Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 11:14:17 (6413)

1998-05-11 11:14:17# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[11:14]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Stefáni Guðmundssyni fyrir svarið og óska bara eftir því að gildissvið skýringarinnar verði skoðað betur í nefndinni og tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða sem ég hef verið að nefna.

Varðandi minnkun á virkjunarmöguleikunum, bæði á orku og vatni, þá vildi ég gjarnan að þeir skoðuðu það frekar í nefndinni milli umræðna. Það er nefnt að í gróðurhúsastarfseminni séu stærstu gróðurhúsin ekki með nema 2,8 megavött virkjuð í dag. Þetta er einmitt grein þar sem hagkvæmni stærðarinnar er að koma mjög sterklega fram og við gætum átt von á því í framtíðinni að jarðeigendur vildu frekar virkja í þessum tilgangi.

Mér finnst vera of mikil miðstýringarhvöt og forsjárhyggja með leyfisveitingum að ætlast til þess að ef virkja eigi meira en þetta, þá þurfi að sækja um sérstakt leyfi. Ég vil lýsa því yfir að ég er mun sáttari við niðurstöðu frv. eins og hún liggur fyrir frá þeirri nefnd sem samdi það heldur en þá brtt. við frv. sem liggur hér fyrir í dag.