Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 16:15:24 (6450)

1998-05-11 16:15:24# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, RA
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[16:15]

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það er meginefni þess frv. sem hér er til umræðu um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu að allar auðlindir sem finnast í og á jörðu í löndum í einkaeign séu eign landeiganda. Þetta gildir um verðmætar námur, um olíu sem finnast kann á þessum svæðum og um jarðhita, hversu hátt sem hitastigið er og hversu djúpt í jörðu sem jarðhitinn er.

Ég tel það einkenna frv. sem hér er til umræðu að einkaréttarsjónarmiðin hafa fengið algeran forgang en almannaréttur er sniðgenginn. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að svipta nokkurn mann þeim rétti sem hann hefur þegar öðlast enda verður það auðvitað ekki gert bótalaust. Ég er ekki að mæla með því að neinn réttur verði tekinn af mönnum. Menn eiga að halda þeim rétti sem þeir hafa í dag. En kjarni málsins er sá að það á ekki að gefa mönnum miklu meiri rétt en þeir hafa en það er verið er að gera með þessu frv. Vegna þess að ég sé að hæstv. iðnrh. er að hlýða á mitt mál þá langar mig til þess að spyrja hann að því hvort hann hafi gert sér fyllilega grein fyrir því hvað mikill tilflutningur í reynd á eignarétti felist í þessu frv. og hvort það hafi verið ætlunin með samþykki þessa frv. að breyta eignarréttarlegri stöðu mála á Íslandi í svo stórum stíl sem lögin kveða á um eða hvort hugsanlegt sé að þeir menn sem sömdu frv. séu þeirrar skoðunar að það feli ekki í sér neina efnisbreytingu frá því sem nú er. Ef svo er að menn gera sér ekki fyllilega grein fyrir þeim breytingum sem í frv. felast, þá er að sjálfsögðu brýn nauðsyn á að menn skoði þetta mál miklu betur og undirbúi það að fyrir næsta þing þannig að það megi koma þar fyrir á réttan hátt.

Mér er ekki ljóst hvort hæstv. iðnrh. er að hlusta á mitt mál eða hvort hann er bara að tala í síma úti í bæ. En ég er enn með fleiri spurningar til hans og þá kannski fyrst og fremst þá, hvort hann hafi kynnt sér dóm Hæstaréttar nr. 180/1996. Í þeim dómi er einmitt komið inn á mjög mikilvæga þætti þessa máls á allt annan hátt en gert er í þessu frv. og maður hlýtur að draga þá ályktun að þeir sem hafi samið þetta frv. hafi alls ekki kynnt sér þann dóm eða gert neina tilraun til að taka tillit til hans.

Í dag er það t.d. ekki þannig að ef olía finnst í sjó 100 metra frá landi, svo að ég nefni dæmi, þá er hún eign landeigandans sem á landið að sjónum. Það er ekki reglan í dag. Sama gildir ef jarðhiti finnst 50--100 metra út í sjó eða náma, verðmæt náma. Landeigendur eiga ekki þessi réttindi í dag. En með frv. sem hér er til afgreiðslu er verið að færa þessi réttindi yfir til landeiganda og það er algjörlega í andstöðu við íslenskan rétt eins og hann hefur verið til þessa dags og í fullkominni andstöðu við dóm Hæstaréttar frá árinu 1996 sem ég ætla að víkja að hér á eftir.

Ég vil taka það skýrt fram í öndverðu að ég er alls ekki að reyna að hafa rétt af landeigendum. Ég tel að bændum veiti ekkert af því að halda þeim rétti sem þeir hafa haft á liðnum öldum og fram á þennan dag, m.a. í netlögum. En það á ekki að gefa mönnum eitthvað sem þeir hafa ekki átt og það á ekki að láta menn fá miklu meiri rétt en þeir hafa nokkru sinni haft en það er verið að gera með þessum lögum. Í dag er bændum heimilt að leggja net til fiskiveiða, t.d. silungsveiða eða grásleppuveiða í sínum netlögum en hún er ekki í dag nema niður á tæplega þriggja metra dýpi. Þessum rétti eiga bændur að sjálfsögðu að halda og ég hef t.d. lagt mig í líma við það á Alþingi að koma í veg fyrir að verið sé að þrengja kost bænda því að eins og menn vita, þá hefur það verið gert hvað eftir annað með hagsmuni laxveiðibænda inn til dala og fjær sjó í huga, að réttur bænda sem eiga land að sjó hefur verið rýrður og þeim gerðir þrengri kostir en áður fyrr var. Þetta tel ég vera réttarskerðingu og hef oft á Alþingi einmitt tekið hagsmuni þeirra upp.

