Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 15:10:48 (6500)

1998-05-12 15:10:48# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[15:10]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það frv. sem við erum að ræða er mjög merkilegt. Með því eru felld í ein lög öll þau lög sem í gildi hafa verið um auðlindir í jörðu. Þetta er heildarlöggjöf sem lagt er upp með í frumvarpinu. Frumvarpið sjálft fékk hefðbundinn farveg. Það er ekki tæknilegs eðlis heldur kemur fyrst og fremst fram í því stefna núverandi ríkisstjórnar. Og af því að hún byggir á þeim málaefnasamningi sem hún lagði upp með þá skipaði hún nefnd til að vinna að þessu máli, undirbúa frv. og við sjáum, herra forseti, á skipun nefndarinnar að hér er um það að ræða að útfæra pólitíska stefnu ríkisstjórnar og búa henni lagaumgjörð.

Í nefndina eða vinnuhópinn voru skipaðir Stefán Guðmundsson, hv. alþm., formaður nefndarinnar og formaður iðnn. og Sturla Böðvarsson, hv. alþm., þ.e. fulltrúi frá hvorum stjórnarflokki. Síðan unnu í nefndinni Páll Gunnar Pálsson lögfræðingur í iðnrn. og Tryggvi Gunnarsson hæstaréttarlögmaður, báðir sérfræðingar og sérfróðir menn á því sviði sem hér er lagt til umræðu.

Það þarf að hafa mjög skýrt í huga pólitískt eðli frv., pólitískt eðli nefndarskipunarinnar og því er ekkert skrýtið þótt ágreiningur hafi myndast um efnið. Tæknilegur ágreiningur hefur ekki blasað við í umræðunni, hvorki í 1. umr., í nefndarstarfinu né í þessari 2. umr., heldur er hér um að ræða djúpstæðan pólitískan ágreining milli þeirra stjórnmálaafla sem standa að hverjum þingflokki fyrir sig.

Upplegg frv. er þess eðlis að búa til heildarlöggjöf um auðlindir í jörðu. Það er verðugt og gott markmið. En meginatriðið í frv. er að eignarréttur á auðlindum sem eru í eignarlöndum og reyndar innan netlaga í vötnum og sjó --- það er þessi hefðbundna skilgreining --- verði í höndum landeigenda. Það atriði er meginstefnan í frv. og menn hafa einmitt verið að takast á um pólitískt.

Sömuleiðis er fylgt eftir þeirri stefnumótun sem fram kemur í öðru frv. sem hér er reyndar lokið 2. umr. um, þ.e. þjóðlendufrv., þar sem ríkisvaldið slær eign sinni á landsvæði sem eru utan eignarlanda. Í þessu frv. er þeirri stefnu fylgt með því að lýsa yfir eignarrétti ríkisins á auðlindum í jörðu sem eru utan eignarlanda, þ.e. í þjóðlendum. Það er því fullkomið samræmi milli þessara tveggja frumvarpa: Í fyrsta lagi eru þau lönd í ríkiseign sem eru utan eignarlanda eða ekki er skýr eignarréttur á, og nú er tekið á auðlindum í jörðu þannig að þær eru í eigu ríkisins á þjóðlendum.

[15:15]

Þessi regla hefur reyndar verið í lögum um jarðefni en hér er nýmæli um jarðhita, grunnvatn og aðrar auðlindir. Hér er einungis talað um auðlindir, jarðhita, grunnvatn eða aðrar auðlindir --- það gæti verið gull --- sem eru á ríkisjörð eða það sem við köllum þjóðlendur.

Í frv. er meginstefna og það má segja að hér séu alveg skýrar pólitískar línur í þjóðlendufrv. og í þessu frv. Við stjórnarandstæðingar styðjum hugsunina í þjóðlendufrv. og höfum talað fyrir þeirri hugmyndafræði mjög lengi, að það sem ekki eru skýr eignarréttarákvæði um, sem eru ekki eignarlönd, sé í eigu ríkisins. Mjög lengi hefur það verið pólitískt deilumál hér á landi, hver eigi landið. Það má segja að þjóðlendufrv. mæti þeim skoðunum okkar stjórnarandstæðinga, einkum jafnaðarmanna, sem hafa talað fyrir því sjónarmiði um áratuga skeið.

Þessi tvískipting er nokkuð augljós, þ.e. auðlindir í jörðu á þjóðlendum og auðlindir í jörðu á eignarlöndum sem eru í höndum landeigenda. Það er ekki nóg að kveða upp úr um eignarréttinn á þessum auðlindum heldur er vitaskuld jafnmikilvægt að hafa ákvæði um nýtingarréttinn, þ.e. leit, rannsóknir, nýtingu, og hvernig að verður staðið.

Í frv. er lagt upp með þá meginstefnu, hana er kannski ekki hægt að gagnrýna í veigamiklum atriðum þó útfærsluna megi gagnrýna, að til að nýta og rannsaka og leita þurfi leyfi. Það er ekkert óeðlilegt við að kveðið sé á um slíkt og hér á bæði við um þjóðlendur og einkaeignarland.

Þessar leyfisveitingar eru settar undir iðnrh. Fagaðilinn og í reynd stjórnsýsluaðilinn er þá Orkustofnun. Hið mikla hlutverk Orkustofnunar á þessu sviði er gagnrýnt af ýmsum umsagnaraðilum eins og ég mun koma að síðar í ræðu minni.

Kveðið er á um þá stefnumörkun í frv. að iðnrh., iðnrn. og Orkustofnun, geti sem hluti af framkvæmdarvaldinu haft frumkvæði að leit og rannsóknum á auðlindum í jörðu, hvort sem er innan þjóðlendna eða innan landa sem eru í einkaeigu. Ekki skiptir máli hvort landeigandi hafi sjálfur hafið slíka rannsókn eða ekki, eða heimilað hana öðrum. Ráðherra hefur sterk völd til að leita og rannsaka á öllum landsvæðum.

