Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 10:48:40 (6378)

1998-05-09 10:48:40# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[10:48]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. skrifa ég undir það með fyrirvara og áskil mér rétt til að flytja og fylgja brtt. sem fram kunna að koma við frv. Við þetta frv. um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta flyt ég brtt. ásamt hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur og Guðnýju Guðbjörnsdóttur.

Meginefni þessa frv. er afar þýðingarmikið og raunar grundvallaratriði að með frv., ef að lögum verður, er því lýst yfir að íslenska ríkið, þjóðin, sé eigandi lands og landsréttinda í þjóðlendum sem eru ekki þegar háð einkaeignarrétti. Meginatriðið er því að verið er að lögfesta eignarrétt þjóðarinnar á hálendinu þar sem helstu náttúruperlur landsins eru og auðlindir þjóðarinnar. Þessu ber að fagna og það grundvallaratriði styð ég að sjálfsögðu.

En vissulega ber skugga á þetta mikilvæga mál þar sem er ákvæði í frv. félmrh. um sveitarstjórnarlög sem rætt hefur verið mikið síðustu daga og var til atkvæða í gær. Það veldur vissulega miklum vonbrigðum, ekki bara margra okkar inni í þessum þingsal heldur úti í þjóðfélaginu og hef ég orðið mjög vör við það eftir þá atkvæðagreiðslu sem þar fór fram. Ég held að það sé ljóst að a.m.k. enn sem komið er ætlar meiri hlutinn að því er það mál varðar að knýja það í gegn gegn vilja stórs hluta þjóðarinnar. Engu að síður er þetta mál mjög mikilvægt þó að þennan skugga beri þar á og því styð ég heils hugar meginefni þessa frv. þó að ég geri athugasemdir og brtt. við einstakar greinar frv.

Þær athugasemdir sem ég geri varða sérstakar reglur og málsmeðferð um stjórn þjóðlendnanna. Ég geri miklar athugasemdir við það og á því byggist fyrirvari minn m.a. Með frv. er hæstv. forsrh. fært allt of mikið einræðisvald á framkvæmd laganna og framsal löggjafarvaldsins til ráðherra er afar óeðlilegt. Má þar nefna að forsrh. ákvarðar gjaldtöku og hve háð hún verður fyrir nýtingu réttinda án nokkurra leiðbeininga í löggjöf við hvað skuli miðað. Einnig að forsrh. ákvarðar hvernig tekjum af leyfum til nýtingar lands skuli varið til landbóta, umsjónar og eftirlits og hvernig tekjum skuli útdeilt til þessara verkefna.

Hvorki gjaldtakan né ráðstöfun af tekjum þurfa að hljóta staðfestingar Alþingis sem er afar óeðlilegt. Forsrh. fer einn með vald um hvernig óbyggðanefnd verði skipuð en hann skipar alla þrjá nefndarmenn. Óljóst er einnig hvernig skera á úr ágreiningi milli forsrh. og sveitarstjórnar, sbr. 3. gr. þessa frv.

Síðast en ekki síst, herra forseti, er ekki tryggt að tekið sé nægjanlegt tillit til umhverfismála og náttúruverndarsjónarmiða og alþjóðlegra skuldbindinga í því efni auk þess sem málsmeðferðarreglur vantar og á það einnig við um hvernig haga skuli gjaldtöku þeirri sem kveðið er á um í 3. gr.

Brtt. minni hlutans lúta því að þeim þáttum sem ég hef nefnt ásamt því að draga úr óeðlilegu valdi forsrh. sem fram kemur í frv. Ég vil nefna áður en ég fer yfir brtt. og umsagnir þeim tengdar að ég styð þær brtt. sem fram koma frá allshn. og formaður allshn. hefur kynnt. Ég tel þær að sjálfsögðu allar vera til bóta þó að þær séu út af fyrir sig ekki mjög mikilvægar að því er varðar efni þessa frv.

Ég vil sérstaklega geta einnar þeirra sem ég tel afar þýðingarmikla út af fyrir sig og það er að forsrh. sé ,,heimilt að veita aðila að máli fyrir óbyggðanefnd gjafsókn í samræmi við reglur XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en þó að teknu tilliti til þess að mál fyrir óbyggðanefnd kemur í stað málshöfðunar eða málsvarnar fyrir héraðsdómi eða æðra dómi. Umsögn óbyggðanefndar um gjafsókn skal koma í stað umsagnar gjafsóknarnefndar. Þrátt fyrir skilyrði 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að veita aðila sem fer með fyrirsvar skv. 2. mgr. 11. gr. laganna, lögaðilum og einkaaðilum gjafsókn, enda hafi úrlausn máls

a. verulega almenna þýðingu eða

b. varði verulega miklu um hagsmuni umsækjanda og kostnaður af gæslu hagsmuna hans í málinu hefur fyrirsjáanlega mjög veruleg áhrif á efnahag umsækjanda.``

Þessarar tillögu vildi ég sérstaklega geta sem ástæða er til að fagna.

Brtt. okkar í minni hlutanum koma fram á þskj. 1291 sem ég vildi þá gera í máli mínu að sérstöku umtalsefni, skýra þær nánar, styðja þær með umsögnum sem fram hafa komið í meðferð nefndarinnar sem sýna fram á ljós rök fyrir þeim brtt. sem við flytjum. Einnig vil ég nefna, herra forseti, án þess að fara mikið út í þær brtt. að ég er einnig aðili að brtt. á þskj. 1292 sem Rannveig Guðmundsdóttir flytur ásamt mér og hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur og mun hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir væntanlega skýra þær brtt. við umræðuna en þær tengjast að verulegu leyti því frv. til sveitarstjórnarlaga, ákvæðinu þar til bráðabirgða og 1. gr. þess frv. sem mikið hefur verið fjallað um síðustu dagana.

Um þetta stóra og mikla mál hefur nefndin fengið fjölda umsagna og vil ég sérstaklega, herra forseti, fara stuttlega yfir þær sem tengjast þeim brtt. sem við flytjum og styðja við þær brtt. sem ég mæli fyrir.

Fyrsta brtt. sem við flytjum er við 3. gr. frv. og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Á eftir 2. mgr. komi ný málsgrein er orðist svo:

Fullt tillit verði tekið til umhverfisverndar og alþjóðlegra skuldbindinga í því efni og sjálfbærrar nýtingar í þjóðlendum. Í leyfum sem veitt eru samkvæmt lögum þessum skal greina þau skilyrði sem leyfishafa eru sett, þar á meðal um gildistíma leyfis, skýrslugjöf leyfishafa, skyldu hans til að hlíta eftirliti og greiða kostnað af því, um öryggis- og umhverfisráðstafanir, kaup vátrygginga vegna hugsanlegrar skaðabótaábyrgðar leyfishafa og um greiðslu leyfisgjalds.``

Þessi brtt. snýr að því sem ég nefndi í inngangi mínum að ég tel að í frv. þurfi að vera skýrari málsmeðferðarreglur en gert er ráð fyrir og brtt. mundi verulega bæta þar úr.

