Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 16:17:51 (6501)

1998-05-12 16:17:51# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, HG
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[16:17]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það frv. sem hér er komið til 2. umr. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu hefur fengið umfjöllun í hv. iðnn. sem skilar til þingsins áliti í tveimur hlutum. Ég óska eftir því, virðulegur forseti, að frsm. iðnn., hv. þm. Stefán Guðmundsson, verði viðstaddur og hlýði á mál mitt fyrir utan hæstv. iðnrh. sem ánægjulegt er að sjá viðstaddan umræðuna.

(Forseti (GÁ): Forseti sér að hv. þm. Stefán Guðmundsson er í húsinu og skal gera honum boð.)

Ég þakka fyrir það, virðulegur forseti.

Í þeim álitsgerðum sem fyrir liggja kemur fram að nokkrar breytingar eru lagðar til við frv. frá þeim búningi sem það var í við 1. umr. og eru það sumpart breytingar sem nefndin stendur að sameiginlega --- nei, það mun vera meiri hluti sem stendur að breytingunum sem slíkum en minni hluti leggur fram sérstakt nefndarálit. Ég lýsi yfir stuðningi við þau meginsjónarmið sem fram koma í nefndaráliti minni hluta iðnn. þar sem dregin eru fram nokkur áhersluatriði sem varða mál þetta um leið og ég minni á ræðu sem ég flutti við 1. umr. málsins þar sem ég vék að hinum stóru pólitísku þáttum sem snerta málið og eru með þeim allra stærstu sem fram hafa komið fyrir Alþingi um mjög langt skeið. Hér er verið að taka frá þjóðinni og færa til einkaaðila hugsanleg auðæfi sem tengjast eignarrétti manna á yfirborði lands. Framsfl. stendur að þessari eignatilfærslu sem frumkvæðisaðili, færir réttindi yfir auðlindum sem enginn hefur átt frá örófi alda, frá því Ísland byggðist, til einkaaðila. Þetta frv. eins og það lítur út við 2. umr. málsins komið frá nefnd, er því veruleg pólitísk tíðindi og nauðsynlegt að fara yfir þau efni ásamt einstökum efnisþáttum málsins.

Hvernig stendur á því, virðulegur forseti, að flokkur sem kallar sig miðjuflokk í íslenskum stjórnmálum og stundum til vinstri skuli leggja fyrir Alþingi frv. til laga sem færir rétt og eignarhald yfir hugsanlegum auðlindum í jörðu til einkaaðila, þvert gegn sjónarmiðum sem hafa legið fyrir um þetta mál frá forustumönnum í sama flokki fyrir fáum árum og nokkrum áratugum, ekki aðeins stjórnmálaleiðtogum Framsfl. heldur fræðimönnum á sviði laga og stjórnarskrárréttar eins og ég vék að við 1. umr. málsins? Það hefði kannski ekki sætt tíðindum svo mikið, virðulegur forseti, ef hluti Framsfl. hefði borið fram slíkt mál, sá hluti flokksins sem slóst í lið með núverandi formanni óbeint til stuðnings við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði sem er gjörningur sem tengist þessu máli náið. Það hefðu ekki verið mikil tíðindi. En það eru tíðindi að þeir sem innan Framsfl. beittu sér hart á móti stuðningi flokksins við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, að þingmaður eins og hv. frsm. meiri hluta iðnn., hv. þm. Stefán Guðmundsson, skuli ætla að gera það eitt af sínum síðari verkum hér á þinginu, ef marka má yfirlýsingar hv. þm. um að hann ætli að kveðja Alþingi við lok þessa kjörtímabils, skuli ætla að láta það verða eitt af sínum síðustu ábyrgðarmiklu verkum að afhenda landeigendum, þeim sem teljast eigendur yfirborðs lands, allar auðlindir sem undir því eru, að sá þingmaður, virðulegur forseti, sem ásamt sjö öðrum í þingflokki Framsfl. sem höfðu þar nauman meiri hluta gegn því að lögfesta samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, og að þeir þingmenn skuli nú einnig gengnir undir þetta jarðarmen með hæstv. ráðherra, þingmanninum Finni Ingólfssyni sem sannarlega var í sveit með varaformanni Framsfl., nú formanni, árið 1993 þegar atkvæði voru greidd á Alþingi um samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði.

Þetta segir okkur, virðulegur forseti, að sá hluti Framsfl. sem segja má að hafi haldið áttum fram á þennan áratug undir forustu þáv. formanns, Steingríms Hermannssonar, hefur nú látið beygja sig (StG: Nei.) með jafnákvarðandi hætti og frv. þetta ber með sér og er ekki að sjá hið minnsta andóf gegn hinum íhaldssömustu einkaeignarréttarlegu sjónarmiðum sem fram eru borin með þessu frv. Ekkert viðnám, virðulegur forseti, er að sjá lengur í forustu þessa miðjuflokks sem stundum hefur reynt að höfða til vinstri sjónarmiða, einnig að því er varðar landsréttindi og eignarréttindi þannig að honum er nú komið eins og raun ber vitni. Það hljóta, virðulegur forseti, að vera þung spor fyrir hv. formann iðnn. Alþingis, hv. þm. Stefán Guðmundsson, að mæla fyrir þessum málum hér og gerast boðberi þeirra sjónarmiða hér í þinginu sem hæstv. iðnrh. hefur knúið fram í ríkisstjórn, kannski ekki með mikilli fyrirstöðu af hálfu Sjálfstfl., ég á svo sem ekki von á því, en hlaðið þar undir sjónarmið sem ekki er út af fyrir sig óeðlilegt að sé að finna hjá hægri flokki þó að einnig þar, einnig í þeim flokki, hafi fyrir nokkrum áratugum síðan verið uppi allt önnur sjónarmið og víðsýnni að því er þessi efni snertir.

