Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 23:45:09 (6467)

1998-05-11 23:45:09# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[23:45]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir úrskurðinn um að fella niður fund félmn. á morgun. Það er alveg skýrt.

(Forseti (ÓE): Eða fresta honum, skulum við segja.)

Eða fresta honum. En ég vil aðeins benda hæstv. forseta á að þingmenn eru ekki sjálfráðir um sinn vinnutíma. Okkur ber skylda til að mæta á þingfundi og vera á þingfundum þegar þingfundir eru haldnir. Menn geta ekki, ef þeir ætla að gegna þeirri skyldu sinni, ráðið því sjálfir hvenær þeir sitja hér og hversu langan hvíldartíma þeir fá. Ég vil gera athugasemdir við það, virðulegi forseti, að meira að segja forustumenn stjórnarflokkanna hér í þinginu, þ.e. þingflokksformenn, sinna ekki þingskyldu sinni t.d. á þessum fundi í kvöld og það er ástæða til að gera athugasemdir við það vegna þess að það er hluti af starfsskyldum þingflokksformanna að vera viðstaddir þingfundi ef á þarf að halda, t.d. ef hæstv. forseti þyrfti að hafa eitthvert samstarf eða samráð við þá um fundahaldið í þinginu. Ég kvarta yfir því að þessir hv. þingmenn, formenn þingflokka stjórnarflokkanna, skuli ekki vera hér og sinna þingskyldum sínum, og vek athygli á því aftur að þingmenn eru ekki sjálfráðir um vinnutíma sinn og geta ekki tekið sér hvíldartíma eins og þeim dettur í hug því þeim er skylt að sitja þingfundi.