Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 17:30:09 (6366)

1998-05-08 17:30:09# 122. lþ. 121.3 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv. 38/1998, Frsm. 1. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[17:30]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það eru út af fyrir sig nokkur tíðindi að kominn skuli vera í leitirnar einn maður sem hefur þetta sjónarmið því það get ég upplýst hæstv. utanrrh. um að eitt áttu allir umsagnaraðilar og viðmælendur sjútvn. um þetta mál sameiginlegt að þeir vöruðu við því. Um það voru m.a.s. góðvinirnir, forsvarsmenn sjómannasamtakanna og framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna hjartanlega sammála, og eru þeir aðilar þó ekki sammála á hverjum degi, að það væri auðvitað mjög mikilvægt að Íslendingar tryggðu eins og nokkur kostur væri að þeir nýttu til fulls sinn kvóta því það hlyti að koma niður á samningsstöðu okkar og veikja hana ef við gerðum það ekki, ég tala nú ekki um ár eftir ár. Ég verð því að segja eins og er að mér finnast þetta nokkur tíðindi, að hæstv. utanrrh. skuli vera sem sagt annarrar skoðunar, kominn fram einn maður í dagsljósið sem hefur þetta sjónarmið. Reyndar er það nú smá handtak finnst mér, út frá almennri samningatæknilegri hlið hvernig á að rökstyðja þá skoðun sem hæstv. utanrrh. setti fram. Ég kem því ekki alveg heim og saman, það verð ég nú að segja, að það sé ekki heldur lakara fyrir okkur að ná ekki að nýta okkar hlut og það verði notað gegn okkur. Hitt er svo alveg ljóst og þar erum við allir sammála að æskilegast væri og mikilvægt að síldin færi að ganga inn í lögsögu okkar og að sem mest af veiðinni færi fram þar. Það eru í mínum huga einustu rökin sem ég gæti séð fyrir því, t.d. að fresta eitthvað upphafi veiðanna eða standa öðruvísi að þeim en gert var t.d. í fyrra. Það væri spurning ef einhver von væri til þess að síldin héldi áfram að ganga í rétta átt að bíða þá með veiðarnar þangað til hún væri komin að eða inn í íslensku lögsöguna þannig að hægt væri að skrá sem mest af veiðunum með réttum hætti þar.

Ég spurði hæstv. ráðherra reyndar fleiri spurninga og bað hann sérstaklega að koma inn á t.d. samhengi þessa máls eða hliðstæðuna við kolmunnann og mikilvægi þess að við Íslendingar öðluðumst veiðireynslu í þeim stofni til að styrkja samningsstöðu okkar ef og þegar, sem örugglega verður, að því kæmi að farið yrði að semja um uppskiptingu hans. Það er mjög hliðstætt dæmi við það sem við erum að ræða hér um síldina, þannig að mér þætti fróðlegt að heyra hæstv. utanrrh. sem fer með þau mál, tjá sig einnig um það efni.