Hæstv. iðnrh. reyndi við 1. umr. málsins í þinginu að afsaka þessa stefnu sína og Framsfl. með því að vísa til breytinga í réttarfarslegu tilliti og tæknilegum efnum. Þar var veik vörn uppi höfð og sannfæringin vissulega ekki mikil fyrir því, enda verður sú stefnubreyting sem orðið hefur frá tíma Ólafs Jóhannessonar og Steingríms Hermannssonar ekki skýrð öðruvísi en sem huglæg breyting í forustusveit Framsfl. þar sem menn hafa lotið, hafa beygt sig, fyrir þröngum eignarréttarlegum sjónarmiðum og reyna að verja gjörðir sínar með vísan í eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, eignarréttarákvæðin sem svo voru metin af forustumönnum Framsfl. og meira að segja Sjálfstfl. fyrr á þessari öld að hv. þm. Ólafur Jóhannesson --- fyrir ekki svo mjög löngu síðan því hv. þm. Ólafur Jóhannesson sat á Alþingi fram til 1982--1983 og átti þá skammt ólifað en hélt fast við fyrri sjónarmið um þessi efni --- studdi þann sem hér talar þegar lagt var fram stjórnarfrv. árið 1982 um jarðhitaréttindi þar sem sú stefna var mörkuð að allur jarðhiti í jörðu undir 100 metra dýptarlínu skuli lýstur þjóðareign. Síðan eru þó ekki liðin nema 16 ár, virðulegur forseti. Og við hljótum að spyrja: Í hvaða kistu er forusta Framsfl. að sækja rök fyrir þessu máli? Þau eru sótt í kistu íhaldssamra, þröngra lögfræðilegra sjónarmiða og túlkana sem eru höll undir þröng einkaeignarréttarsjónarmið þar sem vottar ekki fyrir vilja að láta reyna á heilbrigða skynsemi sem að sjálfsögðu talar gegn þeirri stefnu sem hér er fram borin, þ.e. að afhenda einstaklingum eignar- og umráðarétt yfir auðlindum í jörðu svo djúpt sem komist verður, fræðilega allt inn að miðbiki jarðar, eins og hér er gert.

[16:30]

Virðulegur forseti. Málið hefur mjög margar hliðar og í er í raun og veru enn þá vandræðalegra vegna þess fyrir þá sem bera málið fram að hluti þeirra auðlinda sem verið er að afhenda, setja undir einkaeignarrétt, er ekki bundinn í tíma eða rúmi við þá landareign sem á að miða við vegna þess að auðlindin er á hreyfingu og nýting hennar getur haft áhrif langt út fyrir viðkomandi landareign sem um er að ræða. Ég ætla að biðja hv. frsm. iðnn., virðulegur forseti, sem hefur forsjá málsins af hálfu meiri hlutans við umræðuna að skýra fyrir okkur hvernig menn geta farið að afhenda auðlind eins og jarðhita til nýtingar innan tiltekinna marka þegar ljóst er að nýtingin getur haft víðtæk áhrif á nýtingu grannans á sömu auðlind? Hvaða skýringar eru hafðar uppi í sambandi við þennan grannarétt, hvernig skal með farið, hvernig eiga dómstólar að dæma í slíkum málum? Fróðlegt er að fá útlistanir á því en einmitt þetta er eitt af því sem knúið hefur á um að skera úr um umráðarétt auðlindar eins og jarðhita, m.a. vegna hagnýtingar strax, þegar vegna rannsókna og síðar hagnýtingar, vegna þeirra gagnkvæmu áhrifa sem þarna er um að ræða. Það er vel að hæstv. ráðherra leggi einnig eitthvað til þessara mála og leiti sér upplýsingar um það hvernig ætlunin sé að halda á slíkum hagsmunum sem um er að ræða.

Önnur auðlind sem er verið að fella undir einkaeignarrétt, og er ekki síður sögulegt en varðandi jarðhitann, er grunnvatn í jörðu. Hv. þm. Stefán Guðmundsson ber fram meirihlutaálit sem á að innsigla að grunnvatn í jörðu falli undir einkaeign landeiganda. Hér er komin breytingartillaga, virðulegur forseti, við frv. sem snertir þennan þátt málsins, við 2. gr., 6. mgr., þar sem tekin er upp skilgreining á grunnvatni í stað þess sem var að finna í 6. gr., virðulegur forseti, en við 2. gr. þar sem um var að ræða skilgreiningu á grunnvatni en samkvæmt frv. var hún svofelld, með leyfi forseta:

,,Grunnvatn merkir í lögum þessum vatn sem er neðan jarðar í samfelldu lagi og fyllir að jafnaði allt samtengt holrúm í viðkomandi jarðlagi, með hitastigi sem næst meðallagslofthita á staðnum og sem unnið er í öðrum tilgangi en að flytja varma til yfirborðs jarðar eða nýta staðarorku þess.``

Hér hefur hæstv. iðnrh. lagst undir feld til þess að skilgreina hugtakið grunnvatn en ekki tekist betur til en svo að það hefur þurft að endurskilgreina hugtakið og hv. talsmaður meiri hluta, formaður iðnn. hefur lagt þar sitt af mörkum og hér kemur breytingartillaga á skilgreiningu á grunnvatni sem er rétt að fara yfir og sem ég sé að sótt er í umsögn Verkfræðingafélags Íslands sem hefur skotið til nefndarinnar gamalli grein sem er tekin upp til að lögleiða. Skilgreiningin samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans er svofelld:

,,Grunnvatn merkir í lögum þessum vatn sem er neðan jarðar í samfelldu lagi, kyrrstætt eða rennandi, og fyllir að jafnaði allt samtengt holrúm í viðkomandi jarðlagi og sem unnið er í öðrum tilgangi en að flytja varma til yfirborðs jarðar eða nýta staðarorku þess.``

Það liggur við að þetta sé ljóðrænn texti öðrum þræði þar sem vitnað er til kyrrstæðs eða rennandi vatns, en sitthvað annað höfðar nokkuð til eðlisfræðilegs skilnings og yfirsýnar. Mér er einnig nokkur ráðgáta tilvísunarfornafnið ,,þess`` í lok skilgreiningar sökum þess, virðulegur forseti, að ekki verður með öllu ljóst til hvers vísað er. En ég treysti því að hv. formaður iðnn. komi upp og leysi úr gátunni, fari vandlega yfir þessa skilgreiningu og greini okkur fávísum þingmönnum, hugsanlega fleirum en hér stendur, frá því hvernig þessi texti er hugsaður þannig að okkur verði það sem ljósast. Ég vefengi ekki, virðulegur forseti, að sá fróðleikur sem er sóttur í umsögn Verkfræðingafélags Íslands þangað sem mér sýnist að textinn sé sóttur byggi á traustum eðlisfræðilegum grunni en það gæti vafist fyrir stöku manni, t.d. búandkarli að átta sig á hvers eðlis þessi auðlind í landareign hans er eftir að hafa farið yfir þennan texta. Virðulegur forseti er einmitt nú um stundir, sýnist mér, að reyna að lesa í málið og er það vissulega vel ef hæstv. forseti gæti gefið leiðbeiningar, jafnvel utan forsetastóls, um það hvernig beri að skilja þessa skilgreiningu hinum dýpsta skilgreiningi svo sem vera ber. (LB: Fara yfir þetta vísindalega.)

