Rafmagnseftirlitið

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 15:39:10 (6446)

1998-05-11 15:39:10# 122. lþ. 124.1 fundur 374#B rafmagnseftirlitið# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[15:39]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Er hæstv. iðnrh. reiðubúinn að beita sér fyrir því í samráði við iðnn. Alþingis að fram fari athugun, könnun á rafmagnseftirlitinu í landinu í kjölfar þeirra breytinga sem þar hafa verið gerðar á liðnum árum? Því hefur verið haldið fram að rafmagnseftirlit sé í lamasessi víða á landinu og því hefur verið haldið fram að tilkostnaður við rafmagnseftirlitið sé hlutfallslega mun hærri en áður var og því hefur verið haldið fram að landsbyggðin hafi farið verr út úr þessum breytingum en þéttbýlið en allir þó illa.

Einnig hefur því verið haldið fram að nú sé í smíðum reglugerð sem enn dragi úr eftirlitinu. Flestu af þessu hefur verið vísað á bug, mér er fullkunnugt um það, enda vek ég ekki máls á þessu til að hefja deilur heldur til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé reiðubúinn að taka höndum saman við okkur, sem höfum haldið á lofti gagnrýni, til að setja niður deilur. Forsendur þess er að fá staðreyndir fram. Er hæstv. ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að málin verði rannsökuð skipulega?