsamlega hunsað. Hlutirnir voru í rauninni kynntir eftir á þegar ljóst var að búið var að ganga frá málunum í öllum aðalatriðum á laun og engu varð um þokað.

Vorið 1996 eða á vertíðinni sem síðan fór í hönd giltu mjög sérstakar reglur um stjórn þessara veiða sem ég mun fara aðeins betur yfir á eftir, herra forseti. En síðan var enn breytt um og nýjar reglur settar fyrir vertíðina í fyrra. Þá voru veiðar frjálsar, eða það átti að heita svo, að innan marka þess heildarkvóta, þeirra 220 þúsund tonna eða hvað það nú var sem í okkar hlut kom því þá var bætt nokkru við í magni þó að prósentan lækkaði reyndar vegna innkomu Evrópusambandsins í samningana á því ári --- náðust ekki þessar veiðiheimildir. Þrátt fyrir að ráðuneytið hafði nú ekki minna við en svo að það gaf út sjö reglugerðir til að reyna að klára vertíðina eða koma henni á og klára hana. En það dugði ekki til og veiðiheimildirnar náðust ekki.

Af hverju er það nú umræðuefni, herra forseti, í þessu samhengi? Það er auðvitað vegna þess að það liggur nokkuð á borðinu að það er ekki mjög gott veganesti í framhaldssamningaviðræður við Norðmenn ef það gerist, og ég tala nú ekki um ár eftir ár, að við náum ekki okkar hlut. Vegna þess að hver er málflutningur Norðmanna? Jú, hann er auðvitað sá að það sé í raun og veru ástæðulaust að láta Íslendinga fá mjög mikið því síldin hafi ekki enn a.m.k hafið göngur inn í íslensku lögsöguna svo neinu nemi, og möguleikar Íslendinga til veiða séu takmarkaðir. Ef það síðan sannast, ef reynslan sannar það ár eftir ár þá er það að sjálfsögðu ekki gott veganesti, a.m.k. ekki ef við ættum á að skipa samningamönnum sem væru að reyna að fara fram á aukinn hlut til Íslands.

Þá er ég kominn að því, herra forseti, að ég held því fram og skal rökstyðja það nokkuð rækilega á eftir, að þetta frv., eins og það er úr garði gert, er nánast eins og klæðskerasaumað utan um það að auka líkurnar á því að íslensku veiðiheimildirnar náist ekki og að verulegt magn falli niður dautt. Það er í öllu falli alveg ljóst, herra forseti, að þessi aðferðafræði eykur stórlega líkurnar á því. Það er mun meiri áhætta tekin með því að úthluta veiðiheimildum í stórum stíl til skipa sem ekki hafa undanfarin ár sýnt fram á veiðigetu, beinlínis ekki. Skip sem hafa farið og reynt fyrir sér en ekki náð árangri og komið að landi með nokkrar pöddur, sum nokkra tugi tonna, þrátt fyrir að hafa barist um, t.d. á vertíðinni 1996 þegar úthlutað var og öðrum skipum gekk þokkalega vel að veiða.

En frv. felur þetta nú í sér eftir sem áður, herra forseti, og ég get farið betur yfir það á eftir hvernig það kemur út.

En þá er spurningin þessi til hæstv. sjútvrh.: Metur hann það svo að það sé í þágu hagsmuna Íslands í þessum efnum að taka jafnvel umtalsverða áhættu hvað það snertir að veiðiheimildir okkar nýtist ekki? Það væri reyndar líka fróðlegt að fara aðeins yfir stöðuna sem er í samningaviðræðunum um loðnustofninn. Því að þó að á borðinu séu þau aðskilin mál, þá er það auðvitað í reynd þannig að menn skoða dæmi og hliðstæður og við vitum vel hvað það er akkúrat þessar vikurnar sem við erum að segja við Norðmenn um loðnuna. Jú, það er það að loðnan hafi ekki gengið inn í lögsögu þeirra, Jan Mayen lögsöguna --- sem þeim því miður auðnaðist að frekjast til að ná yfirráðum yfir á þessari öld --- og veiðimöguleikar Norðmanna séu því afar takmarkaðir nema innan íslensku og/eða grænlensku lögsögunnar og þar af leiðandi séu ekki lengur forsendur fyrir þessi 11% hlutdeild í loðnustofninum sem þeir hafa haft undangengin ár.

Þetta er spegilmynd, algjör spegilmynd af því sem Norðmenn munu að sjálfsögðu segja við okkur í síldarsamningunum á næsta ári. Ég tala nú ekki um ósköpin ef mönnum tekst að standa þannig að hlutunum hér með einhverri ofstjórnaráráttu sem í raun og veru er fólgin í þessu frv., alveg furðulegu stjórnlyndi, að umtalsvert magn veiðiheimilda falli dautt. Þá munu Norðmenn auðvitað hlæja að okkur. Og það er mjög líklegt að samningarnir springi í loft upp nema Íslendingar sættist á að minnka enn sinn hlut.

Auðvitað getur þetta farið á annan veg ef við verðum heppin og síldin gengur t.d. vel inn í íslensku lögsöguna og verður þar auðveiðanleg um langan tíma. Þá kann að vera að það takist að ná kvótanum. En það er alveg borðleggjandi, herra forseti, að þetta frv. eins og það er úr garði gert er nokkurn veginn eins heimskulegt og nokkur pappír getur verið hvað það varðar að reyna að auka líkurnar á því að okkar hlutur nýtist.

Ég óska eftir því, herra forseti, að áður en þessari umræðu lýkur þá tjái hæstv. utanrrh. sig um þessa stöðu. Og svari þeirri spurningu hvort hann telji ekki nokkra áhættu fólgna í því hvað varðar samningsstöðu okkar um uppskipti á þessum stofni, ef það gerist ár eftir ár að veiðiheimildir okkar eru ekki nýttar til fulls. Og hvort ekki sé þá í raun nokkru til kostandi, jafnvel þótt það væri eitthvað óhagkvæmari nýting, ef menn þættust geta fært fram rök fyrir því, að leyfa t.d. frjálsar veiðar og hvetja þannig til þess að flotinn nýtti sóknargetu sína til fulls og af krafti á meðan veiði gæfist til að klára heimildirnar, þó að það kostaði tímbundið í eitt, tvö eða þrjú ár jafnvel eitthvað minni þjóðhagsleg heildarverðmæti, hvort það gæti þá ekki verið fórnarkostnaður sem væri auðverjanlegur í ljósi þeirra gífurlegu framtíðarhagsmuna sem í húfi eru hvað varðar samninga um nýtingu á þessum stofni. Því að auðvitað er það svo að frá hinni hliðinni séð er mikilvægt að samningar séu um nýtinguna og að hún sé innan skynsamlegra marka þannig að stofninn byggist upp og gefi af sér sem mestan afrakstur á komandi árum. Þar eigum við, og að sjálfsögðu allar þjóðirnar, sameiginlegra hagsmuna að gæta, en það breytir ekki hinu að þetta er líka innbyrðis hagsmunabarátta, innbyrðis togstreita þar sem hver verður að reyna að passa sinn hlut.

Herra forseti. Eins og áður sagði er í nál. á þskj. 1335 farið yfir þetta af hálfu 1. minni hluta. Þar er í fyrsta lagi lögð fram sú spurning hvort tilefni eða ástæða sé til þess yfirleitt að breyta nýlega settum lögum sem gilda um veiðar á úthafinu eða veiðar á deilistofnum sem ganga inn og út úr lögsögunni.

Lögin um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða úthafsveiðilögin, eins og við höfum yfirleitt kallað þau, eru eins og áður sagði nýleg. Þau voru sett í lok árs 1996 að undangengnu því undirbúningsstarfi sem ég fór yfir. Það hlýtur því að þurfa, herra forseti, þó nokkur rök til þess að kúvenda frá þeirri stefnu sem þar var mótuð og ætlunin var að mundi gilda sem almennur lagarammi um nýtingu fiskstofna af þessu tagi.

Þetta frv. frá hæstv. ríkisstjórn boðar hins vegar kúvendingu í þessu máli. Það boðar kúvendingu hvað varðar nýtingu á norsk-íslensku síldinni enda gengur 1. gr. frv. út á að færa þá tegund undan ákvæðum úthafsveiðilaganna.

Ég held, herra forseti, að nauðsynlegt sé fyrir menn að átta sig á því hringli sem hefur ríkt um meðferð mála allt frá því að veiðarnar hófust á nýjan leik árið 1994, eða í raun og veru má segja að það hafi verið eina árið sem þessir hlutir hafa verið með sæmilega eðlilegum hætti af því ósköp einfaldlega að þá fóru bara íslensk skip og veiddu síld eins og þau gátu. Og þá náðust ein 27 þúsund tonn sem voru heilmikil tímamót og upplifun í sjálfu sér að lifa það að vera viðstaddur þegar fyrstu síldinni var landað á Raufarhöfn eftir 27 ára hlé.

Hvað gerðist það ár? Það sem gerðist, og var gífurlega mikilvægt, var að með því sýndum við Íslendingar að við gátum veitt úr þessum stofni. Og þó að magnið væri ekki ýkja mikið voru það heilmikil tímamót. Og það er enginn vafi á því að mjög fór um Norðmenn þegar þau tíðindi gerðust að sannað var og sýnt fram á að síldin var farin að ganga svona langt til vesturs upp að lögsögumörkum Íslands og Færeyja og jafnvel að einhverju leyti inn í lögsögu þeirra, og að Íslendingar höfðu yfir að ráða flota, getu og kunnáttu til að skella sér í þær veiðar.

En þá hófst í raun og veru stjórnunartímabilið því að strax á árinu 1995 töldu menn nauðsynlegt að hafa hönd í bagga með málum. Reyndar var reynt að ná samningum um síldina vorið 1995, það tókst ekki og slitnaði upp úr þeim samningaviðræðum við Norðmenn og Rússa. Í kjölfarið gerðu Íslendingar og Færeyingar það sem var mjög skynsamlegt, að þeir settu sér einhliða kvóta og skiptu honum upp á milli sín og á þeim grundvelli voru veiðarnar 1995 í raun og veru frjálsar innan þeirra marka. Þá gekk sömuleiðis allvel. Ef ég man rétt fór veiðin í ein 190 þúsund tonn og ég veit ekki til þess að það hafi skapað nein sérstök vandamál að fiskveiðistjórnunin var með nákvæmlega þeim hætti.

Síðan rann upp árið 1996, herra forseti. Þá hugðist ráðuneytið hafa vaðið fyrir neðan sig og gaf út reglugerð, mig minnir að það hafi verið strax 1. apríl eða snemma í aprílmánuði, um það hvernig veiðum skyldi háttað á norsk-íslensku síldinni á því herrans ári 1996. Það var áður en farið var í leyniferðina til London. Þá var gefin út reglugerð nr. 188 1. apríl 1996, þetta var nú ekki aprílgabb heldur fúlasta alvara hjá ráðuneytinu þó að þetta bæri upp á þennan dag, og þá skyldu veiðarnar vera á þeim grunni að af þeim 244 þúsund lestum sem íslenskum skipum skyldi heimilt að veiða á grundvelli þeirrar ákvörðunar sem Ísland og Færeyjar höfðu þá annað árið í röð tekið, að setja sér einhliða mörk og skipta því á milli sín, þá skyldu veiðar vera frjálsar þar til að 190 þúsund lestum hefði verið landað. Þá skyldi Fiskistofa skipta því magni sem eftir væri milli einstakra skipa sem leyfi hefðu fengið til síldveiða. Og þá var búin til formúla um hvernig sú skipting skyldi vera, að það skyldi skipta tveimur þriðju hlutum magnsins jafnt á milli skipanna en þriðjungi í samræmi við burðargetu.

Ég bið menn að leggja þetta á minnið því að þetta er fyrsta formúlan af mörgum sem síðan hafa litið dagsins ljós í öllu þessu möndli. Þarna er í raun og veru gengið mjög langt í þá átt að láta bara alla sem á annað borð hafa farið til veiða, hvort sem skipin eru stór eða smá og ná meiri eða minni árangri fá jafnt.

[15:30]

Adam var ekki lengi í paradís því að eftir að samningarnir voru gerðir var gefin út ný reglugerð. Sú var dagsett 8. maí 1996 og þá er allt í einu ákveðið að setja kvóta á veiðarnar og skipta honum upp á einstök skip af þeim 182 þús. tonnum sem þetta var þá komið niður í í Íslands hlut því að samningarnir gegnu nú í raun og veru fyrst og fremst út á það að sætta sig við það að veiða mun minna magn en Ísland og Færeyjar höfðu áður einhliða ákveðið að taka sér. Það magn sem kom í Íslands hlut eftir að samningarnir höfðu verið gerðir fór sem sagt úr 244 þús. tonnum niður í 182 þús. tonn.

Þá er enn fundin upp ný formúla í ráðuneytinu. Hún er þannig að þessu magni skal skipta milli einstakra fiskiskipa sem veiðileyfi hljóta þannig að hverju skipi er sett ákveðið hámark sem það má veiða á árinu 1996. Heildarmagninu skal skipt þannig að helmingi magnsins skal skipt jafnt milli skipanna en helmingi þess í samræmi við skráða rúmtölu þeirra 7. maí 1996 hjá tæknideild Fiskifélags Íslands. Þetta er formúla númer tvö og þá er þetta allt í einu orðið ,,fiftí/fiftí``, helmingur jafnt og helmingur burðargeta. Þó er að vísu tekið fram í þessari reglugerð við hvaða mælieiningu hvað burðargetu snertir skuli þarna miðað. Mönnum hefur nú farið aftur í þessum efnum því að þegar frv. er lagt fram núna þá er það allt saman á floti.

Síðan voru fleiri slaufur á þessu, herra forseti, því ákveðið var að taka 8 þús. tonn frá handa togskipum sem gátu sótt um og tilkynnt til Fiskistofu og var þá miðað við að aflahámark á hvert togskip jafngilti því að það gæti farið tvær veiðiferðir. Þetta var kerfið sem notað var á því herrans ári 1996.

Auðvitað fór það svo, eins og gefur að skilja og augljóst mátti verða af þessari aðferð, að talsverður hluti þeirra skipa sem sótti um og fékk þarna úthlutað ýmist fór aldrei til veiða, fór til veiða og náði engum árangri, fór til veiða og sökk, fór til veiða og lagðist á hliðina í fyrstu veiðiferðinni, fór til veiða og lét gefa sér nokkrar pöddur eða fór til veiða og kom kannski með samtals nokkra tugi tonna að landi. Þannig var þetta nú, allt saman mjög skrautlegt.

