Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 18:29:29 (6375)

1998-05-08 18:29:29# 122. lþ. 121.3 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv. 38/1998, Frsm. 1. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[18:29]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og reyndar hæstv. ráðherrum því að hæstv. utanrrh. hafði svo mikið við að hann kom nú bara upp í heilt andsvar til að svara þeim spurningum sem til hans var beint um smámál eins og það hvernig samningsstaða okkar væri gagnvart þessum veiðum á komandi árum í ljósi stöðu mála, hvert samhengi þessara mála væri við yfirstandandi viðræður um samninga á loðnustofninum og hvernig t.d. fordæmi þetta gæfi í sambandi við nýtingu á öðrum stofnum eins og kolmunna. Öðruvísi mér áður brá, herra forseti, verð ég nú að segja.

[18:30]

Einhvern tímann hefði hæstv. núv. utanrrh. sennilega talið ástæðu til að eyða fáeinum orðum í viðbót í mál af þessu tagi en hæstv. ráðherrann kaus að gera það ekki og ég verð að segja að mér þóttu þetta heldur rýr svör fyrir utan að þau voru ákaflega sérkennileg og ég mun aðeins koma að því betur.

Sömuleiðis og miklu frekar þakka ég hæstv. sjútvrh. sem kom a.m.k. að einhverju leyti inn á flest það sem ég bar upp í formi spurninga til hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Aðeins betur um þetta með samningsstöðuna og hvaða áhrif það hefur ef við nýtum ekki hlut okkar. Ég tók eftir því að hæstv. sjútvrh. hagaði orðum sínum á talsvert annan hátt í þessu sambandi en hæstv. utanrrh. gerði sem kom galvaskur og fullyrti að engin ástæða væri til að óttast að það myndi veikja stöðu okkar í samningum um nýtingu á þessum stofni á komandi árum þótt við nýttum ekki veiðiheimildir okkar, sá ekkert samhengi þar á milli. Ég verð að segja alveg eins og er að þetta er röksemdafærsla sem ég get ekki skrifað undir.

