Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 13:57:34 (6390)

1998-05-09 13:57:34# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, SighB
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[13:57]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil öfugt við hv. þm. Kristján Pálsson þakka hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni fyrir þá ræðu sem hann flutti hér áðan. Hann ræddi nefnilega um mál sem virðist vera feimnismál á Alþingi Íslendinga, þ.e. um ástand gróðurs á miðhálendi Íslands. Þetta er sennilega eitt af stærstu vandamálum íslensku þjóðarinnar og er búið að vera um áratuga skeið. (Gripið fram í.) Vísindamenn í umhverfismálum sem komu hingað til lands skýrðu okkur frá því að á Íslandi sé mesta eyðimerkurmyndun í öllum heimi. Sú eyðimerkurmyndun, hv. þm. Kristján Pálsson, er ekki af völdum eldgosa. Sú eyðimerkurmyndun er af völdum manna, þ.e. manna sem ekki stjórna beit og beitarmöguleikum á hálendinu og hafa eins og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson veit, valdið því að hálendið og þar á meðal hluti af Reykjanesskaganum er eins og flakandi sár. (KPál: Líttu á Vestfirðina.) Þetta mál, að við sem hrósum okkur af hreinni náttúru, fagurri náttúru, menntaðri þjóð og upplýstri, að við skulum búa í landi þar sem mesta eyðimerkurmyndun í heiminum á sér stað er slíkt feimnismál að það fæst ekki rætt á Alþingi Íslendinga. Örfáir þingmenn voga sér að ræða það mál. Af hverju? Vegna þess að menn eru svo hræddir við þá sem eiga þarna hagsmuna að gæta, sem eiga hagsmuna að gæta af því að halda þessu ófremdarástandi við lýði.

Ég vil aðeins taka það fram í þessu sambandi að það má ekki skilja þetta sem svo að bara íbúar dreifbýlissveitarfélaganna eigi þarna hlut að máli. Ætli mesta ógnunin við gróður á hálendi Íslands nú sé ekki hrossabeitin? Og skyldu ekki margir þéttbýlisbúar eiga aðild að því? (KH: Það er ekki hrossabeit á hálendinu.) Á sumum hlutum þess, jú. Og skyldi það ekki vera eitt af helstu vandamálum okkar samfélags í dag hvernig menn nýta þessi gæði landsins, þ.e. gróðurfarið? Síðan fæst það ekki rætt á Alþingi Íslendinga og menn sletta bara í góm.

Menn geta haft sínar skoðanir á því svæðisskipulagi sem við ræddum síðast í gær. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson segir að sitt álit sé að það svæðisskipulag sé á margan hátt mjög gott. En hann vakti athygli á hinum auma bletti í því svæðisskipulagi. Það eina sem er ekki minnst á í því svæðisskipulagi er það sem er tabú, þ.e. gróðurverndin, beitarstjórnin. Á því stóra vandamáli, stærsta vandamáli á miðhálendi Íslands, er ekki tekið. Og hvað skyldu íslenskir skattborgarar vera búnir að ausa mörg hundruð milljónum í tilraunir til að bæta fyrir landspjöll genginna kynslóða á hálendinu án þess að hafa árangur sem erfiði? Og hvernig stendur á því að það er liðið að á sama tíma og Landgræðslan er að reyna fyrir almannafé að bæta þessi spjöll á ákveðnum landsvæðum, að ekki er hægt að ná samkomulagi við landnýtendur um að láta menn í friði á meðan reynt er að rækta upp það land sem gengnar kynslóðir hafa spillt? Það er haldið stíft til beitar þannig að fyrirhöfn Landgræðslunnar og hundruð milljóna úr vösum landsmanna fjúka út í veður og vind.

[14:00]

Þau orð sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sagði um þetta vandamál eru tímabær, eru réttmæt, eru fyllilega rökstudd en það sýnir á hvaða stigi umræðan er að síðan kemur þingmaður úr Reykjanesi af öllum stöðum og fer að gera lítið úr þessu, þetta sé ekki mikið vandamál, láta bara þá um þetta sem hafa stjórnað þessu svona glæsilega fram til þessa dags, láta þá bara um það að hafa ábyrgðina áfram. Þeim sé best treystandi til.