Virðulegur forseti. Varðandi grunnvatnið, vill svo til að það er ekki alltaf kyrrstætt eins og kemur fram í skilgreiningunni. Það er stundum rennandi og hér blasir við hliðstæður vandi eins og með jarðhitann og kannski enn frekar, virðulegur forseti. Hvernig á að skilgreina grannahagsmunina í þessu máli? Hvað eiga dómstólar að leggja til grundvallar ef dæma á í álitaefnum að því er varðar nýtingu grunnvatns á mismunandi landareignum þar sem grunnvatnsstraumar færa sannarlega vatn á milli? Ég treysti því, virðulegur forseti, að við umræðuna muni hv. frsm. meiri hlutans gera okkur glögga grein fyrir því út frá hvaða forsendum eigi að dæma í slíkum álitaefnum, leiti menn til dómstóla og í rauninni að greina okkur frá rökvísinni að baki þeirri speki að fella grunnvatn í jörðu undir einkaeignarrétt því ég held að mönnum muni þykja það jafnvel enn þá langsóttara út frá heilbrigðri skynsemi en það að færa jarðhita undir einkaeignarrétt þess sem ræður yfirborði lands eða telst eigandi að yfirborði lands því að jarðhiti er sumpart síður á ferðinni, flytur sig kannski ekki til með alveg sama hætti þótt það gerist að sjálfsögðu einnig að hann færist til, t.d. lághitinn sem streymir um langa vegu og er alveg nauðsynlegt að talsmenn þeirrar löggjafar sem hér á að setja, ef meiri hlutinn nær sínu fram, skýri út frá hvaða forsendum þar er gengið.

Virðulegur forseti. Hér er ekkert smámál á ferðinni. Hér er um að ræða grundvallaratriði sem verður að skýra við meðferð málsins hvernig í ósköpunum menn komast að því að skynsamlegt sé að setja auðlindir sem eru á ferðinni, rennandi eins og grunnvatnið eða flytjast til og hafa tekið varma úr bergi langt frá þeim stað þar sem viðkomandi auðlind kann að verða nýtt, á yfirborði jarðar eða undir, í samhengi þessa frv. undir yfirborði. Ég geri ráð fyrir að hv. formaður iðnn. sé vafalaust orðinn afar vís í þessum málum, hefur fylgt frv. um þessi efni eftir í iðnn. um langa hríð. Gott ef sá sem hér talar, virðulegur forseti, átti ekki samneyti við formann iðnn. á sínum tíma, einmitt þar í nefnd á sama tíma. Mig rekur minni til þess, virðulegur forseti, (StG: Svo fór hann úr nefndinni og hvíldi sig um stund.) og hvíldi sig um stund, segir þingmaðurinn en hefur nú safnað kröftum á ný og gengið undir jarðarmen hins fyrrum minni hluta í Framsfl. og beygt sig undir meiri hlutann og ber fram þetta afdrifaríka mál hér. Hv. þm. þekkir því vafalaust allar eigindir þeirra auðlinda sem hér um ræðir, m.a. jarðhitann sem flyst til um langa vegu, vatn sem hefur náð að taka til sín varma úr bergi marga kílómetra, hundruð kílómetra frá þeim stað þar sem viðkomandi jarðvarmi er af því tekinn og við treystum því að hv. þm. varpi ljósi á þankagang sinn um þetta og þá lögspeki og þau sjónarmið sem liggja að baki því að fella slíka almannaauðlind í raun undir einkaeignarrétt.

Virðulegur forseti. Það er margt sérkennilegt í þessu máli og ekki hefur allt þar færst til skýrari vegar frá 1. umr. að málið var fram lagt og er nú borið fram af hálfu hv. meiri hluta iðnn. Ein er sú grein sem þar er að finna sem hefur verið aukið við samkvæmt breytingartillögum nefndarinnar og varðar nýja grein sem er bætt við frv., 33. gr. þar sem inn komi ný grein svohljóðandi, með leyfi forseta:

[16:45]

,,Lög þessi taka eftir því sem við á til rannsókna og nýtingar á örverum sem vinna má á jarðhitasvæðum. Rannsóknir og nýting örvera á jarðhitasvæðum er óheimil án leyfis iðnaðarráðherra samkvæmt lögum þessum. Leyfi samkvæmt þessari grein skal veitt að fenginni umsögn umhverfisráðherra. Náttúruvernd ríkisins fer með eftirlit með rannsókn og nýtingu samkvæmt þessari grein.

Iðnaðarráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar í samráði við umhverfisráðherra.

Með örverum er átt við örverufræðilega einingu, myndaða af frumum eður ei, sem fær er um eftirmyndun eða yfirfærslu erfðaefnis.``

Svo mörg eru þau orð, hið nýja lagaboð sem hv. þm. Stefán Guðmundsson leggur fyrir þingið. Meiri hlutinn hefur greinilega lagst ekki síður djúpt í málið en þegar kom til skilgreiningar á grunnvatni. Nú kemur upp, virðulegur forseti, efni sem ég treysti hv. þm. Stefáni Guðmundssyni til að skýra fyrir þingheimi við umræðuna. Hvernig ber að skilja þennan texta sem uppi er hafður?

Fyrir fávísa menn eins og þann sem hér talar er þetta nokkuð torráðið og nauðsynlegt að ekkert fari milli mála. Í nál. meiri hlutans er síðan skýring á þessu snjallræði því vart er nú hægt að kalla það annað en snjallræði, a.m.k. mjög frumlegt mál, að færa inn í frv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu, örverur sem vinna má á jarðhitasvæðum, þ.e. örverufræðilega einingu myndaða af frumum eður ei. Skýringu meiri hlutans á því að taka þetta inn í málið er að finna í nefndarálitinu. Það sem um er að ræða, virðulegur forseti, er hvorki meira né minna, ef ég má vitna hér til texta í áliti meiri hlutans þar sem segir:

,,Brýna nauðsyn ber til að setja á næstu árum heildarlöggjöf um hagnýtingu lífrænna verðmæta. Mótun slíkrar löggjafar tekur þó nokkurn tíma. Því er hér lagt til að bætt verði inn í frumvarpið ákvæði um rannsóknir og nýtingu örvera á jarðhitasvæðum, en sú aðferðafræði sem frumvarpið byggir á við rannsóknir og nýtingu fellur vel að verndun þeirrar auðlindar sem í örverum felst.``

Herra forseti. Ég vek athygli á hinni snjöllu röksemdafærslu sem hér er að finna í texta meiri hlutans. Hér er bent á að ákvæði um rannsóknir og nýtingu örvera á jarðhitasvæðum falli vel að þeirri aðferðafræði sem frv. byggir á við rannsóknir og nýtingu. Það hljóta að vakna spurningar um það, virðulegur forseti, hvers vegna ekki var leitað víðar fanga til að nýta það samhengi sem felst í þessu frv. Það hlýtur að vera fleira en hinar örverufræðilegu einingar sem mætti fella undir hugmyndafræði þessa frv.