Ég held það sé líka alveg ljóst að þótt menn standi í þessum ræðustóli eða skrifi um það í blöð eða lýsi því yfir hátt og í hljóði að eitthvað sé ekki fordæmi eða eigi ekki að verða fordæmi fyrir einu eða neinu, heldur alveg einstakur atburður í sjálfu sér þá reynast slík orð oft ekki hafa mjög mikið gildi. Ég er ekki viss um að það sé rétt hjá þeim hæstv. ráðherrum að engin ástæða sé til að óttast fordæmisgildi þeirrar ráðstöfunar sem hér á að lögfesta. Halda menn virkilega að útgerðarmenn taki það bara gott og gilt að af því að menn hafi staðið upp og sagt: Ja, þetta á ekki að verða fordæmi, sé bara í góðu lagi að treysta á það þegar reynslan er eins og raun ber vitni? Ég hef aldrei heyrt um pólitískar ákvarðanir af þessu tagi eða samningagerð eða annað slíkt sem hefur ekki tilhneigingu til að hafa fordæmisgildi þegar á hólminn er komið og í reynd. Það var t.d. sagt við okkur 1996 um vorið að samningurinn um norsk-íslensku síldina þá og prósentan þá hefði ekkert fordæmisgildi. Engin ástæða væri til að hafa af því neinar áhyggjur að við værum á einn eða annan hátt bundin af þeirri prósentu. Hvað kom á daginn? Ekki hefur verið hreyft við henni í þau tvö skipti sem sá samningur hefur verið endurgerður, nema bara henni hefur verið breytt til lækkunar vegna þess að fleiri aðilar hafa bæst í hópinn, skrifað undir samninginn með gjörsamlega óbreyttum efnisreglum að öllu leyti. Ég held að þannig muni mönnum mörgum fara í sambandi við þessa gjörð að þrátt fyrir yfirlýsingar og svardaga um að þetta eigi ekki að hafa fordæmisgildi muni menn tortryggja að svo verði, tortryggja það mjög og mér finnst fullkomlega eðlilegt að gera það. Ég held að hver sem er geti sett sig í spor útgerðarmanns sem hefur lagt í kostnað, í fjárfestingar og hefur beint skipi sínu til veiða úr þessum stofni undanfarin fjögur, fimm ár og fær svo frv. af þessu tagi framan í sig sem tekur kannski miðað við veiðireynslu undanfarinna ára 2--3 þús. tonna veiðiheimildir frá honum og færir öðrum aðilum sem hafa ekki lagt í sama kostnað, tóku ekki þá áhættu að fara í þessar veiðar í byrjun og reyndu kannski fyrir sér einu sinni, í eitt ár með litlum eða engum árangri. Þá munu menn hugsa sem svo: Ja, er nokkur trygging fyrir því að ekki verði farið nákvæmlega eins með mig ef ég verð nú svo vitlaus að fara að útbúa mig til veiða á kolmunna, ef ég kaupi mér stórt flottroll og fæ mér öflugri spil og legg í breytingar eða stækkun á skipi mínu, kaupi mér jafnvel nýtt og öflugra skip og fer svo í þessar veiðar. Búast má við því að það gangi svona upp og ofan eins og oftast er þegar menn eru að reyna að ná tökum á einhverjum nýjum veiðiskap þannig að það verður ekki mikið út úr því að hafa kannski fyrstu tvö til þrjú árin en samt, segjum það. Er þá nokkur trygging fyrir að það sé í raun og veru nokkur glóra í því dæmi ef svo koma lög á Alþingi sem sá ávinningur verður tekinn á grundvelli þeirrar veiðireynslu sem ég hef skapað og aðrir slíkir og fært þjóðinni samningsstöðu til að krefjast hlutdeildar í þessum stofni og honum úthlutað á alla dalla í flotanum og þeir sem hafa ekki lagt neitt af mörkum, hafa ekki lagt í neinn kostnað og hafa ekki skapað Íslandi neina samningsstöðu fá jafnmikið og ég. Maður þakkar fyrir að kaupskipaflotinn fái ekki líka úthlutun. Menn munu hugsa svona, það er alveg augljóst mál og ég veit að menn gera það því margir útgerðarmenn hafa spurt mig um nákvæmlega þetta samhengi hlutanna. Því held ég að það þurfi meira til en einfaldar yfirlýsingar af þessu tagi. Svör hæstv. ráðherra, sérstaklega hæstv. utanrrh., í þessu sambandi áðan voru ákaflega ótrúverðug. Útúrsnúningar af því tagi að kolmunninn væri allt öðruvísi fiskur en síldin, svo ekki sé nú talað um karfann á Reykjaneshrygg eða túnfiskinn eða eitthvað annað og vissu þingmenn nú fyrir, held ég flestir, að dálítill munur er á túnfiski og síld, og kolmunna og karfa. Það var ekki anatómían sem verið var að spyrja út í heldur spurningin um fordæmisgildi út frá þeim alþjóðlegu leikreglum sem þarna er við að styðjast. Það er nú það.

Ég verð líka að segja, herra forseti, og það snýr ekki bara að þessu frv. heldur líka t.d. því sem sagt er í greinargerðinni og því sem kom fram í máli t.d. hv. 19. þm. Reykv. að ég held það séu nánast draumórar í ljósi reynslunnar og í ljósi þróunar þessara mála að reikna með því að þeir tímar komi einhvern tímann aftur að smábátar og skip sem stunda aðallega veiðar á grunnslóðinni verði samkeppnisfærir við hin stóru, öflugu og afkastamiklu skip sem eru orðin algerlega sérhæfð til að stunda þessa tegund veiða. Ég held bara að það sé mjög ólíklegt að þeir tímar gangi aftur í garð enda er himinn og haf á milli hagkvæmninnar í því að stunda veiðar á uppsjávarfiskum með þessum stóru, sérhæfðu og afkastamiklu skipum og því að ætla sér að fara að gera það á smábátum svipað og gert var á sjöunda áratugnum. Ég held þeir tímar komi ekki aftur þótt þetta sé falleg hugsun og út af fyrir sig ákveðin rómantík yfir því að þetta gæti einhvern tímann gerst, að síldin fyllti hér firði og flóa og það væri jafnvel hægt að ná henni á land með því að draga fyrir og landa henni eins og gert var á síðustu áratugum síðustu aldar, t.d. í Eyjafirði, en ég á erfitt með að sjá fyrir mér að það verði hagkvæmar veiðar og arðsemi verði í að stunda þær þannig, samanborið við að beita hinum stóru, öflugu, sérhæfðu og nútímalegu skipum í þessum efnum. Bæði hvað það snertir og eins varðandi hugmyndir um nýtt göngumynstur held ég að það sé dálítið langsótt að rökstyðja þessar ráðstafanir með þeim hætti.