Ég vil hins vegar, virðulegi forseti, beina athygli hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar á 3. brtt. á þskj. 1291 sem flutt er af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Bryndísi Hlöðversdóttur og Guðnýju Guðbjörnsdóttur. Þar er einmitt vikið að því máli sem hv. þm. gerði að umræðuefni, og lögð til ákveðin leið til að taka á því vandamáli sem hann ræddi um. Breytingartillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Við 5. gr. 1. mgr. orðist svo:

Þeir sem nýtt hafa land innan þjóðlendu sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja skulu sækja um leyfi til umhverfisráðherra fyrir áframhaldandi nýtingu. Áður en leyfið er útgefið skal fara fram mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar nýtingar.``

Þarna er lögð til ákveðin aðferð til að reyna að ná einhverri stjórn á því að landið okkar sé nýtt skynsamlega og aðferðin er sú sáttaleið sem hv. þm. ræddi um, þ.e. að umhvrh. skuli veita leyfi til nýtingar á þessum náttúruauðlindum eins og öðrum. Áður en hann veitir leyfi skuli hann láta fara fram mat á umhverfisáhrifum beitarinnar, þ.e. á því hvort landið þolir þann ágang eða ekki sem til er stofnað. Ef niðurstaðan verður sú að landið sé ekki talið þola þann ágang sem að er stefnt, þá verða viðkomandi landnytjendur að sjálfsögðu að semja við hæstv. umhvrh. um hvernig þá skuli haga málum. Þetta er nákvæmlega sú leið, virðulegi forseti, sem hv. þm. lagði áherslu á að menn yrðu að finna í þessum efnum. Brtt. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Bryndísar Hlöðversdóttur og Guðnýjar Guðbjörnsdóttur er nákvæmlega um þetta. Ég er alveg sannfærður um að í hjarta sínu getur hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson stutt einhverja slíka útfærslu á málunum því þarna er ekki verið að vanvirða gömul og forn réttindi með einum eða öðrum hætti, ekki verið að taka neitt af mönnum heldur einfaldlega verið að gera ráð fyrir því að ef fyrirhugaðar landnytjar eru ekki hugsaðar á sjálfbæran hátt, þ.e. ef með fyrirhuguðum landnytjum er haldið áfram að ganga á þetta land, haldið áfram að stuðla að því að jarðvegurinn á Íslandi fjúki á haf út, haldið áfram að stuðla að því að hér verði mest eyðimerkurmyndun á byggðu bóli, þá verði einfaldlega sest niður og samið (KPál: Hvað er þingmaðurinn að tala um?) um þær landnytjar sem eru í samhengi við stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hv. þm. lýsti henni um sjálfbæra nýtingu lands. Þarna er á nákvæmlega sama hátt og hv. þm. lagði áherslu á að halda þyrfti á málum lagt til hvernig það geti gerst.

Herra forseti. Frv. sem hér liggur fyrir er vissulega fagnaðarefni því að um þessi mál hafa staðið deilur mestalla þessa öld. Þær deilur sem risið hafa á Alþingi eru vissulega löng og merk saga sem e.t.v. væri ástæða til að rifja upp einhvern tíma síðar. Það er mjög ánægjulegt t.d. fyrir þann sem hér stendur að vita til þess að hæstv. félmrh. Páll Pétursson skuli nú hafa komist á þá skoðun að fylgja þeirri stefnu að lýsa því yfir að land sem einstaklingur getur ekki gert afdráttarlaust eignarréttartilkall til skuli teljast eign ríkisins vegna þess að allt frá því að ég kom hingað til Alþingis í fyrsta sinn árið 1974 höfum við tveir deilt um afstöðu til þessa máls. Ég man sérstaklega eftir því að Morgunblaðið gerði einu sinni heilmikla úttekt á sjónarmiðum þeirra sem vildu aðhyllast þá stefnu sem við alþýðuflokksmenn á Alþingi höfum flutt í tæplega 30 ár, að þjóðin ætti að eignast það land sem enginn einstaklingur gæti sannað eignarhald sitt á, og hinna sem töldu að allt Ísland tilheyrði landeigendastéttinni upp á miðja jökla.

