Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 18:48:37 (6455)

1998-05-11 18:48:37# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[18:48]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er nú til umræðu er tvímælalaust eitt af stærstu málum þingsins. Ég hygg satt að segja að fá mál séu stærri, fá mál sem munu hafa eins afdrifaríkar afleiðingar fyrir land og þjóð þegar fram í sækir. Þess vegna er ekkert undarlegt við það þó það sé rætt nokkuð rækilega og auðvitað þeim mun rækilegar hér sem málið fékk minni tíma í hv. nefnd. Það hefði þurft miklu meiri tíma vegna þess að hér er það stórt mál á ferðinni og flókið, mál sem í raun og veru hefur í för með sér gríðarlegar breytingar á efnahags- og atvinnulífi Íslendinga bæði í bráð og í lengd.

Út af fyrir sig er mér ljóst, herra forseti, að þessi orð hafa svo sem verið sögð hér áður. Þau voru t.d. vafalaust sögð í tengslum við hálendisfrv. sem var hér til meðferðar fyrir nokkru. Og ég geri ekki lítið úr því að er stórmál. Það er stórmál fyrst og fremst af því að þar er verið að reyna að skipuleggja hálendið. Ég hefði viljað standa öðruvísi að því og hef ekki fulla trú á því að menn séu þar á réttri leið. Ég held að það sé fyrst og fremst verið að klúðra málum að óþörfu með því að stefna saman afar ólíkum viðhorfum á viðkvæmu stigi og ég er afar ósáttur við það hvernig á því máli er haldið af hæstv. ríkisstjórn.

En í tengslum við það mál hefur því verið haldið fram að um það sé að ræða að verið sé að afhenda eignir í stórum stíl. Ég tók eftir því að í einu af dagblöðum bæjarins var talað um að í frv. um hálendið, þ.e. sveitarstjórnarlagafrv., bráðabirgðaákvæði þess og 1. gr., væri verið að afhenda tilteknum aðilum eignir. Ég vil láta það koma fram sem mína skoðun að ég tel að það sé ekki rétt uppsetning. Ég tel að þar séu menn að takast á um stjórnsýslumál og sannarlega er umdeilanlegt hvernig að þeim er staðið. En þar var ekki um að ræða eignatilfærslu eða það að verið væri að gefa einkaaðilum eignir í stórum stíl.

Það er aftur á móti tilfellið hérna. Hér er verið að gefa einkaaðilum eignir í stórum stíl. Eins og hv. þm. Ragnar Arnalds greindi frá í afar fróðlegri og góðri ræðu fyrr í dag, er hér í raun verið að brjóta gegn margra alda sátt í þjóðfélaginu um eignarhald á tilteknum þáttum eins og t.d. jarðhitanum.

Í frv. um þjóðlendur var gert ráð fyrir því að ríkið eignaðist þau lönd sem enginn hefur til þessa sannanlega slegið eign sinni á. Það er líka að mínu mati skynsamleg lending vegna þess að það er lending sem lengi hefur verið beðið eftir að fengist. Það er sérstakt fagnaðarefni, verð ég að segja, að Sjálfstfl. og forsrh. skuli beita sér fyrir því að þjóðin eignist land á jafnafgerandi hátt og þar er um að ræða. Einhverjir hefðu nú kallað það þjóðnýtingu, sem það auðvitað er. Þetta er að mörgu leyti einhver víðtækasta þjóðnýting sem hefur átt sér stað hér og er það sannarlega fagnaðarefni að Sjálfstfl. skuli hafa forustu um þetta merka þjóðnýtingarátak.

Jafnframt er ljóst að þjóðlendumálin hafa mikil áhrif á hálendismálið vegna þess að stór hluti þeirra verður auðvitað þjóðlendur. Síðan hafa komið fram tillögur, eins og frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, um að stofna á hálendinu fjóra þjóðgarða með jöklana sem kjarna. Þetta er tillaga sem hefur vakið gríðarlega mikla athygli og ég hygg að sé mikil samstaða um. Eina ástæðan fyrir því að hún er ekki orðin að ályktun Alþingis er sú að hún er flutt af stjórnarandstæðingi vegna þess að það er ekki til siðs í þessu meirihlutakerfi sem við búum við að hlusta á stjórnarandstöðuna. Þar er gerð tillaga um að stíga mjög merkilegt skref.