Það er ekki nóg að leita og rannsaka. Það þarf einnig að nýta auðlindina og það er vitaskuld eitt mikilvægasta atriðið, þ.e. hvernig það er gert. (Gripið fram í: Hvar er iðnrh.?) Sú almenna regla er gerð að það sé háð leyfi iðnrh. Enn og aftur gilda sambærileg ákvæði gagnvart iðnrh. hvort sem snýr að einkaréttareignarlöndum eða þjóðlendum. Þó er talað um að landeigandi megi nýta malarnám og ýmsa slíka hluti sem menn hafa nýtt á jörðum sínum án nokkurra vandræða um langt árabil. Sömuleiðis er kveðið á um að menn megi nýta jarðhita til einkanota eins og við þekkjum nokkur dæmi um.

Í frv. er samt sem áður kveðið á um forgang sveitarfélaga til nýtingar grunnvatns og jarðhita innan marka sveitarfélags. Þetta er sett inn í frv. vegna þess að nauðsynlegt er talið að tryggja sveitarfélagi aðgang að nauðsynjum eins og grunnvatni og jarðhita. Við þekkjum einmitt fjölmörg dæmi um vandkvæði varðandi vatnsöflun og reyndar jarðvarma hjá mörgum sveitarfélögum hérlendis. Sömuleiðis, þó að þetta sé innan sveitarfélagamarka, getur hér verið um lóðir og auðlindir í einkaeigu að ræða. Samkvæmt frv. er kveðið á um heimildir sveitarfélaga til að taka eignarnámi slíkar auðlindir, beri brýna nauðsyn til, óháð því hvort það sé innan marka sveitarfélagsins eða ekki. Sveitarfélögin fá ákveðinn rétt til eignarnáms til að uppfylla þarfir íbúa sveitarfélaganna fyrir vatn og jarðhita. Hins vegar eru almenn ákvæði um eignarnám og bótarétt sem menn hafa vegna þeirra ákvæða í frv., að auðlindir í eignarlöndum skuli vera í höndum landeigenda. Ráðherra er áskilinn almennur eignarnámsréttur í þessu frv. til að taka landsvæði eignarnámi og geta nýtt þær auðlindir sem þar eru í jörðu.

Í þessu frv. er síðan kveðið á um að landeigandi eigi að fá fullt endurgjald fyrir auðlind í hans eigu sem nýtt er af öðrum. Þetta er vitaskuld eitt aðalatriðið í frv.: Landeigandi á að fá fullt endurgjald fyrir auðlindina þótt hún sé nýtt af öðrum. Jafnvel þó að landeigandinn hafi ekki tök á, t.d. vegna kostnaðar, að nýta þessa auðlind sjálfur, en sé hún nýtt af öðrum, t.d. sveitarfélagi eða ríki eða öðrum, þá fái hann fullt endurgjald fyrir.

Ef landið er tekið eignarnámi, og þar með vitaskuld auðlindin, vegna þess að það er óaðskiljanlegur hluti af landinu, þá skal koma fyrir það endurgjald og það að endurgjald verði metið sem bætur og þá tekið mið af þeirri auðlind sem þar er til nýtingar. Vitaskuld er þetta eitt af þeim atriðum sem mikið hefur verið rætt um, hvort menn eigi að hafa fjárhagslegan ávinning af auðlindum í jörðu niðri sem þeir hafa ekki tök á að nýta, hvort sem það er nýtt á þeirra landsvæði eða landsvæðið er einfaldlega tekið eignarnámi. Það er einmitt í þessum punkti sem skilur á milli hinna pólitísku sjónarmiða í þessum efnum.

Oft og tíðum hafa verið lögð fram frumvörp um þetta efni. Ég gerði aðeins grein fyrir meginatriðum í frv. sjálfu en hins vegar ber við 2. umr. að leggja út af þeim brtt. sem meiri hluti iðnn. leggur fram afgreiðslu frv. Í áliti meiri hlutans kemur mjög skýrt fram sú pólitísku stefnumörkun sem lagt var upp með í frv. Það er engin kúvending í brtt. meiri hlutans nema síður sé. Þær breytingar sem gerðar eru á frv. eru ekki mjög miklar og frv. er ekki breytt í meginatriðum. Þeirri pólitísku línu sem dregin var með frv. ríkisstjórnarinnar er viðhaldið áfram hjá meiri hluta iðnn.

Mikilvægt er að hafa í huga að frv. tekur ekki á eða ryður til hliðar neinum lögum eða reglum á sviði umhverfis-, náttúruverndar- og skipulagsmála, hvorki að því er varðar rannsóknir eða nýtingu auðlinda. Þetta er ítrekað í brtt. meiri hlutans, í 5. tölul. á þskj. 1266, en þar er lagt til að við 16. gr. frv. bætist ný málsgrein sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Við meðferð umsókna um leyfi og veitingu þeirra skal gætt náttúruverndarlaga, skipulags- og byggingarlaga og annarra laga sem varða rannsóknir og nýtingu lands og landgæða.``

Hér er ótvírætt kveðið á um, ítrekað með þessari brtt. meiri hlutans, að gætt skuli að löggjöf þeirri sem í gildi er varðandi umhverfis-, náttúruverndar- og skipulagsmál. Það er sem sagt ekki ætlun meiri hluta nefndarinnar að hrófla við þeirri löggjöf. Vitaskuld geta menn velt fyrir sér hvort ekki eigi einmitt, við svona víðtæka löggjöf, að taka fleiri þætti til endurskoðunar. Hér er kveðið upp úr um eignarhald og nýtingu auðlinda í jörðu. Hefði ekki þurft að skoða önnur lög sem þessu tengjast? Það er ekki gert. Þetta snýr að rannsóknum eða nýtingu auðlinda.

Þannig tekur frv., eins og segir í nál. meiri hlutans, ekki heildstætt á náttúruvernd, umhverfismálum og skipulagsmálum sem tengjast nýtingu eða rannsóknum þeirra auðlinda sem um er að ræða. Þetta er eitt af þeim atriðum sem gagnrýnt hefur verið í frv. og að ekki skuli, herra forseti, vera tekið á þessu með heilsteyptum hætti.

Meiri hluti nefndarinnar tekur fram að þetta frv. eigi ekki að raska alþjóðaskuldbindingum. Það þarf kannski ekki að taka það neitt sérstaklega fram vegna þess að við erum yfirleitt bundin af alþjóðlegum skuldbindingum sem við höfum skrifað undir. Einnig er sagt að þetta upplegg sé í samræmi við áætlun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun. Það er vitaskuld hægt að deila um hvort það sé nægjanlega vel tryggt, burt séð frá því hvort menn fallist á áætlun ríkisstjórnarinnar og þær áherslur sem hún hefur hvað varðar sjálfbæra þróun.

