Undirritun Kyoto-bókunar

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 15:11:30 (6422)

1998-05-11 15:11:30# 122. lþ. 124.1 fundur 368#B undirritun Kyoto-bókunar# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[15:11]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það var ráðstefna austur í Kyoto í Japan í fyrri hluta desember sl. Þar var gengið frá víðtæku samkomulagi og Ísland hlaut þar mesta fyrirgreiðslu í sambandi við losun gróðurhúsalofttegunda, meira en nokkurt annað ríki sem tilheyrir svokölluðum Viðauka 1 eða Annex 1 sem tengist samningnum um loftslagsbreytingar.

Nú hafa borist fréttir af því að Ísland sé eina ríki Vestur-Evrópu sem hafi ekki undirritað samninginn, samning þar sem landið fékk besta fyrirgreiðslu út frá því sjónarmiði að hafa mest rúm til þess að menga andrúmsloftið með gróðurhúsalofttegundum á næstu árum. Jafnframt er sagt frá því í fréttum --- ég hef hér útskrift að fréttum 7. maí --- að Ísland sé eitt Vestur-Evrópuríkja og eitt af þremur OECD-ríkjum sem hafi ekki haft fyrir því að undirrita samninginn. Hin ríkin eru Bandaríkin og Nýja-Sjáland.

Hvað ætlar Ísland að draga það lengi að undirrita samninginn? Í því felst ekki staðfestingin á samkomulaginu en yfirlýsing um það að landið ætli að verða með. Er það svo, virðulegur forseti, að hæstv. umhvrh. hafi kannski verið bannað að undirrita samkomulagið af einhverjum yfirráðherrum eða ofurráðherrum svo notað sé nýlegt orðalag sem er líklega í tengslum við nágrannaríki okkar Færeyjar sem hefur ofurráðherra?