Ákvæði um hvíldartíma og fundur í félagsmálanefnd

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 10:45:47 (6476)

1998-05-12 10:45:47# 122. lþ. 125.92 fundur 376#B ákvæði um hvíldartíma og fundur í félagsmálanefnd# (aths. um störf þingsins), Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[10:45]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ef fresta á þingnefndarfundi vegna árekstra á milli næturfunda og slíks þingnefndarfundar eins og forseti hugðist beita sér fyrir í nótt, þá er það auðvitað nöturlegt ef það á að gerast þegar fólk er búið að rífa sig á fætur og er mætt til leiks kl. 8 að morgni, er mætt til fundar í nefndinni. Ef taka á þannig á málum, þá ætlast ég til þess hér eftir að það sé gert með þeim fyrirvara að fólk viti að það þurfi ekki að mæta kl. 8 og ekki síst þegar í hlut á fólk sem alltaf mætir á nefndafundi.

Hér var talað um næturfundi og málþóf. Ég ætla bara að árétta það sem búið er að segja mörgum sinnum af stjórnarandstöðunnar hálfu. Við erum tilbúin að vera hér eingöngu dagtímann og vera lengur fram á vorið ef þess þarf. Hins vegar vitum við ekkert um áformin nema það sem við heyrum í fréttum eftir forsrh. haft vegna þess að það hefur ekki verið haldinn fundur með þingflokksformönnum svo dögum skiptir og er brotið í blað í samvinnu forsetadæmisins og þingflokksformanna.

Hér er búið að vinna mjög gott starf undangengin ár við að breyta þingsköpunum og færa þingið betur til nútímahorfs. Það er allt fyrir bí af þeim sökum sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat um áðan. Hæstv. forsrh. hefur tekið völdin og ákveðið hvernig með skuli fara og þess vegna eru engir fundir haldnir, ekkert við okkur rætt. Það er horfið til fortíðar þar sem stjórnarandstaðan notar sín tæki og stjórnarliðarnir sín. Þess vegna er það svo að hæstv. forsrh. hefur í þingsölum fengið orðið ,,þingvaldið``.