Uppsagnir hjúkrunarfræðinga

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 15:17:51 (6427)

1998-05-11 15:17:51# 122. lþ. 124.1 fundur 369#B uppsagnir hjúkrunarfræðinga# (óundirbúin fsp.), ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[15:17]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. 1. júlí nk. munu um 60--80% af hjúkrunarfræðingum á Landspítala og Sjúkrahúsi Reykjavíkur ganga út af sjúkrahúsunum. Þetta er í kjölfar einstaklingsbundinna uppsagna sem þessir hjúkrunarfræðingar hafa gripið til. Það er alveg ljóst að við þetta mun skapast algert neyðarástand á þessum sjúkrahúsum.

Ástæða uppsagnanna eru og ættu að vera hæstv. heilbrrh. ljósar en þær eru auðvitað megn óánægja með það hvernig hjúkrunarfræðingar hafa verið meðhöndlaðir í hinu nýja launakerfi ríkisins.

Herra forseti. Það sem er áhyggjuefni er að margir af þessum hjúkrunarfræðingum eru þegar farnir að leita sér að öðrum störfum og munu ekki koma til starfa á sjúkrahúsunum þó svo að semjist í tæka tíð. Það er áhyggjuefni að horfa til þess að stjórnvöld virðast leynt og ljóst viðhalda umönnunar- og hjúkrunarstéttum sem láglaunastéttum og láta góð tækifæri til þess að skapa viðunandi launaramma fyrir þessar stéttir fram hjá sér fara.

Mig langar að vitna í, herra forseti, að kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna tók saman upplýsingar um laun allra tæknifræðinga hjá ríki og borg. Samkvæmt þeim upplýsingum sem þaðan koma fá allir tæknifræðingar sem eru í fullu starfi hjá ríki og borg að meðaltali 192 þús. kr. í mánaðarlaun. Á sama tíma fá hjúkrunarfræðingar með fjögurra ára háskólanám 100 þús. kr. í mánaðarlaun. Ég spyr því hæstv. heilbrrh.: Finnst hæstv. ráðherra þetta ásættanlegt og til hvaða ráðstafana hyggst hæstv. ráðherra grípa til þess að koma í veg fyrir það neyðarástand sem skapast í vor?