Ég tel það aftur á móti jafnmikla nauðsyn að tryggja að réttur landeigenda sem eiga land að sjó verði ekki miklu meiri en hann hefur verið í gegnum aldirnar og fram á þennan dag eins og felst í þessum lögum.

Svo ég víki fyrst að netlögunum áframhaldandi sem ég hef nokkuð minnst á, þá er það svo að réttarheimildir um netlög er fyrst og fremst í dag að finna í hinni fornu og ágætu Jónsbók sem enn er í gildi á Íslandi hvað þetta varðar þó að kannski hafi ekki margir gert sér grein fyrir því. Í 2. kapítula rekabálks Jónsbókar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,... það eru netlög utast er selnet stendur grunn XX möskva djúpt að fjöru og koma þá flár upp úr sjó.``

Þetta er gildandi réttur í dag eins og skýrt kemur fram í hæstaréttardóminum sem ég mun víkja að hér á eftir.

Ágætur lögfræðingur, Finnur Torfi Hjörleifsson, sem lauk lögfræðiprófi vorið 1985 og skrifaði kandídatsritgerð sem nefndist ,,Almannaréttur, hlutverk hans og staða í íslenskri réttarskipan`` skrifaði fræðigrein árið 1986 sem hét: ,,Hvar eru merki sjávarjarða til hafsins?`` Þessi ágæti lögfræðingur, Finnur Torfi Hjörleifsson, er þarna að fjalla nákvæmlega um það sem hér er verið að ræða, rétt landeigenda í netlögum sjávar. Hann tínir þar til hin ýmsu réttindi. Það er réttur til reka byggður á Jónsbók, fyrst og fremst rekabálki Jónsbókar. Þótt vissulega hafi seinna verið vikið af þessum rétti í lögum, þá er það fyrst og fremst Jónsbókarákvæðið sem hér hefur gildi. Í öðru lagi á landeigandinn rétt til vogreks og hann á veiðirétt, hann á fiskveiðirétt. En eins og fram kemur í ritgerð Finns Torfa Hjörleifssonar, þá er veiðirétturinn miðaður við ákveðna dýpt en ekki ákveðna fjarlægð frá landi, þ.e. tuttugu möskva djúpt selnet. Reyndar er ágreiningur um það hversu mikið dýpi þetta er nákvæmlega en fræðimenn hafa talið að dýpið gæti varla verið meira en 2,9 metrar.

Síðan er um að ræða rétt til veiða fugla og spendýra og þar kemur fyrst og fremst til greina tilskipunin frá 1849 þar sem landeiganda er veittur einkaréttur til veiða á þessum dýrum í netlögum. Þar er hins vegar miðað við aðra vegalengd. Þar er miðað við 115 metra fjarlægð frá landi en ekki við tiltekið dýpi. Síðan er það réttur til beititekju. Allt eru þetta óbein eignarréttindi. Þetta eru réttindi ábúanda jarðar sem á ekki svæðið sem er innan netlaga heldur á hann einungis óbeinan eignarrétt. Hann á nytjarétt, hann á afnotarétt, rétt til þess að nýta tiltekin hlunnindi á þessu svæði án þess að eiga sjóinn innan þessara marka eða eiga hafsbotninn sem þarna er undir. Netlögin eru sem sagt ekki nákvæmlega hin sömu þegar um er að ræða fugla og spendýr annars vegar og svo aftur veiði hins vegar. Ég þarf ekki að ítreka það neitt frekar að í þessari ritgerð kemst Finnur Torfi Hjörleifsson alveg eindregið að þeirri niðurstöðu að beinn eignarréttur eigandans sé ekki fyrir hendi innan netlaga. Hann segir berum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