En aftur á móti í þessu frv., því þriðja og síðasta af þeim þremur sem eru hér til meðferðar --- það heitir núna Frumvarp til laga um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu, en er gerð tillaga um að það heiti Frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu --- er sannarlega um að ræða stórkostlega eignatilfærslu. Ég spurði starfsmann iðnrn. sem sat yfir nefndinni meðan hún var að fjalla um málið, --- mér datt í hug orðið ,,yfirsetukona`` rétt í þessu vegna þess að starfsmaðurinn sat svo nákvæmlega og af þvílíkri natni yfir nefndinni allan tímann (Iðnrh.: Til aðstoðar.) og var til aðstoðar þangað til fæðingin átti sér stað með miklum hörmungum og kvalræði. Ég spurði þennan starfsmann iðnrn.: Hvað er verið að afhenda hér mikla eign í raun og veru með þessu? Því miður treysti hann sér ekki til þess að slá á það, en ég hygg að hér sé um að ræða verðmæti upp á milljarðatugi sem verið er að afhenda landeigendum. Auðvitað væri æskilegt að reynt væri að slá á það máli hvaða eignatilfærsla hér sé á ferðinni. Ég skil það svo sem vel að það er flókið mál. En það er gríðarlega mikilvægt að átta sig á því að hér er um að ræða eignatilfærslu upp á milljarðatugi. Þar af leiðandi, herra forseti, er þetta mál langstærsta málið af þessum þremur sem hér eru til meðferðar.

Þrjár ástæður eru fyrir því, herra forseti, að ég hef lagt áherslu á að ekki eigi að ljúka þessu máli. Í fyrsta lagi er ég andvígur því pólitískt vegna þess að ég tel að þessi eignatilfærsla sé röng og hún sé brot á margra alda hefðum. Ég og minn flokkur, Alþb., erum því andvíg þessari eignatilfærslu. Það er meginástæðan fyrir því að við gætum átt það til við meðferð málsins, ef tillaga okkar um frávísun verður felld, að greiða atkvæði á móti ýmsum greinum frv. vegna þess að þær eru slíkar að við getum ómögulega sætt okkur við þær og við teljum að það sé nauðsynlegt að staðfesta það á Alþingi með beinum atkvæðagreiðslum þannig að menn viti alveg hvað þeir eru að taka ákvörðun um.

Í öðru lagi er ástæða þess að við leggjum til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar sú að við teljum að umhverfisþáttur frv. sé stórkostlega gallaður. Ég mun í ræðu minni sýna fram á það hvernig það er, að ekki hefur verið tekið tillit til ábendinga umhverfisstofnana og það er engu líkara en að málið hafi aldrei sætt neinni meðferð í umhvrn., aldrei. Mín fyrsta spurning í þessum umræðum til hæstv. iðnrh. er sú hvort það sé rétt skilið hjá mér að þetta mál hafi aldrei sætt neinni meðferð af hálfu umhvrn. og það hafi í rauninni engar breytingar gert á málinu vegna þess að það hefur aldrei komið að því.

Ég vil líka, herra forseti, nota þetta tækifæri til að láta það koma fram að ég mundi óska eftir því við framhald ræðu minnar að hæstv. umhvrh. yrði hér á staðnum vegna þess að talsverður hluti eða einhver hluti af mínu máli hér á eftir mun snerta hann sérstaklega.

Stofnanir umhvrn. kvörtuðu sáran undan málinu. Það er ekkert hægt að neita því. Það gerði Náttúrufræðistofnun, það gerði Náttúruvernd ríkisins og þær gerðu það með mjög ítarlegum umsögnum og nánast bænaskjölum þar sem beðið var um lagfæringar á þessu frv. Staðreyndin er sú að ég gerði heldur ráð fyrir því, ég segi það eins og er, að meiri hluti nefndarinnar mundi koma lengra til móts við þessi sjónarmið en hann gerir. Mér finnst hann ekkert koma til móts við þau. Ég vil spyrja varaformann iðnn. sem hér situr hjá okkur hvort hann sé mér ekki sammála um að það sé eðlilegt að málið verði aftur tekið til meðferðar milli 2. og 3. umr., sérstaklega vegna þessara umhverfisþátta vegna þess að alveg bersýnilegt er að það er bullandi ólga í öllum umhverfisverndargeiranum í kringum þessi mál. (Iðnrh.: Það er búið að bjóða upp á það.) Að halda fund í nefndinni? Það er búið? (Gripið fram í.) Já. Það er bara fullkomið. Þakka fyrir það. Ég missti af því.

Þá er hægt að fara yfir þetta mál vegna þess að mjög mörg atriði varðandi stjórnsýslu umhverfismála og líka almenna stefnumótun og aðkomu þess málaflokks verður að taka fyrir í nefndinni þannig að frv. mun óhjákvæmilega sæta einhverjum breytingum milli 2. og 3. umr., ef hlustað verður á þær ábendingar sem ég á heldur von á að verði.

Þriðja ástæðan fyrir því, herra forseti, að ég legg áherslu á að málið verði ekki afgreitt á þessu þingi er að það er ekki mjög vel unnið og þar hefðu menn mátt vanda sig betur í einstökum atriðum. Þar eru fljótfærnislegar villur sem nú er að vísu verið að leiðrétta, eins og í 10. gr. og líka í 14. gr. Það er því greinilegt að menn hafa verið á handahlaupum við að semja þetta og ekki vandað sig sem skyldi þó að hér sé jafnörlagaríkt mál á ferðinni og ég hef hér rakið.

(Forseti (RA): Ég verð að biðja hv. ræðumann að gera hlé á ræðu sinni. Nú verður þessum fundi frestað til kl. 20:30.)