Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 22:35:32 (6459)

1998-05-11 22:35:32# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[22:35]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Hvernig má það eiginlega vera að lagt sé fyrir þingið stjfrv. um eignarhald á auðlindum í jörðu og svo kemur brtt. um örverur inn í iðnn. frá ríkisstjórninni og hvergi er gert ráð fyrir umhverfisþættinum eins og allir eru sammála um að eigi að gerast? Hvernig má það vera? Hvernig getur það gerst að svona mál fari í gegnum ríkisstjórnina, í gegnum þingflokka stjórnarflokkanna án þess að staldrað sé við með þetta mál? Og hvernig má það vera að það gerist að farið sé með málið í gegnum iðnn. án þess að hún hlusti á málið? Hvað er að, herra forseti? Við verðum að viðurkenna að umhvrn. er ungt ráðuneyti og nýtt en það er þeim mun nauðsynlegra að það haldi þannig á málum að hlustað sé á það sem það segir og það er alveg ofboðslegt að sjá mál eins og þetta frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu þar sem umhvrn. hefur eiginlega algerlega verið úthýst. Fyrir nokkrum árum var litið þannig á að fjmrn. væri mikilvægasta ráðuneytið vegna þess að það færi með allt sem héti peningar. Það getur vel verið að það hafi einhvern tímann verið rétt. Ég segi núna: Það er umhvrn. Það er það sem á að skoða gagnrýnum augum hvert einasta frv. sem kemur hingað inn. Það finnst mér að hafi verið vanrækt í þessu tilviki en ég fagna því ef breyting muni eiga sér stað milli 2. og 3. umr.