Eitt af gagnrýnisatriðum þeim sem fram hefur komið í umsögnum um frv. er að það vanti inn skýrari verndunarákvæði og ákvæði um nýtingu á sandi, vikri og grjóti. Við þekkjum það hérlendis að það hafa einmitt komið upp ágreiningsefni varðandi nýtingu á slíkum efnum. Við höfum séð mjög alvarleg umhverfisslys af þeim toga á síðari árum, þó að vafalítið sé það þekktast þegar Rauðhólarnir voru nýttir í uppfyllingu í Reykjavíkurhöfn hér á árum áður. Af hálfu meiri hlutans er ekki tekið meðvitað á þessu í frv., þó er rætt um það sem hefði verið hægt að gera, að kveða á um nýtingarleyfi. Meiri hluti nefndarinnar telur hins vegar betra að endurskoða ákvæði löggjafar um umhverfismat og kveða á um frágang og eftirlit með vinnslusvæðum. Það er sem sagt upplegg meiri hlutans hvað þennan þátt varðar og vitaskuld er hægt að færa rök fyrir þessu sjónarmiði.

[15:30]

Breytingartillögur meiri hlutans sem eru lagðar hér fram eru minni háttar. Til dæmis eru skilgreiningar á grunnvatni gerðar skýrari. Í breytingu á 10. gr. í sambandi við jarðhita þóttu 5 megavött, sem eru mörk á nýtingu án leyfis, nokkuð hátt þannig að mörkin eru færð niður eftir ábendingu frá Orkustofnun. Ef ég man rétt var það í seinni umsögn Orkustofnunar, það hafði sést yfir það í fyrri skoðun. En gerð er betrumbót á þessu máli í brtt. meiri hlutans.

Enda þótt ekki sé lögð til nein lausn er vikið að því hvað eigi að gera þegar fleiri en einn aðili sækir um leyfi á sama stað. Hægt er að hugsa sér alls konar útfærslur, t.d. að bjóða út leyfi, hafa útboð á leyfum á nýtingu auðlinda. Það tengist umræðu okkar jafnaðarmanna um að taka gjald fyrir nýtingu á sameiginlegum auðlindum. Nú þarf að hafa skýrt í huga að þetta frv. leggur ekki nema að hluta til upp með sameignir á auðlindunum, kveðið er á um að auðlindir í jörðu í þjóðlendum séu ríkiseign og þar með sameign. Þvert á móti er kveðið á um að auðlindir í jörðu á einkalandsvæðum séu séreign landeigenda og þar með ekki um að ræða sameign þjóðarinnar þó svo að þær séu nýttar af þjóðinni allri.

Í brtt. meiri hlutans er komið inn á hitakærar örverur og útskýrt nokkuð. Hér er komið inn á merkilegan hlut sem menn hafa vafalítið ekki hugsað fyrir fyrir fimm eða tíu árum, þ.e. um lífræn verðmæti í jörðu, og það er sú meginhugsun að bæði rannsóknir og nýting á þessum örverum sé fellt að hinum almennu ákvæðum frv. Hér er komið inn á líftækniiðnað sem hefur haslað sér völl hérlendis og erlendis í síauknum mæli. Ég er ekki mjög vel inni í þessu tiltekna ákvæði en þegar ég les rökstuðning meiri hluta iðnn. finnst mér það vera mjög virðingarvert að þessir þættir skuli vera felldir inn í þessa löggjöf. Kveðið er sérstaklega á um það með tilvísun til Ríó-sáttmálans að þessar örverur og lífverur eigi vitaskuld að hljóta þá athygli og umgjörð og verndun, bæði hvað varðar nýtingu og rannsóknir, eins og aðrar. Það er gert í frv. með því að setja inn sérstaka grein, sem verður þá væntanlega 34. gr., það er í 8. lið í brtt. meiri hlutans á þskj. 1266, sem ég vitnaði til áðan, en ég sé ástæðu til, herra forseti, að lesa brtt., en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Lög þessi taka eftir því sem við á til rannsókna og nýtingar á örverum sem vinna má á jarðhitasvæðum. Rannsóknir og nýting örvera á jarðhitasvæðum er óheimil án leyfis iðnaðarráðherra samkvæmt lögum þessum.`` --- Hér er sem sagt kveðið á um að það falli undir almenn ákvæði að rannsaka og nýta þessar örverur. Síðan segir áfram: --- ,,Leyfi samkvæmt þessari grein skal veitt að fenginni umsögn umhverfisráðherra.``

Hér er tekið inn, eins og við vitum vitaskuld, að jarðhitasvæði sem örverur eru á getur verið mjög viðkvæmt og sérstakt umhverfi og hér er rætt um að umhvrh. verði að veita umsögn. Eftirlitsaðilinn með þessu er ekki Orkustofnun eða einhver slíkur aðili heldur Náttúruvernd ríkisins sem fer með rannsókn og nýtingu samkvæmt þessari grein. Hugsunin er fyrst og fremst sú að finna löggjöf utan um iðnaðinn sem er fólgin í því að taka örverur úr þessu náttúrulega umhverfi á jarðhitasvæðum ef markmiðið er að eftirgera erfðaefni með framleiðslu í tilraunastofum og iðnaði. Þá er gert ráð fyrir með hvaða hætti og fundinn farvegur á nýtingu slíks iðnaðar.

Þetta er ákvæði sem svarar vitaskuld meira almennt til nútímans en margt annað í löggjöf okkar því að hér erum við komin inn á nýtt svið atvinnusögunnar sem mun vafalítið verða tekið mjög mið af hér á næstu áratugum.