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Hátæknivæddur líftækniiðnaður byggir tilurð sína á rannsóknum á þessum örsmáu lífverum. Lyf og efnahvatar sem notaðir eru í iðnaði eru gott dæmi um verðmætar afurðir þessa nýja atvinnuvegar. Aðalhráefni líftækniiðnaðarins eru þó ekki genin sjálf, sem efnislegir þættir lífveranna, heldur þær upplýsingar sem þau bera í sér.``

Virðulegur forseti. Þetta er að verða guðfræðilegur texti sem meiri hluti hv. iðnn. ber fram. Hann tengist reyndar líka gömlum spurningum um grundvallarsannindi, um hænuna og eggið. Hvort kom á undan? Hér segir að aðahráefnið sé ekki genin sjálf heldur þær upplýsingar sem þau bera í sér. Þá spyr ég hv. formann iðnn.: Ber að skilja þetta þannig að genin sem vísað er til séu ekki verðmæt í sjálfu sér heldur upplýsingarnar? Eru upplýsingarnar ekki það nátengdar genunum að genin séu í raun forsenda þeirra verðmæta sem á að nýta í þessu samhengi? Það er mjög þýðingarmikið að skýring á þessu atriði komi fram. Ég treysti því að hv. þm. Stefáni Guðmundssyni verði ekki skotaskuld úr því að upplýsa okkur um þetta álitaefni.

Enn fremur segir, virðulegur forseti:

,,Hveralífverur eru ein af eftirsóttustu uppsprettum líftækniiðnaðarins fyrir hagnýt gen. Ástæðan er sú að þeir eiginleikar sem hveralífverur hafa þróað og gera þeim kleift að lifa og starfa við háan hita í harkalegu umhverfi hveranna eru þeir sömu og sóst er eftir til nota í iðnaði.``

Þetta er frumlega til orða tekið, virðulegur forseti, að tala um hið harkalega umhverfi hveranna. Síðan kemur þessi staðhæfing, virðulegur forseti:

,,Ísland sem heild er stærsta og fjölbreytilegasta hverasvæði veraldar og því sækja erlendir vísindamenn og fyrirtæki hingað til að afla efniviðar í rannsóknir sínar og fer þessi ásókn vaxandi.``

Ég spyr hv. þm. og frsm. meiri hlutans að því hvaða dæmi menn hafi um þessa miklu ásókn, sem hlýtur að vera tilefni þess að færa þessa nýju grein af skyndingu inn í frv. Það hljóta að vera mjög gild rök fyrir því. Ég vil ekki hafna neinu fyrir fram um þessa miklu ásókn. Varðandi þá staðhæfingu sem hér er sett fram geri ég ráð fyrir að hún byggi einnig á mati þar sem segir að Ísland sem heild sé stærsta og fjölbreytilegasta hverasvæði veraldar. Nú kann það að vera rétt, virðulegur forseti, að svo sé en ég hefði viljað skyggnast nokkuð vítt um áður en ég setti þetta á blað. Ég spyr hv. þm.: Hvaðan er þessi staðhæfing er runnin? Hafa menn litið til annarra jarðhitasvæða áður en þetta var sett inn í nefndarálit, t.d. í Bandaríkjum Norður-Ameríku eins og Yellowstone Park svo dæmi séu tekin, eða til Nýja-Sjálands? Það er sjálfsagt mál að halda því til haga sem má til fremdar verða Íslandi og vissulega er jarðhitinn ein af okkar gildu og mikilvægu auðlindum en ekki finnst mér að við þurfum að fara í meting við aðra sem einnig eiga slíkar auðlindir eins og hér er sett fram.

Það er miklu lengri texti, virðulegur forseti, sem fylgir skýringum meiri hluta iðnn. varðandi þetta nýmæli. Segja má að þetta sé kjarninn í nefndarálitinu sem snertir hitakærar örverur. Þar er einnig reynt að rökstyðja þá stefnu sem tekin er upp í þessa grein, að setja á forræði iðnrh., að veita leyfi til rannsókna og nýtingar á hitakærum örverum til iðnaðarframleiðslu, á sama hátt og varðandi aðrar auðlindir sem hér eru settar undir hann.

Hér er einnig, virðulegur forseti, vikið að Ríó-sáttmálanum í þessu samhengi. Það er gert sem hér segir:

,,Ríó-sáttmálinn um verndun líffræðilegs fjölbreytileika, sem Ísland hefur staðfest, ber það með sér að viðurkennt er að þau verðmæti sem finna má í lífríki einstakra landa tilheyri upprunalandinu og utanaðkomandi aðilum sé óheimilt að hagnýta sér slík verðmæti án samþykkis og eftirlits viðkomandi lands. Ekki hafa verið sett lög á Íslandi sem hafa beinlínis þann tilgang að tryggja markmið Ríó-sáttmálans að þessu leyti eins og gert hefur verið í sumum öðrum löndum. Hér er því lagt til að bætt verði úr brýnni þörf og rannsóknir og nýting örvera á jarðhitasvæðum verði felldar undir meginefni frumvarpsins í ljósi þess að heildarlöggjöf um hagnýtingu lífrænna verðmæta skortir.``

Af þessu tilefni, virðulegur forseti, vil ég spyrja að því hvort byrjað sé að semja þá löggjöf sem hér er vísað til og með rétti sagt að það skorti á að setja slíka löggjöf. Ég vil einnig, virðulegur forseti, inna eftir því hvort fjallað hafi verið um það í hv. iðnn. hvers efnis slík löggjöf þyrfti að vera. Hitt er þó e.t.v. enn nærtækara, virðulegur forseti, að spyrja hvers vegna ekki hafi verið litið til þess að færa þetta efni inn í annað samhengi en gert er með þessu frv. Ég vek á því athygli, virðulegur forseti, að fyrir þinginu liggur 686. mál, frv. til laga um breytingar á lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrustofu, ásamt síðari breytingum. Í 3. gr. þess frv. sem ætlað er að verða 14. mgr. 15. gr. viðkomandi laga segir svo, með leyfi forseta:

,,Náttúrugripi, þar með taldar örverur sem uppruna eiga á jarðhitasvæðum og erfðaefni þeirra, má ekki flytja úr landi nema með leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands og með þeim skilyrðum sem stofnunin setur hverju sinni.``

Þetta frv. hefur ekki verið rætt í þinginu. Hvað veldur því, virðulegur forseti, að þetta frv. sem tengist því brýna máli að tryggja réttindi Íslands að því er varðar hitakærar örverur skuli ekki hafa verið tekið til meðferðar í þinginu? Hvers vegna er ekki fjallað um þetta mál af því samhengi og þeirri yfirsýn sem því ber? Með þessu er ég ekki að segja að það hafi verið sjálfgert að þau ákvæði sem hér er verið að fjalla um yrðu felld undir Náttúrufræðistofnun Íslands. Ég held þó að það hlyti að hafa komið til álita að hverfa að því ráði, að setja málið undir þá stofnun sem er ætluð margs konar varsla á upplýsingum. Hér er greinilega stefnt að því að skilgreina hitakærar örverur sem náttúrugripi sem falli undir skilgreiningar laga um Náttúrufræðistofnun Íslands.