Ráðuneytið neyddist því til þess að taka fram pennann og gefa út eina reglugerðina enn og það var 17. maí. Þá var nauðsynlegt að framlengja frestum til þess að auka möguleika manna á að sýna fram á að þeir gætu þrátt fyrir allt hafið þessar veiðar eða veitt eins og þeir höfðu áhuga á að gera í samræmi við sínar umsóknir.

Ekki dugði það til því fjórða reglugerðin leit dagsins ljós í júnímánuði og þá til þess að reyna að klóra í bakkann og úthluta á nýjan leik til þeirra skipa sem höfðu sýnt að þau gátu eitthvað veitt, því magni af veiðiheimildum Íslands sem lágu dauðar og ónotaðar hjá skipum sem eins og áður sagði ýmist fóru aldrei til veiða eða fóru til veiða og náðu ekki árangri.

Að lokum fór alvöruveiðiflotinn í þessu samhengi af stað á nýjan leik til að reyna að klára það sem eftir stóð af veiðiheimildunum og það tókst langleiðina á því ári ef minni mitt svíkur ekki enda var síldin þá svo væn að halda sig á veiðanlegum slóðum alllengi. Þó var það nú þannig, herra forseti, að að lokum hefur líklega vantað ein 20 þúsund tonn upp á að við næðum okkar hlut 1996.

Þarna tók því við enn nýtt kerfi. Fundnar voru út tvær formúlur á sama árinu til að skipta á grundvelli burðargetu og jafnt á skipin. Það væri nú gaman að fá rökin fyrir því t.d. að breyta um formúlur eins og þarna var gert. Af hverju var allt í einu orðið réttlátara að miða við burðargetu að hálfu og jafnt að hálfu, í staðinn fyrir 67% og 33% eins og ákveðið hafði verið að nota að hluta til við sambærilega uppskiptingu nokkrum vikum áður?

Er þá ekki komið að því sem dásamlegast er, þ.e. formúlurnar sem síðan voru fundnar upp á þessu vori í ráðuneytinu þegar átti að fara að skipta. Það er enn ein útgáfan og ég mun koma dálítið betur að því síðar.

Ég er auðvitað að færa rök fyrir því, herra forseti, að öll þessi saga þegar hingað er komið eins og ég er búinn að rekja hana og áfram það sem eftir er, einkennist af endalausu hringli í þessum málum, nýjum og nýjum formúlum og nýjum og nýjum reglum. Það stefnir í að á því fimm ára tímabili sem þessar veiðar hafa þó verið stundaðar, hafi nýtt fyrirkomulag verið notað á hverju einasta ári. Í það stefnir, nýtt kerfi í hvert einasta skipti.

Stundum er breytt um eiginlega í miðjum klíðum. Þannig var t.d. vorið 1996. Búið var að gefa út reglugerðina um frjálsar veiðar og menn voru farnir að búa sig undir það þegar allt í einu var rokið til og úthlutað á þennan skringilega hátt í byrjun maímánaðar í kjölfar leynisamninganna frá London.

Þá skulum við líta aðeins á árið 1997, herra forseti. Þá var á brugðið á það ráð að hafa sóknina frjálsa --- e.t.v. að einhverju leyti í ljósi reynslunnar frá 1996, þeirrar reynslu að við náðum ekki okkar hlut, og að þetta tókst nú svona og svona og ráðuneytið og Fiskistofa voru ekkert of sæl af sínum hlut að þurfa að dæla út þessum reglugerðum --- eða þannig frjálsa að það væri fyrst og fremst heimilt að grípa til ráðstafana þegar á þyrfti að halda í lok vertíðarinnar til þess að tryggja að veiði Íslendinga færi ekki fram yfir umsamið eða leyfilegt magn.

Eins og áður sagði, herra forseti, þá dugði það samt ekki til þess að okkar hlutur nýttist að fullu. Við náðum að vísu 220 þús. tonnum en um 13 þús. lestir vantaði upp á að við nýttum okkar veiðiheimildir að fullu. Og samt var, herra forseti, ekki eins og ráðuneytið reyndi ekki af vilja og mætti að láta a.m.k. ekki sinn hlut eftir liggja hvað varðaði reglugerðaútgáfu og annað því um líkt því að ráðuneytið gaf út sjö reglugerðir til þess að klára þessa stuttu vertíð í fyrra. Það þurfti sjö reglugerðir eða reglugerðarbreytingar til þess að klára þessa nokkurra vikna vertíð. Það er í raun og veru, herra forseti, skrautlegt að lesa það hvernig þetta gekk til. Svo geta menn aðeins velt því fyrir sér hversu gaman sé að starfa við atvinnurekstur af þessu tagi eða starfsemi af hvaða toga sem er þegar hlutirnir ganga þannig fyrir sig að leikreglunum er breytt á hverju einasta ári og oft innan ársins.

17. mars í fyrra gaf ráðuneytið út reglugerð nr. 190/1997, aðalreglugerðina um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, og hún var þá í fyrsta sinn byggð á nýju lögunum um veiðar utan efnahagslögsögu Íslands sem sett höfðu verið í desember árið áður. Þá var útgerðaraðilum settur sérstakur umsóknarfrestur til að sækja um veiðar og var fresturinn miðaður við 10. apríl 1997. En síðan var þessari reglugerð nr. 190 breytt í fyrsta sinn og þessi umsóknarfrestur felldur niður. Og eftir þá breytingu var eina skilyrðið sem sett var að skip hefðu leyfi til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands. Öll skip sem á annað borð höfðu leyfi til veiða, til hvaða veiða sem var, gátu þar með farið á síldveiðar.

En þetta dugði ekki til því að 2. maí var reglugerðinni breytt í annað sinn og þá laut það að ákvæðum sem snertu veiðar íslenskra skipa í lögsögu Noregs og Færeyja. 5. maí, þrem dögum síðar, var reglugerð nr. 190/1997 breytt í þriðja sinn. Þá var m.a. fallið frá umsóknarfresti og það þýddi að sá möguleiki opnaðist fyrir nokkur skip til að sækja um leyfi til veiðanna á nýjan leik eða komast inn í hópinn sem hafði leyfi til veiða.

Þetta þýddi, herra forseti, á árinu 1997 að alls fengu víst 26 togarar og 63 nótaskip og bátar leyfi til veiðanna. En það fór nú ekki nema hluti af þeim flota af stað.

Þann 28. maí var gefin út ný reglugerð, reglugerð nr. 323/1997. Hún varðaði það hvernig vertíðinni skyldi ljúka. Hún hafði gengið allvel og talið var þá að farið væri að stefna í að kvótinn kláraðist þannig að þetta voru reglur til þess að ganga frá því hvernig það skyldi gert og var þá hugsunin sú að hvert veiðiskip mætti einungis landa einu sinni eftir 31. maí. Um leið voru reyndar felld niður veiðileyfi þeirra skipa sem ekki höfðu þá þegar landað a.m.k. einu sinni á vertíðinni. Þeim var hent út úr hópnum, þeim hópi sem engum árangri hafði náð eða engri síld landað.

Enn mátti ráðuneytið taka upp pennann því að af ýmsum ástæðum, m.a. vegna lélegra aflabragða og brælu sem skall á í byrjun júní, varð ráðuneytið að breyta enn einu sinni og það var í fjórða sinn, reglugerð nr. 190/1997, til að leyfa þeim skipum sem höfðu t.d. vegna slæms veðurs orðið að leita lands með slatta, að sækja það sem á vantaði upp á eitt fullfermi í annarri veiðiferð. Og 16. september 1997 gaf sjútvrn. enn út reglugerð nr. 551/1997 og þá um tilhögun síldveiða íslensku skipanna í efnahagslögsögu Noregs.

Þetta er ég nú að rifja upp, herra forseti, til að menn átti sig á því að það er þó nokkur vinna fyrir hið háa ráðuneyti að stjórna þessu, ráðuneyti og Fiskistofu sem aðallega hafa með þetta að gera, miðað við þetta sem hér hefur verið lesið og átti þó að heita svo að veiðarnar væru frjálsar í fyrra. Samt þurfti allt þetta til til að reyna að búa til reglur sem þýddu að íslenski flotinn gæti nýtt þann kvóta, þær veiðiheimildir, sem Íslandi átti að falla í skaut samkvæmt þeim samningum sem gerðir höfðu verið. Útkoman, þrátt fyrir frjálsar veiðar, varð að um 13 þús. tonn af kvótanum náðust ekki.

Herra forseti. Ef við förum aðeins yfir það hver rökin séu fyrir því helst, og lítum á þá hlið málsins, að gera þessar breytingar á úthafsveiðilögunum eða gera breytingar á þeim yfirleitt hvað varðar nýtingu á norsk-íslensku síldinni, þá er þar í mínum huga fyrst og fremst eitt atriði fullgilt og það varðar það að í raun og veru er talsverð óvissa um það hver réttarstaðan sé í málinu ef úthafsveiðilögin gilda óbreytt. Sú óvissa lýtur fyrst og fremst að því að túlka eða meta hvort þegar liggi fyrir fullnægjandi veiðireynsla í skilningi laganna til þess að rétt sé að beita, eða jafnvel að það eigi að beita, ákvæðum þeirra um varanlega úthlutun. Þá koma til skoðunar þau ákvæði laganna um veiðar utan efnahagslögsögu Íslands sem fjalla um þetta atriði og eru fyrst og fremst í 5. gr. þeirra laga.

[15:45]

En þar segir, með leyfi, herra forseti: ,,Sé tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr slíkum stofni [þ.e. deilistofni] sem samfelld veiðireynsla er á skal aflahlutdeild einstakra skipa ákveðin á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú bestu veiðitímabil þeirra á undangengnum sex veiðitímabilum.`` Í þessari sömu málsgrein er veiðireynslan síðan skilgreind, hvað þurfi til að fullnægja þeim kröfum að veiðireynsla myndist. Það er þannig: ,,Veiðireynsla telst samfelld samkvæmt lögum þessum hafi ársafli íslenskra skipa úr viðkomandi stofni a.m.k. þrisvar sinnum á undangengnum sex árum svarað til a.m.k. þriðjungs þess heildarafla sem er til ráðstöfunar af hálfu íslenskra stjórnvalda.``

Síðara skilyrðinu er óumdeilanlega fullnægt hvað varðar norsk-íslensku síldina, því að öll árin, 1995, 1996 og 1997, hafa Íslendingar náð meira en þriðjungi af þeim kvóta sem þeir hafa samið um við aðra og/eða sett sér einhliða, eins og Íslendingar og Færeyingar gerðu sameiginlega á árinu 1995.

Hins vegar má deila um hvort fyrra skilyrðinu, þ.e. að um sé að ræða veiðireynslu þriggja bestu ára af undangengnum sex árum, þurfi einnig að vera fullnægt, í þeim skilningi að alltaf verði að liggja fyrir sex ára tímabil. Það er að mínu mati ekki alveg ljóst hvernig eðlilegast er að túlka ákvæði laganna að þessu leyti. Ég fullyrði að það liggja engin haldbær lögskýringargögn fyrir í þeim efnum. Ég hallast þó að því að meginreglan um veiðireynsluna eigi að ráða þarna. Í ljósi þess að því skilyrði er óumdeilanlega fullnægt með því að nú þegar liggja fyrir þrjú ár þar sem veiðar Íslendinga úr þessum stofni hafa orðið meiri en sem nemur 1/3 af úthlutuðum eða ákvörðuðum kvóta, þá gildir það atriði.

Það má að vísu draga eitt atriði enn inn í þetta mál. Því má velta fyrir sér hvort stýrðar veiðar, eins og á árinu 1996, séu nothæf viðmiðun. Getur það talist fullnægjandi viðmiðun fyrir veiðireynslu innbyrðis í hópnum, þó að heildarveiði Íslendinga sé óumdeilanlega nógu mikil og langt yfir það, miklu meiri en 1/3 af útgefnum kvóta? Þeir sem eru þeirrar skoðunar að ekkert sé að því að nota einnig árið 1996 sem viðmiðun að þessu leyti benda á, með réttu, að af því að sum skip náðu sínum úthlutuðu veiðiheimildum en önnur ekki, og önnur engu, þá birtist mönnum ákveðin reynsla. Ráðuneytið greip til þess, eins og áður sagði, að endurúthluta því sem afgangs var, til að það nýttist, og sömuleiðis voru það þau skip sem þegar höfðu náð árangri við veiðarnar sem bættu því magni við sig.

Það er því mjög margt sem bendir til þess, herra forseti, að einnig þetta ákvæði sé uppfyllt, í lagi sé að nota árið 1996 sem viðmiðun. Þá sýnist mér flest benda til þess að eðlilegt væri að nota hin almennu ákvæði greinarinnar um úthlutun á grundvelli veiðireynslu.

Þar með, herra forseti, er þetta ekki lengur orðin spurning um hvað sé heimilt samkvæmt þessari grein. Ljóst er að það væri heimilt að úthluta og fordæmin liggja fyrir í þeim efnum. Veiðar höfðu t.d. ekki staðið í sex ár á Flæmska hattinum þegar gripið var til uppskiptingar á þeim kvóta sem þar samdist um að lokum í Íslands hlut. Ætli það hafi ekki verið nær lagi að veiðarnar hafi staðið yfir í þrjú ár að einhverju magni. Þá þegar og strax var gripið til slíkrar uppskiptingar. Veiðireynslan var orðin mun lengri á Reykjaneshryggnum og þar var óumdeilt að veiðireynslan var fyrir hendi.

Í mínum huga, herra forseti, snýst þetta ekki um það hvort hæstv. ráðherra sé heimilt að beita 2. mgr. 5. gr., heldur miklu fremur um hitt hvort hæstv. ráðherra sé skylt að úthluta.

Það er athyglisvert að í greinargerð með frv. varðandi þetta mál, og þetta er nú ekki smámál sem hér er rætt, herra forseti, það varðar mikla hagsmuni, stendur, neðarlega á bls. 2:

,,Á grundvelli núgildandi laga er því heimilt að skipta leyfilegum aflaheimildum Íslands úr stofninum milli einstakra skipa með úthlutun varanlegrar aflahlutdeildar til þeirra, enda byggist sú aflahlutdeild alfarið á veiðireynslu þeirra. Heimilt væri skv. 4. mgr. 5. gr. að binda úthlutun því skilyrði að skip afsöluðu sér á móti veiðiheimildum innan lögsögunnar er næmi allt að 15% af þeim aflaheimildum sem þau fengju í síld.``

Þar liggja einnig fyrir fordæmin, samanber endurgjald sem skip, sem fengu varanlega úthlutun bæði á Reykjaneshrygg og á Flæmska hattinum, voru látin greiða.