,,Um beinan eignarrétt eiganda sjávarjarða til netlaga er hvergi mælt í lögum.`` Seinna segir hann, með leyfi forseta: ,,Samkvæmt framanrituðu nær landareign sjávarjarðar ekki til netlaganna. Landeigandi á í netlögum sjávar tiltekin afmörkuð réttindi sem sum styðjast einkum við ákvæði í seinni tíma löggjöf, réttur til fuglaveiði og beititekju. Um önnur má e.t.v. segja að auk þess sem þau eru lögákveðin eigi þau sér rót í fornri venju Jónsbókarákvæði um reka og veiða. Landeigandi á ekki beinan eignarrétt til netlaga í sjó.``

Nú er auðvitað um að ræða fræðiritgerð sem ég er að vitna hér í en ekki beinan rétt. Hér er verið að túlka rétt en ekki verið að skilgreina rétt. Það er eftirtektarvert að fyrir tíu árum neyðist höfundur ritgerðarinnar til að komast svo að orði, með leyfi herra forseta:

,,Óvíst sýnist hvort dýptarreglan yrði fyrir dómstólum talin gilda um fiskveiðinetlög.``

Á þetta hafði ekki reynt með skýrum hætti. En nú fyrir aðeins tveimur árum síðan og tæplega það, hinn 19. september 1996, er kveðinn upp í Hæstarétti dómur nr. 180, þ.e. ákæruvaldið gegn Tómasi Hólmgeiri Haukssyni. En Tómas Hólmgeir Hauksson er ákærður fyrir að hafa lagt grásleppunet sín á Breiðafirði við Langey sem liggur vestan Skarðs í Dalabyggð. Ákærði benti á að hann hefði fengið leyfi Fiskistofu til að stunda grásleppuveiðar á Breiðafirði á vor- og sumarvertíð 1994 sem hefði verið gefið út á grundvelli reglugerðar um hrognkelsaveiðar og það var ekki vefengt í málinu. En málatilbúnaður ákæruvaldsins var reistur á því að hann hefði lagt net sín innan 60 faðma frá stórstraumfjörumáli Langeyjar, þ.e. innan 115 metra línunnar og þar með í netlögum eyjarinnar. Innan þeirra eigi landeigandi einn rétt til allra veiða og þar með talið til sjávarfiska og sá réttur er að dómi ákæruvaldsins leiddur af 3. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849 sem, eins og ég hef þegar sagt, fjallaði fyrst og fremst um fuglaveiði og veiði dýra en ekki um veiði fiska.

[16:30]

Um þetta mál féll fyrst undirréttardómur þar sem ákærði var sakfelldur. Í hæstaréttardómi er hins vegar vísað til Jónsbókarákvæðisins sem ég ætla að lesa aftur, með leyfi forseta, því að þau skipta hér öllu:

,,Það eru netlög utast er selnet stendur grunn XX möskva djúpt að fjöru og koma þá flár upp úr sjó.``

Í dómnum segir að ekki sé fullvíst hvaða dýpi það sé en samkvæmt kenningum fræðimanna sé það einhvers staðar á milli 2,9 og 7,52 metrar. Bent er á að veiðitilskipunin frá 1849 hafi ekki getað falið í sér neinn annan og rýmri rétt landeiganda til veiði en þeir hafi áður haft, enda fjalli tilskipunin um dýraveiði og fuglaveiði. Í hæstaréttardómnum segir síðan, með leyfi forseta:

,,Af fornlögum verður ekki ráðið, að netlög í sjó hafi verið talin háð sömu eignarráðum fasteignareiganda og landið fyrir ofan. Með síðari tíma löggjöf hafa eigendum fasteigna ekki heldur verið veittar allar sömu eignarheimildir yfir netlögum í sjó, sem þeir njóta yfir fasteignum, er að þeim liggja.`` Síðar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Með löggjöf eftir það hefur fasteignareigendum ekki með ótvíræðum hætti verið veittur einkaréttur til veiði sjávarfiska í netlögum, sem miðist við fjarlægð frá stórstraumsfjörumáli. Ákvæði 2. kapítula rekabálks Jónsbókar um afmörkun netlaga, sem miðast við sjávardýpi, hafa ekki heldur verið felld úr gildi ...`` Síðan segir að lokum: ,,Ber með vísan til 45. gr. laga nr. 19/1991 að sýkna hann af broti á 3. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi frá 1849.``