Öll þessi ár frá því 1974 og þar til nú hefur hæstv. félmrh. farið í fylkingarbrjósti þeirra aðila í þinginu sem hafa lýst því yfir að þeir telji landeigendur eigi hvað sem öllu öðru líður land upp á miðja jökla.

Í mjög rækilegri úttekt Morgunblaðsins á þessum málum sem gerð var fyrir um það bil 12 árum eru dregnir fram tveir helstu málsvarar hvorrar stefnunnar um sig. Hæstv. félmrh. Páll Pétursson var persónugerður sem málsvari þeirra sem fylgdu ýtrustu kröfum landeigenda. Sá sem hér stendur var gerður persónugervingur þeirra sem standa fyrir þá stefnu að þjóðin eigi að eiga það land sem enginn annar getur sannað eignarrétt sinn á. Meðal formælenda þeirrar stefnu er t.d. sá hæstv. forseti sem nú situr í forsetastóli, sem flutti slíka tillögu fyrst á Alþingi fyrir 30 árum síðan.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar og hvað hefur gerst? Það sem gerst hefur er að hæstv. félmrh. og allir framsóknarmennirnir í Framsfl. og Sjálfstfl. sem fylgdu honum að máli eru nú gengnir til liðs við sjónarmið okkar, flytja nú frv. til laga um þjóðlendur þar sem meginatriðið er að það land sem enginn einstaklingur geti sannað eignarrétt sinn á eigi að tilheyra ríkinu. Þetta er því vissulega mjög ánægjuleg niðurstaða. Hún er mjög ánægjuleg fyrir okkur alþýðuflokksmenn, hún er mjög ánægjuleg fyrir þann sem hér stendur og hún hlýtur að vera mjög ánægjuleg fyrir þann sem situr í stóli forseta undir þessari umræðu vegna þess að ég er sannfærður um að hann og hæstv. félmrh., sem eru þingmenn úr sama kjördæmi, hafi í gegnum árin oft átt orðaskipti um þessi mál í Norðurl. v. á framboðsfundum og víðar þar sem hæstv. félmrh. hefur nú varað við ekki síst bændur í þeim sveitum að kjósa þann skelfilega mann, hv. þm. Ragnar Arnalds, sem ætlaði að taka af þeim landið. Ef hv. þm. Ragnar Arnalds fer aftur í framboð sem ekki liggur fyrir hvort verður eða verður ekki, þá bíða hans þeir ánægjulegu dagar að geta lýst því yfir heima í héraði að hæstv. félmrh. hafi gerst afturreka með sínar skoðanir, hafi aðhyllst málflutning hv. þm. Ragnars Arnalds og okkar hinna og lagt til á Alþingi Íslendinga, studdur af öllum framsóknarmönnum í Framsfl. og Sjálfstfl., að stefna A-flokkanna í þessum málum um áratuga skeið yrði nú samþykkt.

Þetta er mikið ánægjuefni. Þetta hefur tekið mörg ár en er mjög ánægjulegt og ég sé gleðisvipinn á t.d. hv. þm. Guðna Ágústssyni yfir því að fá að eiga aðild að þessari afgreiðslu því að ég er sannfærður um að sá hjartagóði framsóknarmaður er ánægður með að eiga aðild að því að geta nú afhent íslenskum almenningi eignarráðin yfir um það bil 40% af flatarmáli landsins, enda ljómar andlit hans af ánægju eins og þeir þingmenn sjá sem nenna að gá að því. Hann er brosandi og sæll, ánægður með lífið, ánægður yfir því að geta nú varið atkvæði sínu til að staðfesta þá stefnu sem Alþfl., Alþb. og fleira gott fólk hefur barist fyrir á Alþingi í áratugi og hefur fram að þessu ekki haft erindi sem erfiði, en nýtur þess nú að hafa sannfært gamlan baráttumann andstæðra fylkinga eins og hv. þm. Pál Pétursson og fengið náð með stefnu sína fyrir augum jafnhjartahlýs manns og hv. þm. Guðni Ágústsson er.