[17:00]

Ég vil einnig vekja athygli á því, virðulegur forseti, að til er heildarlöggjöf um erfðabreyttar lífverur sem fjallar um náskyld efni og beinlínis um þær rannsóknir á hitakærum örverum sem hér er verið að vísa til sem lágu raunar ljóst fyrir þegar sú löggjöf var sett fyrir nokkrum árum eftir mikla yfirlegu af umhvn. þingsins sem gerði miklar endurbætur á því frv. sem til nefndarinnar var vísað um þetta efni. Í frv. er einmitt vakin athygli á því að rannsóknir á hitakærum örverum séu það sem kannski einna mest snerti erfðafræðilegar rannsóknir hérlendis til hagnýtingar og hefði því vissulega komið til álita, virðulegur forseti, að tengja málsmeðferð að þessu leyti frekar þeirri löggjöf en að bregða á það ráð meiri hlutans hér að setja þetta undir eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu því ekki þarf alltaf djúpt að kafa eftir þeim lífverum sem hér er um að ræða og greinilegur ótti er um að þessum upplýsingum og þessum lífverum með þeim upplýsingum sem erfðaefni þeirra geta gefið verði hnuplað af óvönduðum aðilum sem þurfi ekki mikið á sig að leggja til að nálgast það.

Virðulegur forseti. Þetta leiðir hugann að því sem vissulega er nauðsynlegt að hafa í huga, þ.e. ásókn þeirra sem yfir fjármagni ráða og eru að vinna úr líffræðilegum upplýsingum til að koma höndum yfir lífverur, einnig þær sem stærri teljast en hitakærar örverur og fá á þeim einkaleyfi. Þetta er að verða undirstaða undir rannsóknir og framleiðslu, a.m.k. framleiðsluvonir, fjölþjóðafyrirtækja víða um lönd sem eru að kemba lífheiminn, ekki síst í hinum svokallaða þriðja heimi, til að koma höndum yfir þær lífverur sem gætu orðið arðvænlegar í sambandi við líftækniiðnað og fá á þeim einkaleyfi, ekki aðeins á erfðavísum úr slíkum lífverum heldur beinlínis lífverunum sjálfum. Sýnir það okkur hversu langt er gengið í þessum efnum. Þess vegna vil ég alls ekki, virðulegur forseti, gera lítið úr nauðsyn þess að taka á því máli sem hér um ræðir. Það er langt frá því. Hins vegar er ekki þjóðráð að mínu mati að tengja það þessu, a.m.k. ekki að lítt athuguðu máli, þegar fyrir þinginu liggur frv. sem tekur einnig á sama máli í svipuðu samhengi og við höfum hér einnig löggjöf um erfðabreyttar lífverur sem tengist þessu einnig náið.

Virðulegur forseti. Nauðsynlegt er að víkja hér að mörgum fleiri þáttum sem tengjast þessu. Ég vil þó áður en ég kveð hitakærar örverur og sáttmálann um líffræðilega fjölbreytni sem vísað er til í nál. meiri hluta iðnn., vísa til þskj. 1169. Það er svar við fyrirspurn sem sá sem hér talar bar fram til hæstv. umhvrh. um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Í því svari kemur fram að ekki hefur ýkja mikið verið aðhafst í því að vinna úr því stóra máli af Íslands hálfu og er sannarlega vægt til orða tekið um það efni í nál. meiri hluta iðnn. Er illt til þess að vita hversu lítið menn gefa gaum að jafnmikilvægu máli og þar er um að ræða, verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Segja má að hér á landi séum við að aðhafast margt það sem kveðið er á um í samningnum og ganga gegn ákvæðum hans. Ég ætla ekki hér að fara út í þá sálma, virðulegur forseti, þótt ástæða gæti verið til.

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli á því að fyrir utan hina pólitísku meginstefnu þessa frv. er margt sem tengist frv. sem illa hefur til tekist og ekki síst það sem snertir umhverfismál og samhengi þessa frv. við umhverfisvernd. Um það er að finna marga þætti í umsögnum sem fylgja frv. og verður ekki vikið að nema fáu í því samhengi. Þar er að finna umsagnir frá opinberum stofnunum sem heyra undir umhvrn. og hafa leyft sér að vekja rækilega athygli á því hversu illa hefur til tekist í þessum efnum af hálfu þeirra sem smíða þetta frv. Menn verða að taka það með í reikninginn að sú löggjöf sem hér er verið að móta er samansett og undirbúin eftir að umhvrn. var sett á stofn. Það var ekki tilfellið þegar við alþýðubandalagsmenn beittum okkur fyrir því að móta frumvörp um auðlindir í jörðu á sínum tíma. Þá höfðum við ekkert umhvrn. við að styðjast og vissulega bera mál sem við höfum fram borið nokkur merki þess að þau eru undirbúin nærri áratug áður en umhvrn. var sett á laggirnar. En nú höfum við sem betur fer slíkt ráðuneyti og þá þarf að sjálfsögðu að móta löggjöf um svo stóra þætti með fullri hliðsjón af lögum um umhverfisvernd og tilvist umhvrn.

Virðulegur forseti. Hér hef ég undir höndum umsögn um þetta frv. frá umhverfisnefnd Félags íslenskra náttúrufræðinga sem hefur sent iðnn. mjög rækilega og vandaða umsögn um þetta efni, þar sem sérstaklega er tekið á umhverfisþáttunum. Ég vil leyfa mér að vekja athygli á fáeinum athugasemdum sem þar koma fram við einstaka greinar frv. Umhverfisnefnd Félags íslenskra náttúrufræðinga segir t.d. um 1. gr., með leyfi forseta:

,,Nefndin gerir að tillögu sinni að texti þessarar greinar verði endurskoðaður. Í greininni þarf að vísa til þess að önnur lög geti gilt um þessar auðlindir, og er þá átt við umhverfis- og náttúruverndarlöggjöf.``

Og um 4. gr. segja sömu aðilar, með leyfi forseta:

,,Vegna efnis greinarinnar vill nefndin koma eftirfarandi skoðunum sínum á framfæri:

a. Þó iðnaðarráðherra sé heimilt að láta rannsaka og leita að auðlindum, þá sér nefndin ekki rök fyrir því að það leyfi eigi að ná til alls landsins. Þannig fær nefndin ekki séð nauðsyn þess að friðlýst svæði, þjóðgarðar og náttúruvætti t.d. séu undir sömu ákvæði seld og annað land. Svæði eru friðlýst vegna þess að þau eru einstök á einhvern hátt og þar með verðmæt og það verðmæti hefur væntanlega ekki verið talið felast í hugsanlegri námavinnslu.

