Fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 11:07:55 (6488)

1998-05-12 11:07:55# 122. lþ. 125.95 fundur 379#B fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (um fundarstjórn), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[11:07]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla að ræða fundarstjórn forseta, þ.e. í kjölfar þeirrar yfirlýsingar sem forseti gaf áðan um að það heyrði varla til þessa dagskrárliðar að koma með slíka fyrirspurn sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir gerði. Víst má það til sanns vegar færa varðandi þann þátt. Við vitum að um störf þingsins má ekki tala nema í 20 mínútur í upphafi þingfundar. Sá tími var liðinn. Það hefur hins vegar oft og tíðum verið þannig að ef óljós mál eru uppi, hafa komið fram spurningar og svör og er í sjálfu sér ekkert við því að segja.

Það sem ég vil hins vegar gera athugasemd við er að hæstv. forseti túlki þetta svona í ljósi þess að ekki hafa verið haldnir fundir með þingflokksformönnum og forsetum þar sem svona mál yrðu þá rædd til þess að menn þurfi ekki að koma upp í ræðustól og spyrjast fyrir um einstök málefni. Mér finnst þetta vera skýrt dæmi um það í hvílíkar ógöngur við erum komin með störf þingsins að við skulum þurfa að vera að karpa hér í ræðustól um þessa þætti, vitnandi í þingsköp fram og til baka, í stað þess að menn setjist niður, forsetar og þingflokksformenn, og fari yfir nokkur þau mál sem út af standa, m.a. hvað líður einstökum málum og hvenær þau geti komið á dagskrá. Það er ekkert út á slík vinnubrögð að setja. Ég skora á hæstv. forseta að beita sér fyrir því að slíkur fundur verði haldinn og menn hreinsi borðið af ýmsum smærri hlutum þannig að við getum haldið áfram með störf þingsins á eðlilegan hátt.