Herra forseti. Það væri vissulega mjög ánægjulegt að fara yfir sögu þeirra deilna sem hafa átt sér stað á Alþingi um þessi mál. Eins og ég sagði áðan mun það fyrst hafa verið hv. þm. Ragnar Arnalds sem flutti um þetta tillögu að þjóðin ætti landið og er ein af tillögum sem hann flutti um breytingu á lögum um stjórnarskrá lýðveldisins. Fyrsta sjálfstæða þingmál af þessu tagi varð hins vegar til árið 1970 þegar Bragi Sigurjónsson kom með till. til þál. um eignarráð á landinu, gögnum þess og gæðum og síðan hafa alþýðuflokksmenn flutt slíkt mál í einu eða öðru formi alla þessa áratugi síðan hvað eftir annað án tilgangs fyrr en loks núna.

Það er margt mjög merkilegt sem kemur fram í þeim tillöguflutningi og sýnir t.d. hversu þekking þess alþýðuflokksmanns sem beitti sér helst fyrir málatilbúnaðinum í byrjun, Braga heitins Sigurjónssonar, var mikil á þessum málum. Hann er t.d. fyrsti þingmaður sem flytur á Alþingi Íslendinga tillögu um að allar auðlindir efnahagslögsögu Íslands verði lýstar sameign þjóðarinnar. Það var einn þáttur í þessum tillöguflutningi um þjóðareign á landi sem frá honum kom og ég veit ekki betur en það sé í fyrsta skipti sem slík tillaga er fram sett í frv. til laga á Íslandi. Og var það löngu áður en umræða hófst í alvöru um þá stefnu sem nú hefur verið mörkuð í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða að Íslendingar eigi miðin sjálfir.

[14:15]

Þessi ágæti þingmaður, Bragi heitinn Sigurjónsson, varð til þess að vekja athygli Íslendinga á niðurstöðu Habitat-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi mannsins seint á áttunda áratugnum eða snemma í byrjun þess níunda. Ég man nú ekki hvort heldur var en þar var gerð samþykkt, sem að sjálfsögðu hefur ekki lagalegt gildi, þar sem lýst er yfir nauðsyn þess að endurskoða reglur um eignarhald á landi og landgæðum á þann hátt að almannahagsmunir séu betur tryggðir en áður var. Í fullu samræmi við þá stefnu sem þar var mörkuð, á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, var málatilbúnaður hv. þm. Braga Sigurjónssonar og annarra þingmanna Alþfl. hér á Alþingi. Þeir lögðu til að tekin yrðu af öll tvímæli, ekki bara um eignarhald á hálendinu heldur einnig um eignarhald á auðlindum, þannig að í lög yrði leitt á Íslandi að þar réðu almannahagsmunir ríkjum umfram sérhagsmuni.

Saga þessara mála á Alþingi er um margt merkileg en ég ætla ekki að taka tíma í að rekja hana þó að full ástæða væri til. Mér er umhugað að það mál sem hér er flutt hljóti jákvæða afgreiðslu.

Það eru aðeins örfá atriði sem ég vildi gera athugasemdir við í frv. Í fyrsta lagi hef ég lýst 3. brtt. á þskj. 1291, um hvernig skuli stuðlað að því að beitarréttindi á miðhálendinu verði ekki notuð til þess að stuðla að frekari gróðureyðingu en orðin er og ég styð að sjálfsögðu þá tillögu.

