Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 19:44:25 (6376)

1998-05-08 19:44:25# 122. lþ. 122.1 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv. 38/1998, Frsm. 1. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 122. lþ.

[19:44]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. sem dreift hefur verið á borð þingmanna á þskj. 1390 við þetta frv. sem hér var til umræðu og atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. fyrr í dag.

Það fór því miður eins og ég hugði og óttaðist að ekki var stuðningur við það hjá stjórnarliðinu að gera lagfæringar á frv.

[19:45]

Ég hef svo sem kannski ekki mikla trú á að það breytist heldur núna, að menn fallist á að gera þó þær litlu lagfæringar sem væru óumdeilanlega til bóta að mínu mati sem felast í brtt. á þskj. 1390. Þær ganga út á það að í fyrsta lagi verði gildistími 1. gr. frv. takmarkaður með sama hætti við þrjú ár eins og efnisreglur 2. gr. þannig að í raun sé að öllu leyti gengið frá málinu til bráðabirgða í þrjú ár en 1. gr. sé ekki eins og hún var samþykkt eftir 2. umr. að þar er stjórn veiða á norsk-íslenska síldarstofninum tekin varanlega út úr lögunum um stjórn veiða utan fiskveiðilögsögu Íslands. Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á þeim einstæða atburði sem þar er að gerast að þar með er verið að taka eina tiltekna tegund nytjafisks á Íslandsmiðum út undan þeirri löggjöf sem gildir að öðru leyti um stjórn fiskveiða. Úthafsveiðilögin vísa í lög um stjórn fiskveiða eftir því sem við getur átt og með breytingunni er í raun verið að fella síldarstofninn varanlega undan lögunum um stjórn fiskveiða og um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Með breytingu af því tagi sem lögð er til á þskj. 1390 mundi gildistími þeirrar takmörkunar vera sá sami og frv. að öðru leyti, þ.e. þá væri ekki ákveðið, a.m.k. ekki á þessu stigi málsins, að fella síldarstofninn undan úthafsveiðilögunum nema í sömu þrjú ár og stjórn á veiðunum með þeim hætti sem frv. kveður á um.

Seinni tölul. brtt. lýtur að fyrri málsl. b-liðar 2. gr. frv. en þar er á ferðinni reiknireglan fræga sem á nú að nota til að skipta hlut Íslands á milli skipa sem stunduðu veiðar, eitthvert af árunum 1995, 1996 eða 1997 og á að skipta 90% af þeim heildarveiðiheimildum sem koma í hlut Íslands með þeim hætti sem málsliðurinn gerir ráð fyrir og hann er nú nokkuð langur, herra forseti. Það er spurning hvort ekki þarf að taka ýmsa í námskeið hvað varðar eðlilega lengd á setningum þegar hálfar og heilar lagagreinar eru orðnar einn málsliður með þremur, fjórum, fimm kommum í eins og hér getur að líta. Í stað þess að þetta sé þannig gert að 60% sé skipt milli skipanna miðað við burðargetu og án þess að það fyrirbæri sé skilgreint nánar hvað við sé átt og 40% jafnt legg ég til í brtt. á þskj. 1390 að 60% verði skipt á grundvelli veiðireynslu eins og hún liggur fyrir miðað við tvö bestu ár af þremur hjá hverju skipi fyrir sig á árunum 1995--1997. Hér er notuð sú regla sem hefur yfirleitt verið viðhöfð þegar skipt er á grundvelli veiðireynslu að menn fá að henda einu ári ef veruleg frávik hafa verið frá veiðinni miðað við meðaltal á einu ári. Þá má kasta lélegasta árinu í burtu og nota meðaltal tveggja bestu áranna. Almenna ákvæði laganna um stjórn fiskveiða og þessara laga er hins vegar þrjú bestu ár á sex ára tímabili þannig að í raun og veru er sett upp sambærileg viðmiðunarregla en tekur yfir styttra tímabil.

Þeim 40% sem þá væru eftir yrði síðan skipt í samræmi við burðargetu skipanna eins og hún er miðað við stærsta landaðan farm skipanna hingað til. Það er einföld og sanngjörn regla og byggir á því að skipin hafi sýnt hvaða burðargetu þau hafa eða þá veiðigetu og fá sem nemur því. Þetta þýðir að stækkanir á skipum sem hafa komið til eftir að þau stunduðu veiðar á þessum árum og lönduðu förmum eru ekki teknar með. Menn eiga þar af leiðandi ekki þann möguleika eins og er samkvæmt frv. óbreyttu að auka hlut sinn á kostnað annarra með því að setja skip sín í stækkun. Eins og kom fram í orðaskiptum okkar hæstv. sjútvrh. áðan er ljóst að frv. er þannig úr garði gert eins og það stendur núna að sá möguleiki er opinn, hvaða áhrif sem það kemur svo til með að hafa verður auðvitað reynslan að leiða í ljós. Mér kæmi ekki á óvart þótt nokkrir metrar bættust inn í eitt og eitt skip á næstu missirum ef menn eiga þarna opna leið til að ná sér í viðbótarveiðiheimildir á kostnað náungans fyrir ekki neitt með því einu að sjóða smábút inn í skrokkinn á skipinu hjá sér. Eins gæti farið svo að sumir dallarnir hefðu hækkað svolítið í verði núna síðdegis sem menn gætu þá keypt og hverra veiðileyfi mætti þá yfirfæra á ný og margfalt stærri skip með því að færa þau yfir og þannig væru menn að auka hlut sinn.