Það væri kannski fróðlegt fyrir hv. alþm. að gera sér grein fyrir því að til eru fleiri línur út frá sjávarströnd heldur en netlögin ein, sem skýrir hvað þetta hugtak hefur verið breytilegt í tímans rás. Ein af þessum línum er friðlýsing æðarvarps. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, má ekki án leyfis varpeiganda leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 metra frá stórstraumsfjörumáli, frá 15. apríl til 14. júlí ár hvert. Þessi lög tóku gildi 1. júlí 1994. Þarna höfum við enn eina línuna en hingað til hefur engum dottið í hug að gefa landeigendum allt sjávardýpið og allan sjávarbotninn undir þessum 250 metrum, enda stóð það ekki til.

Ég hef í þessum orðum mínum sýnt fram á það með skýrum rökum að með samþykkt þessara laga er landeigendum gefinn mun meiri réttur en þeir hafa í dag. Menn skulu ekki halda að spurningin um 115 metra svæði meðfram strönd landsins skipti engu máli. Hún skiptir máli varðandi námur, olíuvinnslu á síðari tímum og margt fleira þess háttar, m.a. leit að heitu vatni.

Nú ætla ég að koma nánar að vatninu sem líka er verið að einkavæða í þessari löggjöf. Ég vil minna á það hér að vatnsnot eru frá fornu fari almannaréttur á Íslandi, almenningseign. Kalt vatn var aldrei eign nokkurs manns, hvort sem það var rennandi vatn eða stöðuvatn. Kalt vatn var einungis undirorpið eignarrétti á þann hátt að það mátti veiða á vatninu eða í vatninu en vatnið sjálft var aldrei undirorpið einkaeignarrétti. Það er eftirtektarvert, ef skoðuð eru gögn frá fyrri tíð, að heitt vatn og jarðgufa var ævinlega talin almenningseign á Íslandi. Að vísu eru ekki bein lagafyrirmæli um þetta atriði, hvorki í Grágás né Jónsbók. Hins vegar er auðvelt að sjá það af fornum heimildum að svo hafi verið litið á að það væri svo sjálfsagður réttur almennings að eiga frjálsan aðgang að jarðhita á Íslandi að ekki hefur verið talin þörf á því að taka það fram.

Með þessu frv. er því slegið föstu að allur jarðhiti jafnvel inn að miðpunkti jarðar sé eign þess sem á landið fyrir ofan, óháð því að menn viti að nú til dags er hægt að bora skáhallt til beggja hliða og hlýtur þar af leiðandi að verða mikill ruglingur, þegar kemur niður á verulegt dýpi, hver er á hvers landi. Þessu er samt sem áður slegið föstu í frv. sem hér liggur fyrir.

Ég bendi á þetta, þó að það skipti kannski ekki öllu máli í sambandi við samþykkt þessa frv. Ég viðurkenni að í því tilviki hefur rétturinn breyst í eðli sínu en ég tel að það sé hins vegar mikilvægt, frá sögulegu sjónarmiði og mikilvægt til þess að skoða málið í heild sinni, að menn geri sér grein fyrir því hve almenningur átti í gegnum aldirnar ríkan rétt á þessu sviði.

Það er til að mynda ljóst af fjöldamörgum heimildum í Sturlungu að heitar laugar voru almenningsbaðstaðir og raunar meira en það, þær voru samkomustaðir landsmanna. Ef litið er á þá kafla þar sem laugar koma fyrir, sem eru fjöldamargir staðir í Sturlungu, þá rekur maður t.d. augun í Vallalaug í Skagafirði. Hún er nokkuð oft nefnd og gæti ég vissulega farið í að lesa þær tilvitnanir allar en tímans vegna mun ég þó sleppa því.

