Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 14:50:24 (6399)

1998-05-09 14:50:24# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, RG
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[14:50]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér féllu orð: Hrepparnir hafa nýtt miðhálendið í þúsund ár og við ætlum að sætta okkur við það, landsbyggðarmenn, að miðhálendið verði tekið af okkur.

Virðulegi forseti. Þessi hugsun er kannski kjarni þeirrar umræðu sem farið hefur fram í heila viku á Alþingi Íslendinga þar sem við höfum lagt áherslu á að umráðaréttur hálendisins eigi ekki að vera í höndum 4% þjóðarinnar og fengið hörð viðbrögð við. Hér hefur þetta verið sagt: Við í hreppunum höfum nýtt þetta í þúsund ár. Við ætlum að sætta okkur við það, landsbyggðarmenn, að miðhálendið verði tekið af okkur. En hvernig? Einmitt eins og um hefur verið rætt, að það verði þeir hinir sömu hreppar sem hafi stjórnsýsluna á höndum.

Virðulegi forseti. Þetta er það eina sem verður tilvísun til ræðu minnar um sveitarstjórnarfrv. og stjórnsýslu miðhálendisins. Ég ætla ekki að taka hana upp í þessari umræðu en fyrst og fremst fara nokkrum orðum um frv. til laga um þjóðlendur og fylgja úr hlaði brtt. sem ég er 1. flm. að. Áður en ég geng til þess verks ætla ég líka að leiðrétta það sem fram kom hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni um að landnám Ingólfs væri friðað fyrir beit. Svo er því miður ekki enn þá, ekki einu sinni Reykjanesið, hvað þá heldur Kjósin og Þingvallasveitin, en við erum öll að vinna að því máli, höfum gert það í mörg ár og hillir undir betri tíð í þeim efnum.

Herra forseti. Ég er fremur hissa á því að forsrh. skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu. Ég hefði talið að fyrir forsrh. hefði það verið stórmál að vera hér þegar við tökum 2. umr. um það frv. sem undir venjulegum kringumstæðum hefði sýnt sig að vera hið stóra mál forsrh., ekki bara stóra mál kjörtímabilsins fyrir hann heldur hið stóra mál sem leitt er til lykta og beðið hefur verið eftir í áratugi.

Ef til vill er það svo að þar sem þetta mál blandast svo sterkt heitum tilfinningum allra þeirra sem hafa gagnrýnt að stjórnsýsla og skipulag er fært á fárra hendur, þá finni hæstv. forsrh. að stóra málið hafi ekki þann glæsta svip sem það annars hefði haft og e.t.v. er það þess vegna sem hann lætur það eiga sig að vera hér í dag, fylgja þessari umræðu, taka þátt í henni og bregðast við því sem við þingmenn höfum að segja. Þetta er merkilegt mál sem hér er rætt og tengist að sjálfsögðu sveitarstjórnarfrv. og hálendisstjórnun þess sem við erum búin að ræða í heila viku. Nægir að benda á það sem fram kemur á bls. 8 í greinargerð þar sem getið er um að í frv. þessu sé sveitarfélögum fengin ákveðin verkefni um stjórnsýslu innan þjóðlendna, óháð því hvort sá hluti þjóðlendu telst afréttur. Ég sagði við 1. umr. málsins að ég hefði kosið að þessu tvennu hefði ekki verið blandað saman og að við hefðum getað haldið okkur við að ræða frv. um þjóðlendur, setja lög þar um í samstöðu og sátt og reynt að byggja áfram og ná samstöðu um framhaldið. Þetta sagði ég við forsrh. við 1. umr. þessa máls.

Jákvæða hlið þess frv. sem við ræðum nú er að þverpólitísk samstaða er um það í meginatriðum þó álitamál sé um útfærsluna svo sem um skipulag og stjórnsýslu. Hins vegar er minni hlutinn með brtt. sem ég vænti að hv. alþm. skoði með opnum huga þar sem ég tel að þær séu til mikilla bóta.

Afar mikilvægt er þegar fjallað er um svona mál að lögð sé höfuðáhersla á að hagsmunir heildarinnar séu tryggðir og sýnist mér að leitast hafi verið við það í þessu frv. Kjarni frv. er að íslenska ríkið er lýst eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum, þ.e. sá hluti landsins sem er utan einkaeignar. Þau landsvæði sem munu falla í flokk þjóðlendna hafa að stærstum hluta verið nýtt sem afréttir. Gert er ráð fyrir að skipuð verði óbyggðanefnd sem hefur það hlutverk að skera úr um mörk þjóðlendna og eignarlanda og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendnanna. Hún fær til þess ákveðinn tíma eða til ársins 2005. Óbyggðanefndin, sem er tímabundið stjórnvald samkvæmt lögunum, verður skipuð þremur mönnum sem fullnægja skilyrðum til að gegna embætti héraðsdómara. Hálendið verður tekið til meðferðar í áföngum og verður hvert svæði auglýst í Lögbirtingarblaðinu þar sem skorað er á menn að lýsa eign sinni á landi. Þeir sem telja til eignarréttinda í þjóðlöndum þurfa að leggja fram heimildir og gögn sem eignartilkall þeirra byggist á. Heimilt er að láta fara fram málflutning fyrir nefndinni þannig að nefndin vinnur eins og dómstóll eða gerðardómur.