Það má geta þess, herra forseti, sem er dálítið merkileg breyting og kannski ein sú merkilegasta sem meiri hluti iðnn. gerir að hún leggur til að breyta heitinu á frv. Ég nefndi áður að frv. er raunverulega heildarlöggjöf. Það er verið að koma með heildstæða löggjöf um auðlindir í jörðu og það tekst býsna vel hvað þann þátt varðar. Ég ætla aðallega að gera hinn pólitíska ágreining að umtalsefni. Herra forseti, ég hef ekki átt þess kost að fylgjast mjög grannt með því sem félagar mínir í stjórnarandstöðunni hafa sagt um frv. en ég á von á því að þeir hafi kannski einmitt dregið pólitíska ágreiningsefnið um eignarréttinn meira fram en ég hef meira verið að reyna að lýsa uppbyggingu frv. og þeim breytingum sem þar eru. Vitaskuld er um að ræða mikilvægt mál í heildina tekið þó svo að pólitískur ágreiningur sé um afmarkað efni þess en sá pólitíski ágreiningur er reyndar mjög veigamikill.

Varðandi breytingu í 10. lið brtt. á fyrirsögn frv. hét frv. eins og það var lagt fram á þskj. 574, Frumvarp til laga um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það er mjög lýsandi titill, það fjallar um eignarhaldið. Eins og ég hef getið um er kveðið á um hver á auðlindir í jörðu, þ.e. ríkisvaldið ef um þjóðlendu er að ræða, landeigandi ef um einkaeign er að ræða, en síðan breytir meiri hluti iðnn. frv. og kallar það: Frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Ég sé ekki og hef þó reynt að rýna í hvaða rök eru að baki þessu vegna þess að vitaskuld er fjallað um rannsóknir, orðinu ,,rannsóknir`` er bætt inn. Þeir rökstyðja það, þeir segja að það sé talið lýsa betur tilgangi frv. og efni þess þar sem það hefur að geyma ákvæði um rannsóknir og nýtingu auðlinda og hefur í sér þann megintilgang að stuðla að skynsamlegri nýtingu auðlinda í jörðu eins og segir í nál. þar sem hnýtt er við, ,,frá þjóðhagslegu sjónarmiði`` og ég veit ekki hvort það er viðbót sem skiptir höfuðmáli.

En ég vil gagnrýna þessa brtt. Ég veit ekki hvort einhverjir fleiri hafa gert það en frv. sjálft er nefnilega skipt upp á hefðbundinn hátt, þ.e. í I. kafla er gildissvið og skilgreiningar. Þetta er unnið skipulega og ég veit ekki hvort nefndinni hefur nokkuð verið hrósað en ég vil hrósa henni fyrir það (Gripið fram í.) að setja málið skýrt upp. Ég geri það þá þó að ágreiningur sé um pólitískt efni þess en II. kafli frv., sem er náttúrlega meginatriðið, kemur fram í einni grein, II. kaflinn er nú bara ein grein, það er einkaréttur að auðlindum. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Eignarlandi fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu, en í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.``

Þetta er 3. gr. frv. og það eru ekki gerðar breytingar á því, þetta er þessi meginpólitíska stefna sem ég hef gert að umtalsefni. Þetta er II. kafli frv., um eignarrétt, og hefur beina tilvísun í fyrra heiti frv. um eignarhald.

Síðan kemur III. kafli frv. Það er skipulega uppbyggt, sem sagt fyrst er talað um eignarrétt í II. kafla, svo er talað um rannsóknir og leit í III. kafla. Þá kemur IV. kafli um nýtingu auðlinda. Þetta er allt mjög rökrétt uppbygging á frv. Síðan er talað um jarðefni og þá er verið að fjalla um ákveðnar undantekningar í þeim kafla. Það eru tvær greinar sem fjalla um að heimilt sé að nýta grjót og möl á eignarlóð, svona hefðbundin nýting á jörð án þess að það þurfi mikilla leyfisveitinga við eða þurfi ekki. Í VI. kafla frv. eru ákvæði um jarðhita. Þar lýst í nokkrum greinum hvernig jarðhiti sé nýttur. Síðan er kafli um grunnvatn og það er aðallega um það að landeigandinn megi nýta grunnvatn á sínu svæði. Í VIII. kaflanum er síðan fjallað um skilyrði veitingu leyfa, efni þeirra og afturköllun, þ.e. sem sagt það sem snýr að stjórnsýslunni, hvernig leyfið er veitt, hvernig eiga leyfin að vera útbúin og hvernig eru þau afturkölluð. Síðan kemur hefðbundinn kafli í framhaldi af því, eftirlit, vernd og upplýsingagjöf og meðferð upplýsinga. Í X. kaflanum eru eignarnáms- og bótaákvæði, sem sagt ef taka þarf lönd eða auðlindir eignarnámi og síðan endar þetta í XI. kafla á ýmsum ákvæðum.

Við sjáum á þessari lýsingu, herra forseti, og hefur vafalítið verið dregið fram hér í 1. umr. --- þó er ég ekkert viss um það --- að oft er mjög til bóta í svona umræðu að hlaupa á kaflaheitum í heildarlöggjöf. Þá sér maður hina rökréttu uppbyggingu, og hún er þess eðlis að fyrra nafn frv. var ósköp eðlilegt, þ.e. eignarhald og nýting. Auðvitað er hægt að segja: Frumvarp til laga um eignarhald, rannsóknir og nýtingu en meiri hlutinn kýs að kalla það bara: Frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það er rangnefni. Það má einfaldlega kalla þetta frv.: Frumvarp til laga um auðlindir í jörðu. Vegna þess að í frv. er fjallað um fjölmarga aðra þætti en rannsóknir og nýtingu. Ég hefði því talið --- ég veit ekki hvort eitthvert samkomulag hefur verið gert um að menn skoðuðu frv. eitthvað milli 2. og 3. umræðu, að menn þyrftu að endurmeta heitið á frv. vegna þess að þetta er heildarlöggjöf um auðlindir í jörðu, varðar eignarhaldið, rannsóknir og nýtingu, kveður hins vegar á um nýtingu á jarðhita. Þetta fjallar náttúrlega líka um leyfisveitingarnar, sem er hluti af nýtingunni en þetta fjallar líka um eignarnámið. Það eru því fjölmargir þættir sem snúa að þessu þannig að hv. iðnn. hefur e.t.v. einhver frekari rök en koma fram í nál. en ég vil a.m.k. vekja athygli á því að ég held að þetta hafi ekki verið góð breyting. Í huga mínum hefði mátt skjóta inn í það, ef menn hefðu viljað hafa langan titil, sem sagt annars vegar að kalla það Frumvarp til laga um auðlindir í jörðu, sem er kannski einum of breiður titill, en það hefði þá mátt kalla þetta Frumvarp til laga um eignarhald, rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það hefði farið vel á því því að það er alveg augljóst að eitt af meginatriðunum í frv. er ákvæðið um eignarhaldið. Eins og ég gat um áðan er nýmælið í frv. m.a. fólgið í eignarrétti ríkisins á auðlindum í jörðu utan eignarlanda, á þjóðlendum. Það hefur gilt í lögum um jarðefni en ákvæðin um jarðhita, grunnvatn og aðrar auðlindir í jörðu er nýmæli. Það er því nýmæli að kveða á um eignarrétt ríkisins innan þjóðlendnanna. Fyrir utan það er náttúrlega kveðið skýrt upp úr um að eignarréttur á auðlindum í jörðu á eignarlöndum fylgi landeiganda þó að pólitískur ágreiningur sé um það efni.