Annað stóra atriðið í frv. þessu, sem ég er ekki sáttur við þó að ég sé sáttur við allt meginefni þess eins og frá því er gengið, er að í frv. eru engar skýrar reglur um hvernig standa skuli að því að veita heimildir til einstakra aðila til að nýta náttúruauðlindir á þjóðlendum. Þar vantar einnig skýrar málsmeðferðarreglur um það hvernig sá sem leyfið veitir, sem er forsrh., eigi að standa að ákvörðun um gjaldtöku. Frv. er svo opið í þessu sambandi að það má nánast orða það svo að verið sé að heimila forsrh. að leigja hverjum sem er hvaða afnotarétt sem er á auðlindum hálendisins fyrir hvaða verð sem forsrh. þóknast að semja um. Slíkar málsmeðferðarreglur eru ekki í samræmi við nútímalöggjöf. Í þeim eru t.d. ekki uppfyllt þau skilyrði um jafnrétti og jafnt aðgengi að slíkum réttindum sem nútímalöggjöf hlýtur að gera ráð fyrir. Menn verða að gera einhverjar kröfur til þeirra sem sækjast eftir að fá afnotarétt af landi og landgæðum í sameign þjóðarinnar. Menn verða að tryggja að þeir aðilar sem áhuga hafa á slíku hafi jafnan rétt til að sækjast eftir því og að jafnt tillit sé tekið til sjónarmiða beggja aðila.

Menn geta ekki heldur fengið einum ráðherra í hendur vald til þess að velja hvern sem honum hugnast úr hópi þeirra sem sækjast eftir landnýtingu og semja við hann um hvaða gjald sem viðkomandi ráðherra þóknast að setja upp. Svo víðtækur réttur stenst einfaldlega ekki. Ráðherra verður að fara eftir einhverjum almennum reglum, bæði um það hvern hann velur úr hópi þeirra, kannski mörgu, sem áhuga hafa á sambærilegri landnýtingu á sama stað og einhverjar skýrar reglur verður að hafa til að ákveða leiguverð fyrir slík afnot. Þetta vantar í frumvarpstextann. Við þessu er hins vegar brugðist í brtt. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Bryndísar Hlöðversdóttur og Guðnýjar Guðbjörnsdóttur í a- og b-lið 1. brtt. á þskj. 1291. Þar er fyrst rætt um þá skilmála sem uppfylla verður af hálfu þeirra sem sækjast eftir að nýta sér réttindi lands eða landgæða á hálendi Íslands. Í tillögunni segir svo, með leyfi forseta:

,,Fullt tillit verði tekið til umhverfisverndar og alþjóðlegra skuldbindinga í því efni og sjálfbærrar nýtingar í þjóðlendum. Í leyfum sem veitt eru samkvæmt lögum þessum skal greina þau skilyrði sem leyfishafa eru sett, þar á meðal um gildistíma leyfis, skýrslugjöf leyfishafa, skyldu hans til að hlíta eftirliti og greiða kostnað af því, um öryggis- og umhverfisráðstafanir, kaup vátrygginga vegna hugsanlegrar skaðabótaábyrgðar leyfishafa og um greiðslu leyfisgjalds.``

Þarna er í tillögutextanum fjallað um þá skilmála sem þeir verða að uppfylla sem biðja um eða óska eftir því að fá leyfi forsrh. til þess að nýta land eða landgæði á þjóðlendum gegn greiðslu. Það er auðvitað fyllilega eðlilegt að slíkir skilmálar séu settir þannig að menn geti ekki vaðið þangað upp á skítugum skónum án þess að þeir geti sýnt fram á að þeir uppfylli þær reglur um umhverfisvernd sem Íslendingar hafa ákveðið að setja sér og eru í samræmi t.d. við alþjóðlegar skuldbindingar. Það er því fráleitt annað en gera ráð fyrir því að væntanlegir leyfishafar uppfylli einhverjar slíkar reglur og um það eru tillögur gerðar í brtt. á þskj. 1291. Ég lýsi yfir stuðningi við þá brtt.