Með breytingum af því tagi sem lagðar eru til í 2. tölul. tel ég, herra forseti, að ástæða sé til að ætla að mun skárra samkomulag gæti tekist um málið. Ég leyfi mér að fullyrða að hagsmunaaðilar í greininni mundu una því mun betur að viðmiðunin yrði að þessu leytinu til að verulegu leyti reynslan frá undangengnum árum. Með því er einnig að nokkru leyti komið til móts við þá sem voru brautryðjendur í veiðunum og þá sem hafa á undanförnum árum náð mestum árangri, þá sem hafa fjárfest, útbúið sig til þessara veiða, keypt dýr veiðarfæri og fiskleitartæki. Það hlýtur að teljast a.m.k. einhver vottur af sanngirni í því að eins og leikreglurnar eru lögfestar á Alþingi taki þær eitthvert mið af veruleikanum í þeim efnum.

Ef vilji manna er að hafa þetta eftir sem áður óbreytt verður í öllu falli ekki sagt, herra forseti, að sá sem hér stendur hafi ekki reynt til þrautar að koma a.m.k. einhverju viti í óskapnað sem þetta frv. í sjálfu sér er.

Ég spurði, herra forseti, um rökin fyrir reiknireglu hæstv. ráðherra og ráðuneytis sem hefur sjálfsagt unnið uppkastið að þessu frv. Nú er það auðvitað þannig að það er alveg sama hvaða viðmiðanir eða aðferðir af þessu tagi eru notaðar, þær eru alltaf umdeilanlegar. Það er að sjálfsögðu einnig sú regla sem ég lagði til í breytingartillögunni. Alveg eins má spyrja mig hver rökin séu fyrir því að hafa þetta 60% veiðireynslu og 40% burðargetu, er það eitthvað betra? Svarið er einfaldlega það, sem ég kom inn á áðan, að ég held það sé miklu nær þeim veruleika sem við stöndum frammi fyrir í þessum efnum. Um það verði miklu frekar einhver sátt og það sé mun auðveldara að rökstyðja að eðlilegt sé að taka mið af reynslunni með þessum hætti en t.d. að útskýra fyrir mönnum hvaða vísindi liggi á bak við að úthluta 40% af þessum veiðiheimildum jafnt til allra, stórra sem smárra, þeirra sem náð hafa árangri í þessum veiðum sem til hinna sem engum eða litlum árangri hafa náð o.s.frv. Það er einnig umhugsunarefni, herra forseti, að frá sjútvrn. og hæstv. sjútvrh. hafa á undanförnum tveimur árum komið þrenns konar útgáfur af skiptareglum af þessu tagi. Ekki bendir það til þess að það séu mjög mikil og nákvæm efnisleg vísindi á bak við aðferðafræðina enda liggur það auðvitað fyrir og stendur upp úr eftir þessar umræður að hér er á ferðinni hrein geðþóttaaðgerð, að velja þessar reglur frekar en einhverjar aðrar.

Herra forseti. Ég ætla ekkert að hafa orð mín fleiri. Mér er það ljóst að mönnum finnst það til leiðinda að þurfa að hanga á föstudagskvöldi yfir því að ræða um síldina sem ýmsir hafa ekki mikinn áhuga á að því er virðist og ég sá náttúrlega fýlusvipinn færast yfir hvert andlitið af öðru af því maður leyfði sér þann munað að biðja um að fá að útbúa breytingartillögur og taka í það hálftíma. Ég verð að segja alveg eins og er að það er nokkurt umhugsunarefni þegar þannig er komið að efni málsins sem í hlut á skiptir ekki nokkru máli. Mér finnst það satt best að segja, herra forseti, alltaf heldur ömurlegt þegar maður verður vitni að því á Alþingi hversu handjárnin eru sterk og hlekkirnir traustir sem tengja þau saman milli úlnliðanna. Þegar maður hefur nokkuð sterka sannfæringu fyrir því að öll rök í málinu mæli með tilteknum hlutum frekar en öðrum, en það kemur fyrir ekki, það skiptir að því er virðist engu máli, efast maður stundum um að það sé þess virði að standa í þessu stappi og setja sig inn í mál og reyna að vinna þau, hvort heldur er í þingnefndum eða í umræðum eða að öðru leyti. Er þá ekki best að menn hafi þetta bara eins og þeim sýnist? Kannski eru það þeir stjórnarhættir sem við erum því miður í æ ríkari mæli, m.a. á þessum vordögum, að verða vitni að, að efni sem er til umfjöllunar eða afgreiðslu er ekki það sem að lokum ræður, ekki rök og gagnrök og einhver skynsamleg nálgun mála heldur einhverjir aðrir hlutir sem eru því yfirsterkari. Ég tók þó eftir því að einn hv. þm. stjórnarliðsins lét ekki múlbinda sig að öllu leyti í atkvæðagreiðslunni áðan og ég óska honum til hamingju með að hafa sýnt það sjálfstæði í hugsun og þann kjark að þora að fylgja sannfæringu sinni í málinu. Betur að það hefðu verið fleiri.