b. Nefndin leggur ríka áherslu á að settir verði staðlar og reglur og að gerðar verði skýrar kröfur til þeirra sem að fá leyfi til rannsókna samkvæmt þessum lögum. Slíkar reglur þurfa að kveða á um færni, menntun og þekkingu þeirra sem að rannsókninni starfa, umgengni, umfang rannsóknanna og frágang.

c. Ekki getur talist nægjanlegt að Orkustofnun verði eingöngu gerð grein fyrir áætlunum rannsóknaraðila. Skilyrðislaust ætti einnig að gera Náttúrufræðistofnun slíka grein fyrir framkvæmdum og einnig Náttúruvernd ríkisins. Náttúrufræðistofnun er yfirstofnun allra náttúrufræðilegra grunnrannsókna á landinu og Náttúruvernd ríkisins hefur [lögum] samkvæmt með höndum eftirlits- og umsagnarhlutverk sem ekki er hægt að hunsa.``

Þetta, virðulegur forseti, eru mjög gildar ábendingar sem hér eru fram settar og þess sjást ekki merki að meiri hluti nefndarinnar hafi tekið þær til sín og gert þær breytingar sem gera þyrfti á frv. í þessu samhengi.

Um 8. gr. segir sami umsagnaraðili:

,,Vegna ákvæða þessarar greinar, þá bendir umhverfisnefnd FÍN á að þessi grein lagafrumvarpsins gengur þvert gegn ýmsum gildandi lögum og reglugerðum. Nýting jarðefna getur fallið undir náttúruverndarlöggjöf, lög um mat á umhverfisáhrifum og aðra slíka löggjöf. Þá gæti greinin óbreytt stuðlað að enn frekari fjölgun smánáma um land allt þar sem ekkert er kveðið á um eftirlit. Þær eru nú þegar mikið vandamál eins og fram kemur í skýrslum sem teknar hafa verið saman af Náttúruverndarráði, nú Náttúruvernd ríkisins. Það fæst heldur ekki séð að frumvarpshöfundar hafi haft skýrslu umhverfisráðherra, Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, til hliðsjónar við samningu þess.``

Þetta segir um 8. gr. En, virðulegur forseti, það er ástæða til að vitna til greinarinnar eins og hún liggur fyrir. Hún er svohljóðandi og enga brtt. er að finna við viðkomandi grein:

,,Þrátt fyrir ákvæði III. og IV. kafla er heimilt án leyfis að rannsaka og hagnýta á eignarlandi berg, grjót, möl, leir, sand, vikur, gjall og önnur slík gos- og steinefni, svo og mold, mó og surtarbrand.``

Þetta er greinin. Það er margt hér upp talið. Það átti greinilega sem fæstu þar undan að skjóta. Í þessu samhengi ber að athuga þá umsögn sem umhverfisnefnd Félags íslenskra náttúrufræðinga lætur frá sér fara.

Ég vek einmitt athygli á því, virðulegur forseti, hversu ófullkomin gildandi náttúruverndarlöggjöf er varðandi verndun lands fyrir malarnámi eða efnistöku almennt séð og að fyrir þinginu hefur legið nú árum saman tillaga í frumarpsformi um breytingu á lögum um náttúruvernd, ákvæði sem eiga að bæta úr þessari brýnu þörf, þ.e. að ganga öðruvísi og tryggilegar, svo vægt sé til orða tekið, frá ákvæðum um efnistöku hvers konar. Það kann ekki lukku að stýra með náttúruverndarlöggjöfina, jafnófullkomin og götótt og hún er --- hún er í raun engin verndarlöggjöf sem hægt er að nefna því nafni þótt ákvæði sé að finna í lögum um náttúruvernd --- að til viðbótar skuli nú koma grein eins og 8. gr. þessa frv. um jarðefni með þeim víðtæku ákvæðum sem þar er að finna, heimildum til að rannsaka og hagnýta á eignarlandi allt það sem upp er talið í greininni, án leyfis. --- Getur það verið, virðulegur forseti, að við höfum tapað framsögumanni meiri hluta iðnn. og iðnrh. báðum samtímis úr þingsal?

(Forseti (GÁ): Forseti skal ...)

Ég óska eftir því, virðulegur forseti, að viðkomandi verði tilkvaddir.

(Forseti (GÁ): Forseti skal í skyndingu kanna hvar þeir eru staddir, þessir hv. þm.)

Einnig vildi ég gjarnan, virðulegur forseti, ná eyrum hæstv. umhvrh. vegna þess sem hér er um fjallað.

(Forseti (GÁ): Forseti vill upplýsa að hæstv. umhvrh. er ekki í húsinu eins og er. En er það ósk hv. þm. að hann verði kallaður til?)

Já, ég held það sé mjög nauðsynlegt að hæstv. umhvrh. sé einnig viðstaddur þegar rætt er um þessi efni sem hér eru uppi vegna þess ...

(Forseti (GÁ): Forseti verður við því.)

Ég þakka virðulegum forseta --- vegna þess að hér er í raun um stórmál að ræða af því að ekki hefur verið unnið að því sem skyldi, virðulegur forseti, að bæta úr þeirri brýnu þörf að setja önnur og skilmerkilegri ákvæði inn í náttúruverndarlöggjöf að því er varðar efnistöku en raun ber vitni og þess sér engin merki að hæstv. umhvrh. eða umhvrn. ætli að bæta þar úr. Það stefnir í það, virðulegur forseti, að kjörtímabilinu ljúki áður en hæstv. umhvrh. komi með tillögur um endurbætur á náttúruverndarlöggjöfinni að þessu leyti.

[17:15]

Við höfum nýlega rætt það efni í þinginu, ég og hæstv. umhvrh. Fyrir liggur að mjög lítið hefur miðað við þá vinnu upp á síðkastið, sérstaklega við að endurskoða löggjöfina. Fyrir þinginu liggur frv. borið fram af þeim sem hér talar ásamt fleiri ágætum þingmönnum um endurskoðun á þessari löggjöf sem fjallar um landslagsvernd og efnistöku alveg sérstaklega. Í raun viðurkenna allir að um sé að ræða mjög stórt mál og brýnt. Við þetta bætist að sú löggjöf sem hér á að lögfesta, virðulegur forseti, gefur heimildir eins og felast í 8. gr. frv. um að rannsaka og hagnýta á eignarlandi allt það sem þar er upptalið, virðulegur forseti: berg, grjót, möl, leir, sand, vikur, gjall og önnur slík gos- og steinefni svo og mold, mó og surtarbrand. Án leyfis.

