Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 18:14:27 (6371)

1998-05-08 18:14:27# 122. lþ. 121.3 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv. 38/1998, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[18:14]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa farið fram í dag um þetta mál. Eðlilega snerust þær að verulegu leyti um sömu efnisatriði og fram komu í 1. umr. um málið og flestar þeirra spurninga sem hér hafa verið bornar fram voru einnig bornar fram við 1. umr. og þeim þá svarað. Ég vil þó ítreka svör við þeim spurningum sem hér hafa komið fram. Flestar þeirra voru frá hv. 4. þm. Norðurlands eystra.

[18:15]

Hv. þm. vék að því hvaða hagsmunir væru í húfi varðandi nýtingu okkar á þeim veiðirétti sem við höfum fengið í alþjóðlegum samningum um norsk-íslensku síldina. Ég held að ekki verði með neinu móti hafðir uppi neinir spádómar um það hvernig takast muni til um veiðarnar og þó að veiðistjórnaraðferð geti haft einhvern áhrif í því efni þá er það fyrst og fremst sóknarmáttur flotans og hegðun síldarinnar að öðru leyti sem hafa úrslitaáhrif á það hvort okkur tekst að ná þeim kvóta sem við höfum samið um eða ekki. En vitaskuld skiptir miklu máli að við náum sem stærstum hluta af okkar kvóta varðandi framtíðarstöðu okkar í veiðunum, þó að einhver örfá tonn til eða frá breyti ekki öllu í því efni.

Hv. þm. vék svo að þeirri spurningu hver staðan væri varðandi úthlutun veiðiheimilda að óbreyttum úthafsveiðilögum, og vitnaði þar til 2. mgr. 5. gr. laganna. Ég man ekki betur en að ég hafi gert grein fyrir mínu viðhorfi í þessu efni þegar ég mælti fyrir frv. og í umræðum um það við 1. umr. Ég tel að lögin, eins og þau eru í dag, geri ráð fyrir því að úthlutað verði aflaheimildum varanlega á grundvelli aflareynslu. Ef það eigi ekki að gerast þurfi Alþingi að samþykkja breytingar þar á. Það er einmitt megintilgangur þessa frv. að koma til móts við þau sjónarmið sem eru býsna almenn og ég heyrði að hv. þm. tók undir, að það gæti verið eðlilegt að skapa hér nokkurt svigrúm þar til að síldin hefði tekið upp sitt fyrra göngumynstur. Og fyrir þá sök er nauðsynlegt að setja ný lagaákvæði því ella kæmi á þessu stigi til varanlegrar úthlutunar aflaheimildanna.

Hv. þm. spurði hvort sú skipan mála sem hér er ákveðin varðandi norsk-íslensku síldina sé fordæmi gagnvart veiðum úr öðrum stofnum. Ég hef áður lýst því yfir, og gerði það þegar hv. þm. bar þessa spurningu fram við 1. umr. málsins, að ég lít ekki svo á. Hér er um einstaka undanþágu að ræða sem lýtur að veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum. Úthafsveiðilögin gilda að öllu öðru leyti og það eru engin önnur áform uppi um breytingar í því efni. Ég er alveg sammála hv. þm. í því efni að ef einhver minnsti vafi léki þar á gæti það dregið úr hvata til þess að menn reyndu fyrir sér í veiðum t.d. kolmunna og túnfisks og ýmissa fleiri tegunda. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að í þeim málum sé enginn vafi uppi og ég vil ítreka þær yfirlýsingar af minni hálfu sem áður hafa komið fram að því er þetta varðar.

Hv. þm. velti því fyrir sér hvort það hefði einhver áhrif á framgang þessa máls að vertíðin er hafin og lítils háttar veiði hefur þegar átt sér stað. Ég lít svo á að það breyti engu um þá niðurstöðu sem hér er verið að mæla fyrir um og að frv., þegar það er orðið að lögum, sé réttur grundvöllur til þess að skipta veiðiheimildum niður á þessari vertíð á milli bátanna.

Þá vék hv. þm. að því hvort unnt væri að auka hlut einstakra skipa með því að stækka þau á því þriggja ára tímabili sem gert er ráð fyrir að lögin taki til. Að mínu mati er það svo að verði einstök skip stækkuð hlýtur að verða tekið tillit til þess með hliðsjón af lagaákvæðunum þegar kemur til síðari úthlutunar á grundvelli þeirra. Og það má vissulega segja að það sé ágalli við úthlutun á þessum grunni að það getur hvatt til óraunhæfrar stækkunar á flotanum en þá verður að hafa í huga að hér er um bráðabirgðaráðstöfun að ræða en ekki frambúðarskipan þannig að enginn hefur tryggingu fyrir því að það sé grundvöllur til lengri frambúðar og ætti þá að vega á móti þeirri tilhneigingu sem ella væri ef þetta væri viðvarandi skipan mála.

Loks vék hv. þm. að því hver framtíðin yrði í þessum efnum. Sannleikurinn er sá, og það hefur áður verið rætt, að verið er að skipa þessum málum til skamms tíma því að hvorki sjá menn fyrir nú á hvern veg heppilegast er að skipa þessum málum til lengri framtíðar þegar síldin hefur tekið upp sitt gamla göngumynstur né heldur sjá menn fyrir hvenær það muni verða. Þess vegna er það svo að menn verða að taka afstöðu til þess að loknum þeim bráðabirgðatíma hver framtíðarskipanin eigi að vera og við þessar aðstæður er ekki unnt að kveða upp úr um það.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. og hv. 19. þm. Reykv. véku nokkuð að möguleikum á því að stjórna veiðum úr þessum stofni með uppboði. Ég er almennt þeirrar skoðunar að skynsamlegasta aðferðin til þess að stjórna veiðum og úthluta veiðirétti sé að styðjast við veiðireynslu. Það var til að mynda alveg augljóst þegar kvótakerfið var innleitt hér á landi á sínum tíma að önnur sanngjarnari leið var ekki til í þeim tilgangi að úthluta veiðiréttinum en að styðjast við veiðireynslu. Það geta hins vegar verið uppi aðrar aðstæður þegar verið er að hefja veiðar úr stofnum þar sem engin veiðireynsla er fyrir. Þá er um ýmsa kosti að velja. Auðvitað er einn sá að leyfa frjálsar veiðar eða veiðar með öðru tilteknu skipulagi og nýta síðan veiðireynslu tiltekinna ára á þeim grundvelli til þess að úthluta veiðirétti til lengri framtíðar. Það er líka hægt, og ég hef aldrei útilokað það við slíkar aðstæður, að bjóða veiðiréttinn upp og selja þannig eða úthluta á þeim grundvelli, grundvelli uppboðs veiðiréttar til frambúðar. Ég hef hins vegar aldrei léð máls á því að ríkið tæki veiðiréttinn í sínar hendur og leigði hann út frá einu ári til annars. Það gæti að mínu mati við slíkar aðstæður komið til álita að úthluta veiðirétti varanlega með þessum hætti ef veiðireynsla er ekki fyrir hendi. En hitt er miklu heppilegra og eðlilegra að styðjast við veiðireynslu. Í þessu tilviki er ekki verið að úthluta varanlegum aflaheimildum, hér er verið að skipa málum til bráðabirgða þannig að menn geti komið að því síðar með hvaða hætti staðið yrði að varanlegri skipan þessara mála.

Ég held ég hafi þá vikið að flestum þeirra spurninga sem hafa verið bornar fram í umræðunni og ítreka þakklæti til þeirra hv. þm. sem tekið hafa þátt í umræðunni í dag.