Svo eru uppi vangaveltur um það hvernig eigi með að fara þegar allt í einu hefjist veiðar á nýjum stofni og engin veiðireynsla sé fyrir hendi. Ég velti stundum fyrir mér við hvaða aðstæður það geti gerst. Hvaðan koma þá veiðiheimildirnar? Koma þær af himnum ofan? Finnst allt í einu bara einhver nýr stór stofn? Er það líklegt? Á hvaða grundvelli er líklegt að eitthvað verði til skiptanna fyrir Íslands hönd? Á hvaða grundvelli? Hvernig hefur það gerst hingað til? Það hefur gerst í hvert einasta skipti á grundvelli þess að íslensk útgerð hefur farið til veiða, sýnt fram á nýtingarmöguleikana og það hefur orðið stofninn að kröfugerð af Íslands hálfu til að semja sig inn í kvóta í viðkomandi tegund. Ég sé í raun og veru að engar líkur séu til að þetta muni nokkurn tímann gerast öðruvísi. Einu dæmin sem gætu hugsast um annað eru þá að Ísland sem strandríki nái samningum um hlutdeild í stofnum þótt við höfum ekki verið að veiða þá. En það verður þá aldrei nema mjög óverulegur hluti sem við fáum þannig. Veiðiheimildir sem við náum í uppskiptum á flökkustofnum eða deilistofnum á grundvelli fjölþjóðlegra samninga um slíkt munu fyrst og fremst grundvallast á þeirri veiði sem við sjálfir höfum þegar stundað. Þær verða stofninn í kröfugerð okkar um hlutdeild í veiðunum. Það liggur þannig og af því t.d. kolmunninn var til umræðu er auðvitað alveg augljóst mál að staða Íslands sem strandríkis til að gera kröfur um verulega hlutdeild í þeim stofni er veik. Hún er fyrst og fremst veik vegna þess að göngur kolmunnans inn í íslenska efnahagslögsögu eru óreglulegar og vara yfirleitt ekki stóran hlut úr árinu. Þótt einhver hluti stofnsins sé hlut úr árinu í veiðanlegu magni og út af fyrir sig sé hægt að sýna fram á það á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga mun það draga mjög skammt í kröfugerð af Íslands hálfu nema við höfum sýnt fram á veiðigetu og höfum veiðireynslu og þá liggur sú veiðireynsla fyrir og þá er ekkert vandmál að nota hana sem grundvöll að uppskiptum. Það er gáfulegasta reglan og það er bæði í því tilliti að hvetja menn til veiðanna en líka þegar kemur að því að skipta henni og þá er fullkomlega ótrúverðugt og alveg með ólíkindum að heyra hvernig hæstv. utanrrh. afgreiddi þau mál í þessu stutta andsvari. Hefur þá hæstv. utanrrh. engan áhuga á því að Íslendingar öðlist veiðireynslu í þessum stofnum? Segjum svo að það fari þannig að innan þriggja, fjögurra ára verði komin á fiskveiðistjórnun á vettvangi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, hvað mun þá gerast eins og málin standa nú? Norðmenn munu fá obbann af þeim kvóta af því þeir hafa verið langduglegastir við að veiða úr stofninum núna undanfarin ár, hafa rekið þá pólitík alveg markvisst að auka veiðar sínar og mynda þannig grunninn að kröfugerð um verulega hlutdeild í stofninum. Þeir munu fá hana vegna þess að viðmiðunarreglur úthafsveiðisamningsins eru alveg skýrar í þeim efnum. Eina leiðin til þess fyrir okkur að treysta stöðu okkar í þeim slag er að drífa okkur í að veiða eins og við mögulega getum á næstu árum. Er þá verið að stuðla að því með þessum ráðstöfunum hér? Nei, þvert á móti. Það er verið að skapa það andrúmsloft að það sé algjörlega óvíst hvort menn fengju það metið til nokkurs þótt þeir færu í þessar veiðar og tækju þá áhættu.