Vallalaug í Skagafirði var fundarstaður almennings í Skagafirði. Þar komu menn saman til þinga og þá er ég ekki aðeins að tala um þing sem lögmenn boðuðu til eða sýslumenn boðuðu til því að þau voru auðvitað ævinlega haldin við slíkar laugar, heldur var það greinilega almenn regla, ef menn vildu stefna saman liði sínu til friðsemdar eða til mannvíga, að koma saman við laugar. Það sést mjög greinilega, t.d. hvað varðar Vallalaug í mörgum frásögnum, að þegar búist er til mikilla bardaga í Skagafirði, þá komu menn saman ýmist við Vallalaug eða Reykjalaug í Tungusveit sem er þar ekki langt frá. Þar söfnuðust menn aðallega saman þegar þeir vildu fela sig fyrir árás. Þegar árásin mikla var gerð þvert yfir jökulvötnin og leiddi til bardagans mikla á Örlygsstöðum, þá söfnuðust menn saman við Reykjalaug í Tungusveit í Skagafirði.

Sama gildir um Sælingsdalslaug, Reykjalaug í Miðfirði, Laug í Reykjadal í Dölum, Skíðastaðalaug, Hrafnagilslaug í Eyjafirði, Lýsuhólslaug á Snæfellsnesi og fleiri laugar víðs vegar um land. Þetta voru samkomustaðir almennings og alveg ótvírætt í almenningseign.

Menn kunna að segja að þetta hafi aðeins verið á fyrstu öldum byggðar á Íslandi og Sturlunga gerist eins og menn vita á 13. öldinni. Ef við færum okkur nær nútímanum og komum yfir á 18. öldina, þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson ferðuðust um landið, þá lýsa þeir jarðgufuböðum sem heilsulind almennings og það er yfirleitt alltaf tengt því að ferðamenn máttu staldra þar við og laugast. Þannig er t.d. greint frá því í ferðabók þeirra að ferðamenn á leið til Alþingis notuðu Reykjalaug, sem er skammt frá Lundarreykjadal, og ekki þarf að segja mönnum af lauginni í Laugardal, þar sem kristnir menn voru skírðir eftir að kristni var lögtekin á Íslandi. Kristnir menn á Íslandi höfðu það fram yfir trúbræður sína í öllum öðrum löndum að þeim þóknaðist að lauga sig í heitu vatni, en annars staðar var mönnum dýft í kalt vatn. Þeir neituðu jafnvel að láta skíra sig í köldu vatni en létu flytja sig langan veg að heitum laugum sem síðan urðu helgar laugar þar í frá. (Gripið fram í: Ólíkt notalegra.) Og þarf ekki að spyrja að því að það var að sjálfsögðu ólíkt notalegra.

Í Ferðabókinni er einnig minnst á Leirárlaug, á árinu 1665 og sagt frá því að hinn frægi Árni Oddsson lögmaður var þar á ferð og hann laugaðist þar án þess að nokkur væri þar nærstaddur. Sagt er að það hafi verið alvanalegt, en honum varð hált á því og lét þar lífið sem frægt varð. Enginn var til að sinna honum þegar hann hefur væntanlega fengið aðsvif og í tengslum við það er hvatt til þess að allar þessar mörgu almenningslaugar séu byggðar upp. Það er kvartað yfir því að ferðamenn þurfi að hafa fataskipti á bersvæði og ganga jafnvel allsnaktir til bæjar og sinna þurfi þessum málum með skaplegum hætti. Því er haldið fram að almannavaldinu beri skylda til að sinna þessum almenningslaugum. Hér síðar segja þeir félagar, með leyfi herra forseta:

[16:45]

,,Almenningsmannvirki frá Sturlungaöld þekkjast ekki önnur nú en Snorralaug, sem fyrr er lýst, og Hvítárbrú, sem reist var til forna yfir Hvítá og síðar við haldið af sveitarbúum.``

Þessi brú ónýttist og vissulega ónýttust margar laugarnar en engu að síður bera þessar tilvitnanir mínir þess skýran vott að laugar voru hér almenningseign.

Það er líka eftirtektarvert að í hinu mikla verki Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, Jarðabókinni, sem var samin 1702--1712, og fjallar um eignarréttindi, fjallar um eignarrétt á landi. Það er verið að gera grein fyrir dýrleika jarða, það er verið að gera grein fyrir því hvaða rétt bændurnir eiga. Þar er hvergi minnst á lauga- eða heitavatnsréttindi, hvergi í allri bókinni er minnst á slík réttindi vegna þess að það var auðvitað ekki litið á það sem réttindi viðkomandi jarða eða bænda. Einkaeignarréttindi yfir þessum gæðum höfðu alls ekki verið stofnuð á þessum tíma.

