Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 16:12:00 (6403)

1998-05-09 16:12:00# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[16:12]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að ég hafi svarað þeirri spurningu beint í ræðu minni áðan sem bæði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir beindu til mín og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ítrekar núna. Það er skoðun okkar meiri hlutans í allshn. að ekki sé þörf á því að koma með þessa brtt. Ég hef skýrt ástæður þess mjög rækilega að mínu mati og get svo sem ítrekað það hver tilgangurinn sé með 5. gr. Henni er ætlað að undirstrika að lögum um þjóðlendur er ekki ætlað að breyta neinu um réttarstöðu þeirra sem notið hafa afnota af þjóðlendum hvort sem slík afnot byggjast á lögum eða öðru, t.d. hefð. Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða beitarafnot eða skála ferðafélaga. Samþykkt 5. gr. breytir engu um aðrar lagareglur sem gilda um beitarafnot eða möguleika Alþingis til að breyta þeim og herða þar á.

Ég vék nokkuð að þörf þess að gera átak í gróðurvernd á Íslandi og sagði að ég væri sannfærð um vilja og góðan ásetning Íslendinga almennt til þess hvar sem þeir byggju á landinu og get í sjálfu sér alveg tekið undir þau sjónarmið. En slíkt á að gera á öðrum vettvangi. Það á ekki heima í því frv. sem við erum að ræða hér í dag.