[15:45]

Ég held að það hefði verið til bóta að líta aðeins betur á titilinn. Ég vona að ráðrúm gefist til þess en þó er mér ekki kunnugt um hvort nefndin fær þetta til nánari skoðunar. En ef svo væri þá mundi ég vilja biðja hv. iðnn. --- ég sé formann nefndarinnar hér í salnum --- um að íhuga þann þátt málsins eða skýra málið betur fyrir mér ef einhver misskilningur liggur fyrir varðandi hinn nýja titil í frv.

Það kemur fram að pólitísk samstaða er í minni hlutanum. Undir nál. minni hluta iðnn. rita hv. þm. Gísli S. Einarsson, Svavar Gestsson og Jóhanna Sigurðardóttir. Guðný Guðbjörnsdóttir, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður frv. Hér ganga stjórnarandstæðingar í takt í þessu máli, eins og reyndar í fjölmörgum öðrum málum sem tengjast þessu málefni. En ágreiningurinn er þríþættur eins og þeir hafa dregið hann upp. Það er í fyrsta lagi það sem ég hef getið um í 3. gr. frv., þ.e. að allar auðlindir í og á jörðu í einkaeign eru eign landeigenda.

Það er það sem við stjórnarandstæðingar viljum ekki. Það er hægt að benda á frv., og ég mun gera nokkur þeirra hér að umtalsefni síðar, um þetta efni, m.a. frá þeim hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. En í þessu frv. er alveg skýrt að djúphiti í jörðu og fleiri jarðefni séu þjóðareign.

Þessi grundvallarágreiningur sem varðar auðlindir í löndum sem eru í einkaeign hefur komið skýrt fram í umræðunni.

Í öðru lagi er það atriðið sem ég hef nefnt áður, að þó svo þetta frv. eigi ekki að raska núverandi byggingar- og skipulagslögum eða umhverfislögum, og bætt er sérstakri grein í frv., þ.e. hin nýja málsgrein í 16. gr., þá er það skoðun okkar að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til umhverfissjónarmiða og umhvrn. er ekki dregið nægjanlega mikið inn í nýtingu og rannsóknir á auðlindum í jörðu.

Annað ágreiningsefni er það að leigja eða taka gjald fyrir afnot einkaaðila af sameiginlegum auðlindum, því hluti af þessum auðlindum er jú sameiginlegur. Þetta hefur verið okkur jafnaðarmönnum hjartans mál, m.a. í tengslum við sjávarútveg sem menn þekkja í umræðum um veiðileyfagjald en hefur einnig verið víkkað út hin síðari missiri og talað um almennt auðlindagjald af sameign þjóðarinnar og hefur verið til mikillar umræðu, m.a. innan Alþb. Þetta er einnig efni sem ágreiningur er um milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Við viljum setja fram skýrar reglur um hvernig rétturinn til afnota er útfærður þannig að það sé jafnræði, það sé ekki í sjálfsvaldi ráðherra hvernig þessum hlutum er hagað.

Þetta eru þau þrjú meginatriði sem ágreiningur er um við okkur stjórnarandstæðinga, það er eignarréttarákvæðið, það eru umhverfissjónarmiðin og það er gjaldtakan fyrir sameiginlegar auðlindir. Í öllum þessum málum erum við á öndverðum meiði við ríkisstjórnarflokkana. Það er svo sem ekkert skrýtið þó það sé því við sjáum koma mjög skýrt fram í þessu frv., eins og hefur sést í öðrum frv. og stefnu ríkisstjórnarinnar, að hún er fyrst og fremst að gæta sérhagsmuna. Í þessu tilfelli gætir hún sérhagsmuna landeigenda hvað varðar auðlindir í jörðu. Hún gætir sérhagsmuna eins ráðuneytis og tekur ekki tillit til umhverfissjónarmiða sem eru fyrst og fremst sjónarmið fjöldans og hún tekur ekki tillit til þess að greitt sé sanngjarnt afgjald fyrir nýtingu á sameiginlegum auðlindum, en vitaskuld er það einnig hagsmunamál almennings. Ríkisstjórnin leggst gegn öllum þessum þremur þáttum og stillir sér upp andspænis almannahagsmunum með sína sérhagsmuni sem hún gætir fram í rauðan dauðann, og er þetta frv. engin undantekning frá öðrum frv. sem við höfum haft hér til umræðu.

Það eru reyndar fleiri atriði en þessi þrjú grundvallaratriði sem við gerum athugasemdir við. Við teljum að eignar- og hagnýtingarréttur ríkisins á auðlindum í jörðu utan eignarlanda hefði þurft að vera skýrari. Það er ekki kveðið nógu skýrt á um t.d. jarðefni, en með frv. er nýtingarréttur falinn landeiganda. Þarna geta verið hlutir sem eiga eftir að reynast mikil verðmæti en það er bara kveðið á um það með einu pennastriki að þetta sé landeigandans. Þetta hefði e.t.v. þurft að orða á varfærnislegri hátt þannig að hagsmunir ríkisvaldsins væru tryggðir. Í frv. sjáum við ekki nægjanlega skýr ákvæði um eignarréttinn á orku háhitasvæða. Þetta er flókin lagasetning og mjög brýnt að kveðið sé skýrt að orði. Við erum að tala um nýtingu mikilla auðlinda sem hafa mikla þýðingu fyrir atvinnulífið og eru einnig fjárhagslega mikilvæg fyrir einstaklinga.