Herra forseti. Stóra málið hér og það alvarlega er hvort þannig sé komið að ákvæði 2. mgr. 5. gr. feli í sér skyldu til þess að slík úthlutun fari nú fram. Þar stendur, herra forseti:

,,Sé tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr slíkum stofni sem samfelld veiðireynsla er á skal aflahlutdeild einstakra skipa ákveðin á grundvelli veiðireynslu þeirra ...`` o.s.frv.

Nú er þetta auðvitað óvissuatriði sem útkljá má með ákveðnum aðferðum. Ég hef sagt það áður og það eru engin tíðindi að auðvitað geta einstakir útgerðarmenn, ef þeim sýnist svo, látið reyna á rétt sinn í þessum efnum. Þá mun lagasetning á Alþingi, eins og sú sem hér fyrirhuguð, ekki breyta neinu þar sem lög geta ekki orðið afturvirk í þeim skilningi að bótalaust sé hægt að taka af mönnum rétt sem þeir áttu samkvæmt gildandi lögum þó að menn standi síðar meir í einhverjum æfingum í lagasetningu.

Mig grunar, herra forseti, að ástæðan, ein af nokkrum fyrir öllu þessu brölti og þessu frv., sé sú að menn séu dálítið hræddir um það hver hin raunverulega réttarstaða sé í raun og veru, samkvæmt ákvæðum gildandi laga. Það er auðvitað mjög slæmt. Þá hefði mér komið margt annað fyrr í hug, herra forseti, en að bregðast við því eins og gert er í þessu frv., og er að mínu mati hreinn óskapnaður. Í fyrsta lagi væri náttúrlega eðlilegt að spyrja sig að því hvað menn vilji. Hver var ætlunin og hver er hinn pólitíski vilji í þessum efnum? Síðan hefði mátt eftir því sem kostur er að láta hann ná fram að ganga.

Ég viðurkenni vissulega að það mundi ríkja nokkur óvissa um það hver áhrifin yrðu af því að gera enga breytingu á lögunum og láta þau gilda áfram óbreytt. Það má nefna, sem rök fyrir lagabreytingum nú, að menn vilji eyða þessari óvissu. Það má líka færa fram þau rök sem eru, að það sé ekki tímabært að úthluta varanlega veiðiheimildum. Þá er komið inn á að búast megi við því að göngumynstur síldarinnar breytist á komandi árum og aftur gangi í garð þeir tímar að síldin gangi upp að landinu og jafnvel inn á firði og flóa og þá geti stærri hluti flotans og minni skip farið að ná árangri við veiðarnar þó að þau geri það ekki í dag meðan síldin er sótt út á opið ballarhaf, meira en 200--300 mílur frá landinu.

Þetta eru að sjálfsögðu ákveðin sjónarmið, þó að vísu liggi engin skilgreining fyrir á því hvenær blása eigi í flautuna og segja: Nú er síldin farin að hegða sér eins og hún á að hegða sér. Nú er komið náttúrulegt göngumynstur. Það væri fróðlegt að vita hvað höfundar frv. hafa haft í huga í þeim efnum. Var það göngumynstrið eins og það var á fyrri hluta aldarinnar þegar síldin kom upp að Vestfjörðum, gekk mjög norðarlega yfir síldarsmuguna og síðan sennilega niður með lögsögumörkum Grænlands og síldarsmugunnar og kom upp að landinu úr norðurátt við Vestfirði og fyllti þar firði og flóa?

Á seinni áratugum tók síldin að líkindum að ganga sunnar yfir Smuguna og koma upp að Norðurlandi og varð fyrst vart við hana djúpt út af Norðurlandinu. Síðan héldu hlutirnir áfram að breytast, göngurnar færðust austar og vetrarstöðvarnar fyrir austan landið eða norðaustan komu til sögunnar. Undir lokin var svo komið að stóra síldin a.m.k. var mikinn meiri hluta ársins innan íslensku efnahagslögsögunnar. Hvað af þessu á þá að teljast hið náttúrulega göngumynstur?

Ég held, herra forseti, að niðurstðan sé sú að þetta sé allt saman tómt kjaftæði. Það er ekki nokkur leið að átta sig á því hvað sé í raun og veru eitt staðlað göngumynstur. Það er alveg örugglega ekki til. Það eina sem er nokkurn veginn er öruggt er að síldin mun hér eftir sem hingað til verða dyntótt skepna og hegða sér á ýmsa vegu, allt eftir aðstæðum í hafinu eða þá einhverju öðru sem okkur mönnunum er hulið að skilja en ræður atferli hennar.

Ég tel þetta því ekki veigamikil rök. Auk þess er sérhæfingin að aukast í þessum efnum. Ég held að það sé mikil rómantík að ímynda sér að litlir pungar nái árangri í þessum veiðum til móts við hin gríðarlega stóru og öflugu skip sem núna bera uppi þessar veiðar. Hver er reynslan af nýtingu á íslenska síldarstofninum? Reynslan þar er sú að það eru fyrst og fremst stóru og öflugu skipin sem ná þar árangri og sjá um þær veiðar. Þær veiðiheimildir sem tilheyrðu minni bátum eru nýttar af stóru skipunum ár eftir ár, ýmist með leigu eða vegna þess að þær hafi færst þangað varanlega.

Ég er hins vegar opinn fyrir því að við bindum ekki hendur okkar með varanlegri úthlutun um aldur og ævi. Ég hefði verið tilbúinn til að ræða það að setja þröskulda eða þök og segja t.d.: Þó að þessum veiðiheimildum, um það bil af þeirri stærðargráðu sem við höfum nú, verði skipt á þau skip sem á undanförnum árum hafa sýnt að þau geti veitt þetta, en ekki á alla þvottabala landsins, þá þýðir það ekki að þau fái endalaust vaxandi hlut, ef stofninn vex eða göngulag hans breytist. Það mætti bæði setja þarna þök eða varnagla auk þess sem ég minni á að bæði úthafsveiðilögin og lög um stjórn fiskveiða eru algjörlega afdráttarlaus hvað það snertir að Alþingi getur hvenær sem er gert þær breytingar á fyrirkomulagi þessara mála sem því sýnist. Í lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands var sett inn, m.a. fyrir mitt frumkvæði, sambærilegt ákvæði við það sem nú er í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða og hljómar svo:

,,Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``

Það er ekki nokkur minnsti vafi á því í mínum huga að þetta ákvæði, alveg eins og ákvæði laganna um stjórn fiskveiða, er fullkomlega helt og þýðir að þó að ákvæði laganna gengju eftir og um varanlega úthlutun yrði að ræða um nokkurra ára bil, í samræmi við það kerfi sem í gildi er, þá geti Alþingi hvenær sem því sýndist tekið ákvörðun um að gera eitthvað annað. Það er alveg ljóst.

Það má kannski segja, herra forseti, að enn ein rökin fyrir því að gera breytingar á úthafsveiðilögunum, eða á 5. gr. þeirra sem varðar deilistofnana eða síldina, séu þau að menn vilji afdráttarlaust ganga frá því, hvernig sem túlka beri núgildandi ákvæði, að veiðireynslan myndist á lengra tímabili í frjálsum veiðum en þegar liggur fyrir. Það er sjónarmið út af fyrir sig, að ganga frá því þannig að það misskiljist ekki, að aldrei skuli koma til úthlutunar á grundvelli almennu ákvæðanna fyrr en veiðar hafi staðið a.m.k. í sex ár og veiðar verið frjálsar þann tíma eða sex ár af lengra tímabili. Þannig væri veiðireynslugrunnurinn alltaf frjálsar veiðar á a.m.k. sex ára tímabili.

[16:00]

Þá þyrfti að gera breytingar til að tryggja að veiðarnar mættu áfram vera frjálsar í a.m.k. tvö ár --- eitt ár til að um sex ára tímabil væri orðið að ræða og tvö ár ef menn vildu henda út árinu 1996 vegna þess að þá var um úthlutun að ræða.

Mér sýnist því, herra forseti, að í öllu falli væru menn þá algerlega öruggir hvað varðar túlkun þessara ákvæða, hvernig sem á þau er litið ef gengið væri frá því á einfaldan hátt að veiðarnar skyldu vera frjálsar tvö ár í viðbót, á þessari vertíð og hinni næstu. Þá gæti enginn maður borið á móti því að öllum skilyrðum 2. mgr. 5. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands væri fullnægt.

Síðan má nefna, herra forseti, að sjónarmið hafa komið fram um að rétt væri að beita í grundvallaratriðum öðrum aðferðum við úthlutun veiðiréttinda í þennan stofn en gert er í gildandi löggjöf um stjórn fiskveiða eða veiðar á úthafinu. Þá er ég fyrst og fremst að vísa til þeirra hugmynda sem fram koma m.a. í nál. 2. minni hluta að bjóða eigi veiðiheimildirnar upp. Það er sjónarmið út af fyrir sig sem menn hafa verið að tala um og jafnvel að það gegndi svo sérstöku máli um þennan stofn umfram alla aðra, sem ég reyndar leyfi mér að draga dálítið í efa, að réttlætanlegt væri að fara öðruvísi að í að skipta upp nýtingarréttinum. Það er athyglisvert að ekki minni menn en hæstv. utanrrh. --- sem ég óskaði nú eftir að yrði hér við umræðuna en hefur greinilega ekki haft tíma til að staldra lengi við þótt bornar væru fyrir hann spurningar --- hefur verið að gefa þessu undir fótinn, gott ef ekki í ræðu á landsfundi Framsfl. til að slá aðeins á óánægjuraddirnar í sambandi við kvótabraskið og allt það, þá fannst hæstv. utanrrh. sniðugt, það hefur væntanlega átt að vera það, að gera gælur við það að til greina gæti komið til að koma pínulítið til móts við auðlindaskattsmenn að bjóða mætti upp veiðiheimildirnar á norsk-íslensku síldinni. Og það er eins og mig minni að hæstv. sjútvrh. hafi líka misst eitthvað út úr sér um þetta efni. Ég held ég muni það rétt. Talið að það gæti komið til greina. Þess vegna vekur það auðvitað nokkra undrun úr því að hæstv. ráðherrar fara í það verk á annað borð að leggja fram breytta tilhögun mála hvað varðar norsk-íslensku síldina, að þessar hugmyndir þeirra virðast hafa gufað upp algjörlega. Og Morgunblaðið er sárreitt yfir þessu, skrifar heilan leiðara um það: Hvað, meintu mennirnir ekkert með því sem þeir sögðu? Var þetta bara ábyrgðarlaust gaspur? Það mætti ætla miðað við þetta frv. sem hér kemur fram þar sem allar slíkar hugmyndir eru gleymdar og týndar.

Herra forseti. 1. minni hluti telur að ef fara á út í að gera breytingar á úthafsveiðilögunum á annað borð sem viss rök mæla með, eins og áður hefur verið farið yfir hér, og þá fyrst og fremst með vísan til þess sem áður var sagt um þá óvissu sem kann að fylgja því að láta gildandi lög standa óbreytt, réttaróvissu sem þá er vissulega komin upp og er mjög líklegt að mundi kalla á málaferli. Kannski gerist það hvort sem er. En það er mjög líklegt að ef t.d. veiðarnar stæðu áfram á þessu ári mundu menn benda á að það væri orðið alveg óhrekjanlegt að fullnægjandi viðmiðanir væru komnar til að ákvæði laganna um varanlega úthlutun ætti að gilda. En vilji menn eyða þessari óvissu og þá á þann veg að óyggjandi sé að veiðarnar geti áfram verið frjálsar, þá er það afar einfalt mál, herra forseti. Og við eigum að kunna það hérna, a.m.k. hinir þingvanari menn að þetta er gert með svokölluðum ,,þrátt-fyrir``-ákvæðum. Það er óskaplega einföld tæknileg lausn á því máli. Þá er bara sagt, eins og gert er ótal sinnum á undanförnum árum í tengslum við afgreiðslu á lánsfjárlögum o.s.frv. að þrátt fyrir ákvæði þessarar eða hinnar lagagreinarinnar númer þetta og hitt, skulu málin vera með þessum hætti í ár, eða næsta ár eða tvö, þrjú ár eða eitthvað svoleiðis. Þrátt fyrir ákvæði um að 10% af brúttósölutekjum Fríhafnarinnar skuli vera sértekjur Ferðamálaráðs skal Ferðamálaráð ekki fá nema 50 millj. á þessu ári. Þrátt fyrir það að allur erfðafjárskatturinn eigi að ganga í Framkvæmdasjóð aldraðra skal Framkvæmdasjóður aldraðra ekki fá nema 200 millj. á árinu o.s.frv. ,,Und so weiter, und so weiter`` eins og Þjóðverjar segja. Þetta er einfalt mál. Ég held að þetta væri, herra forseti, í raun og veru skynsamlegasta aðgerðin í ljósi þess sem hér hefur verið rakið, að menn segðu sem svo: Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands skulu veiðar vera frjálsar á næsta ári, eða næstu tveimur til þremur árum. Síðan mætti setja eftir atvikum einhver einföld ákvæði um nánari málsmeðferð ef mönnum þætti svo við bera.

Herra forseti. Þetta er í raun og veru sú tillaga sem við fulltrúar minni hlutans í sjútvn. höfum orðið sammála um að flytja. Þótt við skilum tveimur nál. er samstaða í okkar röðum um það og menn gætu haft mismunandi sjónarmið um það hvernig ætti að búa um þessi mál til lengri framtíðar litið, er það sameiginleg afstaða okkar að í ljósi allra aðstæðna sé hyggilegast að ganga svona frá málinu. Við höfum því lagt fram brtt. sem ég ætla einnig að mæla fyrir í þessari framsögu fyrir nál., herra forseti, sem er á þskj. 1336 og gengur út á það að taka af allan vafa um það að veiðarnar megi standa frjálsar áfram um tveggja ára skeið, þrátt fyrir ákvæði 5. gr. og þá fyrst og fremst 2. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996.

Ég mun síðar koma aðeins að því, herra forseti, hvernig við sjáum fyrir okkur að að þessu yrði staðið að öðru leyti.

Rökin fyrir þessari aðferð, herra forseti, eru þá í fyrsta lagi þau eins og áður sagði að með þessu er í raun og veru ekki raskað þeim anda og þeirri stefnu sem mótuð var í úthafsveiðilögunum, en með svona aðgerð er á einfaldan hátt eytt allri óvissu um það hvernig hlutirnir verði næstu tvö ár. Það er alveg á hreinu og ég tel að það hlyti þá að styrkja ef eitthvað væri málsástæður ríkisins til að gera það.