Ég ætla aðeins, herra forseti, áður en ég held áfram að mæla fyrir brtt. að víkja nokkuð að umsögnum sem verulega snúa að umhverfisþættinum sem margir umsagnaraðilar telja að vanti í frv.

Í fyrsta lagi gerir Ferðamálaráð Íslands athugasemdir við 2. gr. frv. en þar segir:

,,Framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs telur eðlilegra að forræði á landi í þjóðareign sé allt á höndum forsrh. en ekki í höndum sveitarfélaga. Það fyrirkomulag sé líklegra til árekstra og mismunandi beitingu forræðisvalds mismunandi sveitarfélaga.``

Þessi athugasemd gæti vel og sem best átt við það frv. sem var hér til afgreiðslu í gær.

,,Þá gerir framkvæmdastjórnin athugasemd við heimild til gjaldtöku einstakra sveitarfélaga fyrir afnot af landi í þjóðareign. Sé sá skilningur réttur að sveitarstjórn geti tekið leigugjald fyrir afnot af landi í eigu ríkisins er það skoðun stjórnarinnar að slík heimild geti leitt til vandræða við rekstur ferðaþjónustu.

Hér er að mati framkvæmdarstjórnar um að ræða varhugaverða heimild til gjaldtöku sem sett er fram án frekari skýringa.``

Ég hygg, herra forseti, að sú grein sem hvað mest hefur verið rædd og sú grein sem ýmsar athugasemdir hafa helst komið fram við sé 3. gr. frv. sem kveður á um afnot af þjóðlendum og leyfi forsrh. til að nýta vatns- og jarðhitaréttindi, námur og önnur jarðefni innan þjóðlendu og síðan hvenær þarf leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar til þess að nýta land og landsréttindi en frv. kveður á um að sé nýting heimiluð til lengri tíma en eins árs þurfi jafnframt samþykki forsrh. auk leyfis sveitarstjórnar.

[11:00]

Hér er afar athyglisvert ákvæði, herra forseti, sem mér finnst ekki komin nægileg skýring á. Um samskipti þessara tveggja stjórnvalda, forsrh. og sveitarstjórna, sem hafa í hendi sér leyfisveitingar varðandi nýtingu lands, þá segir að ,,rísi ágreiningur um veitingu leyfa samkvæmt þessari málsgrein sker forsætisráðherra úr honum``. Tveir valdhafar deila og annar hefur vald til að skera úr ágreiningi. Þetta finnst mér afar sérstætt og tel að menn hefðu átt að skoða hvort ekki væri hægt að koma þessu fyrir á betri vegu en þann að forsrh., sem þá er aðili að máli þegar tveir deila, hafi síðan úrskurðarvald til að skera úr um ágreining. Á þetta er einmitt bent í umsögnum.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga gera athugasemd við frv. Þar segir að eftirfarandi lagfæringu þurfi að gera á 3. og 4. mgr. í 3. gr. frv.:

,,Nánar þarf að kveða á um að einungis er átt við ráðstöfun lands, vatns- og jarðhitaréttinda og jarðefna, hvort heldur er til eins árs eða lengri tíma. Koma þarf fram að ekki sé áætlað að skerða lögbundinn stjórnsýslurétt sveitarstjórna svo sem samkvæmt sveitarstjórnarlögum, jarðalögum, lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, skipulags- og byggingarlögum, fjallskilasamþykktum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Ekki kemur fram í frv. nægilega glöggt hvort forsrh. er ætlað að skera úr um hugsanlegan ágreining sveitarstjórna og umsækjenda eða hvort einnig er átt við hugsanlegan ágreining milli forsrh. sjálfs og sveitarstjórna.``

Síðan segja þeir, og það er einmitt athugasemd við þetta úrskurðarvald forsrh., með leyfi forseta:

,,Æskilegt er að fram komi að ef ágreiningur rís með forsrh. og sveitarstjórn um ráðstöfun lands skuli því vísað til einhvers þriðja aðila til úrskurðar eða jafnvel beint til dómstóla.``

Orkustofnun gerir athugasemdir að því er varðar gjaldtökuákvæði sem fram kemur í 3. gr. Í þeirri grein segir m.a., með leyfi forseta:

,,Forsætisráðherra er heimilt að ákvarða eða semja um endurgjald (leigu) fyrir nýtingu réttinda sem hann heimilar skv. 2. mgr. Með sama hætti er sveitarstjórn heimilt að fengnu samþykki forsætisráðherra að semja um endurgjald vegna afnota sem hún heimilar skv. 3. mgr. Tekjum af leyfum til nýtingar lands skv. 2. mgr. skal varið til landbóta, umsjónar, eftirlits og sambærilegra verkefna innan þjóðlendna, eftir nánari ákvörðun forsætisráðherra.``

Við í minni hlutanum gerum einmitt brtt. við þetta og það kemur fram í b-lið 1. tölul. brtt., en þar segir:

,,Á eftir 1. málsl. 4. mgr. komi fjórir nýir málsliðir er orðist svo: Gjaldið sem ráðherra ákvarðar skal taka tillit til verðmætis þess sem afnot eru heimiluð á. Nánari ákvæði um gjaldtöku skal setja í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Ráðherra skal þá láta bjóða út nýtingu lands og landsgæða í þjóðlendum þegar ætla má að um verðmæta nýtingarkosti sé að ræða. Útboð skulu þá fara fram samkvæmt ákvæðum laga um framkvæmd útboða, nr. 65/1993.``

Ég tel, herra forseti, að eðlilegra og skynsamlegra sé, jafnvel þó vísa megi til annarra laga um þessi efni, að hafa þessi ákvæði til staðar í frv., þessum lögum. Það er mjög brýnt að allar málsmeðferðarreglur séu skýrar, ekki síst þegar um er að ræða gjaldtöku og framsal Alþingis á gjaldtöku til hæstv. forsrh. án þess að þingið komi þar nærri. Forsrh. á hins vegar að gefa Alþingi reglulega skýrslu um þessa gjaldtöku og hvernig henni er ráðstafað. Æskilegt hefði verið að hv. formaður fjárln., sem sæti á í allshn., hefði verið viðstaddur þegar við ræðum þessa gjaldtöku og ráðstöfun hennar. Ég varð vissulega vör við það í hv. allshn. að hv. formanni fjárln. var nokkuð órótt vegna þessa framsals á gjaldtökunni.