Með sama hætti er í b-liðnum gerð tillaga um það hvernig ráðherra eigi að ákveða afgjald fyrir slíka leigu. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Á eftir 1. málsl. 4. mgr. komi fjórir nýir málsliðir er orðist svo: Gjaldið sem ráðherra ákvarðar skal taka tillit til verðmætis þess sem afnot eru heimiluð á. Nánari ákvæði um gjaldtöku skal setja í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Ráðherra skal þá láta bjóða út nýtingu lands og landsgæða í þjóðlendum þegar ætla má að um verðmæta nýtingarkosti sé að ræða. Útboð skulu þá fara fram samkvæmt ákvæðum laga um framkvæmd útboða, nr. 65/1993.``

Þarna eru ráðherra settar strangar verklagsreglur um það hvernig hann skuli ákverða gjaldið í samræmi við lög um aukatekjur ríkissjóðs. Þá er átt við einhver minni háttar nýtingarréttindi, svo sem jarðefnavinnslu, nýtingarréttindi eins og t.d. er nú nýtt í Mývatnssveit þar sem Kísiliðjan greiðir tiltekin gjöld fyrir námuréttindi á kísilgúr í botni Mývatns. Þannig er gert er ráð fyrir því í þessum tillögum að sett verði ákvæði í lög um aukatekjur ríkissjóðs og hvernig beri að standa að gjaldtöku fyrir nýtingu slíkra auðlinda, þar sem verðmæti þess sem nýta á eru ekki umtalsvert mikil.

Í hinum tilvikunum hins vegar, þegar um mjög verðmæt nýtingarréttindi er að ræða, tökum sem dæmi virkjanaréttindi, þar sem réttindin snúast ekki um tugi eða hundruð þúsunda eða nokkrar milljónir króna, heldur um að fá leyfi til nýtingar á réttindum sem metin eru á milljarða í verðmætum. Þá er eðlilegt að gjaldtökunni sé hagað í samræmi við útboð og sá fái nýtingarréttinn sem er reiðubúinn til þess að borga best fyrir hann. Tillaga um það er gerð í brtt. þessara þriggja þingmanna sem ég ræddi um áðan.

Það er alveg fráleitt, virðulegi forseti, að menn gangi þannig frá lögum sem eiga að taka til nýtingar á bæði stórum og smáum náttúruauðlindum á hálendinu. Ég tala um að það sé smátt þegar tiltölulega lítil umsvif fylgja því, t.d. að reisa ferðamannaaðstöðu, gistiskála eða eitthvað slíkt. Hins vegar er ég að tala um fleira sem meiri umsvif fylgja, t.d. nýting á verðmætum jarðefnum eða orku. Þá dugir ekki að gengið sé út frá því að þeim sem ætli að nýta þetta séu engir skilmálar settir og þeir þurfi ekki að uppfylla neinar sérstakar kröfur. Þeir virðast ekki þurfa að sýna fram á getu sína til þess að standa eðlilega að verki en ráðherra getur bara fortakslaust heimilað hverjum sem honum dettur í hug slíkan nýtingarrétt.

Á sama hátt er óeðlilegt að gengið sé út frá því í lögum að sá ráðherra sem nýtinguna heimilar fái sjálfdæmi um það án þess að hafa nokkrar málsmeðferðarreglur að styðjast við til að sjá hvaða greiðslur hann eigi að taka fyrir nýtingarréttinn. Nú dytti mér ekki í hug að halda að þetta verði praktíserað með þeim hætti að t.d. forsrh. eða iðnrh. semji í eldhúsinu heima hjá sér við Norsk Hydro um virkjanir norðan Vatnajökuls og ákvarði þar, við eldhúsborðið heima hjá sér, hvað þeir eigi að borga fyrir. Ef þetta frv. væri skilið bókstaflega, eins og lagatextinn er, þá væri Alþingi að heimila slíkt. Það gengur ekki upp. Það er ekki ætlun nokkurs alþingismanns að gera það. Það verður ekki niðurstaða nokkurs ráðherra, hvorki forsrh. sem nú situr né annarra ráðherra, að beita því valdi með þeim hætti. En hvers vegna í ósköpunum eru menn þá að ganga þannig frá frumvarpstextanum að látið sé í það skína að slíkar leiðir verði opnar? Þetta er ekki góð latína, þetta er ekki góður texti, þetta er ekki góð löggjöf, virðulegi forseti.