Í öðru lagi, herra forseti, og það er veigamesta röksemdin að mínu mati fyrir því að hafa veiðarnar frjálsar. Það er ekkert annað fyrirkomulag sem tryggir betur að íslenski flotinn fari af krafti til þessara veiða og taki allan kvóta Íslands, svo fremi sem það reynist mögulegt. Það vita auðvitað allir heilvita menn að sá hvati sem fólginn er í því að skipin keppi um að veiða úr sameiginlegum potti er öflugasta aðgerðin til að ýta undir slíkar veiðar. Það er engin önnur aðgerð betri, held ég, nema ef menn vildu þá fara að veita mönnum verðlaun af einhverjum öðrum toga.

Það tókst ekki, herra forseti, eins og áður sagði að klára hlut Íslands í fyrra og ekki heldur í hittiðfyrra, hvorki kvótann sem samið var um þá né kvótann sem við höfðum í fyrra og þar af leiðandi er veruleg ástæða til þess, herra forseti, að hafa áhyggjur af því að við munum ekki ná honum heldur á þessu ári. Það verður bara að segja þessa hluti eins og þeir eru, að það er augljóst mál að það mun veikja okkar stöðu mjög í samningum um þessa nýtingu. Og það er enn meiri ástæða til að hafa áhyggjur af þessu en ella, herra forseti, í ljósi þess að vertíðin byrjaði mjög dauflega. Á sama tíma í fyrra var umtalsvert magn komið í land af síld. Veiðarnar máttu þá að vísu hefjast 2. maí en mikill kraftur var í veiðunum fyrstu sólarhringana og mér er nær að halda að aflinn hafi þá þegar verið orðinn nokkrir tugir þúsunda tonna. T.d. var aflinn 11. maí á síðasta ári orðinn um 50 þús. lestir, 11. maí, það er núna um helgina. En ég veit ekki hvort búið er að landa fyrstu slöttunum núna en það er þá a.m.k. nýskeð. Þetta dauflega upphaf vertíðarinnar, ef eitthvað er, gerir a.m.k. mig áhyggjufyllri en ella hvað það varðar að það gæti gerst þriðja árið í röð að við næðum ekki okkar veiðiheimildum, sérstaklega vegna þess að sá óskapnaður sem í þessu frv. ríkisstjórnarinnar er fólginn er alveg frámunalega letjandi á allan hátt hvað það snertir að við náum okkar hlut. Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það, herra forseti, hversu fagnandi Norðmenn munu taka því ef við leggjum þeim þau vopn í hendur að klára ekki okkar hlut á þessu ári.

Í þriðja lagi, herra forseti, eru rökin að mínu mati fyrir því að ákveða þá, ef menn gera breytingar á annað borð, að hafa veiðarnar frjálsar í eins og tvö ár í viðbót, það eru sanngirnisrök. Og hver eru þau? Jú, það eru þau sanngirnisrök að ég kem bara ekki með nokkru móti auga á betri aðferð, skárri aðferð til að mynda grunninn að þeirri uppskiptingu sem einhvern tímann verður auðvitað, en reynsluna. Ég hef talsvert hugsað um þau mál og verð bara að játa mig sigraðan í því efni að ég finn enga skárri formúlu en þá að láta veruleikann birtast mönnum í því hvaða stjórn, hvaða menn, hvaða fyrirtæki, hvaða áhafnir sýna fram á það að þær geti með árangursríkum hætti nýtt þessar heimildir. Og láta svo þá reynslu mynda grunninn að uppskiptingu, hvort sem hún verður meira eða minna varanleg, stendur skemur eða lengur skiptir ekki öllu máli. Ég held þegar upp er staðið verði það að lokum alltaf þannig að þetta muni reynast skársta leiðin, sanngjarnasta leiðin. Reynslan er ólygnust. Hún er líka oft gáfulegust. Það er mjög oft hyggilegt að taka mið af því sem gerist í raun og veru en ekki einhverju öðru. Búa sér ekki til einhvern ímyndaðan heim og fara svo að stjórna samkvæmt honum. Það er nákvæmlega það sem hér er verið að gera. Það er verið að búa sér til þann ímyndaða heim að togarar og smábátar og jafnvel trillur gætu nú hugsanlega náð einhverjum árangri í þessum efnum og þess vegna sé best að úthluta þessu svona, jafnvel jafnt, 40% á allt sem flýtur.

Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér ef maður hefði farið með þvottabala út á miðin í fyrra eða hittiðfyrra og það hefði stokkið upp í hann síld og maður hefði svo landað henni. Hefði maður þá fengið hlutdeild? Hefði maður þá fengið 40% til jafns við stóru nótaskipin? Það liggur við, a.m.k. ef maður hefði haft veiðileyfi á þvottabalann. Það er þannig, ef maður hefði haft þvottabala í fyrra sem hefði haft veiðileyfi í íslensku efnahagslögsögunni og maður hefði farið með hann út á sjó, upp í hann hefði stokkið ein síld og henni landað, þá hefði maður fengið fleiri hundruð tonn, ef ekki þúsundir í úthlutun núna. (Gripið fram í: Vont að vera seinn að hugsa.) Já, það er nefnilega vont að vera seinn að hugsa. (Gripið fram í: Væri ekki hægt að fá veiðileyfi á þvottabalann?) Það er ekki útilokað. Það er hægt að fá veiðileyfi á ýmislegt. Það gæti orðið vesen með haffærnisskírteinið kannski. Þó var nú einu sinni maður sem ætlaði að reyna að sigla yfir Atlantshafið í baðkari þannig að það er ýmislegt mögulegt í þessum efnum. (Gripið fram í: Heldur þú að hann hafi ... ) Staðreyndin er auðvitað sú að þótt það væri ekki þvottabali, þó það væri nú ekki annað en eitthvert báthró, sem hefði að nafninu til veiðileyfi í íslensku efnahagslögsögunni og hefði engin veiðarfæri eða nokkurn skapaðan hlut, þá hefði þetta getað gerst þannig, því áður en það var þó stoppað að menn gætu fengið gefins afla af miðunum eins og reyndar var gert á miðri vertíðinni 1996 ef ég man rétt, þá fóru veiðarfæralaus skip út á miðin, fengu gefins afla, lönduðu honum og þó þau hafi aldrei neitt annað gert síðan fá þau þúsundir tonna úthlutað á grundvelli þessa frv. Þetta er þá mjög sanngjörn eða skynsamleg efnisregla borið saman við hitt að leyfa reynslunni ósköp einfaldlega smátt og smátt að mynda þann grundvöll sem menn síðan nota til þessarar uppskiptingar, ef menn vilja þá ekki fara einhverjar allt aðrar leiðir, sem er algjörlega sjálfstætt mál eins og ég nefndi hér áður, samanber nál. 2. minni hluta, að bjóða þetta upp eða gera þetta með einhverjum allt öðrum hætti en hingað til hefur verið notað sem grundvöllur fyrir uppskiptingu á þessum nýtingarrétti.

Að síðustu, herra forseti, eru það auðvitað rök nema menn séu búnir að skipta algerlega um skoðun og það væri nú fróðlegt að heyra hæstv. sjútvrh. svara því ef hæstv. ráðherra vildi nú einu sinni sýna þá virðingu bæði að hlusta og síðan að svara því sem hann er spurður um. Stundum er misbrestur á því með þennan hæstv. ráðherra.

[16:15]

Hver er ástæðan fyrir því að hæstv. ríkisstjórn hverfur algjörlega frá þeirri stefnu sem hingað til hefur verið framfylgt og fordæmin eru um, bæði frá Reykjaneshrygg og Flæmska hatti? Var tekin ákvörðun í ríkisstjórninni um að breyta þarna algjörlega um stefnu? Og var það meðvituð ákvörðun um að héðan í frá verði þessum hlutum hagað á allt annan hátt?

Þetta er ekki bara spurning um daginn í dag og núið og síldina og er hún þó nógu stór. Nei, þetta er náttúrlega spurning um það fordæmi sem er þá verið að gefa. Er með þessu frv. verið að senda þau skilaboð út að menn megi vænta þess í öðrum hliðstæðum tilvikum á komandi árum að veiðireynslan gildi ekki neitt? Er það? Og þá er það náttúrlega algjör kúvending, ekki bara frá þeirri stefnu sem mótuð hefur verið heldur er það kúvending frá anda úthafsveiðilaganna og það er kúvending frá þeirri hugsun sem myndar grunninn að núverandi stjórnkerfi fiskveiða í landinu. Það eru náttúrlega nokkur tíðindi svo ekki sé meira sagt, að samkvæmt sögusögnum --- og engum sögusögnum, áreiðanlegum fréttum héðan úr þinginu --- er fyrst og fremst Framsfl. sem hefur bitið sig algjörlega fastan í það að þetta frv. skuli ná fram að ganga óbreytt. Talsmenn þess flokks hafa ekki léð máls á neinum breytingum á því, hversu sannfærandi rök sem menn hafa þóst færa fyrir því að a.m.k. þessi útgáfa af málinu væri óskynsamleg. Er það þá vegna þess að þarna sé orðin grundvallarstefnubreyting á?

Herra forseti. Ef menn ekki fallast á það sem við fulltrúar minni hlutans leggjum til, þ.e. að ákveðið verði og reynt að ná samkomulagi um að hafa veiðarnar frjálsar t.d. í tvö ár í viðbót þannig að menn geti skoðað á meðan hvað síðar verður, og ef menn vilja búa til eitthvert bráðabirgðaástand, leika einhvern biðleik, eins og segja má að þetta frv. sé, með sérstöku þriggja ára tímabili sem þarna er sett upp með sérstakri úthlutun, þá er alveg fráleitt að gera það öðruvísi en þannig að veiðireynsla undangenginna ára vegi a.m.k. mjög þungt í þeirri reiknireglu sem notuð er við þá skiptingu. Sú formúla sem frv. gengur út á er eins og ég sagði, herra forseti, þriðja formúlan sem ráðuneytið setur fram á undangengnum tveimur árum um það í hvaða hlutföllum skuli nota burðargetu og í hvaða hlutföllum jafnt, og nú er það allt í einu orðið þannig samkvæmt frv. að 60% eiga að vera burðargeta en 40% skal skipta jafnt.

Í reglugerðinni frá 1. apríl 1996 átti að skipta 2/3 hlutum jafnt en 1/3 í samræmi við burðargetu. Það er næstum því búið að snúa þessu við þarna. Og í reglugerðinni frá 8. maí 1996 er þetta þannig að helmingi átti að skipta jafnt og helmingi miðað við burðargetu. Hvar eru vísindin, hæstv. sjútvrh., á bak við þessar þrjár mismunandi formúlur? Hvar eru vísindin? Hver eru hin efnislegu rök fyrir því að þessi er nú orðin niðurstaðan, 60% burðargeta og 40% jafnt þegar það var fyrir tveimur árum síðan í maímánuði ,,fiftí/fiftí`` og nokkrum dögum áður, í apríl, 67% jafnt og 33% burðargeta? Þá sneri það öfugt. Hver eru vísindin? Hver eru rökin? Eru menn hugsanlega að leika sér eitthvað með þessar formúlur út frá því að það skipti máli hvernig einstök skip koma út úr útreikningunum? Það læðist auðvitað að manni sá grunur því hér er ekki verið að tala um litla hluti. Þarna er verið að færa veiðiheimildir á verðmætum fiskstofni til á milli skipa svo nemur hundruðum eða jafnvel þúsundum tonna. Það er ekkert annað verið að gera. Með geðþóttaregluverki af þessu tagi er verið að færa til hagsmuni svo nemur tugum milljóna hjá einstökum útgerðum. Það er tekið af einum og fært öðrum.

Finnst mönnum þetta fín stjórnsýsla? Finnst mönnum það? Ég spyr. Þegar efnislegi grundvöllurinn sem ákvarðanirnar eru byggðar á er ekki traustari en þetta. Þetta eru hreinar geðþóttaákvarðanir og það er algjört hringl og ekki nokkurt samræmi í því hvernig ráðuneytið eða ríkisstjórn á einstökum tímum setur þessa hluti fram, ekki nokkurt, eins og ég þykist hafa sýnt hér sæmilega fram á.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að annan eins reglugerðafrumskóg, annað eins hringl og reikniverk, hef ég sjaldan séð og þekki ég þó ýmislegt og hef fylgst nokkuð vel með stjórnsýslu bæði í sjávarútvegsmálum og landbúnaði á undanförnum árum og þar má svo sem sjá sitt af hverju.

Herra forseti. Ég tel að verði farið út í að búa til svona viðmiðunartímabil á annað borð sé fráleitt annað en að láta veiðireynsluna gilda að einhverju leyti. Og ég segi: Það er brot á ákvæðum og anda úthafsveiðilaganna að gera það ekki vegna þess að þau lög gera ráð fyrir því að þó að valin sé einhver önnur aðferð en sú að úthluta varanlega þá skuli samt taka mið af veiðireynslu. Það stendur nefnilega í þeim lögum. Að mér læðist sá grunur, herra forseti, að einn og einn maður sem á aðild að því að taka afdrifaríkar ákvarðanir um þessi mál hafi kannski aldrei lesið lögin eða viti a.m.k. ekki mjög vel hvað í þeim stendur. (VS: Er hv. þm. að tala um einhvern ákveðinn þingmann?) Ég er bara að tala um þá sem ætla að taka ábyrgð á því að afgreiða þetta vitlausa frv.

Ég ætla að lesa fyrir hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur (VS: Ég er með lögin hérna. Þakka þér kærlega.) ákvæðin sem eru í 6. mgr. 5. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Sé ekki fyrir hendi samfelld veiðireynsla úr viðkomandi stofni skal ráðherra ákveða aflahlutdeild einstakra skipa. Skal hann við þá ákvörðun m.a. taka mið af fyrri veiðum skips. Einnig getur hann tekið mið af stærð skips, gerð þess eða búnaði og öðrum atriðum ...``

Herra forseti. Það er alveg ljóst að andi þessara ákvæða var sá að veiðireynslan skyldi mynda grunninn og jafnvel þó að hún væri ekki fyrir hendi samfelld og þeim ákvæðum teldist ekki fullnægt, sem er umdeilanlegt eins og ég hef áður farið yfir, skal samt líta til veiðireynslunnar enda er það eðlilegur hlutur. Af hverju skyldi hún ekki eftir sem áður, að svo miklu leyti sem hún væri þá eða sé nothæfur grunnur til viðmiðunar, skipta þarna máli? Af hverju ætti hún ekki að gera það? Það er kannski best að orða spurningun þannig. Það er hugsanlegt að það fáist frekar svar við henni þannig. Af hverju ekki? Af hverju er t.d. réttlátara að láta öll skip, stór eða smá, vel útbúin eða illa útbúin, þau sem hafa náð árangri undanfarin ár eða ekki árangri, fá 40% jafnt? Finnst mönnum það eðlileg efnisregla? Á t.d. ekki að taka neitt minnsta tillit til þess að hluti flotans hefur undanfarin ár útbúið sig til þessara veiða, lagt í dýrar fjárfestingar, keypt fokdýr veiðarfæri og fokdýr fiskleitartæki? En samt fá þeir sem ekkert hafa gert af þessu 40% jafnt á móti hinum. Þetta finnst mér afar sérkennilegt, herra forseti, svo ekki sé meira sagt.