Við í minni hlutanum bárum fram nokkrar fyrirspurnir til forsrn. Þær voru m.a. varðandi þessa gjaldtöku með eftirfarandi spurningum: Fyrir hvaða réttindi getur forsrh. tekið gjald samkvæmt fyrri málsl. 4. mgr. 3. gr. frv. og fyrir hvaða afnot geta sveitarstjórnir tekið gjald samkvæmt síðari málsl. sömu greinar? Þetta er mjög óljóst í frv. Ég ætla að lesa svör forsrn., sem Kristján Andri Stefánsson í forsrn. tekur saman, en þar segir varðandi réttindi forsrh. til gjaldtökunnar:

,,Tilvitnað ákvæði gerir ráð fyrir að forsrh. geti ákvarðað eða samið um endurgjald eða leigu fyrir nýtingu réttinda sem hann fer með samkvæmt 2. mgr. sömu greinar. Það ákvæði felur forsrh. að fara með:

1. vatnsréttindi,

2. jarðhitaréttindi,

3. námur og

4. önnur jarðefni innan þjóðlendu, nema lög mæli á annan veg.

Þarna eru talin upp þau réttindi sem forsrh. er einum veitt heimild til að taka gjald eða semja um leigu fyrir. Forsrh. kemur einnig að gjaldtöku eða leigu vegna þeirra réttinda sem sveitarfélögum er veitt heimild til að semja um, samanber svar við annarri spurningu hér á eftir, því sveitarstjórn þarf að fá samþykki forsrh. til slíkra samninga.``

Þá komum við að sveitarstjórnunum, herra forseti, þ.e. fyrir hvaða afnot sveitarstjórnirnar geta tekið gjald. Ég held að mikilvægt sé að skýra það og að fyrir liggi skýrar lagaheimildir um það hvernig sveitarstjórnir geta beitt þessu valdi sem þeim vissulega er fengið. Heimild Alþingis að því er varðar þessa gjaldtöku er nokkuð opin. En í svari forsrn. segir:

,,Sveitarstjórnum er heimilað að semja um endurgjald vegna þeirra afnota sem þau hafa heimild til að veita en þó aðeins að fengnu samþykki forsrh., sbr. 3. mgr. 3. gr. frv. Undir þessi afnot fellur öll önnur leyfisskyld nýting, samanber skilgreiningu 1. mgr. 3. gr., heldur en talin er upp í 2. mgr. 3. gr.

Þarna getur því verið um að ræða margvísleg afnot eða nýtingu og næsta erfitt að telja þessi afnot upp með tæmandi hætti. Sem dæmi má þó nefna byggingu mannvirkja, uppsetningu girðinga fyrir ferðahross og söfnun fjallagrasa. Jafnframt er rétt að minna á að samþykki forsrh. þarf til að heimila nýtingu til lengri tíma en eins árs.``

Herra forseti. Að nokkru er komið inn á hvernig nýta má þessa gjaldtöku og nokkrir þættir tilgreindir en það er undirstrikað í þessari greinargerð að þetta sé alls ekki tæmandi. Mér finnst losaralega um gjaldtökumálin búið af hálfu þingsins, herra forseti, og hefði talið að með einhverjum hætti ætti að festa þetta í löggjöfinni sjálfri eða a.m.k., herra forseti, að reglugerð, sem maður gerir ráð fyrir að sett verði um þessa gjaldtöku, yrði borin undir til að mynda allshn. Það er ljóst að hægt er að gera þetta að stórum gjaldstofni hjá sveitarfélögunum ef þau svo kjósa. Þau hafa enga leiðbeiningu eða forskrift frá Alþingi um þessa gjaldtöku.

2. tölul. brtt. okkar hljóðar svo:

,,Við 4. gr. 4. málsl. 1. mgr. orðist svo: Þá skal nefndin`` --- það er þessi nefnd sem á að skipa samkvæmt 4. gr. sem kölluð er samstarfsnefnd um málefni þjóðlendna --- ,,árlega gera tillögur til fjárlaganefndar Alþingis um ráðstöfun tekna af réttindum innan þjóðlendna að fenginni umsögn Náttúruverndar ríkisins og Landgræðslu ríkisins.``

Og c-liður 1. tölul. brtt. okkar sem er við 3. gr. hljóðar svo:

,,Tekjum af leyfum til nýtingar lands skv. 2. mgr. skal varið til landbóta, umsjónar, eftirlits og sambærilegra verkefna innan þjóðlendna, samkvæmt ákvörðun Alþingis.``

Þarna er komin hin eðlilega tenging sem þarf að vera, þ.e. að löggjafarsamkundan framselji ekki alveg þennan opna tékka yfir til forsrh. og sveitarstjórna, heldur hafi hún eitthvert ráðrúm til þess að hafa hönd í bagga og fjalla um hvernig gjaldtökunni skuli háttað og til hvers henni verði ráðstafað. Ég tel, herra forseti, grátt svæði, svo ég taki ekki dýpra í árinni en það, þegar Alþingi framselur vald til framkvæmdarvaldsins sem hin síðari ár er orðið allt of mikið um. Við framseljum valdið í opnum gjaldtökuheimildum, í æ meiri mæli, með reglugerðarheimildum til ráðherra o.s.frv.

Ég held að það sé ekki til fyrirmyndar, þegar setjum svona mikilvæga löggjöf, að ekki sé betur gengið frá svona atriðum af hálfu löggjafans, atriðum eins og gjaldtöku sem vissulega getur kallað á deilur og óánægju þegar sveitarstjórnirnar hafa fengið þetta vald. Þetta vil ég undirstrika vegna þess að þessu höfum við í minni hlutanum miklar áhyggjur af og í nefndinni var töluvert rætt um hvort ekki ættu að vera skýrari leiðbeiningarreglur fyrir framkvæmdarvaldið varðandi þetta.

Ég hef verið að fara yfir 3. gr., herra forseti, og þær ábendingar, gagnrýni og athugasemdir sem fram koma í umsögn um þetta mál.

Ég vitnaði til þess að Orkustofnun gerir athugasemdir varðandi ráðgerð gjaldtökuákvæði. Þegar þeir eru búnir að rekja hvernig þessari gjaldtöku skuli háttað segja þeir að þá verði ,,að álykta að endurgjald af afnotum lands og landsgæða í þjóðlendum, sem frv. kveður á um, verði ekki stórvægilegt og nægi ekki til að tryggja jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á verðmætum gæðum eins og virkjunarrétti.``

Hér sjáum við strax að þetta getur valdið deilum, svona opin ávísun frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins.

[11:15]

Náttúruverndarráð gerir athugasemd við 3. gr. og segir, með leyfi forseta:

,,Náttúruverndarráð telur að eðlilegra sé að umhvrh. fari með ráðstöfun réttinda í þjóðlendum en forsrh. Eðlilegra verði að teljast að starfsmenn umhvrn. fjalli um umsóknir þar um og meti þær en starfsmenn forsrn. Reynsla og menntun starfsfólks umhvrn. hlýtur að vega nokkuð þegar fjallað verður um afnot af landinu en sérhæft starfsfólk á þessu sviði er ekki í forsrn.``

Þó að ég sé ekki sammála því að umhvrh. eigi að fara með ráðstöfun réttinda á þjóðlendum fremur en forsrh. þá eru þetta þó athugasemdir sem taka verður tillit til. Það er eðlilegt og rökrétt að þannig sé haldið á málum að starfsmenn umhvrn. fjalli um umsóknir og veiti a.m.k. umsagnir um það en vera má að 4. gr. frv. um samstarfsnefndina, þar sem umhvrh. kemur að máli, vegi eitthvað upp á móti þeirri gagnrýni sem hér kemur fram.