Í frv. eru ekki nægjanlega skýr lagafyrirmæli um hvernig meta eigi bætur vegna eignarnáms eða leyfisveitingar, þá er hugsanlegt að þar skapist bótaréttur sem kveði beinlínis á um að landeigendur eigi að fá afgjald fyrir. Orðalagið í frv. er ekki mjög nákvæmt og ekki er kveðið nægjanlega vel á um reglur til leyfisveitnga, leitar og rannsókna. Þau ákvæði eru reyndar í frv., það er samt nokkuð skilið eftir fyrir reglugerðarákvæði. Ég geri svo sem ekki mjög mikið úr þessu, þetta þarf náttúrlega að vera skýrt og augljóst þannig að menn viti að hverju þeir ganga. En vitaskuld verður að fela framkvæmdarvaldinu útfærslu á tilteknum þáttum. Meginlínurnar verða samt að vera ljósar í þeim mikilvægu þáttum, leit og rannsóknir, ég tala nú ekki um eftir að búið er að breyta nafni frv. og draga rannsóknir sérstaklega fram. Það setur enn meiri kröfur á vandaða lagasetningu hvað varðar rannsóknarþáttinn.

Umhverfismálin eru hluti af þessum þremur stóru ágreiningsmálum. Það hefði þurft að taka umhverfismat betur og meira inn í ákvæði frv. um nýtingu og rannsóknir en gert er í gildandi lögum. Það verður samt að segja alveg með fullri sanngirni að kveðið er sérstaklega á um það að þetta frv. eigi ekki að fela í sér minni kröfur gagnvart þessari löggjöf, náttúruverndarlöggjöf og umhverfislöggjöf, en það hefði þurft að skoða þessi mál meira í samhengi. Fyrir utan hinn pólitíska ágreining um eignarhaldið er líklega meginstoðin í gagnrýni okkar stjórnarandstæðinga á frv. sú að ekki hafi verið litið nógu heilsteypt á málið.

Við stjórnarandstæðingar færum í málflutningi okkar og nál. rök fyrir okkar máli ekki bara hinum pólitíska ágreiningi, því að það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að pólitískur ágreiningur geti risið upp um mál og þá takast menn á um hann í atkvæðagreiðslum, eins og við munum vafalítið einhvern tíma gera um þetta mál eins og önnur. En við teljum --- þó að ég hafi verið að hrósa hinni lógísku uppbyggingu á frv. áðan --- að fjölmargt hefði þurft meiri skoðunar við. Við viljum tengja þessi frv. saman. Að því leytinu erum við sammála núv. ríkisstjórn um að líta á þrennuna, þ.e. frv. um þjóðlendur, frv. um eignarhald í jörðu og sveitarstjórnarfrv. sem eina heild. Að vísu er það ekki alveg rétt þó að ríkisstjórnarflokkarnir hafi kosið að tengja þau þrjú frv. saman pólitískt. Þjóðlendufrv. getur staðið sjálfstætt þó svo að einhverjar breytingar þyrfti að gera á því ef sveitarstjórnarfrv. næði ekki fram að ganga, tertusneiðafrv. Hins vegar gæti þetta frv. alveg beðið þó að hin tvö yrðu samþykkt og jafnvel þó að einungis þjóðlendufrv. yrði samþykkt. Við teljum að meginatriði þessa frv., hinn pólitíski ágreiningur um eignatilfærsluna til sérhagsmuna eða til hinna fáu á kostnað almannahagsmuna vera þess eðlis að þau hafi ekki hlotið nægjanlega umfjöllun á hinu háa Alþingi og alls ekki í þjóðfélaginu. Við erum þess fullviss að fólk hefur almennt ekki áttað sig á þeirri stefnumörkun sem hér er verið að leggja upp með. Það er þess vegna, herra forseti, sem nefndarmenn okkar leggja til að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Við eigum nú ekki von á því að hæstv. ríkisstjórn sjái ljósið þótt við leggjum til að viðhöfð verði betri vinnubrögð. Við höfum svo sem lagt það til í fleiri málum en þeir hafa ekki fallist á það enn þá. En ef það verður ekki niðurstaðan að vísa þessu máli til frekari úrvinnslu og það komi aftur fram á haustdögum, þá munum við leggjast gegn nokkrum tillögugreinum í frv., þar á meðal 3. gr. og flytja brtt. við 3. umr. málsins.

Ég tel rétt, herra forseti, í tengslum við þetta frv. og í umræðum um það að gera nokkra grein fyrir stefnu okkar jafnaðarmanna í þessum efnum. Við höfum lagt fram frv. til laga um eignarhald á auðlindum í jörðu. Það mál, 304. mál þingsins, er í þinglegri afgreiðslu, ég held að það hljóti að vera í hinni ágætu iðnn., þ.e. frv. til laga um eignarhald á auðlindum í jörðu. Það hefur vafalítið verið skoðað ítarlega og rætt í hv. iðnn. en málið er flutt af þingflokki jafnaðarmanna og 1. flm. er formaður Alþfl., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson.

Þetta frv. er heilsteypt frv. um svipaða hluti og frv. ríkisstjórnarinnar fjallar um. Frv. er mjög ítarlegt og var unnið að hluta til af hálfu embættismanna í tíð síðustu ríkisstjórnar og jafnvel fyrr. Meginatriði í því frv. er að setja heildarlöggjöf um eignarhald á auðlindum í jörðu. Það eru sem sagt svipuð markmið með því og í frv. ríkisstjórnarinnar, og kveðið er skýrt á um eignarrétt og hagnýtingarrétt ríkisins á auðlindum í jörðu, sem eru utan eignarlanda, afmarkaðra eignarlanda. Þetta er eitt af því sem okkur vantar eða ekki eru nægilega skýr ákvæði um í fyrra frv.