Að lokum má velta því fyrir sér, af hverju Alþingi Íslendinga þarf að setja lög um að þjóðin eða ríkið eigi land og landgæði sem enginn Íslendingur getur sannað eignarhald sitt á. Það er með ólíkindum að þurfa að setja slík lög. Allt frá því um miðja 16. öld hefur svo verið í rétti þeirra ríkjasambanda sem við höfum tilheyrt, að það land og þau landgæði sem enginn á eru sameign viðkomandi þjóðar í eign ríkisins. Þetta var innleitt í norskum rétti 1550 eða þar um bil. Þá vorum við í ríkjasambandi við Noreg. Þá var þetta réttur sem gilti á Íslandi líka, hann hefur gilt í Noregi síðan og gildir enn. Síðan fluttist Ísland úr ríkjasambandi frá Noregi til Danmerkur. Þar er þessi regla líka við lýði, jafngömul í lögum, þannig að ef risið hefðu mál um eignarhald á landi á Íslandi fyrir árið 1918, þá hefði niðurstaðan orðið sú að allt það land og öll þau landsréttindi sem einstaklingar gátu ekki sannað eignarhald sitt á yrði sjálfkrafa eign íslenska ríkisins.

Hvað breyttist árið 1918 í þessu efni? Nákvæmlega ekki neitt. Það var ekkert sem breyttist þá. Engin ákvæði voru sett, hvorki í stjórnarskrá né í lög eftir að Ísland öðlaðist sjálfstæði, sem breytti því sem verið hafði í gildi hér á landi allt frá miðri 16. öld. Það var hvorki eitt né neitt sem breytti því. Þeir alþingismenn og aðrir, sem fjölluðu um eignarhald á landi og landsgæðum, t.d. í umræðunum um námuréttindi og námulög, og í umræðunni um fossamálin á fyrstu áratugum þessarar aldar, voru staðfastlega þeirrar skoðunar að þessi regla gilti hér, að það sem einstaklingurinn gæti ekki sannað eignarhald sitt á félli sjálfkrafa til ríkisins. Svo er allt fram til ársins 1983, ef ég man rétt. Þá kemst Hæstiréttur Íslands allt í einu að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki og setja þurfi sérstök lög á Íslandi til þess að taka af tvímæli um þetta.

Nefnd var skipuð í framhaldi af því til þess að undirbúa slíka lagasetningu og hún starfaði í 14 ár að því verkefni. Það var ekki vegna þess að hún kæmi sér ekki saman um hvernig ætti að gera þetta. Það gerði hún á tiltölulega skömmum tíma. Ástæða þess að það tók svo langan tíma var að í stjórnkerfinu og hér á Alþingi voru hagsmunir einkalandeigendanna svo ríkjandi að stjórnmálaflokkar sem aðhylltust þeirra sjónarmið neituðu fram í rauðan dauðann að framkvæma þau verk sem Hæstiréttur hafði kallað á, þ.e. að flytja frumvörp hér á Alþingi til að taka af þessi tvímæli.

Nú, herra forseti, hefur þetta breyst og þessir flokkar standa nú að frumvarpsflutningi um að lögfesta þá stefnu sem Alþfl. og Alþb. hafa haft um áratuga skeið. (Gripið fram í: Er það ekki gott?) Það er gott því að batnandi mönnum er best að lifa. En mikið óskaplega er nú gaman að hafa verið þátttakandi í því að deila við þessa sömu menn, t.d. hv. þm. Pál Pétursson, alla sína þingsetu um þetta mál næstum því á hverju einasta ári og upplifa öll þau stóryrði af þeirra hálfu sem fokið hafa hér í þingsal út af þessum málum og sjá svo hinn gersamlega viðsnúning þegar þeir ganga nú, framsóknarmenn samanlagðir úr Sjálfstfl. og Framsfl., til liðs við okkur hv. þm. Ragnar Arnalds og segja: ,,Þið hafið haft rétt fyrir ykkur allan tímann. Nú viðurkennum við það. Nú lögfestum við ykkar stefnu í málinu.``

Ég segi einfaldlega í lokin, virðulegi forseti: Takk fyrir.