Það er ekki fyrr en með 10. gr. vatnalaganna, nr. 15/1923, sem lögákveðinn er einkaeignarréttur að jarðhitaréttindum en þá gerist stóra breytingin, hin lögformlega breyting, og að því leyti er þetta mál svolítið öðruvísi vaxið en netalagnirnar, sem ég nefndi áðan, að það er alveg ótvírætt að fram á þennan dag er almenningsréttur í netalögnum og engin heimild til þess að eigna sér þar réttindi sem ekki tilheyra almennum hefðbundnum búskaparnytjum. En jarðhitaréttindi, þ.e. réttur almennings til vatns og lands fyrir sundlaugar, þ.e. þessi klassíski yfirborðshiti eða lághiti, var gerður undirorpinn einkaeignarrétti árið 1923.

Upprifjun mín um almenningsrétt gegnum aldirnar er samt mikilvæg vegna þess að hún sýnir að önnur hugsun var þarna á ferðinni og að þróunin hefur verið í hina áttina. Áður en ég hverf úr fortíðinni, vegna þess að ég vil gjarnan halda þessum heimildum til haga og koma þeim í þingtíðindi svo hægt sé að ganga að þeim þar, vil ég taka það fram að ég hef ekki grafið þessa vitneskju alla upp heldur hef ég notið aðstoðar ágætra manna sem vel eru lærðir í sögu og lögfræði og hafa bent mér á ýmislegt í þessum efnum. Ég veit að það er vilji þeirra líka að þessu sé haldið til haga, þessu sé komið á einn stað og það skal gert hér.

Þeir hafa bent mér á að í Íslandslýsingu Odds Einarssonar, sem rituð er 1593, er á athyglisverðan hátt fjallað um almannaréttinn hvað varðar heita vatnið, og vil ég leyfa mér að lesa örstuttan kafla eftir Odd í þýðingu Jakobs Benediktssonar því að þetta var ritað á latínu, með leyfi herra forseta:

,,Fjölmargir á þessum slóðum fullyrða það nefnilega sem sannreynt, að þetta svitabað hafi allt frá fornu fari ekki aðeins læknað kláða og útbrot, heldur líka eytt mörgum öðrum sjúkdómum eða a.m.k. linað þá tíma og tíma. Menn álíta reyndar einnig, að önnur böð og heitar laugar á Íslandi hafi þessa náttúru að leggja fjölmargt til viðhalds heilsunni. Að vísu segja kerlingabækur, að þetta stafi frá einhverjum guðum og vissum mönnum, sem einhvern tíma hafi blessað hina og þessa staði. En vér látum slíkt bull lönd og leið og vitum, að oss bera að játa með tilhlýðilegri þakklátssemi, að hin óeigingjarna náttúra hefur með þessum hætti lagt oss til einstök hlunnindi og mikið djásn.`` --- Ég les áfram, með leyfi forseta, og vek sérstaklega athygli á þessari lokasetningu: --- ,,Því fullvel veit ég, að ef afnot slíkra heilsulinda væru á valdi einhverra fjárplógsmanna, væru þeir ekki lengi að auka við inntektir sínar.``

Þegar á þessum tíma, 1593, hafa þeir verið til sem vildu auðgast og bæta hag sinn og það er greinilegt á þessari ívitnun að biskupinn Oddur Einarsson telur það jafnast á við fjárplógsstarfsemi að fara að selja afnot af jarðhita á Íslandi.

