Ákvæði um hvíldartíma og fundur í félagsmálanefnd

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 10:33:05 (6470)

1998-05-12 10:33:05# 122. lþ. 125.92 fundur 376#B ákvæði um hvíldartíma og fundur í félagsmálanefnd# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[10:33]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í gærkvöld þegar ljóst var að fundur Alþingis mundi síga a.m.k. fram yfir miðnættið vakti Sighvatur Björgvinsson athygli á ákvæði sem er nýtt í lögum um hvíldartíma og gerir það að verkum að ekki einu sinni Alþingi getur leyft sér að halda fundi án þess að til komi átta tíma hlé, a.m.k. ekki þegar fundir eru haldnir í ágreiningi, og benti á að fundur ætti að hefjast í félmn. kl. 8.15 í morgun og hér væru þingmenn sem þar ættu að mæta. Það var mjög áréttað að þetta væri vegna lagaákvæða og ég undirstrika að ekki er um að ræða neitt úthaldsleysi þingmanna sem hér standa nema síður sé. Lagaákvæði er um að það skuli vera 11 tíma hvíld hjá öllum áður en þeir ganga til starfa á ný. Í neyðartilvikum má fara niður í átta tíma.

Þá lýsti forseti því yfir af forsetastóli að hann mundi halda fundi áfram inn í nóttina. Hins vegar mundi hann sjá til þess að fundi félmn. sem átti að hefjast kl. 8.15 í morgun yrði frestað. Þegar við fórum úr húsi hér laust fyrir kl. eitt, þá höfðum við ekkert heyrt um þennan fund í félmn. og þegar eftir því var gengið þá var að skilja að hann yrði afboðaður í morgun. Það gerðist ekki þannig að bæði sú er hér stendur og Ögmundur Jónasson mættum á fund í nefndinni kl. 8.15, enda fór hann fram svo sem áformað var.

Virðulegi forseti. Ég geri við það harða athugasemd að það virðingarleysi ríki gagnvart þingmönnum að hér séu sögð orð af forsetastóli sem halda engan veginn og ég árétta að ég benti á það í nótt að búið væri að boða gesti á fund nefndarinnar þannig að örðugt yrði að afboða fundinn. Ekkert hefur heyrst frá því að þessi orð féllu af forsetastóli í gær.