Síðan er það Landgræðsla ríkisins. Þeir segja, með leyfi forseta:

,,Það er skilningur Landgræðslunnar að orðið ,,landbóta`` í 3. mgr. vísi m.a. til aðgerða vegna gróður- og jarðvegsverndar. Því telur Landgræðslan að slíkar aðgerðir standi utan þess sem 4. og 5. mgr. taka til enda sé ekki um nein ,,afnot`` að ræða heldur tímabundnar aðgerðir sem aftur hafa ekki áhrif á gildi þeirra hefðarnota sem vísað er til í 5. gr. Í 1. mgr. greinargerðar við 3. gr. er m.a. vísað til landgræðslu. Landgræðslan telur að greinin vísi aðeins til þess sem þar segir, þ.e. einstaklinga og félagasamtaka. Með tilvísan til laga um landgræðslu telur Landgræðsla ríkisins að hún sé til þess bær aðili að segja til um nýtingu lands til beitar og annars þess er áhrif kann að hafa á gróður og jarðveg. Enn fremur telur Landgræðsla ríkisins að orðin ,,til eigin nota`` taki ekki til þess er land er tekið til uppgræðslu. Í því tilfelli er ekki um not að ræða sbr. hér að framan. Því telur Landgræðslan að ráðstöfun lands, svo sem rædd er í greinargerðinni skuli ávallt vera með tilliti til ástands lands, svo sem mælt er fyrir um í lögum.``

Ástæða er til að nefna það þegar við ræðum athugasemdir Landgræðslu ríkisins að það kemur einmitt fram í brtt. okkar minnihlutaþingmanna í allshn. að við teljum rétt og gerum um það brtt. að nefndin, þ.e. samstarfsnefnd um málefni þjóðlendna sem fjallar m.a. um tekjurnar og ráðstöfun þeirra, geri árlega ,,tillögur til fjárlaganefndar Alþingis um ráðstöfun tekna af réttindum innan þjóðlendna að fenginni umsögn Náttúruverndar ríkisins og Landgræðslu ríkisins.`` Við teljum eðlilegt að þetta sé þannig.

Auðvitað var farið yfir það, herra forseti, í nefndinni um hve háar fjárhæðir gæti verið að ræða að því er gjaldtökuna varðar. Ekki nokkur maður treystir sér til að nefna það hvað verið er að ræða háar upphæðir í þessu efni og á því verður maður að hafa skilning. Auðvitað erfitt að kasta einhverri tölu á það en engu að síður er það viðbótarrökstuðningur fyrir því að málsmeðferðarreglur ættu að vera skýrari, skýrari leiðbeiningar að því er varðar þessa gjaldtöku.

Hvað segir forsrn. um það á því minnisblaði sem við fengum þegar forsrn. var beðið um að svara því hvað sé unnt að segja um fjárhæð þessara gjalda? Þar segir, með leyfi forseta:

,,Forsætisráðherra og eftir atvikum sveitarstjórnir fara þarna með þau hefðbundnu eignarráð að semja um endurgjald fyrir nýtingu eignar, annaðhvort með því að semja um leigugreiðslu fyrir ákveðið leigutímabil eða gjald fyrir ákveðin afnot. Þó að forsrh. og sveitarstjórnir fari þarna með eignarráð fasteignaeigenda verða þessi stjórnvöld að byggja ákvarðanir um ráðstöfun afnota innan þjóðlendna og um endurgjald fyrir þau á þeim reglum sem almennt gilda um störf og starfshætti stjórnvalda, jafnt skráðum sem óskráðum.``

Það er nú það, herra forseti. Og áfram segir hér, með leyfi forseta:

,,Af því leiðir m.a. að þær ákvarðanir verða að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og gæta verður jafnræðis milli aðila. Þá verður við ákvörðun um endurgjald fyrir nýtingu réttinda innan þjóðlendna að gæta þess að þau raski ekki samkeppnisstöðu annarra sem ráðstafa hliðstæðum réttindum. Á þessu stigi liggja ekki fyrir áætlanir um fjárhæð endurgjalds fyrir heimild til nýtingar einstakra réttinda innan þjóðlendna en ætla verður í samræmi við framangreind sjónarmið að þar verði þess gætt að taka mið`` --- ætla verður, herra forseti, ég bendi á þetta orðalag --- ,,ætla verður í samræmi við framangreind sjónarmið að þar verði þess gætt að taka mið af verðmæti þeirra réttinda sem um ræðir hverju sinni og þar á meðal arðsemi þeirrar nýtingar sem leyfið tekur til. Það verður því verkefni forsrh. og eftir atvikum sveitarstjórna að gæta þess að í hlut þjóðlendunnar komi eðlilegt endurgjald fyrir nýtinguna og þá í samræmi við það sem tíðkast um slík réttindi á almennum markaði sé honum til að dreifa.``

Allt er þetta nokkuð óljóst, herra forseti, þó að það verði að virða viðleitni forsrn. og starfsmanna þess um að leggja eitthvert mat á þessa gjaldtöku.

Síðan, herra forseti, spurðum við forsrn. um það sem formaður fjárln. hafði nokkrar áhyggjur af og ekki síður við í minni hlutanum. Eftirfarandi spurning var borin fyrir forsrn.: Er unnt að ákvörðun um ráðstöfun tekna af leyfum vegna nýtingar lands verði hjá Alþingi í stað ráðherra?

Þetta er sérkennileg spurning. Auðvitað er það Alþingi sjálft sem ákvarðar hvort það sé eðlilegt. Við erum einungis að biðja um afstöðu ráðuneytisins eða skoðun ráðuneytisins, umsögn ráðneytisins á því. Auðvitað hefur forsrn. ekkert vald á því hvernig Alþingi lendir þessu máli. Engu að síður er svarið eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Tekjum af leyfum til nýtingar lands samkvæmt 2. og 3. mgr. 4. gr. frv. skal samkvæmt 4. mgr. sömu greinar verja til eftirtalinna verkefna innan þjóðlendna:

1. landbætur,

2. umsjón,

3. eftirlit og

4. önnur sambærileg verkefni.

