Reglugerð um ÁTVR

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 15:30:51 (6437)

1998-05-11 15:30:51# 122. lþ. 124.1 fundur 371#B reglugerð um ÁTVR# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[15:30]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Svör hæstv. ráðherra valda mér miklum vonbrigðum. Ég hafði satt best að segja vonast til að hæstv. núv. ráðherra væri frekar málum mælandi í þessum efnum en forveri hans var.

Staðreyndin er sú að fyrrv. fjmrh. rak ótrúlega stefnu hvað varðaði málefni þessa fyrirtækis, hafði það að markmiði að leggja það niður í trássi við lög og í trássi við opinbera, mótaða áfengisstefnu og skipaði sérstaka stjórn til höfuðs fyrirtækinu sem hefur haft frá fyrsta degi það æðsta takmark með störfum sínum að leggja niður fyrirtækið sem hún var sett yfir og eyðileggja það innan frá úr því að ekki vill betur til.

Ég tel að þetta sé ekki í samræmi við lög. Ég tel að þetta sé ekki í samræmi við meirihlutavilja á Alþingi. Ég tel að þarna sé Sjálfstfl. að nauðga fram einkastefnu sinni í þessum málum í trássi við áfengislög og í trássi við opinbera mótaða áfengisstefnu og ég leyfi mér að spyrja: Er þetta gert með samþykkt og stuðningi samstarfsflokksins í ríkisstjórn eða hefur Framsfl. afhent Sjálfstfl. algert einræði í þessum efnum? Hvar er þá heilbrrh. á Íslandi í dag?