Ákvæði um hvíldartíma og yfirlýsing forseta

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 10:51:08 (6478)

1998-05-12 10:51:08# 122. lþ. 125.94 fundur 378#B ákvæði um hvíldartíma og yfirlýsing forseta# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[10:51]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er hárrétt að vinnudagur þingmanna er þannig að oft og tíðum gerist það að þingmaður sjálfviljugur fer fram yfir 8 tíma lágmarkshvíld. Um það getur forsetadæmið ekkert átt þegar ekki er um að ræða vinnu hér á Alþingi Íslendinga. En Alþingi setti sl. haust sérstök ný lög um hvíldartíma með lágmarksmörkum sem Alþingi getur ekki leyft sér að brjóta ef um það er ágreiningur að halda áfram lengur. Þetta þýðir það, virðulegi forseti, að ef fundur á að hefjast 10.30 að morgni til, þá er útilokað að halda lengur áfram að kvöldi en til 2 um nóttina. Ef fundur á að hefjast kl. 8.15 að morgni þá er útilokað að fara fram yfir miðnætti. Það er þetta sem við ræðum um, og að blanda því saman við vinnutíma þingmanna er mjög mikil óbilgirni og ósanngirni af hálfu forseta. Þetta vil ég árétta. Við hljótum að gera kröfu til þess að við höldum sjálf þau lög sem við erum að setja á landslýð allan. Þetta vildi ég sagt hafa, virðulegi forseti, varðandi þetta almenna um vinnutíma forseta.

Ég er sammála því að það er afar erfitt fyrir forseta um miðnætti að ákveða að fresta fundi í nefnd sem á að byrja kl. 8 næsta morgun og ég lét það í ljós í nótt en það var forseti sjálfur sem kaus að halda áfram með fundinn sem var í gangi og beita sér fyrir því að fresta félagsmálanefndarfundinum. (Gripið fram í: Hvað stóð fundurinn lengi?) Forseti Alþingis sem á í hlut var farinn úr húsi þegar fundi lauk fyrir kl. 1 í nótt. Það er svo annað mál. Við erum að tala um afgreiðslu á máli hér fyrir miðnætti í gær.

Þetta vildi ég sagt hafa, virðulegi forseti.