Ráðstöfun teknanna er þannig bundin með lögum og þær renna ekki í ríkissjóð eða viðkomandi sveitarsjóði eins og annars mundi vera. Með þessu móti ganga tekjurnar til að sinna ákveðnum verkefnum eða þörfum innan þjóðlendnanna sjálfra og þannig halda þær að nokkru sögulegri sérstöðu sinni sem um margt kemur þá til með að svipa til nokkurs konar sjálfseignarstofnana.``

Þá höfum við það. Þessu er líkt við það að hér sé um að ræða sögulega sérstöðu sem um margt kemur þá til með að svipa til nokkurs konar sjálfseignarstofnunar. Mér finnst þarna ansi langt seilst í rökstuðningi. Hver fer með ráðstöfun teknanna? Það er einn maður, forsrh., og hann er hér borinn saman við sjálfseignarstofnun. Það er sett samasemmerki á milli forsrh. og sjálfseignarstofnana. Mikið er nú valdið, herra forseti. Mér finnst þetta ansi veikur rökstuðningur og tæpur og varla boðlegt að líkja þessu saman. Síðan er haldið áfram, með leyfi forseta:

,,Þá er í 5. mgr. 4. gr. gert ráð fyrir að Ríkisendurskoðun endurskoði reikninga um innheimtu og ráðstöfun tekna af þjóðlendum og að forsrh. gefi Alþingi árlega skýrslu um ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna og tekna af gjöldum fyrir slík réttindi. Þingmenn geta eftir ákvæðum laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, krafist umræðu um þá skýrslu, eigi ráðherra ekki frumkvæði að því sjálfur. Að þessu virtu og meðan ekki er sýnt um hversu mikla fjármuni er hér að ræða þykir ekki varhugavert að fela stjórnvöldum að ráðstafa tekjum af þjóðlendum án sérstaks atbeina Alþingis, enda er ráðstöfun teknanna að lögum bundin við tiltekin verkefni og forsrh. er skylt að gera Alþingi grein fyrir umsýslu sinni með þessa fjármuni á hverju ári. Á hinn bóginn má hér minna á að í framsöguræðu með frv. lét forsrh. svo mælt að með samþykkt þess væri aðeins fyrsta skrefið á lengri leið tekið og að fyrir fram yrði ekki séð við öllum þeim vandamálum sem upp kynnu að koma og úr þeim leyst á einu bretti. Um framtíðarskipan ýmissa þeirra málaflokka sem þar yrði við að fást þyrfti því að fjalla sérstaklega og ekki í sömu andrá og þetta skref væri tekið.``

Þarna féll dómurinn í málinu frá forsrh., þ.e. að með öllu eðlilegt sé að þetta sé á hendi forsrh. og seilst í að bera þetta saman við sjálfseignarstofnanir og engin ástæða til þess að Alþingi komi að málinu eins og eðlilegt mætti telja. Og þá er dómurinn náttúrlega fallinn. Ef forsrn. segir: ,,Nei, við erum ekki meðmælt því að breyta þessu ákvæði í frv.``, þá er hlýðir meiri hlutinn því. Þetta er sjálfstæði þingsins, herra forseti. Ekki má ræða málefnalega um hluti, hvort eðlilegt sé að Alþingi fjalli um meðferð fjármuna og fjalli um það hvernig þeim sé ráðstafað. Forsrh. kemur með frv. inn í þingið sem er opið að því er þetta varðar. Þingmenn hafa áhyggjur af því er varðar ráðstöfun á þessum fjármunum, hvernig með gjaldtökuna skuli farið og vilja að Alþingi komi þar að og fjárln. Forsrn. segir nei og ber við ansi skrýtnum rökum og þá er málið afgreitt af hálfu meiri hlutans. Þannig er nú komið sjálfstæði þingsins. (SP: Af hálfu hvers?) Það hefði verið ágætt ef hv. formaður allshn. hefði verið hér inni. Við höfum rætt mikið í allshn. um það sem ég kalla opna heimild til forsrn. varðandi ráðstöfun á þessum fjármunum og ákvörðun um gjaldtöku og þeirri fyrirspurn var beint til forsrn. hvaða afstöðu þeir hefðu til þess að ráðstöfun þessara tekna yrði hjá Alþingi. Það sem ég sagði, herra forseti, var að forsrn. --- ég las upp úr greinargerð þess --- lagðist greinilega gegn nokkurri breytingu á þessu. Því sagði ég, herra forseti, að þá væri málið útrætt af hálfu meiri hlutans. Þegar forsrn. og forsrh. hefur kveðið upp sinn dóm þá er ekki hægt að taka tillit til þess. Ef forsrh. hefði opnað fyrir það að tengja þetta meira Alþingi þá hefði meiri hlutinn orðið við því. Svona eru leikreglurnar og svona er lýðræðið og sjálfstæðið, sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Ég er ekki að nefna þetta, herra forseti, af því að þetta sé eina atriðið sem falli undir það sem ég er að tala um, þ.e. sjálfstæði þingsins, virðingu og samskipti þess við framkvæmdarvaldið. Þetta er á mörgum sviðum, ekki bara í því máli sem við fjöllum nú um heldur mjög víða í frumvörpum sem koma frá ríkisstjórninni. Ég er aðeins að vekja athygli á því undir þessum lið af því að þetta tengist því beint og umsögn forsrn. gaf tilefni til þess að fjalla um málið á þennan hátt.

Ég er búin að fara yfir, herra forseti, Landgræðsluna. Félag ísl. náttúrufræðinga gerir einnig athugasemd við 3. gr. --- Herra forseti. Nú sé ég að hv. formaður fjárln. er genginn í salinn og hefði ég gjarnan viljað að hann hefði verið hér á meðan ég fjallaði um það hvort ekki væri æskilegt að fjárln. kæmi meira að gjaldtökunni sem á að vera í höndum forsrh. og hvernig eigi að ráðstafa þeim fjármunum. Ég ætla ekki að endurtaka þá ræðu. En ég veit að hv. formaður fjárln. er nokkuð hugsi yfir þessu. Ég tel svo vera. Ég sé það bara á honum þannig að auðvitað væri æskilegt að hann tjáði sig um þetta mál í þessari umræðu.

Ég ætla að víkja að Félagi ísl. náttúrufræðinga. Þeir segja um 3. gr., með leyfi forseta:

[11:30]

,,Færa má ýmis rök að því að eignarhald hálendis, þar með talin hlunnindi þess og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti, séu best komin í höndum ríkisvaldsins, það er fulltrúi allrar þjóðarinnar í þessu tilviki. Þau lönd sem frv. gerir ráð fyrir að falli undir þjóðlenduhugtakið eru svæði sem hingað til hafa verið til takmarkaðra almennra nytja, fyrst og fremst bænda. Á síðari árum hefur annars konar landnýting þó aukist verulega þar sem er aukin útivist og ferðalög almennings. Einkaeignarréttur stórra svæða getur unnið gegn hagsmunum þessa sístækkandi hóps og það ber að forðast. Telja má að þessir nýtilkomnu hagsmunir almennings séu ríkari en aðrir og að þeim sé best borgið með skýrum eignarréttarákvæðum eða yfirráðaréttarákvæðum ríkisins.``

Síðan vil ég fara í umsögn Náttúrufræðistofnunar af því að hún tengist því ákvæði sem við erum með varðandi það að taka meira tillit til og kveða skýrar á um í frv. að því er varðar umhverfisvernd. Ég ætla alls ekki, herra forseti, að fara í alla umsögnina heldur nokkrar málsgreinar en þar segir:

,,Í 2. mgr. 3. gr. frv. er kveðið á um að leyfi forsrh. þurfi til að nýta vatns- og jarðhitaréttindi, námur og önnur jarðefni innan þjóðlendna nema mælt sé fyrir um annað í lögum.