Í raun og veru og ekki síður væri rík ástæða til að Íslendingar reyndu að koma sér af stað í að veiða túnfisk af því þar er nú þegar í raun og veru um stýrðar veiðar að ræða. Við mundum að vísu að mínu mati alveg óumdeilanlega geta sprengt okkur inn í hópinn sem getur gert kröfur um hlutdeild í þeim stofni ef við drífum okkur í að veiða, sérstaklega vegna þess að búið er að sýna fram á veiðanleika í þeim stofni inni í íslensku efnahagslögsögunni. Það hafa japönsk skip núna gert tvö, þrjú undanfarin ár en það breytir ekki hinu að veiðireynslan yrði þar eins og í öðrum tilvikum gulls ígildi ef svo heldur sem horfir og ekki verða neinar breytingar á þeim alþjóðlegu leikreglum sem þarna er við að eiga.

Það eru nokkur atriði sem komu fram í svörum hæstv. sjútvrh. sem mig langar aðeins að koma inn á, herra forseti. Þá fyrst það sem í raun og veru var nú ekki svarað og það var spurningin um burðargetuna, hvernig á að mæla hana, hvaða einingu á að nota í þeim efnum, hvað ráðuneytið hefur hugsað sér að gera? Ég er reyndar þeirrar skoðunar að auðvitað ætti að breyta frv. að þessu leyti eins og að mörgu öðru leyti og setja þar inn skilgreiningu á því hvaða mælieiningu menn eru að tala um þannig að ekki sé neitt í lausu lofti. Að mínu mati er mjög mikilvægt að það liggi fyrir hvað þarna á að nota vegna þess að hópurinn sem í hlut á er þannig samansettur að það getur í einstökum tilvikum skipt mjög miklu máli hvaða mælieining er notuð. Það hálfa væri nóg þótt ekki sé verið að bæta við þeirri óvissu sem því fylgir að klára málið hér án þess að nokkuð liggi fyrir um það hvað þar eigi að nota.

Ég spurði einnig um lagastoð fyrir endurúthlutun og jafnvel endur- endurúthlutun þegar líður á vertíðina og hvort hæstv. ráðherra væri ekkert með böggum hildar yfir því að eiga að fara að setja með reglugerð án nokkurrar leiðsagnar í lögunum ákvæði sem eru mjög afdrifarík um það hvenær úthlutaðar veiðiheimildir verða þá teknar af mönnum og látnar til annarra á grundvelli þess að menn hafi ekki nýtt þær. Væri þarna inni einhver leiðsögn, t.d. að fyrir tiltekin tímamörk skyldu menn í fyrsta lagi hafa hafið veiðar og þeir sem ekki hefðu hafið veiðar þegar þrjár eða fjórar vikur væru liðnar af vertíðinni dyttu þá út úr hópnum. Einfalt mál og að mínu mati miklu betra að ganga þannig frá málinu að það liggi fyrir --- fyrir alla aðila. Menn vilja eðlilega sjá slíkar reglur sem fyrst og best væri þá að þær kæmu að einhverju leyti strax í lögunum.

[18:45]

Í öðru lagi væri hægt að setja þarna inn þá viðmiðun, að af þeim sem t.d. hefðu ekki veitt a.m.k. 20% af sínum úthlutuðu veiðiheimildum þegar fjórar vikur væru liðnar af vertíðinni eða eitthvað því um líkt, væri tekið umtalsvert magn. Þá lægi sú viðmiðun fyrir. Menn vissu að hverju þeir gengju í þeim efnum. Ráðherrann hefði lagastoð fyrir því að setja reglurnar en þyrfti ekki algjörlega að semja þetta sjálfur og upp úr sér samkvæmt eigin geðþótta eins og nú á að ganga frá málinu.