Herra forseti. Þetta frv. er eins og ég held að ég hafi nokkrum sinnum áður sagt afar sérkennileg smíð. Það eru margir lausir endar í þessu máli og ég neyðist því miður til að spá því, herra forseti, að rætist það sem meiri hluti sjútvn. leggur til, að frv. verði afgreitt óbreytt, að það eigi eftir að koma á daginn nú þegar á þessari vertíð og jafnvel síðar að þarna voru margir lausir endar. Í fyrsta lagi er þessi úthlutunarregla sjálf, þessi 60% burðargeta og 40% jafnt, afar sérkennileg og kemur sérkennilega út í mörgum tilvikum.

Síðan á samkvæmt frv. að úthluta 90% af því magni sem kemur í hlut Íslands samkvæmt samningunum á grundvelli þessarar reglu. 10% eru tekin frá og í þann pott geta öll skip sem hafa áhuga á því að reyna að spreyta sig á þessum veiðum sótt um að vísu takmarkaðar veiðiheimildir. Látum það gott heita. Það kunna að vera sjónarmið að ágætt sé að hafa þetta opið á þennan hátt þannig að menn geti spreytt sig og það reyni þá á hverjir ná árangri og hverjir ekki. Segja má að ekki sé stórkostleg áhætta tekin út af fyrir sig á meðan ekki er um meira magn að ræða en þessi 10%.

Útkoman úr þessari reglu er afar sérkennileg, herra forseti, eins og ég kom reyndar lítillega inn á í 1. umr. um þetta mál og hefur það held ég orðið mönnum betur ljóst eftir því sem menn hafa farið að athuga hlutina. Það er t.d. svo að litlir bátar og togarar sem sáralitlum og nánast engum árangri hafa náð við þessar veiðar fá samkvæmt þessu reikniverki ríkisstjórnarinnar veiðiheimildir svo nemur gjarnan á bilinu 1.000--2.000 tonn. Þannig fær bátur eins og Krossey sem náði samtals að veiða 207 tonn á árunum 1995--97 --- hún ber 100 tonn. Þetta er nú ekki stórt skip --- 1.662 tonn í veiðiheimildir samkvæmt þessu. Það eru 17 ferðir. Það eru 17 farmar ef rétt er að skipið beri 100 tonn. Þetta skip fær 17 fullfermi á meðan stærstu og afkastamestu skipin fá þrjár ferðir.

Hið nefnda skip Sæljón sem að vísu ber heil 192 tonn --- eða bar. Ég veit ekki hvar það er niður komið --- er samtals með veiðireynslu upp á 472 tonn sem mun að stórum hluta vera þannig til komin að skipið fór út á miðin jafnvel án veiðarfæra og fékk gefins afla. Það á að fá rétt tæp 2.000 tonn. Það er dálagleg búbót.

En við getum tekið á móti skip eins og Börk, eitt afkastamesta og öflugasta skip flotans um langt árabil, sem nú er kominn heim á nýjan leik glæsilega endurbyggður. Hann er með allra aflahæstu skipunum með samtals veiði upp á 20.558 tonn á þessum þremur árum og er með að meðaltali um 7.000 tonna veiði ári, en á samkvæmt þessari formúlu að fá 4.276 tonn. Augljóst er að með þessari aðferð eru flutt frá þessu skipi hátt á þriðja þúsund tonn frá því sem væri ef það fengi að njóta veiðireynslu sinnar á eðlilegan hátt. Og þó það væri nú ekki nema þannig að veiðireynslan væri látin vega t.d. 75% á móti burðargetu þá eru þarna tölur á ferð sem eru einhvers staðar á bilinu 2.000--3.000 tonn.

Við getum tekið skip eins og Súluna EA sem var eitt af fyrstu skipunum ef ekki fyrsta skipið sem landaði síld snemmsumars 1994. Mig minnir að það hafi verið Súlan og Þórður Jónasson, skip frá Norðurlandi, sem fyrst lönduðu síld. Þetta skip hefur síðan stundað þessar veiðar af miklum krafti öll árin síðan, er með heildarveiði upp á yfir 15.000 tonn og ætti að fá miðað við það að veiðireynslan væri látin vega t.d. 3/4 á móti burðargetu eða að jöfnu, hátt í 5.000 tonn, en fær 3.500 samkvæmt reikniverkinu. Þarna er verið að taka af þessu eina skipi sem er gert út af einyrkjaútgerð, kannski tæp 1.500 tonn af síld. Og hvað er það? Miðað við gott verð eru það 15 millj. kr. Það munar um minna þegar menn sletta svona reikniverki á blað eins og hér er gert.

[16:30]

Líður mönnum betur með það fremur en að leyfa reynslunni ósköp einfaldlega að hafa sinn gang? Ég held það sé augljóst að allir eru miklu sáttari við það. Menn beygja sig undir það. Þeir eru tilbúnir til að skella sér í þá samkeppni og reyna að standa sig. Ég held að mönnum þyki ákaflega sárt að búin sé til einhver reikniformúla sem skerði möguleika þeirra umfram það sem var í samkeppni við aðra að breyttu breytanda á undangengnum árum um tölur af þessari stærð.

Þeir eru náttúrlega hressir með sig togararnir sem voru að veiða þetta frá 16 og upp í 21 tonn á þremur árum, að fá svo úthlutað 1.300--1.400 tonnum af síld. Það þarf að ganga dálítið mikið betur hjá þeim, verð ég að segja, til að þeir rífi það upp. Þannig mætti áfram telja, herra forseti.

Ég er þeirrar skoðunar að menn hefðu sennilega unað þessu sæmilega þótt úthlutunin yrði af þessu tagi, búið til eitthvert tímabil, ef það hefði þá verið gert á grundvelli reiknireglu sem hefði tekið það mikið tillit til veiðireynslunnar undanfarin ár, þótt um tímabundna úthlutun væri að ræða og á engan hátt varanlega, að það hefði ekki fært til miklar stærðir. Ég held það hefði verið miklu betri nálgun gagnvart öllum sanngirnissjónarmiðum að láta veiðireynslu vega a.m.k. tvo þriðju eða þrjá fjórðu og restina jafnvel á móti burðargetunni, frekar en að allir fengju jafnt. Ég held að sú formúla væri mun nær veruleikanum og skapaði minni vandamál í framkvæmdinni en þessi ósköp.

Svo kemur það til, herra forseti, að í framhaldi af slíkri úthlutun til skipa og báta, þar með talið alls konar koppa sem litlum eða engum árangri hafa náð við veiðarnar, eru á hinn bóginn settir inn í frv. mjög takmarkaðir framsalsmöguleikar. Fyrir því geta verið góð og gild rök og ekki ætla ég að fara að mæla því bót að í viðbót við allt hitt mættu menn svo selja þetta í stórum stíl.

Það að svona takmarkaðir framsalsmöguleikar skuli settir inn í frv. er auðvitað ávísun á það að stór hluti af þessum veiðiheimildum fellur ónýttur. Hann mun ekki nýtast þeim sem fá þær, það er eiginlega algjörlega borðleggjandi. Menn gætu farið yfir það, ef þeir þekktu sæmilega til, t.d. hvar sumir þessir dallar eru nú staddir. Þeir munu ekki veiða þetta. Það er alveg augljóst mál, a.m.k. ekki nema að mjög litlu leyti. Hvað þýðir það? Jú, það þýðir að menn eru að búa til aðstæður.

Fyrir fram eru skapaðar þær aðstæður að þegar líður á vertíðina verða fleiri þús. tonna, sennilega á bilinu 10--20 þús. tonn og jafnvel meira, ekki nýtt. Þá munu menn náttúrlega segja: Það er nú ekki gott að þetta skuli falla dautt og ónotað. Þá er gripið til þess ráðs að setja í frv., í b-lið 2. gr., ákvæði um að sjútvrh. geti endurúthlutað. Eftir tiltekinn tíma mun það nauðsynlegt til að fullnýta leyfðan heildarafla íslenskra skipa. Það mun síðan gert.

En þá spyr ég á móti: Á grundvelli hvaða reglna á það að gerast? Frv. er t.d. þannig úr garði gert að það felur engar skilgreiningar í sér um það, hvað varðar dagsetningar eða annað, fyrir hvaða tíma og að hve miklu leyti menn þyrftu hlutfallslega vera búnir að nýta sínar veiðiheimildir. Engar. Í frv. er enga leiðsögn um það að finna og virðist sem sjútvrh. eigi bara að ákveða sjálfur hvað skynsamlegt sé að gera. Skyldi það ekki geta verið þannig að það þætti nokkuð hæpin lagastoð? Hvernig verður þetta að gerast? Jú, við skulum hugsa okkur að skip sem hafi fengið 2 þús. tonna úthlutun en það hefur ekki náð að veiða nema 200 tonn. Það er langt liðið á vertíðina og allt stefnir í að kannski 1.500--1.800 tonn verði ónýtt en útgerðarmaðurinn segir: Ja, ég ætla að veiða þetta seinna á vertíðinni. Ég ákvað að geyma mér þetta til að taka til manneldis o.s.frv. Það er ekki víst að ráðuneytið hafi mjög sterka stöðu til að segja: Nei, góði, úr því þú ert ekki búinn að nýta þetta nú þegar okkur dettur ýmislegt í hug. Einn góðan veðurdag þegar við gáðum til veðurs var fallegur og bjartur dagur og við ákváðum að skynsamlegt væri að þeir sem hefðu ekki notað svo og svo mikið af kvóta sínum, mundu bara missa þetta tækifæri. Það er ekki endilega víst að menn hafi mjög sterka stöðu til þess að gera þetta með reglugerð ef ekki er að finna í frv. nokkra einustu leiðsögn um hvernig það skuli gert.

Auðvitað er þetta frv. meira og minna eitt samfellt framsal á valdi til ráðherrans svo hann geti gert það sem honum sýnist í þessu, setja reglur um þetta og hitt, úthluta og endurúthluta og sjálfsagt endurendurúthluta. Ég tel að áður en þessi síldarvertíð verður öll, þá verði a.m.k. búið að gefa út einar fimm reglugerðir og endurúthluta svona tvisvar til þrisvar sinnum til að lappa upp á þessi ósköp. Það verður þannig. Þeir munu ekki gera mikið annað, vinir mínir í sjútvrn. og á Fiskistofu núna í maí og júní, en að liggja yfir þessu. Það er auðvitað allt í góðu með það ef menn vantar eitthvað að gera og vilja skapa sér vinnu með þessum aðferðum.

Eitt enn, herra forseti, hangir þarna algerlega í lausu lofti og það er nú dálítið fyndið að meiri hluti setji það inn í sitt nál. og viðurkenni að að því leyti sé frv. mjög áfátt. Það verður með engu móti ráðið af frv. eða greinargerð þess hvað átt er við með hugtakinu ,,burðargeta``. Þar geta komið til greina tvær, þrjár eða jafnvel fleiri mismunandi mælieiningar. Það skiptir heilmiklu máli. Það getur breytt reiknaðri burðargetu skipanna frá raunverulegri burðargetu svo verulega muni í vissum tilvikum, allt eftir því hvort þar er átt við lestarrúmmál eða burðargetu miðað við fríborð, burðargetu skipanna miðað við stærstu löndun o.s.frv.

Einn alvarlegasti ljóðurinn á þessu máli, herra forseti, er að mínu mati að verði þetta niðurstaðan þá er enginn vafi á því að það mun verka mjög letjandi á íslenska útgerðarmenn að sækja í stofna við sambærilegar aðstæður og við eiga um norsk-íslensku síldina. Auðvitað er alveg ljóst að eitt af því sem hefur drifið menn áfram í sókninni á Reykjaneshryggnum, á Flæmska hattinum og upp í Smugu í Barentshafi og auðvitað í þessu tilviki hvað varðar norsk-íslensku síldina, var sú trú manna að þeir væru að ávinna sér veiðireynslu. Þeir voru auðvitað að gera meira í leiðinni. Þeir voru líka að ávinna Íslandi veiðireynslu. Það er fyrst og fremst vegna veiðanna árin 1994 og 1995 sem Íslendingar náðu samningum um hlutdeild í þessum stofni.

Ég ætla að taka annað gott dæmi sem nú á við. Það er um kolmunnann sem Íslendingar eru nú loksins farnir að veiða á nýjan leik og þótt fyrr hefði verið og meira. Það er enginn vafi, herra forseti, á mikilvægi þess að Íslendingar öðlist sem fyrst sem allra mesta veiðireynslu í kolmunna. Af hverju? Það er af því að það er nú þegar komið á dagskrá og til umræðna innan Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, NEARC, að taka upp fiskveiðistjórnun á kolmunna. Hvað eru Norðmenn að gera þessi árin? Norðmenn eru að stórauka veiðar sínar á kolmunna, veiða hann eins og þeir lifandi geta. --- Herra forseti, hvar er hæstv. sjútvrh.? Á ég að gera hlé á máli mínu þangað til ráðherra getur verið viðstaddur?

(Forseti (StB): Forseti skal gera ráðstafanir til að hæstv. ráðherra komi í salinn.)

(Gripið fram í: Hann er að ... framsóknarmanninn.) Mér finnst það nú ekki ofverkið ef hæstv. ráðherra ætla að troða þessu frv. hér í gegn, að þeir hafi þolinmæði til að taka þátt í umræðum um málið og vera til staðar.

Ekki vorkenni ég þeim það mikið, hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh., að sjá af einni dagstund til að koma þessu hugarfóstri sínu hér áleiðis gegnum þingið, þessu gæluverkefni, sem þetta nú er. Ég hef nefnilega áhuga á að ræða þetta mál við þá báða, hæstv. ráðherrana, spurninguna um samhengi þessa máls, t.d. við þá stöðu sem nú er uppi varðandi kolmunnann.