Í frv. er lagt til að það þurfi leyfi forsrh. til nýtingar vatns- og jarðhitaréttinda, svo og til nýtingar hvers kyns jarðefna í þjóðlendum, og brtt. okkar lúta m.a. að því. Hann gefur leyfi til afnota af landi til hagnýtingar á þessum réttindum. Sveitarstjórnir veita leyfi til nýtingar lands og landsréttinda til eins árs eða skemmri tíma, annars þarf leyfi forsrh. Sú brtt. sem ég mun mæla fyrir varðar þetta.

Frv. gerir ráð fyrir gjaldtöku fyrir afnotin og þá er og gert ráð fyrir að þjóðlendur verði undir eftirliti byggingar- og skipulagsyfirvalda sem taka til landsins alls en ekki einstakra sveitarfélaga.

Herra forseti. Þetta eru í stuttu máli meginatriði þessa frv. sem hefur loks séð dagsins ljós og komið til kasta Alþingis sem leysa mun áratuga ágreining um hver eignarréttur almennings er og hvað sé land í einkaeign á hálendi Íslands. Frsm. jafnaðarmanna í þessu máli og talsmaður er hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hún hefur fylgt þessu máli úr hlaði afar ítarlega og gert grein fyrir því hverjar séu meginathugasemdir jafnaðarmanna við þetta frv. Það er m.a. það einræðisvald á framkvæmd laganna sem fært er í hendur forsrh. Okkur finnst það allt of mikið og óeðlilega mikið. Þar hefur komið fram ákvörðun gjaldtöku og hversu há gjaldtaka má vera til nýtingar réttinda, hvernig tekjum af leyfum til nýtingar skuli varið og útdeilt, að hvorki gjaldtakan né ráðstöfun á tekjum skuli hljóta staðfestingu Alþingis --- sem okkur finnst óeðlilegt --- og að forsrh. einn fari með vald um hvernig óbyggðanefnd verði skipuð en hann skipar alla þrjá nefndarmennina. Brtt. sem hún mælti fyrir eru einmitt um að tekið verði fullt tillit til umhverfisverndar og alþjóðlegra skuldbindinga og sjálfbærrar nýtingar í þjóðlendum, að gjald miðist við verðmæti og verði sett í lög um aukatekjur ríkissjóðs og einnig það að nýting lands og landgæða í þjóðlendum verði boðin út þegar ætla megi að um verðmæta nýtingarkosti sé að ræða. Einnig hvernig tekjunum skuli varið og ráðstöfun tekna og svo síðasta tillagan sem ég beini sérstakri spurningu til hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur, talsmanns meiri hlutans í allshn. en sú tillaga okkar hljóðar svo:

[15:00]

,,Þeir sem nýtt hafa land innan þjóðlendu sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja skulu sækja um leyfi til umhverfisráðherra fyrir áframhaldandi nýtingu. Áður en leyfið er útgefið skal fara fram mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar nýtingar.``

Það er afskaplega mikilvægt atriði að hefðbundin not í afrétti skuli ekki bara flæða áfram heldur að sótt skuli um leyfi fyrir áframhaldandi nýtingu. Það er frekar erfitt að hugsa sér að stjórnarmeirihlutinn sé afar andvígur þessari tillögu. Hún er mjög hófsöm og eðlileg. Þess vegna spyr ég talsmanns meiri hlutans um mat hennar á því sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, talsmaður jafnaðarmanna, nefndi í framsögu sinni, hvort ekki væri æskilegt að þessari tillögu yrði frestað til 3. umr. og þess freistað að stjórnarmeirihlutinn tæki undir þetta mál með okkur.