Af því að hæstv. ráðherra er nú löglærður maður og er víst dómsmrh. í viðbót, þá væri auðvitað gaman að heyra, út frá réttarfarslegum sjónarmiðum, að hann kæmi inn á þetta mál. Þetta galopna frv. með endalausu framsali til ráðherra um að setja reglur um alla hluti er auðvitað alveg hroðaleg smíð. Af því að hér eru mjög miklir hagsmunir undir, eins og komið hefur fram hjá fjölmörgum ræðumönnum.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hans um stækkun skipa og að staðfesta þann skilning minn, sem ég óttaðist að væri réttur, að menn muni innan gildistíma laganna, á þriggja ára tímabili, notað þá aðferð til auka sinn hlut á kostnað annarra með því að stækka skipin.

Mér sýnist að af skipi sem ber 100 tonn og á samt að fá úthlutun sem nemur tæpum 1.700 lestum, ef ég man rétt, þá mætti nota veiðleyfið af því, þetta snýst í sjálfu sér ekki endilega um það að þetta þurfi að vera sama skipið, núna strax eða á næsta ári, t.d. til þess að kaupa 2.500 tonna skip frá Noregi. Þá mundi hlutdeild viðkomandi aðila aukast um nokkur þúsund tonn, sennilega um 3.000 tonn. Það mun t.d. þýða að stóra skipið sem Samherji keypti í Noregi á dögunum fær nú í sinn hlut nokkur þúsund tonn umfram það sem skipið hefði fengið. Hvers veiðileyfi er notað til að færa það inn í lögsöguna? Það liggur þannig.

Mér segir svo hugur að þeir muni snarhækka í verði dallarnir, núna bara á morgun, við þetta svar hæstv. ráðherra. Auðvitað gætu menn séð sér leik á borði og keypt einhverja af þessum döllum og notað síðan veiðileyfið af þeim, færa það yfir á mjög stór og burðarmikil skip og stækka þannig sinn hlut á kostnað annarra.

Er þetta nú skynsamlegt? Eru menn stoltir af þessum frágangi? Hvað segir hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson? Finnst honum þetta ekki flott? Er þetta ekki glæsileg niðurstaða? Er hv. þm. ekki hreykinn yfir því að fá að greiða þessu atkvæði hér í kvöld eða á morgun? Ja, ég geri ráð fyrir því. (Gripið fram í: Er það ekki örugglega í kvöld?) Ja, það er spurning hvort nokkur ástæða er til þess að hraða þessu.

Mér fundust, herra forseti, á hinn bóginn ekki koma merkileg svör við því hvort hér væri á ferðinni meiri háttar stefnubreyting af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Sem það auðvitað er ef maður tekur efni málsins og skoðar. Auðvitað er um að ræða kúvendingu frá því sem fest var í sessi með úthafsveiðilögunum og á að heita stefna. Hæstv. sjútvrh. reyndi að vísu að útskýra að menn ættu ekki að taka mark á þessu frv. og láta eins og ekkert hefði í skorist.

Ég sé að hv. þm., einn af varaforsetunum, bendir á klukkuna hjá sér. Það er spurning hvort hv. þm. sé orðinn svangur og vilji að gert verði matarhlé. Ræðumaður getur upplýst að hann er út af fyrir sig alveg til í að gera hlé á máli sínu, ef hæstv. forseti vill gefa kvöldmatarhlé. Það er alveg sjálfsagður hlutur að greiða fyrir því að menn komist í kvöldmat á réttum tíma ef það er ætlunin. (Gripið fram í.) Nei, það er allt í lagi með ræðumann, hann hefur næga orku enn þá. Ég sá að menn voru að benda á klukkuna úti í sal og ég giskaði á að það gæti verið vegna þess að þeir vildu komast í kvöldmat. Ég var bara að upplýsa hæstv. forseta um að mér væri ekkert að vanbúnaði að gera hlé á ræðu minni ef menn vildu.