[16:00]

Einnig er tekið á, sem við gagnrýnum í þessu frv., eignarrétti ríkisins að jarðefnum sem ekki hafi verið hagnýtt hér á landi þar sem þau hafa ekki fundist í nægjanlegu mæli. Það er sem sagt tekið á þessu vandamáli. Við kveðum upp úr um eignarrétt ríkisins til háhitaorku hvar sem er á landinu, þó þannig að þeir sem þegar hafa hafið nýtingu á þeirri orku haldi rétti sínum áfram. Þá er gert ráð fyrir að kveða á um hvernig bætur skuli metnar fyrir tjón sem landeigendur verða fyrir vegna leyfisveitingar eða eignarnáms. Það er ekki sett upp eins og í frv. ríkisstjórnarinnar, að við eignarnám skuli koma fullt endurgjald fyrir auðlind í eigu landeiganda. Auðlindirnar eru afhentar landeigendum. Slíkt er ekki að finna í okkar frv. Vitaskuld á landeigandi að fá eðlilegar bætur fyrir það rask sem hann verður fyrir og eðlilegt afgjald fyrir sitt land, eða þá bætur ef um eignarnám er að ræða. Við teljum, og það er okkar grundvallarágreiningur, óeðlilegt að auðlindir í jörðu, sem menn hafa oft og tíðum ekki tök á að nýta nema af hálfu samfélagsins, skuli vera séreign einstakra landeigenda.

Í þessu frv. eru skýr ákvæði um vernd jarðhitasvæða, grunnvatns og ýmislegt fleira. Í frv. og í umræðu um það hefur saga þessa máls verið rakin. Hún er mjög athyglisverð. Þetta hefur verið gert að umtalsefni fyrr í umræðunni. Ég minnist ágætrar ræðu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur í gærkvöldi þar sem hún ræddi ítarlega um þennan þátt málsins og rifjaði upp sögulega þætti þess.

Við jafnaðarmenn höfum ekki látið staðar numið. Við höfum lagt fram fleiri frv. sem tengjast þessu reyndar ekki nema að hluta til. Ég vil bara geta um það að við höfum lagt fram sérstakt frv. um virkjunarrétt fallvatna, sem vitaskuld er nátengt þessu þó að frv. fjalli um auðlindir í jörðu. Þar er kveðið á um að ríkið hafi umráða- og hagnýtingarrétt á orku allra vatnsfalla, utan afmarkaðra landa sem háð eru einkaeignarrétti. Þar er tekið á auðlindum vatnsins, alveg eins og við tökum á auðlindum í jörðu niðri í frv. okkar. Málflutningur okkar í sambandi við auðlindanýtingu hefur verið með almannahagsmuni í huga.

Það er merkilegt, herra forseti, að ef við lítum aðeins til þeirra umsagna sem borist hafa um þetta frv., þ.e. frv. ríkisstjórnarinnar um eignarhald og auðlindir í jörðu, þá koma fram margar mjög gagnrýnar umsagnir. Þannig segir t.d. Alþýðusamband Íslands að þeir líti svo á að frv. eigi að vera hluti af lagaumhverfi um nýtingu og skiptingu afraksturs af náttúruauðlindum Íslendinga. Þeir leggja áherslu á að afnotarétti eða einkaeignarrétti, hvort heldur er að landsnytjum, landi eða náttúruauðlindum, séu sett eðlileg mörk. Þeir eru ósammála þeirri skoðun, og ég deili því sjónarmiði með Alþýðusambandinu, sem lýst er í grg. frv., að það kunni að orka tvímælis að setja almennar og rýmilegar skorður við einkaeignarrétti að auðlindum í jörðu á eignarlandi með tilliti til eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar. Þetta er vitaskuld hálögfræðilegt atriði en skoðun mín og reyndar ýmissa annarra, og hægt að kalla til vitnis einhverja lögfræðinga, er að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verji ekki auðlindir á landareign sem menn hafa engin tök á að nýta. Um það hefur ekki verið ágreiningur hjá fjölmörgum sérfræðingum.

Meginatriðið hjá Alþýðusambandinu er samt að kveða á um eignarhald einstaklinga eins og gert er í frv. Þeir vísa til þess að það sé að nokkru leyti í ósamræmi við þjóðlendufrv. Ég er kannski ekki viss um það, þjóðlendufrv. kveður ekki á um annað en svæði sem eru utan eignarréttar. Það gengur hins vegar lengra, það fjallar um að taka auðlindir á einkaeignum og gera þær að séreignum landeigenda. Það er sú stefna sem við erum fyrst og fremst að mótmæla.

Frá Vegagerðinni kemur viss gagnrýni á nokkur af ákvæðum frv. Þeir vilja gjarnan að tillit sé tekið til þeirra varðandi 8. gr. frv. en á ákvæðum frv. og athugasemdunum við greinina kemur fram ákveðinn munur. Á þeirri grein er ekki tekið af meiri hluta nefndarinnar.

Vitaskuld á það að vera einn meginþátturinn í umfjöllun okkar um þetta mál að gæta náttúrusjónarmiða. Náttúruvernd ríkisins sendi vandaða umsögn um þetta mál. Þeir tala um að ný lög um eignarhald og rannsóknir á nýtingu á auðlindum í jörðu eigi að taka tillit til viðhorfa og aðstæðna nútímans, t.d. um sjálfbæra þróun, náttúruvernd og skynsamlega uppbyggingu. Niðurstaða þeirra, sem kemur fram í umsögn þeirra, er þessi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Náttúruvernd ríkisins telur að ofangreint frumvarp uppfylli ekki þessi atriði. Frumvarpið stangast einnig á við veigamikil og mörg atriði í framkvæmdaáætlun umhvrn., Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, sem samþykkt var af ríkisstjórninni í febrúar 1997.``

Hér vísað í það, herra forseti, að þetta frv. brjóti í bága við umhverfisstefnu núv. ríkisstjórnar. Sú umhverfisstefna hefur hingað til ekki þótt neitt sérstaklega framsækin, en hér er skýrt dregið fram að ríkisstjórnin gætir m.a.s. ekki að sinni eigin stefnu í umhverfismálum. Við höfum séð það á öðrum vettvangi að hún er nú ekki að leggja mikið upp úr umhverfismálunum, og e.t.v. stingur afstaða ríkisstjórnarinnar gagnvart Kyoto-samningnum mest í augu hvað þann þátt varðar.

