Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 15:06:21 (6498)

1998-05-12 15:06:21# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[15:06]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. býsnaðist mikið yfir skilgreiningu á auðlind og fann enga auðlind um víðan geim þó hann leitaði jafnvel til sólarinnar, sem ekki félli undir þetta ákvæði. Nú vil ég benda hv. þm. á það að ríkasti maður heims, sem hefur orðið ríkur á síðustu árum --- hann er um fertugt --- á auðlind sem ekki er svona efnisleg, sem er hugbúnaður, sem er einkaréttur, höfundarréttur. Ég nefni aðrar óefnislegar eignir, t.d. hlutabréf og markaðshlutdeild. Ég nefni stjórnun, góða stjórnun fyrirtækja sem er gífurlega mikils virði og er auðlind. Og ég nefni hugvit almennt, gagnagrunna og annað. Þetta eru óefnislegar auðlindir og vægi þeirra fer vaxandi. Vægi efnislegra auðlinda fer hratt minnkandi. Ég minni á það að ríki snauð af auðlindum, Danmörk og Japan, eru mjög rík þrátt fyrir skort á auðlindum.

Herra forseti. Þingmanninum var mjög tíðrætt um skáborun og það að menn væru að ganga yfir eignir annarra og þetta átti allt saman að gerast undir yfirborði jarðar. Ef hv. þm. ætti vikurhól og land sem vikurhóllinn stæði á, ég væri nágranni hans og ætti land við hliðina á, vikurhóllinn næði pínulítið inn á landið mitt og ég byrjaði að grafa og vikurhóllinn skriði svona hægt og rólega yfir í mitt land þá er ég hræddur um að hv. þm. þyrfti ekki að sætta sig við það. Nákvæmlega sama gerist með auðlindir undir jörðu, að menn þurfa að sætta sig við það að það er bannað að stela eignum.

Herra forseti. Að öðru leyti kristallast í máli hv. þm. lífsskoðun hans að allt sé best sem er í sameign. Ég hef andstæða lífssýn og minni á tilraunina miklu í Rússlandi um sameign á öllum auðlindum.