Herra forseti. Um stefnubreytinguna og kúvendinguna sem felst í þessu máli hafa verið heldur fátækleg svör. Málsvörnin fyrir því að svo sé ekki hefur gengið út á að ekki eigi að taka neitt mark á þessu frv. og menn meini ekkert með því sem þeir séu að gera, heldur þvert á móti. Þeir vilja að hvatning sé fyrir hendi til þess að róa á ný mið, til þess að sækja í ónýtta stofna og öðlast veiðireynslu annars staðar og tala um mikilvægi þess hér og mikilvægi þar. En gera svo algjörlega hið gagnvstæða.

Sama á við um það hvað framtíðin ber þá í skauti sér. Það kemur dagur eftir þennan dag og það kemur ár eftir árið 2000. Ætlunin er væntanlega að reyna áfram að veiða eftir þetta þriggja ára tímabil sem hér er verið að festa í sessi með löggjöfinni. Er því samt haldið fram að engar líkur séu á því, þrátt fyrir ljós reynslunnar, að hér skapist smátt og smátt fordæmi fyrir einhvers konar úthlutunarmóverki af þessu tagi?

Auðvitað er reynslan öll á þá hliðina að þannig hefur það alltaf orðið. Þeir hlutir hafa haft tilhneigingu til þess að festast í sessi. Fyrir því eru auðvitað þau rök að menn aðlaga sig að þeim heimildum sem þeir fá. Menn verða háðir því í rekstri sínum að hafa nýtt sér þær undangengin ár. Þá er hægara sagt en gert að rífa þær af þeim aftur eða gjörbreyta fyrirkomulaginu. Menn munu standa frammi fyrir nákvæmlega því á árinu 2000, þegar menn ætla sér að fara að endurskoða þessi mál. Þá verða komin upp þau sjónarmið að ekki sé sanngjarnt að hrófla mikið við dreifingu veiðiheimildanna eins og hún hafi verið á undangengnum þremur árum. Auðvitað verður það þannig.

Þegar það er haft galopið að þeir, sem veiddu 17 tonn eða 21 eða nokkur hundruð tonn samtals á þriggja áratímabili, geta með því að stækka skipin komist upp í mun hærri tölur, þá munu menn auðvitað gera það. Frammi fyrir þeim veruleika munu menn standa þegar menn ætla að hreyfa eitthvað við þessu, eins og sagt er að gera eigi eða er hér reyndar í ákvæði 3. gr. frv.

Hæstv. ráðherra svaraði mjög skýrt því sem ég hafði áður spurt um, um 2. mgr. 5. gr., og ég er í raun og veru sammála hæstv. ráðherra. Ég held að enginn vafi sé á því að hana er ekki hægt að túlka öðruvísi en þannig að varanleg úthlutun hefði verið eðlileg aðgerð ef ekki komi til breytinga á lögunum. Engin deila er heldur um það að þá er það veiðireynslan á undangengnum árum sem myndar grundvöll þeirrar úthlutunar.

Undarlegra er að hæstv. sjútvrh. skuli eftir sem áður ætla að skrifa upp á reikniformúlur eins og hér eru í frv. þar sem veiðireynslunni er algjörlega hafnað. Þó er það þannig að höfundar frv. viðurkenna að í þeim tilvikum að ekki sé fyrir hendi samfelld veiðireynsla, þá sé ráðherra heimilt að ákveða skiptingu aflahlutdeildar milli skipa og, eins og segir hér á miðri bls. 2 í grg., að taka mið af fleiri þáttum en aflareynslu.

Ég á voðalega erfitt með að skilja höfundana að þessu orðalagi. Ef ekki er um varanlega úthlutun að ræða, þar sem aflareynslan ein ræður og gripið er til þess ráðs að úthluta veiðiheimildum þrátt fyrir það, þá er heimilt að taka mið af fleiri þáttum en veiðireynslu. Af fleiri þáttum en veiðireynslu? Gerð og búnaði skipa og eitthvað því um líkt? Gott og vel. En af hverju er þá veiðireynslunni hent? Í raun og veru er tekin 0% tillit til hennar þegar farið er að skipta á einstök skip, 60% samkvæmt burðargetu en 40% jafnt.