Ég ætla ekki að fjölyrða mikið frekar um þennan þátt málsins, enda eiga sjálfsagt margir eftir að gera góða grein fyrir ýmsum hliðum þess, en ég get samt ekki stillt mig um að vekja athygli á einni grein frv. þar sem fjallað er um heimildir landeiganda til að hagnýta jarðhita í eignarlandi sínu til heimilis- og bústarfa, þar með talið til ylræktar, iðnaðar og iðju. Það er 10. gr. frv. sem um þetta fjallar og í frv. eins og það kom frá hæstv. ráðherra stóð að hagnýtingin væri bundin við 5 megavött. Raunar stóð þar, með leyfi forseta:

Að hagnýta megi ,,allt að 5 megavöttum miðað við vermi sem tekið er úr jörðu á hverri sekúndu alls innan eignarlandsins.``

Þessari setningu hefur hv. meiri hluti iðnn. lagt til að breytt verði í 3. brtt. sinni og breytir nú orðalaginu lítils háttar og lækkar hagnýtingarréttinn úr 5 megavöttum niður í 3,5 megavött. Ég hef spurt kunnáttumenn að því hvort þeim finnist þessi skerðing nokkuð átakanleg og fæ þau svör að mönnum finnist þetta í raun og veru fráleitt hvað menn öðlist mikinn rétt hvað þetta varðar.

Menn benda á það að jafnvel lægri talan, 3,5 megavött, sé verulega miklu meiri en t.d. öll sú orka sem kemur úr Þvottalaugunum í Reykjavík sem er 87 stiga heitt vatn, 10 sekúndulítrar, 2,3 megavött, og mundi duga fyrir 100 hús. Það er talið líklegt að þessi orka mundi jafnvel duga fyrir 150 hús, þ.e. heilt þorp og menn telja auðvitað að þarna hljóti að verða sett einhver skynsamleg mörk sem miðist við eðlilega og venjulega hagnýtingu jarða en þarna er um allt annað að ræða.

Í þessu samhengi mætti benda mönnum á að sú notkun sem er hjá Sundhöll Reykjavíkur er ekki nema 0,5 megavött en við erum að tala um 3,5 eftir að búið er að breyta þessu.

Herra forseti. Niðurstaða mín er einfaldlega sú að þetta frv. þarfnist endurskoðunar og það eru viss atriði í frv. sem eru greinilega þess eðlis að menn hafa ekki áttað sig til fulls á efni þess. Ákvæðið um netlögin er mjög stórfelld einkavæðing án þess að nokkurt fé komi fyrir. Staðreyndin er sú í samræmi við þann hæstaréttardóm, sem ég vitnaði í, að landeigendur eiga ekki þennan rétt í dag en öðlast hann með lagasetningunni. Þetta er nákvæmlega sams konar mál og þjóðlendurnar, að réttindin í netlögunum eru óbein réttindi líkt og beitirétturinn í almenningum eða veiðiréttur í almenningum. Bændur eiga að halda þeim rétti og munu halda þeim rétti þrátt fyrir samþykkt þjóðlendufrv. þegar þau mál hafa verið gerð upp á réttan hátt. Ég tel það fagnaðarefni og alveg sjálfsagt mál og ég ítreka það að ég vil ekki á nokkurn hátt taka rétt af bændum. Hlutur þeirra er ekki of stór í þjóðfélaginu að ástæða sé til þess að rýra hann. En rétt skal vera rétt og það á ekki hvorki á þessu sviði né neinu öðru að gefa mönnum rétt í stórum stíl sem þeir eiga ekki í dag. Bændur eiga að láta sér nægja þann rétt sem þeir hafa sem er réttur til reka, réttur til vogreks, réttur til fugla og spendýra og fiskveiðiréttur sem reyndar er bundinn við dýpi en ekki fjarlægð frá landi.

Eins er þetta með jarðhitann. Þar verður að miða við einhver takmörk og það sjá það allir að ekkert réttlæti og ekkert vit er í því að gefa landeigandum rétt á jarðhita mörg þúsund kílómetra inn í jörðina alveg óháð hitastigi eða dýpt. Jarðhitinn var almenningseign. Síðan varð yfirborðshitinn undirorpinn einkaeignarrétti. Síðan var gengið enn lengra með því að menn eignuðust þann hita sem auðvelt var að ná með borunum en um leið og boranir komu til sögunnar komu þær ábendingar frá fræðimönnum að það væri sjálfsagt og eðlilegt að setja þeim rétti einhver takmörk.