Er hæstv. utanrrh. farinn úr húsi, herra forseti?

(Forseti (StB): Forseti getur upplýst að hæstv. utanrrh. er, samkvæmt töflu, í húsinu.)

Já. Það er mjög ánægjulegt. Gott fyrir húsið.

Herra forseti. Mig langaði að ræða við hæstv. ráðherrana um það að verði þetta niðurstaðan með stjórnun á nýtingu síldarinnar, þá þarf ekki flókna stærðfræði til að láta sér detta í hug að það gæti haft fordæmisgildi gagnvart öðru. Útgerðarmenn mundu þá spyrja sig: Jahá, verður þetta þá svona í öðrum sambærilegum tilvikum á komandi árum? Ég fullyrði: Það er afar heimskulegt að fara út í aðgerð af þessu tagi ef menn vilja viðhalda hvatningu til þess að Íslendingar afli sér veiðireynslu í nýjum stofnum sem auðvitað er mikil þörf á að gera. Það er sem betur fer svo, þrátt fyrir allan heimóttarskapinn í þessum efnum, að það eru enn til möguleikar til að auka við þann grundvöll íslenskrar útgerðar og íslensks sjávarútvegs og þar nefni ég alveg sérstaklega kolmunnann.

Það er auðvitað mjög slæmt, herra forseti, ef við ætlum að láta Norðmönnum einum eftir að stórauka, hvert árið á fætur öðru, veiðar sínar á kolmunna og undirbúa þannig stöðu sína þegar kemur að uppskiptingu á stofninum sem nú þegar er komið á dagskrá innan Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar.

Færeyingar átta sig t.d. alveg á því sem þarna er að gerast. Þeir stugguðu við Norðmönnum um daginn og fóru fram á að Norðmenn hættu kolmunnaveiðum innan færeysku lögsögunnar, enda væru þeir búnir að moka nóg upp. Því miður er það svo að við Íslendingar erum þarna með alveg hverfandi hlutdeild. Auðvitað mundum við, þegar til uppskiptingarinnar kæmi, fá eitthvað út á okkar strandríkjarétt því kolmunninn er hér sannanlega hluta úr árinu, kemur inn í íslensku lögsöguna, a.m.k. velflest ár. Menn vita hins vegar alveg fordæmin fyrir því að það gildir að hafa líka veiðireynslu.

Hver var niðurstaðan af Reykjaneshryggnum? Varð hún ekki sú að veiðireynslan vigtaði þar ein 60% og strandríkin fengu kannski í sinn hlut 30--40% út á sinn rétt? Þau skiptu því síðan upp á milli sín, aðallega Ísland og Grænland. Ég held að hæstv. ráðherrar verði að svara því skýrt. Er um stefnubreytingu að ræða frá því sem verið hefur að undanförnu, frá því sem fordæmin fela í sér, af Flæmska hatti og Reykjaneshrygg, og frá ákvæðum gildandi laga? Það er ekki bara að reiknað sé með því að veiðireynslan sé grundvöllur uppskipta á réttindunum síðar meir, heldur er þar líka inni sérstök regla til að verðlauna frumherjana, sérstakur bónus. Af hverju var hann settur inn? Það var ekki út í loftið. Það var vegna þess að menn höfðu sem betur fer vitkast það, þegar verið var að ganga frá úthafsveiðilögum ársins 1996, að talið var skynsamlegt og í þágu þjóðarhagsmuna að hafa kerfið þannig að það ýtti undir þessa sókn. Það átti að hvetja til þess að íslenskar útgerðir reyndu fyrir sér á nýjum sviðum, færu í ónýtta möguleika. Í leiðinni öðlaðist Ísland veiðireynslu og hafði sterkari samningsstöðu. Auðvitað er þetta svona enn.

Það er enginn vafi á því að við eigum að halda áfram að styrkja stöðu okkar, a.m.k. á þeim sviðum sem enn eru opin, í tegundum eins og kolmunna, túnfiski og auðvitað fleiri tegundir. Ætli það muni ekki dálítið um það í verðmætum inn í þjóðarbúið á hverju einasta ári, að hlutdeild Íslands í karfanum á Reykjaneshrygg er svo nemur líklega 15--20, ef ekki 20--30, þús. tonnum meira en hefði orðið ef við hefðum aðeins fengið úthlutað út á strandríkjaréttinn og hefðum ekki verið orðnir þátttakendur í veiðunum í jafnmiklum mæli og raun bar vitni?

[16:45]

Auðvitað ætti að gera allt sem hægt er til þess að ýta undir það að veiðireynslan væri gulrót í þessu sambandi og að beita frumherjahvatningunni eins og var gert í takmörkuðum mæli að vísu á Reykjaneshryggnum ef ég man rétt. Þannig væri sem sagt ekki horfið frá þeirri stefnu sem mörkuð var með setningu úthafsveiðilaganna á sínum tíma.

Ég held reyndar að hvort heldur varanleg úthlutun eða tímabundin og takmörkuð eins og frv. gerir ráð fyrir, þar sem veiðireynslan mundi vega mjög þungt, væri akkúrat réttu skilaboðin í þessum efnum. Út af fyrir sig má segja --- og að því leyti til gæti úthlutun verið góð núna --- að þá hefðu menn e.t.v. svigrúm til þess að stýra því hvenær þeir tækju þann kvóta og hvenær þeir væru við veiðar á kolmunnanum. Það eru kostirnir við það að byggja á úthlutun en ekki á frjálsum veiðum, vissulega, því að frjálsu veiðarnar kalla á kapphlaupið og þá rykju náttúrlega allir til eins og gefur að skilja. En ekki verður bæði sleppt og haldið og menn verða að reyna að velja sér hér þá leið sem sameinar best okkar heildarhagsmuni.

Ég fullyrði, herra forseti, að þessi regla, þessi aðferðafræði frv., er ósanngjörn í fyrsta lagi, hún er stórskaðleg út frá íslenskum þjóðarhagsmunum og hún verkar letjandi en ekki hvetjandi öfugt við það sem ætti að vera. Hún verkar letjandi en ekki hvetjandi til þess að við keyrum okkur inn í nýtingu á öllum þeim stofnum sem eru í veiðanlegu færi við okkur einhvers staðar í nágrenni við landið.

Ég held, herra forseti, að ég hafi rökstutt það nægjanlega og geti ekki gert það mikið betur, hversu brúttóúthlutun af þessu tagi sé fráleit, nánast í hvaða tilliti sem er, hvort heldur litið er til reynslunnar, til almennra sanngirnissjónarmiða eða þjóðarhagsmuna í þessu efni, svo ekki sé talað um það hvernig þetta birtist einstökum aðilum, einstökum þolendum í þessum efnum.

Ég veit ekki hvort allir hv. alþingismenn átta sig t.d. á því að ný og djúp síldarnót kostar um 30 millj. kr. Og fiskleitartæki, vandaðri tæki sem nótaskipin þurfa að hafa og eru yfirleitt ekki í öðrum gerðum fiskiskipa kosta a.m.k. 12--15 millj. kr. Þannig að kostnaður við aðeins þetta tvennt sem má heita algjörlega sérhæfður útbúnaður til þessara veiða, þ.e. veiðarfærið sjálft og mikilvægasta fiskleitartækið, hleypur kannski á bilinu 30--50 milljónir. Þetta er aljörlega sérhæfður búnaður fyrir þessar veiðar þó að auðvitað nýtist ,,asdicið`` að vísu til annarra nótaveiða.

Ýmsir útgerðarmenn hafa einmitt lagt í þennan kostnað undanfarin ár til að vera betur í stakk búnir til að stunda þessar veiðar og þeir hljóta að spyrja sig að því hvort að það sé eðlileg framkoma í þeirra garð að fara síðan út í úthlutun veiðiheimildanna á þeim grunni sem hér er lagður til.

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um þá röksemdafærslu sem kom fram alveg sérstaklega á árinu 1996, að úthlutun af þessu tagi auki sérstaklega líkurnar á því að við náum meiru af síldinni til manneldis. Þá spyr ég á móti: Hver er reynslan? Hver var reynslan af úthlutuninni 1996? Menn komu heim frá London og Ósló og sögðu alveg sérstaklega að nauðsynlegt væri að úthluta svona til þess að hægt væri að hafa stjórn á veiðunum, að þetta yrði ekki kapphlaup, menn gætu jafnvel geymt kvótann þangað til að síldin væri komin í vinnsluhæft ástand og svo mundu menn ná þessu meira og minna til manneldis.

Hver hefur niðurstaðan orðið? Niðurstaðan er sú að í öll þessi ár hefur nánast ekkert af þessari síld farið beint til manneldis, í flökun, frystingu eða söltun. Af hverju ekki? Það er fyrst og fremst vegna þess, herra forseti, að síldin er ekki í vinnsluhæfu ástandi. Hún er yfirleitt ekki í vinnsluhæfu ástandi. Hún er mjög mögur eins og menn vita núna. Hún er að fita sig og er þá yfirleitt í átu þannig að jafnvel æfingar af því tagi að reyna að láta hana losa sig við átuna í nótinni hafa skilað mjög takmörkuðum árangri. Það hefur í litlum mæli verið mögulegt að flaka síld úr einstökum förmum, en t.d. til heilfrystingar eða söltunar er hún yfirleitt ekki nothæf vegna þess að átan er of mikil.

Fræðilega og á pappírunum hægt að hugsa sér að þetta sé svona, að meiri líkur séu á því að eitthvað af síldinni náist í manneldi ef um úthlutun er að ræða og menn geta gengið að sínum kvóta vísum. En reynslan sýnir bara hið gagnstæða. Útgerðarmenn vita vel að ef þeir taka þá ákvörðun að geyma sér veiðiheimildirnar þá taka þeir um leið mjög mikla áhættu, mjög mikla áhættu varðandi það að þeir nái hreinlega ekki sínum hlut. Síldin er dyntótt skepna og reynslan hefur sýnt á undanförnum árum að ekki er á vísan að róa með að geyma sér að veiða hana. Ætli niðurstaðan verði ekki sú í flestum tilvikum að um leið og einhver kraftur kemur í veiðarnar þá fara menn til veiða og klára sinn kvóta. líka vegna þess að ákveðin hagkvæmnisrök fylgja því að hanga ekki yfir þessu lon og don. Menn geta ekki látið fokdýr veiðiskip liggja í aðgerðarleysi og bíða eftir því vikum saman, þess vegna kannski í heilan mánuð, að ástandið á einum til tveimur förmum sem þeir mega á pappírunum sækja af síld batni eitthvað. Að lokum kemur að því að menn hafa takmarkaðan tíma til þessara veiða vegna þess að upphaf sumarveiða á loðnu er yfirleitt í kringum mánaðamótin júní/júlí og jafnvel hefur verið rætt um að flýta því vegna þess að undanfarin ár hefur besta loðnan veiðst í upphafi sumarvertíðarinnar. Ýmis rök eru fyrir því, herra forseti, að réttast væri að leyfa þeim veiðum að hefjast jafnvel heldur fyrr en verið hefur, t.d. 15.--20. júní í staðinn fyrir 1. júlí.

Ég held, herra forseti, að ef menn vilja gera eitthvað til að reyna að auka möguleikana á manneldisvinnslu á þessum hluta úr síldveiðunum þá verði að horfa til allt annarra hluta. Það eru allt aðrir hlutir en þessi della. Þá skulum við samþykkja að vinnsluskip megi fara á miðin og kaupa síld yfir borðstokk. Það er vit í því. Þá koma frystitogararnir inn í myndina af einhverju viti. Þá geta þeir farið á miðin og keypt sér dagskammt og reynt að velja síld úr þeim köstum eða förmum sem eru í besta ástandinu, flokkast best. Þeir gætu keypt sinn dagsskammt til vinnslunnar, 20--50 tonn eða hvað það nú væri og losnað svo við hratið, jafnvel um borð í skip sem er á leiðinni í land. Það væri vit í slíku. Enda er þetta gert svona þar í heiminum sem umtalsverð manneldisvinnsla er stunduð. Rússar taka langstærstan hlut af sinni síld sem þeir vinna til manneldis með þessum hætti. Þeir eru með stór verksmiðjuskip sem fylgja veiðiflotanum vegna þess að veiðiskipin eru góð til að veiða og vinnsluskipin eru góð til að vinna, en ekki öfugt. Þetta frv. gengur út á að þetta sé öfugt og hugsunin hér er sú að togarar og alls konar þvottabalar eigi í verulegum mæli að sjá um veiðarnar og en ekki hið gagnstæða.

Eru menn tilbúnir til þess að fara í breytingar af þessu tagi? Mér er ekki kunnugt um annað, herra forseti, en að það standi enn að sjútvrn. hyggist banna það að menn miðli afla á milli sín á miðunum, nema þá bara rétt til að bjarga afgangi úr köstum í önnur skip. (Gripið fram í: Eru þvottabalar með veiðileyfi?) Það er hugsanlega hægt að fá á þá haffærniskírteini og kaupa á þá úreldingu og þá eru þeir komnir inn í myndina hvað þetta snertir, eins og hefur verið farið yfir áður í þessari umræðu. Baðkör gætu verið ágæt og fleiri svona ílát. (Gripið fram í: Með krana þá?)

Herra forseti. Ég held því miður því fram að þetta séu meira og minna málamyndarök. Reynslan hefur orðið sú. Þessar vorveiðar á norsk-íslensku síldinni í maí og byrjun júní eru ekki líklegar til þess að skila mjög miklu til manneldis fyrr en þá að við höfum náð að gera miklu betri samninga við nágrannaþjóðirnar sem þýða að við getum fylgt síldinni eftir inn í hvaða lögsögu sem gengur og jafnvel inn í norsku lögsöguna þegar líður að haustinu og séum mikið tryggari með að ná okkar hlut en við erum á grundvelli óbreyttra samninga sem fela í sér heimild til þess að taka skitin 8.000 tonn í norsku lögsögunni, sem er auðvitað engin gagnkvæmni í þessum málum á nokkurn hátt, á sama tíma og þeir eru að veiða stóran hluta af sínum loðnukvóta í íslensku lögsögunni.

Auðvitað er það æskilegt markmið, herra forseti, að sem allra hæst hlutfall af þessum stofni og öðrum stórum stofnum uppsjávarfiska nýtist til manneldisvinnslu eftir því sem aðstæður leyfa. Og þá kemur að hinu: Hvað skyldi til lengri tíma litið vera líklegast og vænlegast til árangurs í þeim efnum? Hvað halda menn að það sé annað en að tryggja fyrirtækjunum stöðugleika og öryggi gagnvart þessum veiðiheimildum langt fram í tímann? Því hvernig eiga menn að fjárfesta í vinnslu og útbúa sig af einhverju viti nema með því að þeir hafi tryggan aðgang að hráefni um eitthvert árabil?

