Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 18:25:33 (6372)

1998-05-08 18:25:33# 122. lþ. 121.3 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv. 38/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[18:25]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég átti þess ekki kost að vera við umræðuna þegar hún hófst en vil láta það koma fram í andsvari við ræðu hæstv. ráðherra að ég er mjög andvígur þeirri aðferð sem beitt er með þessu frv. í sambandi við stjórn veiða úr norsk-íslenska stofninum og tel að þar sé verið að ganga gegn þeirri almennu reglu sem hefur verið höfð í sambandi við að skipta afla, og að þau rök sem fram eru færð varðandi aðferðafræði um þetta efni séu ekki aðeins langsótt heldur fái í rauninni ekki staðist miðað við það sem almennt hefur verið gert þegar verið er að skipta aflaheimildum. Það er margt sem vekur tortryggni í sambandi við þetta mál og þá aðferð sem frv. gerir ráð fyrir varðandi skiptingu veiðiheimilda t.d. þar sem gert er ráð fyrir því að úthluta aflahlutdeild til skipa sem ekki notuðu veiðarfæri en voru í flutningum, komu með afla að landi sem önnur skip fiskuðu, svo dæmi sé tekið, og fleira sem varðar skiptingu á afla.

Mér er kunnugt um að mikil óánægja er með þetta hjá þeim sem í alvöru hafa verið að reyna að sækja í þennan stofn á undanförnum árum og sýnilegt að hér eru önnur sjónarmið sem ráða en þau sem almennt hafa verið uppi í þessum efnum og ég tek eindregið undir það nál. sem fyrir liggur frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og þær brtt. sem hér eru fluttar af stjórnarandstöðunni í sambandi við málið.