Ég vil að endingu minna á orð þessara fræðimanna. Í stjfrv. sem lagt var fyrir Alþingi 1957 var eignarréttur ríkisins talinn byrja neðan við 100 metra dýpis og það rökstutt með því að annars væri hætta á því, ef miðað væri við meira dýpi, að menn væru farnir að draga hitann úr jarðvegi í næsta nágrenni. Þetta frv. var samið á grundvelli álitsgerðar sem fyrrv. forsrh. Ólafur Jóhannesson hafði undirbúið. Hann var að vísu ekki orðinn forsætisráðherra á þeim tíma að sjálfsögðu og reyndar ekki kominn á þing en hann var prófessor við háskólann, og frv. sagði hreint út, með leyfi herra forseta:

,,Ríkið á allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita sem liggur dýpra eða sóttur er dýpra en 100 metra undir yfirborð jarðar.``

[17:00]

Í greinargerð frv. var vikið að því hvernig þessum málum væri háttað í mörgum nálægum löndum og á það bent að langalgengasta reglan væri sú að jarðhiti neðan við ákveðin mörk eða ofan við ákveðið hitastig væri eign ríkisins. Rakið var hvernig þessum málum væri háttað í Nýja-Sjálandi, á Ítalíu, í Mexíkó þar sem jarðhiti er á öllum þessum stöðum en á þessum stöðum hafa ríkinu verið tryggð umráð þeirra orkulinda sem liggja þannig djúpt í jörðu. Einnig var vísað í þýskan rétt og í greinargerðinni sagði, með leyfi herra forseta:

,,Ljóst er því að svo er litið á að setja megi eignarrétti landeigenda á efnum í jörð miklar takmarkanir og undanskilja þau einstaklingseignarrétti án þess að til greina komi neinar bætur til landeigenda að því er virðist.``

Í þessu frv. sagði líka, með leyfi herra forseta: ,,Þegar tillit er tekið til framangreindra atriða og þess að aðrar þjóðir telja jarðhita djúpt í jörð undanskilinn eignarrétti landeiganda og háðan umráðarétti ríkisins (Nýja-Sjáland, Ítalía og Mexíkó) virðist eðlilegt að löggjafinn hverfi hér inn á svipaða braut í þessu efni, þ.e. dragi alveg ákveðna markalínu á milli einstaklingseignarréttar og umráðaréttar ríkisins.``

Þetta er allt úr greinargerð sem er undirrituð af Ólafi Jóhannessyni og byggðist á ítarlegri athugun færustu lögfræðinga á sviði eignarréttar á þeim tíma.

Vissulega hefur alltaf verið álitamál hvernig skyldi draga þessa takmörkun og það er eftirtektarvert að menn hafi verið með breytilegar viðmiðanir í þessum efnum. Svo virðist vera að menn hafi í upphafi miðað við 100 metra dýpi. Seinna hafi verið fluttar tillögur á Alþingi um að miða við 200 metra dýpi. Það kom fram frv. í tíð vinstri stjórnarinnar á árunum 1971--1974 þar sem gert var ráð fyrir því að háhitasvæði yrðu sameign þjóðarinnar. Þar var greinilega verið að miða við hitastigið miklu frekar en sjálft dýpið og þó. Háhitasvæðið var skilgreint þannig að það væru þeir staðir þar sem finna mætti yfir 200 stiga hita á minna en 1.000 metra dýpi og það er viðmiðun sem kann að eiga fullan rétt á sér. En að falla frá öllum viðmiðunum í þessu efni er að takmarka ekki þennan rétt á nokkurn hátt felur í sér að verið er að skapa nýjan rétt í landinu sem gengur í berhögg við skoðanir fræðimanna allt fram á þennan dag um hversu langt einkaeignarrétturinn skuli ráða. Satt best að segja undrar mig stórlega að maður eins og hæstv. félmrh. skuli styðja mál af þessu tagi þar sem einkaeignarréttinum er gefið svo mikið svigrúm sem raun ber vitni og ég hef hér rakið.

Herra forseti. Ég læt þessi orð nægja en tek undir það sem hefur verið sagt í umræðunni að málið er þess eðlis að þörf er á að skoða það betur í sumar og koma með endurskoðað frv. á haustdögum þar sem tekið væri fullt tillit til þeirra athugasemda sem fram hafa komið í umræðunni.