Staðreyndin er nefnilega sú að hringlið í þessu er verst og það er ömurlegt að staðfestan uppmáluð, hæstv. utanrrh. sem hefur allt frá hvalamálinu forðum tíð gert mikið út á það að hann sé ígildi stöðugleikans og staðfestunnar holdi klæddur ... (Utanrrh.: Ekki studdirðu mig í því.) Í hvalamálinu? (Utanrrh.: Nei.) Ég held það nú. Ég man nú ekki betur. (Utanrrh.: Manstu ekki ...) Ég var ekki í hópi andstæðinga hæstv. ráðherra, a.m.k. ekki þegar hér var ákveðið að mótmæla ekki hvalveiðibanninu því ég var ekki kominn á þing. Ég hef meira að segja fengið í mig fúlegg vegna mótmæla við hvalveiðum þannig að ég get alveg haldið því fram að ég hafi fært mínar fórnir eins og hver annar í þeim efnum. (VE: Greipstu það ekki á lofti?) Nei. Það gerði engan skaða. En það var á þeim tíma þegar enn stóðu yfir mótmæli vegna okkar veiða.

En að hæstv. utanrrh. skuli gerast sérstakur hvatamaður þess að hringl og rugl af þessu tagi er hér í gangi sem gerir það að verkum að menn hafa ekki forsendur til að byggja skynsamlegar ákvarðanir og fjárfestingar á til lengri tíma um nýtingu af þessu tagi. Það vita allir sem eitthvað hafa komið nálægt atvinnurekstri að ein mikilvægasta forsendan til þess að eitthvert vit sé í þeim hlutum er sæmilega stöðugt umhverfi. Og sjávarútvegur og fiskvinnsla eru ekkert öðruvísi en annað í þeim efnum. Hráefnið í þessa vinnslu er eins og hráefnið í hverja aðra vinnslu. Auðvitað er ekki hægt að byggja atvinnurekstur öðruvísi upp en að sæmilegur stöðugleiki sé í þeim efnum.

Því hefur mikið verið haldið á lofti að algjört lausnarorð í þessum efnum hvað varðar fiskveiðistjórnina væri að bjóða upp veiðiheimildirnar. Það hefur jafnvel verið rætt í tengslum við þennan fiskstofn. En ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig starfsumhverfi fiskvinnslunnar yrði, fiskvinnslufyrirtækjanna í landi eða þeirra blönduðu fyrirtækja sem byggja afkomu sína jöfnum höndum á því að vinna en ekki bara veiða, ef það ríkti með reglubundnu millibili, kannski á hverju ári, kannski á tveggja, þriggja ára fresti, fullkomin óvissa um það hvaða fyrirtæki fengju hráefni til vinnslu á komandi árum eða vertíðum.

Væri gáfuleg fjárfesting að kaupa sér flökunarvélar ef þetta ætti nú t.d. við um síldina, setja upp kæla, setja kælibúnað í skipin eða setja upp kælitanka fyrir hráefnið í landi? Það verður ekki til verðmæt manneldisvara úr síld bara sisona, bara með einhverjum töfrakúnstum. Nei. Það þarf að fjárfesta. Það þarf að koma upp aðstöðu. Það þarf að kaupa dýran tækjabúnað. Það þarf að tryggja gæðameðferð á hráefni, o.s.frv.

[17:00]

Og einasta leiðin til að eitthvert vit geti verið í þróun af því tagi er sú að stöðugleiki ríki gagnvart því að menn hafi aðgang að hráefninu. Það er ekkert annað skipulag til, held ég, en það að fyrirtækin hafi einhverja trygga framtíð í þessum efnum. Hugsum okkur t.d. álbræðsluna í Straumsvík eða grjótbræðsluna á Grundartanga, ef þau fyrirtæki stæðu einn daginn uppi hráefnislaus. Eða hugsum okkur rafmagnið. Segjum sem svo að raforka væri á uppboði á tveggja ára fresti. Hvernig haldið þið að væri að reka svoleiðis fabrikku ef þeir yrðu allt í einu undir í kapphlaupinu um rafmagnið, byðu of lágt og svo yrði bara slökkt á ofnunum hjá þeim? Það mundi ekki ganga mjög vel. Ég hef ekki heyrt að menn væru gírugir í að setja peninga í iðnaðaruppbyggingu af því tagi, ef þeir gætu t.d. ekki gert langtímasamninga um kaup á raforku. Það dettur engum manni í hug að byggð verði álbræðsla nema 20, 30, 40 ára samningar liggi fyrir um rafmagnið og helst nokkurn veginn sambærilegur stöðugleiki hvað varðar hráefnið. Auðvitað er þetta alveg eins með sjávarútveginn og fiskvinnsluna í raun og veru. (Gripið fram í: Ekki hráefnið.) Heldurðu að þú þurfir ekki hráefni til fiskvinnslu? (Gripið fram í: ... stöðugra.) Nei, en það er hægt að gera það stöðugra að þessu leytinu til að menn hafi þó a.m.k. réttinn til að reyna að ná í það, því þetta snýst um hann. Og ætli það sé nú ekki nóg að glíma við óvissuna sem fólgin er í breytingum í lífríkinu sjálfu og duttlungunum í skepnunum og sveiflunum á mörkuðunum þó að við bætum ekki við þeirri óvissu að menn viti ekkert hvar þeir standa gagnvart leikreglunum nema bara dag í senn. En það hefur tekist að gera hér með þessa norsk-íslensku síld. Fimmta árið í röð eru veiðar að hefjast á grundvelli nýs kerfis. Ég er alls ekki viss um að þó að þessi ósköp, sem hér er verið að ræða, eigi að standa í þrjú ár, þá verði menn svo heillum horfnir að þeir sjái ekki að þetta er vitlaust og ósanngjarnt og breyti því strax á næsta ári. Það skyldi þó ekki vera að kokkað yrði upp nýtt frv. næsta vetur. Við skulum a.m.k. sjá til hver reynslan verður ef svo tekst til að þetta verði að veruleika, herra forseti, sem ég hef í lengstu lög vonað að yrði ekki.

Herra forseti. Verði um tímabundna aðgerð að ræða af því tagi sem 2. gr. frv. gengur út á hvort sem það tekur nú til þriggja ára eða tveggja eða hvað það nú væri, þá er að mínu mati algerlega borðleggjandi að mönnum ber skylda til að reyna að ná samkomulagi um eitthvað skárri leikreglur en þarna er verið að lögfesta því ég þekki eiginlega bara ekki nokkurn einasta mann sem er ekki óánægður með þetta. Ég hef engan útgerðarmann heyrt mæla þessu bót, ég hef engan fiskvinnslumann heyrt mæla þessu bót, engan sjómann og engan yfirleitt. Ég þekki bara einn mann á Íslandi sem mér er sagt að sé ánægður með þetta og það er hæstv. utanrrh. því auðvitað hefur maður heyrt að holur hljómur er í máli hæstv. sjútvrh. þegar hann talar þvert gegn eigin stefnu í þessum efnum, (Gripið fram í.) skýtur í kaf nýlega setta löggjöf um úthafsveiðar sem hæstv. ráðherra hrósaði sér af hér á dögunum. Ég er alveg sannfærður um að hægt væri að ná mun skárra andrúmslofti í kringum þetta mál ef reiknireglunni væri breytt. Gjarnan mætti stytta tímann niður í tvö ár enda væri alveg nóg að ákveða þetta til tveggja ára í bili og taka veiðireynsluna inn sem tvo þriðju eða þrjá fjórðu á móti annaðhvort burðargetu eða jafnt rest. Til dæmis komu tillögur frá Farmanna- og fiskimannasambandinu sem eru birtar í fylgiskjölum með frv. um slíka útfærslu. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, herra forseti, að fylgiskjölum var dreift á borð þingmanna sem ekki fylgja nál. Af sparnaðarástæðum var þetta gert svona, en þau eru sem sagt hér og þar er að finna ýmis dæmi, ýmsa útreikninga á því hvernig mismunandi úthlutunarreglur kæmu út í þessu sambandi.

Ég segi nú bara, menn vilja skapa sér ófrið og djöfulgang í kringum hlutina ef þeir hanga eins og hundar á roði í reglum af þessu tagi þegar borðleggjandi er að ná mætti miklu skárri sátt um málið með tiltölulega einföldum breytingum á reiknireglunum.

Herra forseti. Þá ætla ég aðeins að fara yfir brtt. á þskj. 1336. Þær ganga út á það eins og áður sagði að það er sameiginleg niðurstaða okkar í minni hlutanum að miklu frekar en ganga frá málinu með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir væri að ákveða að hafa veiðarnar frjálsar í t.d. tvö ár á þessari og næstu vertíð, að ganga frá því með óyggjandi hætti að fyrir því væri traust lagastoð og 1. gr. frv. orðaðist svo:

,,Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, skulu eftirfarandi ákvæði gilda um veiðar íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum árin 1998 og 1999:``

Þetta mundi þýða að í staðinn fyrir varanlega breytingu hvað varðar norsk-íslensku síldina þá yrði þessi breyting tímabundin og tæki aðeins til þessara tveggja ára.

,,a. Að fengnu leyfi Fiskistofu eru veiðar frjálsar öllum skipum sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelgi Íslands.

b. Til að tryggja að heildarafli íslenskra fiskiskipa verði innan umsaminna marka er sjávarútvegsráðherra heimilt að stöðva veiðar þegar eftir er af heildarveiðiheimildum sem nemur einu fullfermi allra skipa sem hafið hafa veiðar. Skal þá þeim veiðiheimildum úthlutað á skipin í samræmi við burðargetu miðað við stærsta landaðan farm. Heimilt er skipunum að sækja það magn í fleiri en einni veiðiferð ef þörf krefur.

c. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um upphafsdag og aðra tilhögun veiðanna, þar með talið nauðsynlegar reglur um tilhögun veiða íslenskra skipa í lögsögu annarra ríkja.

2. gr. falli brott.

3. gr. falli brott.``

Flóknara þarf þetta ekki að vera. Einfaldar og skýrar reglur: Veiðar eru frjálsar öllum skipum með veiðileyfi í lögsögunni og fyrir liggja skýrar reglur um hvernig vertíðinni er lokið þegar eftir er sem nemur einum farmi hjá öllum þeim skipum sem þá þegar eru komin til veiða.

Ég held, herra forseti, að með þessum hætti væri gengið þannig frá málinu að menn gætu mjög vel við unað. Þá væru menn einnig að þessu leytinu til betur staddir gagnvart þeirri staðreynd sem nú blasir við að hæstv. ríkisstjórn kom þessu frv. ekki frá sér fyrr en svo seint að það var í raun og veru borin von að það næði hér afgreiðslu miðað við ástand mála, fyrr en eftir að síldveiðin væri hafin, enda varð það niðurstaða ráðuneytisins að heimila skipunum að fara til veiða frá og með 5. maí sl. Vertíðin er því þegar hafin og stendur yfir á þeim dögum sem við erum að ræða þetta frv. Ástæðan er ósköp einfaldlega sú að frv. var með allra síðustu málum sem komu frá hæstv. ríkisstjórn, enda hefur það málsnúmerið 642 samkvæmt því stimplaða skjali sem ég hef í höndunum. Ég vil láta þetta koma fram, herra forseti, líka vegna þess að í fjölmiðlum hafa ýmsir, þar á meðal formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna gagnrýnt Alþingi fyrir að hafa ekki lokið því að setja reglur um síldveiðarnar áður en vertíðin hófst. Þar er ekki, herra forseti, við Alþingi að sakast eins og ég veit að hæstv. forseta er ljóst. Þar er fyrst og fremst við það sleifarlag hæstv. ríkisstjórnar að sakast að hafa ekki komið frv. miklu fyrr fram, úr því ríkisstjórnin ákvað að fara út í breytingar á annað borð. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ríkisstjórn Íslands hafi verið ljóst að veiðarnar hafa yfirleitt hafist í byrjun maímánaðar ár hvert og ég geri ráð fyrir að til sé dagatal í Stjórnarráðinu þannig að ég tel að hæstv. ríkisstjórn hafi sér ekkert til afsökunar í því að hafa ekki komið þessu máli fyrr fram. Þá hefði líka gefist meiri tími til að ræða þessa hluti og hugsanlega hefði það leitt til þess að menn hefðu náð saman um farsælli niðurstöðu en þá sem nú er í sjónmáli.

Ég vísa síðan, herra forseti, í þau fylgiskjöl sem ég vakti athygli á áðan að dreift hefur verið á borð þingmanna. Í þeim eru bæði dæmi um mismunandi reiknireglur sem mætti hugsa sér að nota við úthlutun ef farið er út í úthlutun á annað borð. Einnig fylgja allar umsagnir sem eru eins og áður sagði langflestar mjög neikvæðar í garð frv. og jafnvel greinargerðir frá einstökum útgerðaraðilum sem sjútvn. bárust. Ég hvet þá hv. þm. sem vilja kynna sér þetta mál til hlítar að nota sér einnig þessi fylgiskjöl.

Ég vil aðeins segja fáein orð, herra forseti, um nál. meiri hlutans, og sýni því auðvitað fullan sóma. Það er reyndar nokkuð athyglisvert að nál. gengur að miklu leyti út á það að rekja alla þá lausu enda sem í málinu eru og lausnarorðið er í hverju einasta tilviki það, samkvæmt nál. meiri hlutans að sjútvrh. eigi að setja reglur. Þetta séu rammaákvæði sem lögin feli í sér og sjútvrh. eigi að setja nánari ákvæði um framkvæmdina með reglugerðum. Það á við um úthlutanir, endurúthlutanir, það á við um 90% úthlutunina og það á ekki síst við um 10% úthlutunina sem í raun og veru er engin leiðsögn um hvernig fara skuli með samkvæmt frv. og ráðherra setur reglur og aftur reglur. Nú er það auðvitað góðra gjalda vert að meiri hluti sjútvn. lýsi þeirri skoðun sinni að sjútvrh. eigi að setja reglur um þetta og hitt en það hefur ekki talist góð latína að hafa það framsal allt of rúmt. Ég bendi t.d. á að það er mjög vandasamur hlutur við hvað eigi að miða og hvenær ákvörðun er tekin um að endurúthluta veiðiheimildum sem þegar hefur verið úthlutað á skip. Það er vandasöm og býsna afdrifarík ákvörðun og ég held það sé mjög misráðið að hafa ekki leiðsögn í frv. af einhverju tagi um það hvernig það skuli gert. Það mundi styrkja stöðu stjórnvalda til að gefa út reglugerð eða reglur um það efni. En auðvitað mega menn svo sem standa í þessum æfingum ef þeim sýnist svo mín vegna. Ég endurtek það sem ég áður sagði að ég óttast að reglugerðirnar verði ekki færri á þessu ári en þær hafa verið undanfarin ár, á bilinu 4--5 og upp í 7--8.