Með leyfi forseta vil ég beina spurningu til frsm. meiri hluta iðnn.: Fjallaði nefndin ekki um þetta efni? Fjallaði hv. iðnn. ekki um samhengi þessara þátta, lögfestingar á ákvæðum sem þessum, með tilliti til þeirrar stöðu sem uppi er, að teknu tilliti til gildandi náttúruverndarlaga? Það er beinlínis verið að undanþiggja landeigendur gersamlega öllu eftirliti með efnisnámi til rannsókna og hagnýtingar. Ekki verður öllu lengra gengið í upptalningunni en felst í þeirri grein frv. sem hér er fram borin. Ég treysti hv. frsm. iðnn. að skýra hvernig á því standi að nefndin leggi þetta fyrir til 2. umr. eins og hér er gert.

Ég ætla þá að víkja, virðulegur forseti, að öðrum þáttum sem snerta þetta stóra mál og eru meira almenns og pólitísks eðlis en það sem ég hef rætt varðandi breytingartillögur og það sem augljóslega skortir á varðandi ýmis efni, frágang ýmissa atriða í þessu frv. varðandi umhverfismál.

Ég vek athygli á því sem við blasir um leið og sú stefna að auðlindir í jörðu fylgi landareign verður lögfest. Þar erum við að ræða í því samhengi sem fyrir liggur, að teknu tilliti til samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði, að allir á Evrópska efnahagssvæðinu, sem er öll Vestur-Evrópa að Sviss frátöldu, fá sama rétt til þess að keppa um kaup á landi og komast þannig yfir þær auðlindir í jörðu sem hér er verið að tengja yfirráðarétti á landi. Þetta er ein af þessum stórháskalegu afleiðingum sem samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði sem við alþýðubandalagsmenn beittum okkur hart gegn á sínum tíma og nutum stuðnings hluta af Framsfl. í baráttu okkar gegn samningnum. Þar á meðal nutum við liðsinnis þingmanna sem enn sitja hér, sumir í háum stól, virðulegur forseti, og einnig hv. talsmanns meiri hluta iðnn. sem ásamt þáv. forsrh., Steingrími Hermannssyni, og reyndar eftir að ríkisstjórn hans fór frá völdum, barðist gegn lögfestingu samningsins. Með tilliti til þess er það enn furðulegra en ella að það skuli nú verða hlutskipti hv. þm. Stefáns Guðmundssonar að bera fram þá stefnu sem felst í þessu frv.

Það var mikið fjallað um þennan þátt samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði, þegar hann var ræddur í þinginu. Rætt var um hvað fylgdi ákvæðum samningsins varðandi kaup á fasteignum og landi. Þá væntu menn þess enn, þeir sem gagnrýndu málið og vöruðu við, að Alþingi bæri gæfu til þess og þar ríkti nægileg víðsýni, á meðan bráðabirgðaákvæði með tímabundinni undanþágu voru í gildi, til að lýsa þær auðlindir sem tengjast landareignum þjóðareign, sameign þjóðarinnar. Þeim yrði þannig ekki ráðstafað með sölu á fasteignum. Um þessi efni voru á sínum tíma ritaðar álitsgerðir. Ég held hér á einni slíkri sem ber fyrirsögnina: Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og fasteignir á Íslandi --- Álitsgerð samin að beiðni dóms- og kirkjumálaráðherra og landbrh., tekin saman af þremur lögfræðingum, Ólafi Walter Stefánssyni, Stefáni M. Stefánssyni og Tryggva Gunnarssyni, sem luku þessu verki í júní 1992. Þar er fjallað um áhrif hins Evrópska efnahagssvæðis í samhengi ákvæða samningsins varðandi eignar- og umráðarétt á landi.

Af talsmönnum Alþfl. eða þingflokks jafnaðarmanna hefur verið vakin athygli á því í þinginu í tengslum við umræður um þetta mál, að einmitt vegna ákvæða samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði beri brýna þörf á að setja víðtæk ákvæði varðandi sameign um þær auðlindir sem tengjast yfirráðarétti á landi og eignarráðum. Það er að vísu dálítið sérstakt, virðulegur forseti, að þeir sem ruddu samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði braut, skuli nú ásamt þeim sem hér talar og okkur í þingfl. Alþb. og óháðra benda á hinar alvarlegu afleiðingar samningsins og ákvæða samningsins um EES í þessu samhengi. Þeir nálgast málið úr annarri átt. Fyrst kölluðu þeir Grýlu yfir okkur, fyrst kölluðu þeir samninginn um hið evrópska efnahagssvæði yfir okkur, og síðan eru þeir að vara við afleiðingunum og reyna að bregðast við. Ég er ekki að lasta það þótt seint sé. Hér er vissulega um að ræða, virðulegur forseti, allt aðrar forsendur og annan bakgrunn en af hálfu okkar sem ætíð gerðum okkur ljóst hversu alvarlegar afleiðingar samningurinn gæti haft í þessu samhengi eins og í tengslum við svo marga aðra þætti.

Ég held, virðulegur forseti, að þeir hafi verið allt of fáir sem gerðu sér ljóst hvaða hættur væru þarna fram undan í ljósi þeirra viðhorfa sem hafa verið að festa sig í sessi á Alþingi og víðar í þjóðfélaginu. Það eru hin þröngu eignarréttarviðhorf. Áhættan sem tekin var að þessu leyti var gífurlega mikil og það hefur líka gengið eftir. Við erum í þessari stöðu og í ljósi þess ber að líta á það frv. sem við ræðum.

Það má segja, virðulegur forseti, að það séu þrjár pólitískar leiðir sem liggja fyrir þinginu um það hvert stefna beri í þessum efnum. Það eru hin þröngu viðhorf þeirra sem bera frv. fram og ætla sér að lögfesta hér hinn þrengsta skilning á eignarrétti, m.a. með skírskotun til stjórnarskrár. Þeim sjónarmiðum er mótmælt harðlega af þeim sem hér talar og þeim sem tala hér og standa á bak við minni hluta hv. iðnn. Þetta er eitt meginviðhorfið og það sem hefur mestan styrk í þinginu.

Síðan er það sameignarviðhorf okkar alþýðubandalagsmanna og óháðra sem legið hefur fyrir og verið borið fram, tengt mörgum þingmálum á undanförnum árum, liggur fyrir í frv. til laga um jarðhitaréttindi og frv. um orku fallvatna. Þar er gert ráð fyrir að orka fallvatna verði án undantekninga lýst þjóðareign og að jarðhiti undir 100 metra dýpi verði jafnframt lýstur þjóðareign. Þetta eru víðtæk viðhorf sem á að lögfesta að okkar tillögu um þetta efni. Því er jafnframt fylgt eftir með sérstöku frv. til stjórnarskipunarlaga, sem hv. þm. Ragnar Arnalds hefur ásamt fleirum lagt fram, og gerir ráð fyrir að þessi sjónarmið um sameign á náttúruauðlindum verði færð inn í stjórnarskrá lýðveldisins.