Samkvæmt frv. til laga um eignarhald og nýtingu auðlinda í jörðu sem nú er til meðferðar á Alþingi veitir iðnrh. leyfi til rannsókna og hagnýtingar á öllum auðlindum í jörðu og þjóðlendum. Og þar á meðal eru jarðhiti, grunnvatn, námur og önnur jarðefni. Lítið tillit virðist tekið til ríkjandi sjónarmiða í umhverfisvernd, alþjóðlegra skuldbindinga á því sviði eða til áætlunar ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi (framkvæmdaáætlun til aldamóta) við gerð þessa frv. Verði því ekki breytt þyrfti að bæta við 2. mgr. 3. gr. frv. til laga um þjóðlendur ákvæði er lúta að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlinda í þjóðlendum.``

Þetta er alvarleg athugasemd því að hér er því haldið fram af Náttúrufræðistofnun að lítið tillit virðist tekið til ríkjandi sjónarmiða í umhverfisvernd, alþjóðlegra skuldbindinga á því sviði eða til áætlunar ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi, þ.e. framkvæmdaáætlun til aldamóta. Þetta er mjög alvarleg athugasemd og á þessu tökum við einmitt í brtt. okkar að fullt tillit hefur verið tekið til þessara þátta. Síðan segir:

,,Náttúrufræðistofnun telur vafasamt að fela forsrh. að veita leyfi fyrir afnot af þjóðlendum, nýtingu hlunninda þar og vatns- og jarðhita. Ekki verður séð að starfsleyfi eða stofnanir forsrn. hafi þá faglegu þekkingu sem byggja þarf ákvarðanir um leyfi á. Eðlilegra þykir að fela umhvrh. að veita slíkt leyfi með hliðsjón af því að til hans heyra skipulagsmál, náttúruverndarmál, rannsóknir á náttúru landsins, mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og áhrifum landnotkunar á náttúruna. Það sama á við um 3. mgr. 3. gr. frv. --- eðlilegra þykir að umhvrh. þurfi að samþykkja leyfi sveitarstjórna en forsrh. geri það.

Ekki verður heldur séð hvers vegna forsrh. skuli semja um leigu fyrir nýtingu réttinda eða ákvarða hvernig tekjum skuli varið til landbóta, umsjónar, eftirlits eða sambærilegra verkefna. Náttúrufræðistofnun telur eðlilegra að fela umhvrh. og stofnunum sem heyra til umhvrn. þetta hlutverk með vísan til hlutverks þeirra samkvæmt gildandi lögum.``

Eins og heyra má af þessari umsögn höfum við í minni hlutanum séð fulla ástæðu til þess að taka tillit til þessara sjónarmiða í brtt. okkar.

Þá komum við að Ferðamálaráði og þá erum við komin í 4. gr. frv. sem fjallar um samstarfsnefnd um málefni þjóðlendna. Ég ætla ekki að lesa það, herra forseti, en í umsögn Ferðamálaráðs er gerð athugasemd við að fulltrúi samgrh. eigi ekki sæti í samstarfsnefndinni og því ber að fagna að allshn. hefur tekið tillit til þessara sjónarmiða.

Náttúruverndarráð lýsir stuðningi við ráðstöfun tekna af leyfum en þó telur ráðið í samræmi við ofangreint að ákvörðun verkefna sem leigutekjum verður varið til eigi að vera í höndum umhvrh.

Landgræðslan gerir athugasemdir við 4. gr. sem gengur aðallega út á það að verði í reglugerð að Landgræðsla ríkisins sé umsagnar- og eftirlitsaðili um meðferð og nýtingu þjóðlendna að því er viðkemur gróður- og jarðvegsvernd. Við göngum lengra í minni hlutanum og viljum að það sé lögfest vegna þess að það er mikilvægt að m.a. Landgræðslan komi að sem umsasgnaraðili.

Félag ísl. náttúrufræðinga gerir þessa samstarfsnefnd einnig að umtalsefni og segir að ekki geti verið um það að ræða að nefndin eigi að vera vettvangur stjórnsýslu enda væri sveitarstjórnarfrv. félmrh. þá óþarft. Vegna þessa saknar nefndin þess að fulltrúar annarra hagsmunaaðila skuli ekki eiga sæti í nefndinni samkvæmt frv. Sérstaklega er bent á að fulltrúa almennings vantar og er það vísað til náttúruverndarsamtaka eða annarra almannasamtaka og í umsögn þeirra segir svo: ,,Eins og fyrr segir þá eru hagsmunir almennings ríkir á þessum hluta landsins og munu fara vaxandi frekar en hitt.``

Áður en ég vík frá 4. gr. leiðir þetta aðeins hugann að samstarfsnefndinni um málefni þjóðlendna sem í eiga sæti fulltrúar forsrh., félmrh., iðnrh., landbrh. og umhvrh., og væntanlega samgrh. ef brtt. verður samþykkt, og tveir fulltrúar tilnefndir af Sambandi ísl. sveitarfélaga. Nefndin skal vera forsætisráðherra til aðstoðar við stjórn og ráðstöfun réttinda innan þjóðlendna. Þá skal nefndin árlega gera tillögur til forsætisráðherra um ráðstöfun tekna af réttindum innan þjóðlendna.

Af því að ég var að víkja að valdi forsrh., sem mér finnst nálgast að vera einræðisvald í þessu frv., þá er verksvið þessarar samstarfsnefndar, þar sem aðkoma nokkurra ráðuneyta er tryggð, mjög óljóst. Nefndin skal aðstoða forsrh. Nefndin hefur ekki beint ákvörðunarvald. Það er allt í höndum forsrh. Hún skal einungis gera tillögur til forsrh. um ráðstöfun tekna. Mér finnst því verksvið nefndarinnar óljóst og það ,,mandat`` sem þessi nefnd hefur finnst mér einnig vera í vindinum. Það er raunverulega skilið eftir af því að allt byggist þetta á því að færa alræðisvald í þessum málum um þjóðlendurnar til forsrh.

