Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 16:17:01 (6406)

1998-05-09 16:17:01# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[16:17]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér er fullkunnugt um rétt minn í því efni. Mér finnst ánægjulegt að heyra um persónulegan áhuga hv. þm. á því að færa þetta í það horf sem er í tillögunni. Ég held að styrkurinn og þunginn væri í að þessu yrði breytt, hugsanlega á næsta þingi, þó ég viti að beitarmálefni séu ekki á könnu allshn. Allshn. gæti komið saman milli 2. og 3. umr. og sent frá sér frhnál. þar sem því væri lýst yfir að nefndin teldi eðlilegt að athuga með breytingar á þeim lögum sem við á og beina því til viðkomandi ráðherra að það yrði gert fyrir næsta þing. Það hefði miklu meiri þunga en það að ég flytti frv. ein og sér eða með öðrum hv. þm.

Ef öll allshn. stæði á bak við það, þá mundi það vega mjög þungt. Ef slík beiðni eða ósk kæmi fram í frhnál. frá allri allshn þá gæti það orðið til þess að ég gæti hugsað mér að ræða það við meðflutningsmenn mína að þessi tillaga yrði dregin til baka. Ég spyr því hvort sú leið sé fær í þessu efni.