Það eru nokkur álitamál að lokum, herra forseti, sem mig langar að fara yfir fyrir utan þær spurningar sem ég hef rætt sérstaklega við hæstv. ráðherra og ég vona að ég fái svör við síðar í umræðunni, en enn eru eftir ýmis álitamál sem tengjast m.a. þeirri staðreynd að vertíðin er nú þegar hafin. Ég hef velt því fyrir mér og haft um það nokkrar efasemdir að það væri mjög góð stjórnsýsla að gera lögin afturvirk í þeim skilningi að sá afli sem þegar hefði verið landað á grundvelli í raun og veru frjálsrar sóknar sem nú ríkir, það er auðvitað alveg ljóst að í dag gilda lög um fiskveiðar utan efnahagslögsögu Íslands og veiðileyfin eru gefin út á grundvelli þeirra laga, án sérstakra takmarkana þannig að eðli málsins samkvæmt hljóta það þá að teljast frjálsar veiðar innan ramma þess heildarmagns sem Ísland má veiða. Síðan ef ætlunin er, sem mér hefur skilist á hæstv. ráðherra, að draga frá úthlutuðum kvóta sem verði á grundvelli þessara laga, ef sett verða, það magn sem menn hafa þegar veitt áður en lögin tóku gildi, orki tvímælis. Í frv. er að sjálfsögðu ekki leiðsögn um þetta efni frekar en nokkurn skapaðan hlut annan og það er ekki kveðið á um það á einn eða annan hátt hvernig fara skuli með ef þær aðstæður væru fyrir hendi sem nú eru, að veiðar væru hafnar áður en lögin taka gildi. Það kann að vera að þetta sé ástæðulaus ótti og áhyggjur og ekkert því til fyrirstöðu lagalega að líta á vertíðina sem heild þótt upphaf hennar hafi orðið á grundvelli annarra lagaákvæða en þeirra sem hér á að setja nú. En aldrei hefur það þótt góð latína, herra forseti, að hafa lög afturvirk og það eru þau auðvitað í þessum skilningi hér.

Ég hef áður komið inn á þá óvissu sem ég tel tengjast því að þurfa að endurúthluta og jafnvel endurendurúthluta án þess að hafa neina leiðsögn um það í lögunum hvernig það skuli gert.

[17:15]

Þriðja atriðið er þetta óvissuatriði með burðargetuna. Meiri hlutinn afgreiðir eins og venjulega með því að segja að hæstv. sjútvrh. skuli setja reglur um hvað átt sé við með orðinu burðargeta í þessum lögum. Hver viðmiðunin af tveimur, þremur eða jafnvel fleirum sem til greina geta komið skuli þar gilda. Sömuleiðis er þá óvissa í þessu efni og væri fróðlegt að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur hugsað sér í þeim efnum. Hvaða skilning orðsins burðargetu ætlar hæstv. ráðherra nota? Verður það burðargeta miðuð við stærsta landaðan farm, lestarrúmmál, verður það burðargeta miðað við skilgreiningu Siglingamálastofnunar miðuð við fríborð eða hvað verður það?

Í fjórða lagi: Hvernig fara á með þau skip í flotanum sem hafa verið stækkuð eða verða stækkuð? Með því verður burðargeta skipanna að sjálfsögðu aukin. Er hugsunin sú að átt sé við burðargetu skipanna eins og hún er á þeim degi að lögin taka gildi? Geta menn aukið sinn hlut í framtíðinni með því að stækka skipin?

Ef skip sem ber þúsund tonn í ár verður sent til Póllands í haust, lengt um tíu, tólf metra og ber tvö þúsund tonn á næstu vertíð, eykur það þá sinn hlut á kostnað annarra? Ef ekki, við hvaða skilgreiningu á þá að miða? Um það er ekki stafkrókur í frv. Fá þau skip sem hafa stækkað síðan á síðustu vertíð stækkunina að fullu metna inn? Fá þau mörg hundruð tonn, ef ekki þúsund, í viðbót í sinn hlut, vegna þeirra rúmmálsaukningar eða stækkunar sem kann að hafa orðið hjá þeim núna á síðustu vikum eða mánuðum? Finnst hæstv. ráðherrum það sanngjarnt og eðlilegt?

Nú er ljóst að að einu leyti er hópurinn sem kemst inn undir 90% regluna takmarkaður að því leyti að þar eru aðeins þau skip sem stunduðu veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum eitthvert af árunum 1995, 1996 eða 1997 --- það er nægjanlegt að hafa farið að nafninu til til veiða eitthvert eitt af þessum árum --- eða skip sem hafa komið í stað þeirra. Ef veiðileyfi hefur verið flutt af einhverjum bát sem stundaði þessar veiðar, þó yfir á miklu stærra skip sé, þá gildir það. Skipið eykur hins vegar hlut sinn vegna reglna um burðargetu.

Hvernig hyggst hæstv. ráðherra draga mörkin í þessum efnum? Hvernig á að fara með þetta í framhaldinu? Verður þá að reikna skiptinguna upp á nýtt á hverju þessara þriggja ára í ljósi stærðar flotans eins og hún er á hverri vertíð fyrir sig? Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera ef stærra skip kemur nú allt í einu heim á miðri vertíð?

Að lokum, herra forseti, væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherrum hvernig þeir sjá framtíðina fyrir sér í þessum efnum. Framtíðina eftir þessi þrjú ár. Nú veit ég að, að nafninu til og samkvæmt lögunum á svo að heita að hér sé ekki verið að festa í sessi skiptingu nema til þessara þriggja ára. En hvað segir reynslan okkur?

Hefur reynslan ekki orðið sú að mönnum hefur reynst erfitt að hverfa frá þeirri skiptingu sem fest hefur í sessi, sama á hvaða grunni hún hefur orðið til? Er það ekki reynslan? Ég held það. Því læðist sá grunur að mér að það sé ekki víst að þessi formúla, verði hún á annað borð sett í gildi og notuð í þrjú ár, reynist eins tímabundin og haldið er fram. Þá eru forsendurnar afar hæpnar, herra forseti, svo ekki sé meira sagt, til að leggja hér grunn að hlutum sem kannski gætu átt eftir að standa um langa framtíð.

Almennt verð ég að segja, herra forseti, í tengslum við þetta frv., varðandi stöðu mála í sjávarútvegi, stjórn fiskveiða og fleira að auðvitað er langt í frá að þessi mál séu í nógu góðu horfi hjá okkur Íslendingum. Það er í raun og veru að verða hin mesta sorgarsaga hvernig til hefur tekist á Íslandi sl. 15 ár, að ná fram einhverri skynsamlegri sátt um tilhögun þessara mála í landinu. Það er ekkert hægt að kalla það annað en ógæfu, að hver höndin skuli vera upp á móti annarri og logandi ágreiningur um jafnvel sjálf grundvallaratriðin í leikreglunum. Það eru grenjandi deilur um það mál. Niðurstaðan er m.a. sú að það er hringlað í þessu nánast á hverju einasta ári.

Saga fiskveiðistjórnunar á norsk-íslenska síldveiðistofninum er á góðri leið með að verða að farsa sem einna helst líkist sögunni um stjórn á veiðum smábáta. Þetta er á góðri leið í sömu átt. Það er nú ekki falleg saga og ekki gott að þurfa að jafna hlutunum saman við það.

Ég hef af þessu áhyggjur, herra forseti. Mér finnst í raun og veru illt til þess að vita að einhvern veginn er eins og allur botn sé dottinn úr vitlegri eða heilbrigðri umræðu um þessi mál. Ég hef velt því fyrir mér hvernig hægt væri að koma þessu í einhvern farveg á nýjan leik. Væri hægt að búa til einhvern stóran, breiðan samstarfsvettvang, vinnufarveg fyrir þessi mál, þar sem menn reyndu að nálgast á nýjum forsendum og fara yfir efnið á nýjan leik?

Ég hef ekki trú á að menn séu almennt þeirrar skoðunar í dag að þessir hlutir séu í mjög góðu lagi, að gott sé að hafa þetta akkúrat eins og það er. Ég dreg þá ályktun m.a. af því að þegar jafnvel sjálfir guðfeður kerfisins, hæstv. núv. sjútvrh. og hæstv. fyrrv. sjútvrh. og núv. utanrrh. eru farnir að bogna þannig undan umræðunni að þeir spila út á fundum sínum hugmyndum eins og þeim, að vísu bara til heimabrúks að því er virðist, að prófandi væri að bjóða upp veiðiheimildirnar í norsk-íslensku síldinni, öðru máli gildi um þann stofn. Að vísu sér þess nú ekki stað þegar frumvörp koma frá sömu hæstv. mönnum um þá hluti. Það er mér miklu frekar til marks um að hlutirnir eru auðvitað ekki í lagi og það viðurkenna þessir hæstv. menn m.a. með tilburðum af þessu tagi.

Það er alveg ljóst að íslenskur sjávarútvegur hefur búið við nokkuð gott árferði núna um nokkurra ára skeið. Það er gott og ekki veitti nú af. Þegar maður fer yfir það þá hefur eiginlega flestallt lagst með okkur núna síðustu nokkur árin, nema þá ef vera skyldi það, sem auðvitað lá orðið fyrir fyrir löngu, að veiðiheimildir í þorski hafa verið litlar eða mikið niður skornar, þó þær hafi heldur verið að aukast. Aflinn hefur hins vegar verið góður og aflabrögð auðvitað með eindæmum góð. Það má heita landburður af fiski meðan þær veiðiheimildir sem á annað borð er leyft að taka eru nýttar. Verð hefur almennt verið mjög hátt. Svo ótrúlegt sem það nú er þá erum við búin að keyra núna nokkur ár í röð á verðinu almennt, bæði fyrir bolsfisk og bræðsluafurðir, sem eru með því jafnhæsta sem við höfum haft. Það hefur haldist um nokkurt árabil og er auðvitað mjög óvenjulegt.

Eftirspurn eftir flestum framleiðsluvörum hefur vaxið, t.d. hefur eftirspurn eftir framleiðsluvörum bræðsluiðnaðarins vaxið mjög og verðið það hæsta í sögunni. Þar hefur allt lagst á með okkur. Veiðibrestur hjá öðrum, kúariðan og El Niño, eins og hér var nú sagt einu sinni og menn áttu erfitt með að skilja, hafa í raun komið okkur til góða.

Síðast en ekki síst hefur stöðugleiki í efnahagsmálum komið sjávarútveginum og sjávarútvegsfyrirtækjum vel, ekki síður en öðrum fyrirtækjum. Það hefur auðveldað þeim og gert þeim kleift að nýta sér þessi hagstæðu skilyrði til uppbyggingar og til þess að bæta sinn hag umfram það sem ella hefði orðið.

Allt er þetta nú harla gott, herra forseti, þannig að yfir því er hægt að gleðjast en miklu síður hinu að þrátt fyrir þessi hagstæðu ytri skilyrði skuli ekki hægt að ganga þannig frá málefnum greinarinnar, varðandi leikreglur og grundvöllinn hér innan lands, að um það sé einhver sæmilegur friður.

Ég hef auðvitað áhyggjur af því að afkoman verður örugglega, hér eftir sem hingað til, sveiflukennd og það munu koma mögur ár. Það mun ekki síst eiga við um þann þátt sem við erum að ræða hér, nýtingu á uppsjávarfiskum, þar sem miklar sveiflur hafa einkennt söguna í alla tíð. Þá skiptir náttúrlega miklu máli að menn geri allt sem þeir geta heima fyrir, að skapa greininni sem skynsamlegust starfsskilyrði. Málafylgja eins og þetta frv. felur í sér er ekki gott innlegg í það mál, herra forseti.

Allra, allra síðast verð ég svo að segja, herra forseti, að vinnubrögðin í kringum þetta mál hafa orðið mér nokkur vonbrigði. Þá á ég bæði við það að svo virðist sem það hafi verið unnið af afar þröngum hóp og án mikils samráðs, t.d. ekki hið minnsta við hagsmunaaðila í greininni. Samráð var ekki haft við stjórnarandstöðuna eða sjútvn. sem slíka. Þegar inn í þingið er komið hefur því miður ekki reynst vilji fyrir því, af hálfu aðstandenda frv., að gefa nokkra möguleika til breytinga. Það var ítarlega rætt og kannað í sjútvn. Ég leyfi mér að halda því hér fram að þar hafi sú skoðun verið býsna útbreidd, að það kynni nú að vera skynsamlegt að gera á þessu máli, a.m.k. einhverjar breytingar. Það væri nú ekki endilega víst að menn hefðu hitt akkúrat á bestu leiðina, bestu tillögurnar og sanngjörnustu og réttustu.

Þegar upp var staðið var það í sjálfu sér ekki það sem skipti máli, heldur hitt að þau skilaboð bárust frá æðstu stöðum að ekki væri vilji fyrir hendi af hálfu forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar að opna fyrir neinar breytingar í þessu máli. Það var heldur dapurlegt, herra forseti, að verða vitni að því að þrátt fyrir skoðun, gagnasöfnun og umræður um málið, sem að mínu mati leiddu í ljós að a.m.k. væri réttast að ræða og skoða hvort ekki mætti ná eitthvað betri sáttum um það innan þings og þá ekki síður utan, gafst ekki tækifæri til að hliðra nokkru. Það er alltaf heldur dapurlegt, herra forseti, þegar efnislegum ástæðum er ýtt til hliðar og einhvað annað látið ráða, hvað sem það nú er. Ég ætla engar getgátur að hafa um það en af einhverjum ástæðum varð þetta niðurstaða hæstv. ríkisstjórnar eða ráðamanna hæstv. ríkisstjórnar. Sjálfsagt verður þó að sæta því og kyngja og það mun þá hafa sinn gang.

Mér segir þó svo hugur um, herra forseti, að þegar upp verður staðið og dómur reynslunnar verður fallinn yfir þessu fyrirkomulagi, ef það verður nú sett á laggirnar, þá muni menn ekki verða mjög hreyknir af höfundarrétti sínum á þessu máli.