Ég ætla aðeins að víkja að 5. gr. af því að þar erum við einnig með brtt., herra forseti, og ég er langt komin með að fara yfir þessar brtt. Brtt. okkar minni hluta þingmanna hjá allshn. við 5. gr. er um að 1. mgr. orðist svo:

,,Þeir sem nýtt hafa land innan þjóðlendu sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja skulu sækja um leyfi til umhverfisráðherra fyrir áframhaldandi nýtingu. Áður en leyfið er útgefið skal fara fram mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar nýtingar.``

Þetta tel ég afar mikilvægt ákvæði og raunverulega er þetta ákvæði um að sækja skuli um leyfi til umhvrh. fyrir áframhaldandi nýtingu og að áður en leyfi sé útgefið skuli fara fram mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar nýtingar. Þetta er sótt í umsögn Skógræktar ríkisins, en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Í 5. gr. er staðfest að þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendu sem afrétt skuli halda þeim rétti. Túlka má þessa grein þannig að ekki verður hægt að koma á beitarstjórnun eða friðun á einstökum afréttum, t.d. þar sem jarðvegsrof er verulegt vandamál, ef einn eða fleiri aðilar standa á þessum rétti sínum um áframhaldandi nýtingu. Þessi afnotaréttur hefur komið í veg fyrir að hægt sé með góðu móti að taka á jarðvegs- og gróðurverndarmálum á almenningum og frv. þetta breytir því miður engu þar um.

Skoða ber vandlega orðalag 5. gr. og athuga hvort ekki sé hægt að komast hjá því að lögfesta rétt til beitarnytja á almenningnum um ókomnar aldir. Miðað við ástand flestra afrétta væri jafnvel ástæða til að breyta greininni alveg þannig að hún hljóðaði svo:

Þeir sem nýtt hafa land innan þjóðlendu sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja skulu sækja um leyfi til forsrh. fyrir áframhaldandi nýtingu. Með slíkri leyfisbeiðni skal fylgja mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar nýtingar.``

Þarna er efnislega tekið undir þetta ákvæði og ég tel að það sé afar brýnt að það sé miklu skýrar en hér er og miklu skýrar en er t.d. í frv. félmrh., tekið á beitarfriðunarmálum og það þurfi að sækja um leyfi, það þurfi að liggja fyrir umhverfismat. Mér finnst mjög eðlilegt að slíkt sé sett í löggjöfina. Án þess að ég ætli að fara að lesa aftur, herra forseti, þá grein sem ég vitnaði mjög sterkt til í umræðunum um frv. félmrh. sem var grein eftir Ingva Þorsteinsson og Ólaf Arnalds náttúrufræðinga, sem er sérstaklega athyglisverð grein þar sem þeir kalla eftir beitarfriðun miðhálendis Íslands til ársins 2015, og vísa til þess að það séu fyrst og fremst auðnir miðhálendisins sem valda því að í dag er Íslandi lýst sem stærsta eyðimerkursvæði Evrópu. Þetta er ekki góð einkunn, herra forseti, og hvernig farið hefur verið með landið. Þeir vitna til þess og segja, með leyfi forseta:

,,Jafnframt skorum við á þá bændur og þau sveitarfélög sem hlut eiga að máli að sýna þann stórhug að styðja þá tillögu að gefa miðhálendinu hvíld fyrir beit í hálfan annan áratug, eftir nær 1100 ára óslitna beitarnotkun.``

Hér er verið að biðja um 15 ára beitarfriðun fyrir miðhálendið eftir nær 1100 ára óslitna beitarnotkun. Rökstuðningur í grein Ingva og Ólafs Arnalds er fádæma góður og ég hvet alla til að lesa þá grein og veita henni athygli. Hún á líka erindi inn í umræðuna um þjóðlendufrv. af því að við erum að tala um í 5. gr. að þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendu sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja skuli halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um. Af hverju er ekki rétt, herra forseti, að nýta þetta tækifæri núna þegar við erum með þessa grein undir að setja inn ákvæði sem styrkja það að hægt sé að koma því svo fyrir að við getum betur farið í beitarfriðun á miðhálendinu sem nauðsynlegt er? Þess vegna er tillaga okkar mjög eðlileg. Ég vil spyrja formann nefndarinnar hvort ekki sé ástæða til að skoða það, þó það væri ekki nema þessi eina brtt. frá okkur í minni hlutanum og hvort það hafi einhvern tilgang fyrir okkur í minni hlutanum að draga tillöguna til baka til 3. umr. og skoða hana á milli 2. og 3. umræðu ef vera mætti að hægt væri að ná sátt um svo mikilvæga tillögu og hér er. Þá værum við í minni hlutanum alveg tilbúin til að draga hana til baka til 3. umr. Hér er svo stórt mál á ferðinni sem er beitarfriðunin að ég vil freista þess að spyrja hv. formann allshn. hvort það þjóni einhverjum tilgangi að við bíðum með atkvæðagreiðslu á tillögunni.

[11:45]

Ég fer bráðum að stytta mál mitt þó af ýmsu sé að taka. Ég vil víkja að 6. gr., þ.e. óbyggðanefndinni, en þar birtist enn einu sinni í frv. það óeðlilega mikla vald sem forsrh. á að fá samkvæmt þessum lögum. Óbyggðanefnd er afar mikilvæg nefnd og á að starfa á næstu árum. Um hlutverk óbyggðanefndar segir í 7. gr. frv.:

,,Hlutverk óbyggðanefndar skal vera:

a. Að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.

b. Að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur.

c. Að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.``

Það er ekki síst þetta síðasta sem er afar mikilvægt verkefni sem bíður þessarar óbyggðanefndar og getur vissulega kallað á miklar deilur. Þetta er vandasamt verk sem þessari nefnd er falið.

En við spyrjum: Af hverju allt þetta vald í höndum forsrh.? Ég hef farið yfir valdið um leyfisveitingarnar sem er hjá forsrh., um gjaldtökuna sem á að vera í höndum forsrh., um ráðstöfun á gjaldinu sem er í höndum forsrh., hvernig samstarfsnefndin sem með aðkomu annarra ráðuneyta virðist hafa litlu eða óljósu hlutverki að gegna. Þá erum við komin að því að það er forsrh. sem á að skipa hvern einasta af þessum þremur mönnum sem eiga að vera í óbyggðanefndinni. Hann skipar þessa nefndarmenn án nokkurra tilnefninga. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi aðalmanna o.s.frv. Við gerum tillögu um að aðeins verði dregið úr þessu einræðisvaldi forsrh. og að fleiri komi að þessum málum. Við gerum tillögu um að það verði dómsmrh. sem skipi nefndarmenn en ekki forsrh. Mér finnst þetta vald sem kemur þarna í gegn svolítið óhuggulegt, herra forseti. Og eins og ég nefndi áðan, ef ágreiningur rís milli sveitarstjórnar og forsrh., þá er það forsrh. sem hefur síðasta orðið hvernig með það deilumál skuli fara. Þess vegna gerum við tillögu um að 2. mgr. 6. gr. orðist svo:

,,Dómsmálaráðherra skipar nefndarmenn.``

Ekki man ég hvort forsrn. tjáði sig eitthvað um það mál í þessu sem ég hef verið að vitna í frá forsrn. Jú, herra forseti. Hér hafa þeir tjáð sig um það. Því er beint til forsrn. með afar sérstöku orðalagi á spurningunni: ,,Er mögulegt að dómsmrh. skipi í óbyggðanefnd en ekki forsrh.?`` Ekki er verið að biðja um umsögn forsrn. um það heldur er þetta beiðni hvort meiri hlutanum leyfist að gera þá breytingu að dómsmrh. skipi þessa nefnd en ekki forsrh. (SP: Það voru óskir frá minni hlutanum ...) Við orðuðum ekki þessar spurningar eins og þær eru lagðar hér fram þó að þetta séu vissulega spurningar frá minni hlutanum. En hér kemur svarið:

,,Óbyggðanefnd er samkvæmt III. kafla frv. falið sérstakt, afmarkað og tímabundið verkefni sem skipað er til hliðar og utan við hina hefðbundnu stjórnsýslu ríkisins. Nefndin starfar sjálfstætt og óháð veitingarvaldinu og það hefur engar heimildir gagnvart henni og ber ekki á henni ábyrgð utan að sjá til þess að hún sé löglega skipuð meðan hún starfar. Að þessu virtu er óljóst að hvaða marki er stefnt með breytingu á veitingarvaldshafa samkvæmt frv.