Virðulegi forseti. Sú brtt. sem ég mæli fyrir við frv. til laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta er flutt af hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, Guðnýju Guðbjörnsdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur. Brtt. er í tveimur liðum við 3. gr. Það er í fyrsta lagi að 3. mgr. greinarinnar falli brott en hún hljóðar svo:

,,Til að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendu að öðru leyti en greinir í 2. mgr. þarf leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Sé nýting heimiluð til lengri tíma en eins árs þarf jafnframt samþykki forsætisráðherra. Rísi ágreiningur um veitingu leyfa samkvæmt þessari málsgrein sker forsætisráðherra úr honum.``

Í öðru lagi er að 2., 4. og 5. málsliðir 4. mgr. falli brott. Sú mgr. fjallar um heimild til endurgjalds fyrir nýtingu réttinda og upphaf hennar hljóðar svo, virðulegi forseti:

,,Forsætisráðherra er heimilt að ákvarða eða semja um endurgjald (leigu) fyrir nýtingu réttinda sem hann heimilar skv. 2. mgr.``

Síðan kemur framhald þessarar greinar þar sem við leggjum til að 2., 4. og 5. málsl. falli brott. Þeir málsliðir sem við teljum að eigi að falla brott hljóða svo, virðulegi forseti:

,,Með sama hætti er sveitarstjórn heimilt að fengnu samþykki forsætisráðherra að semja um endurgjald vegna afnota sem hún heimilar skv. 3. mgr.``

Jafnframt leggjum við til að eftirfarandi málsl. falli brott:

,,Tekjum af leyfum sem sveitarstjórn veitir skv. 3. mgr. skal varið til hliðstæðra verkefna innan þeirrar þjóðlendu sem leyfið tekur til. Sveitarstjórn skal árlega gera forsætisráðherra grein fyrir ráðstöfun fjárins.``

Eftir stendur í greininni:

,,Tekjum af leyfum til nýtingar lands skv. 2. mgr. skal varið til landbóta, umsjónar, eftirlits og sambærilegra verkefna innan þjóðlendna, eftir nánari ákvörðun forsætisráðherra.``

Síðan mundi sú grein sem eftir stæði falla undir þá brtt. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Bryndís Hlöðversdóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir eru með þar sem þær vilja draga úr hinu víðtæka valdi forsrh. bæði til að deila út og ákveða gjald.

Virðulegi forseti. Þessi brtt. sem ég mæli fyrir er vissulega tengd sveitarstjórnarfrv. sem við erum búin að ræða um undangenga viku. Þótt það frv. hafi farið í gegnum 2. umr. og atkvæðagreiðslu varðandi það þá er það ekki afgreitt frá hv. Alþingi. Því hefur verið vísað aftur til félmn. vegna þess að þrátt fyrir allt voru þó nokkuð mörg atriði sem kom í ljós að þyrfti að skoða nánar og m.a. sagði félmrh. að þar væru atriði sem þyrfti að skoða og enn ber ég þá von í brjósti að hæstv. forsrh. muni vitkast og bregðast við áskorunum þéttbýlisins um að breyta um varðandi stjórnsýslu á miðháendinu og leggja til að þessi ákvæði verði geymd yfir sumarið. Hins vegar stendur þessi brtt. fyllilega fyrir sínu óháð sveitarstjórnarfrv. vegna þess að hér er um mikið álitamál að ræða þó að sveitarstjórnarfrv. verði lögfest óbreytt.

Ég legg til, virðulegi forseti, að þessi tillaga verði samþykkt. Hún er afar skynsamleg og mér hefur fundist að í þessu máli hafi menn einmitt reynt að fara yfir þetta saman og skoða hvernig afgreiða megi þetta frv. þannig að sem mest sátt verði um.

Virðulegi forseti. Í lok máls míns óska ég að segja þetta: Það er mjög mikilvægt að við skulum ganga frá frv. til laga og gera að lögum frv. um þjóðlendur þar sem íslenska ríkið er eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti og við skulum ákveða með hvaða hætti skuli fara með ágreiningsmál og á hvaða tíma skuli ljúka ágreiningsmálum. Þetta er farsælt og meginefni þessa frv. er mjög farsælt mál þó að um einstök útfærsluatriði sé ágreiningur og að erfiðasti hluti þess sé hvernig frv. tengist sveitarstjórnarfrv. og stjórnsýslu.

Ég vil hins vegar leggja höfuðáherslu á að jafnaðarmenn hafa flokka mest haft á stefnuskrá og fylgt úr hlaði og fylgt eftir í ríkisstjórn að sveitarfélög fái aukið sjálfstæði, fái aukin verkefni, séu sjálfstæð stjórnsýslueining sem ráði málum sínum heima fyrir. Það er grundvallarmunur á því eða að sveitarstjórn fái stjórnsýslu varðandi málefni landsins alls, sérstaklega þegar um fá sveitarfélög er að ræða með svo litlum hluta landsins.

Virðulegi forseti. Á það legg ég áherslu í lok máls míns vegna tengsla þessara tveggja frv. um leið og ég lýsi því yfir að í meginatriðum mun þingflokkur jafnaðarmanna styðja frv. til laga um þjóðlendur alveg óháð því hversu sterka afstöðu hann hefur til frv. um stjórnsýslu og skipulag miðhálendisins og afstöðu til sveitarstjórnarfrv. sem hér hefur verið til umræðu.