Það skortir algjörlega, herra forseti, svör og rökstuðning fyrir þessu. Og af hverju er það? Það er af því að hann er ekki til. Það er enginn rökstuðningur til á bak við þessa reglu. Það eru engin efnisleg rök fyrir því að þetta eigi að vera 60% og 40% frekar en eitthvað annað. Ráðuneyti sjávarútvegsmála hefur á undangengnum tveimur árum viðurkennt það að þetta er algjörlega huglæg smíð, geðþóttaákvarðanir, með því að það liggja fyrir í frumvörpum frá þessu ráðuneyti og tveimur reglugerðum þrjár mismunandi útgáfur af slíku reikniverki. Þrjár mismunandi formúlur flytja verðmætar veiðiheimildir svo nemur þúsundum tonna og það með tekjumöguleika sem mælast í tugum milljóna á milli skipa. Þetta ætla menn að láta sig hafa hér eins og að drekka vatn. Menn leika sér svona með hlutina. Ég, herra forseti, verð að segja það að mönnum er auðvitað fátt heilagt í þessu þegar til kastanna kemur. Verður ekki flökurt núna á vordögum, þeim háu herrum sem ráða ferðinni í ríkisstjórninni eða hitt þó heldur.

Herra forseti. Það hefur sjálfsagt ekki mikið upp á sig að reyna mikið frekar að efna til efnislegrar umræðu um þetta mál. Mér virðist áhugi manna takmarkaður á því að ræða þetta. Kannski er þögnin meira áberandi hér en nokkuð annað, þ.e. hversu ákaflega fáliðaðir stjórnarliðar hafa t.d. verið hér í umræðunum um þetta mál. Ég vek athygli á því að framlag annars stjórnarflokksins, Framsfl., er eitt örstutt andsvar frá hæstv. utanrrh. Að öðru leyti hafa engir þingmenn út þeim flokki séð ástæðu til þess að taka þátt í umræðum um þetta mál, nema ef vera skyldi að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hafi kallað einu sinn fram í. Framlag Sjálfstfl. er svo sem ekki mikið að vöxtum heldur þó að hv. þm. 6. þm. Reykjaness og varaformaður sjútvn. mælti hér fyrir stuttu nál. meiri hluta sjútvn. Síðan hefur hæstv. ráðherra verið til svara.

Og kannski er það vegna þess að einhverjir finnast í hópnum sem eru ekkert sérstaklega hreyknir af þeirri pólitísku ábyrgð sem þeir bera á þessu máli og finnst betur við hæfi að þögnin geymi afstöðu þeirra og tilfinningar en að tjá það úr ræðustóli.

Ég endurtek að lokum, herra forseti, að þetta frv., eins og það er hér úr garði gert, er hin hörmulegasta smíð og á því þarf að gera breytingar. Við höfum lagt til á þskj. 1336 þær breytingar sem við teljum skynsamlegast að gera og stöndum að því sameiginlega, fulltrúar minni hlutans í sjútvn. Verði ekki á þær fallist og frv. eftir sem áður knúið hér áfram til 3. umr. og lokaafgreiðslu þá hef ég áður boðað að ég muni til vara flytja brtt. við 3. umr. um breytingar á úthlutunarreglunum. Þær fela í sér að tekið verði að verulegu leyti mið af veiðireynslu við þessa sértæku úthlutun á þessu þriggja ára tímabili. Ég mun taka mjög vel eftir því, fari svo að þær tillögur komi hér fram og verði bornar til atkvæða, hvernig menn greiða þá atkvæði. Það verður nokkuð sögulegt, herra forseti, ef slíkar tillögur verða felldar hér. Það væri sögulegt vegna þess að þá væru menn að fella það að notast við þá grundvallarreglu sem allt núverandi stjórnkerfi fiskveiðanna byggir á. Menn væru að fella grunndvöll þess að það var tekið upp og þá leikreglu sem hefur verið gengið út frá æ síðan, að veiðireynslan réði. Það verður því nokkuð sögulegt, herra forseti, að sjá hvaða afdrif þetta mál hlýtur hér.