Af þessu tilefni má einnig árétta að nefndin kemur til með að teljast til stjórnsýslunefnda í skilningi stjórnsýslulaga og er því ekki dómstóll í þeim skilningi. Því þykir eðlilegt að sá ráðherra sem falin er meðferð mála er varða þjóðlendur, m.a. til að leggja áherslu á sérstöðu þeirra, skipi nefndina.``

Herra forseti. Ég botna ekki alveg í þeim rökum að af því að þetta sé ekki stjórnsýslunefnd í skilningi stjórnsýslulaga og sé því ekki dómstóll í þeim skilningi þá megi dómsmrh. ekki skipa þessa nefnd. En engu að síður, herra forseti, gerum við þessa tilraun til að fá þessu breytt.

Allshn. tók tillit til þess sem fram kom hjá ýmsum aðilum sem er mjög gott, t.d. Félagi ísl. náttúrufræðinga, en í umsögn þeirra segir m.a.:

,,Ekki er fullnægjandi að einskorða auglýsingu nefndarinnar við Lögbirtingablaðið enda kemur það fyrir fárra sjónir og örugglega ekki fyrir sjónir nema lítils hóps þeirra sem telja sig eiga og eiga hagsmuna að gæta.`` Á þessu er tekið og því ekki ástæða til þess að staldra við það lengur.

Síðan vil ég, herra forseti, í lokin fara aðeins í það sem Orkustofnun segir um þetta mál, og þar erum við að tala um 11. gr. frv., en þeir segja, með leyfi forseta:

,,Í fyrrgreindu frv. til laga um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu er gert ráð fyrir að eigandi eignarlands og sá er hefur öðlast nýtingarrétt komist að samkomulagi um endurgjald fyrir land og landsgæði, þ.e. auðlindir sem fylgja eignarlandi. Ef ekki næst samkomulag má beita ákvæðum um eignarnám.

Samkvæmt ákvæðum þess frv. sem hér er til umsagnar, þjóðlendufrumvarpsins, fer fjmrh. ,,með fyrirsvar fyrir hönd ríkisins ... vegna krafna um eignarrétt innan þjóðlendna``. Leiðir af þessu að fjmrh. fari einnig með hagsmuni ríkisins í sambandi við hin tilvitnuðu ákvæði auðlindafrv. þegar um er að ræða auðlindir innan þjóðlendna? Ef svo er, þá væru tveir ráðherrar í forsvari fyrir ráðstöfun á og gjaldtöku fyrir auðlindir innan þjóðlendna. Þetta væri ekki óskynsamlegt og gæti fært bæði frumvörpin heim og saman. Í þessu sambandi færi forsrh. með afnotin af sjálfu landinu og gjald fyrir þau en auðlindanýtingin, svo sem vatns- eða jarðhitaréttindi, yrðu aðskilin og færð á valdsvið handhafa eignarréttarins, fjmrh.

Segja má að þannig hafi að mörgu leyti verið á málum haldið hingað til: Virkjunaraðilinn á hálendinu, Landsvirkjun, hefur greitt fyrir bein afnot af landi með uppgræðslu og öðrum landbótum. Samkvæmt 3. gr. þjóðlendufrv. ber einmitt að nota það gjald sem forsrh. ákveður fyrir landnot til álíka verka. Eftir situr þá nýtingin á sjálfum auðlindunum, orkulindunum, en arðurinn af þeim hefur hingað til verið ókeypis og væntanlega skilað sér beint til neytenda raforku en gæti með fyrrgreindri túlkun á báðum frumvörpum færst til ríkisins sem eiganda auðlinda í þjóðlendum og verið innheimtur samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum auðlindafrv.``

Síðan benda þeir á það sem óleystan vanda að ,,það er ekki hlutverk Orkustofnunar að gera beina tillögu um það á hvern hátt eigi að taka á þessu útdeilingar- og gjaldtökumáli, enda er um pólitískt viðfangsefni að ræða. Hér er fyrst og fremst verið að vekja athygli á því að hvorugt frv. virðist með afgerandi hætti taka á þeim vanda hvernig skipta skuli takmörkuðum gæðum sem eflaust verður keppt um á komandi tímum.``

Þetta er, herra forseti, angi af því sem ég hef verið að tala um hvernig gjaldtakan og ráðstöfun á henni er skilin eftir í nokkuð lausu lofti.

Það væri út af fyrir sig ástæða til að fara yfir umsögn Náttúruverndarsamtakanna en partur af því sem við erum að flytja í minni hlutanum eru náttúruverndarsjónarmiðin, en ég ætla að láta hér staðar numið, enda geri ég ráð fyrir að aðrir fulltrúar í minni hlutanum muni gera því skil hversu brýnt er að taka á umhverfismálunum og vil þá a.m.k. geyma mér það ef ástæða verður til þess að koma aftur inn í þessa umræðu.

Herra forseti. Ég fer að ljúka máli mínu. Ég ítreka þær brtt. sem ég hef lagt fram, ítreka spurningu mína til hv. formanns nefndarinnar varðandi 3. tölul. brtt. hvort það þjóni einhverjum tilgangi að fresta þeim tölulið til 3. umr. ef vera kunni að hægt sé að ná samkomulagi um það að betur sé búið að því ákvæði sem þar er og snertir það að stuðla að beitarfriðun.

Að öðru leyti segi ég það, herra forseti, að við erum að fjalla um mjög gott og þarft mál sem vonandi fær framgang á þessu þingi en ég ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns að vissulega er verulegur skuggi sem fellur á þetta mikilvæga mál þegar við erum með það svífandi í loftinu að hugsanlega verði samþykkt á næstu dögum eða vikum frv. til sveitarstjórnarlaga en ákvæði þess frv. gengur gegn því sem þarf að tryggja, þ.e. eðlilegan almannarétt á miðhálendinu og að fulltrúar allrar þjóðarinnar komi að nýtingar- og ráðstöfunarrétti á miðhálendinu.