Náttúruvernd ríkisins bendir á að þarna sé hvergi talað um náttúruvernd eða skilgreind atriði sem lúta að verndun náttúru og umhverfis, heldur sé einungis talað með óljósum orðum um umhverfisvernd. Það er ekki nógu gott, herra forseti, að þessir þættir skuli fá svona gagnrýni af hálfu Náttúruverndar ríkisins. Við eigum að taka mark á því sem sagt er í umhverfis- og náttúruverndarmálum í tengslum við slíka stefnumótun. Þeir gagnrýna líka ýmis ákvæði frv. og ég tel víst að þeir hefðu mjög gjarnan viljað koma að endurbótum á frv. Þeir hefðu vafalítið stutt, hefðu þeir haft tök til þess, hugmyndir okkar stjórnarandstæðinga um að fresta þessu máli.

Einnig barst mjög vönduð umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Náttúrufræðistofnun Íslands telur að brýnt sé orðið að endurskoða gildandi lög um nýtingu auðlinda í jörðu. Stofnunin mælir ekki með samþykkt þessa frv. nema á því verði gerðar verulegar breytingar sem taki mið af ríkjandi sjónarmiðum í umhverfisvernd og fyrirliggjandi áætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi.``

Hér er enn og aftur, herra forseti, sagt: Þessi stefnumörkun ríkisstjórnarinnar er ekki umhverfisvæn, brýtur í bága við náttúruvernd og er ekki einu sinni í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Þeir benda á að ekki sé tekið tillit til skuldbindinga sem felast í alþjóðlegum samningum um vernd umhverfis og Ísland hefur staðfest. Vitaskuld er ekkert hægt að ganga frá þessu máli fyrr en gengið er úr skugga um að frv. brjóti ekki í bága við alþjóðasamninga. Það er vitaskuld svo alvarlegt, herra forseti, að það væri full ástæða til að skoða það sérstaklega milli 2. og 3. umr. ef menn fallast ekki á að fresta öllu málinu eins og við höfum lagt til.

Það er beinlínis vitnað í áætlun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun og skýrt dregið fram að sum ákvæði frv. séu í algjörri andstöðu við þá stefnu.

Fleiri hafa gagnrýnt frv. en ekki fundið hljómgrunn hjá meiri hluta iðnn. nema að hluta. Þannig eru ábendingar frá Landssambandi veiðifélaga sem hefur áhyggjur af sínum málum í tengslum við þetta frv. Einnig er hægt að benda á vandaða umsögn frá Hitaveitu Suðurnesja sem fjallar um nokkuð, sem e.t.v. er ekki gert nógu mikið að umtalsefni, að allt frv. ber vott um miðstýringu. Orkustofnun sem stjórnsýsluaðila fyrir hönd iðnrn. er gert mjög hátt undir höfði í þessu frv. Þeir hafa áhyggjur af þessu.

Hitaveita Suðurnesja er mjög öflugt og stórt fyrirtæki sem hefur haslað sér völl með ýmsar nýjungar í sambandi við nýtingu á auðlindum í jörðu. Þeir hafa áhyggjur af því að steinn verði lagður í götu þeirra í sambandi við nýtingu á auðlindum. Við eigum vitaskuld, herra forseti, að taka mark á því. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í umsögn þeirra en þeir gera efnislegar athugasemdir við fjölmargar af greinum frv. Mér sýnist ekki að þær hafi fengið nægjanlegan hljómgrunn í þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur til, þó að hægt sé að benda á að nokkrum atriðum sé fundinn er staður í breytingartillögum.

Landfræðingar eru gagnrýnir eins og fleiri. Þeir segja að ekki sé gætt jafnvægis milli sjónarmiða umhverfisverndar og nýtingarsjónarmiða. Þeir telja að vanda þurfi til lagasetningar og segja einnig að of lítil umræða hafi farið fram um þetta mál. Það er e.t.v. meginatriðið í öllum þessum málum. Ríkisstjórnin er að knýja í gegn mjög mikilvæga og afdrifaríka löggjöf án þess að um það sé fjallað opinskátt í þjóðlífinu og umræðunni gefið það ráðrúm sem þarf til hér á hinu háa Alþingi. Það er satt að segja, herra forseti, með ólíkindum hvað ríkisstjórnin ætlar í krafti meiri hluta síns að knýja fram stór og mikilvæg mál, allt til gæslu sérhagsmuna.

[16:15]

Verkfræðingafélag Íslands hefur einnig áhyggjur af þessu mikla valdi Orkustofnunar án þess að þeir gagnrýni hana sérstaklega. Hún nýtur trausts og virðingar eins og þeir segja. En þeir segja að þetta fyrirkomulag með hina sterku stöðu Orkustofnunar samrýmist hvorki góðum stjórnsýsluvenjum né almennum samkeppnissjónarmiðum. Þetta segir Verkfræðingafélag Íslands, aðilar sem við eigum að taka mark á.

Herra forseti. Þegar maður fer yfir þessar umsagnir þá hafa þær nokkur einkenni. Þær eru vandaðar. Menn hafa lagt sig fram við það að búa til vandaðar umsagnir. Verkfræðingarnir t.d. fara yfir alla kafla frv. og koma með athugasemdir. Tekið er tillit til sárafárra þeirra í áliti meiri hluta nefndarinnar. Eitthvað er þó tekið upp en ekkert í meginatriðum. En þetta staðfestir það sjónarmið okkar að málið hefði þurft að skoða betur og gefa því ráðrúm, eins og við höfum lagt til, með því að vísa því til ríkisstjórnarinnar. Best væri nú að öll málin, þessi þrenna, væru geymd fram á haustið og menn færu að finna þingstörfum einhvern annan farveg en nú.

Meginatriði í þessu máli er samt sem áður, herra forseti, að það er pólitískur ágreiningur um stefnuna. Við stjórnarandstæðingar erum andsnúnir þeirri pólitísku stefnu sem kemur fram hér hjá ríkisstjórninni. Við drögum fram þá þrjá þætti, að hér er verið að afhenda fáum stórkostleg verðmæti sem ættu að vera í sameign þjóðarinnar, þ.e. auðlindir í jörðu. Í öðru lagi er ekki tekið á umhverfis- og náttúruvernd eins og þyrfti að vera í þessari heildarlöggjöf. Og í þriðja lagi er ekki kveðið á um eðlilegt og sanngjarnt afgjald fyrir þær sameignir þjóðarinnar sem fólgnar eru í auðlindum í jörðu. Öll þessi atriði, herra forseti, eru það veigamikil að við getum ekki á nokkurn máta stutt þessa stefnu og munum berjast gegn henni af alefli.