Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 13:51:03 (6387)

1998-05-09 13:51:03# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[13:51]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég virði sjónarmið hv. þm. Kristjáns Pálssonar um þessi efni. Ég geri mér fyllilega grein fyrir þeim mun sem er á eignarrétti og þjóðlendufrv., stjórnsýslu og sveitarstjórnarfrv. og skipulagslögum. Það kom mjög skýrt fram í ræðu minni sem ég flutti hér um sveitarstjórnarmálið að með sveitarstjórnarlögunum og sveitarfélögunum inn til miðju hálendisins fá sveitarfélögin margvíslega ábyrgð og vald. Í þessu valdi er m.a. skipulagsvaldið sem þrátt fyrir eignarréttinn er mjög mikið. Úr þessu var reynt að draga með þeirri sáttatillögu sem hér kom fram. Sú sáttatillaga gekk ekki nógu langt að mínu mati. Það felst ekki neitt vantraust og það skal aldrei af mínum munni ganga né nokkur maður hafa það eftir mér þannig að rétt sé farið með að ég sé að tala niður til landsbyggðarinnar --- það hef ég aldrei gert --- né heldur að ég sé að vantreysta mönnum. Ég fer ekki í þann talnaleik að tala um 40% af landinu og 4% þjóðarinnar. Ég hef ekki gert það. Ég hef einfaldlega sagt: Það er venja þegar hagsmunaaðilar eru allmargir og við lýðræðislegar aðstæður að allir eigi þar rétt til að koma að. Sá skal ekki sakaður um tortryggni í garð annarra sem segir: Ég vil fá mitt sæti við borðið. Um það höfum við beðið sem horfum til hópa sérfræðinga, hagsmunaaðila og sveitarfélaga, bæði hér og annars staðar á landinu. Við höfum óskað eftir því að þeir fái að koma að þessu máli.