Þriðja leiðin er síðan tillögur Alþfl., þingflokks jafnaðarmanna, sem liggja fyrir þinginu og ganga mun skemmra en tillögur okkar alþýðubandalagsmanna, bæði að því er varðar jarðhita og orku fallvatna. Þau eru samt í áttina og væru til mikilla bóta að teknu tilliti til frv. sem stjórnarmeirihlutinn ber fram og við ræðum nú í þinginu.

Það er afar afdrifaríkt hvernig frá þessum málum verður gengið, virðulegur forseti, og það er ekki of vægt til orða tekið að fullyrða að þetta frv. er það langafdrifaríkasta sem liggur fyrir þinginu og reyndar þó litið væri til langs tíma. Það ber sannarlega að harma að það skuli vera ráðherrar og þinglið Framsfl. sem ryðja þessu máli braut með þeim hætti sem hér er gert.

Ég sé, virðulegur forseti, að í þingsal er kominn hæstv. umhvrh. og ég hafði nefnt að æskilegt væri að hæstv. ráðherra væri viðstaddur umræðuna og hlýddi á mál mitt. Ég ætla, áður en ég lýk máli mínu, að nefna atriði sem ég kom að áðan og varð tilefni þess að ég óskaði eftir nærveru hæstv. ráðherra við umræðuna. Það eru ákvæði 8. gr. frv. um jarðefni. Hæstv. umhvrh. þekkir þau vafalaust. Þar segir, og ég leyfi mér að endurtaka textann:

,,Þrátt fyrir ákvæði III. og IV. kafla er heimilt án leyfis að rannsaka og hagnýta á eignarlandi berg, grjót, möl, leir, sand, vikur, gjall og önnur slík gos- og steinefni, svo og mold, mó og surtarbrand.``

Þetta er 8. gr. frv. Ég vakti athygli á því hversu alvarlegt það er að við skulum nú vera að fjalla um frv. með ákvæðum sem þessum á sama tíma og náttúruverndarlöggjöfin er jafnveik varðandi efnistöku og raun ber vitni.

[17:30]

Ég minnti á það að nýlega var staða málsins rædd milli mín og hæstv. umhvrh. í þinginu og möguleikarnir á því að hraða endurbótum að þessu leyti og því miður vöktu viðbrögð hæstv. ráðherra, ekki vilji heldur viðbrögð og upplýsingar um stöðu málsins ekki mikla von um að úr yrði bætt og þeim mun alvarlegra sýnist það, virðulegur forseti, að um 8. gr. skuli búið með þeim hætti sem hér er gert að heimilt skuli án leyfis að rannsaka og hagnýta allt það sem upp er talið í greininni. Þetta, virðulegur forseti, bætist við ýmis ákvæði sem tengjast þessu frv. og rædd hafa verið af öðrum í umræðunni og ég ætla ekki að gera það vegna þess að ég vil ekki tefja umræðu um þetta mál umfram það sem efnið býður. Ég vil þó minna á mörg ákvæði sem lúta að umhverfismálum og rædd voru m.a. í gær í tengslum við þessa umræðu þar sem kannski er einhver von til að litið verði á frv. milli umræðna til úrbóta. Þar er m.a. vísað til umsagna stofnana undir umhvrn. sem hafa gert afar skilmerkilegar og alvarlegar athugasemdir við frv. og við vonum að litið verði á málið efnislega áður en þetta mál kynni að ganga til afgreiðslu. Auðvitað vonum við að þetta mál hvíli eins og mörg önnur sem þyrftu miklu nánari skoðunar við en allt er þó til bóta í þeim efnum sem lagað væri í meðförum þingsins og þingnefnda áður en úrslit ráðast.

Því spyr ég hæstv. umhvrh. að því alveg sérstaklega hvort ráðherrann mundi ekki beita sér fyrir því að litið yrði á ákvæði þessarar greinar, þessi víðtæku heimildarákvæði til rannsókna og hagnýtingar í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er að teknu tilliti til gildandi laga um náttúruvernd og þeirra ákvæða sem þar er að finna um efnistöku. Ég vildi svo ná eyrum, virðulegur forseti, hins kvika en vel vakandi treysti ég, frsm. meiri hluta iðnn. sem er hér innan seilingar, virðulegur forseti, og óska eftir því að hv. þm. bregðist við óskum mínum um að skýra fyrir okkur hvers vegna brugðið sé á það ráð að fella grunnvatn og jarðhita undir ákvæði þessa frv. um eignarráð landeiganda m.a. með tilliti til eðlis þessara auðlinda sem eru heildstæðar en hreyfanlegar auðlindir sem fara ekki að landamörkum og þar sem hagnýtingin hefur áhrif langt út fyrir einstakar landareignir, röksemdir sem beina sjónum að allt, allt annarri stefnu en felst í frv., sameignarstefnu á þessum auðlindum. Þar við bætast síðan skilgreiningar sem hér er að finna og ég veit að hv. þm. mun skýra fyrir okkur á alþýðlegan hátt hvernig lesa beri í þann texta, bæði varðandi örverur og grunnvatn og annað sem ég hef lýst eftir. Ég geri ráð fyrir að hv. frsm. iðnn. leiði okkur í gegnum módel þeirra Watsons og Cricks frá 1953 og hjálpi okkur að átta okkur á því sem fram kemur í nál. að því er varðar hitakærar örverur og samhengið milli þess sem greint er í nál. um eðli þeirra og ætla ég ekki að endurtaka það enda hef ég þegar rakið það í máli mínu.

Virðulegur forseti. Ég vil að endingu rifja það upp sem fram hefur komið hjá ýmsum við þessa umræðu og ég lagði ríka áherslu á við 1. umr. málsins, að hér er uppi spurning um pólitíska stefnu, pólitískan vilja en ekki tæknileg atriði eða spurningu um túlkanir á réttarfarslegum ákvæðum að mínu mati. Það eru engar frambærilegar hindranir í vegi allt annarrar stefnu en hér er uppi með þessu frv. Það eru engar frambærilegar hindranir í vegi þess að lýsa auðlindir í jörðu sameign þjóðarinnar.

Halda menn að virtir fræðimenn og stjórnmálaleiðtogar eins og Bjarni Benediktsson og Ólafur Jóhannesson fyrir ekki mjög löngu síðan hefðu staðið í sporum okkar á Alþingi Íslendinga og rökstutt það bæði í mæltu og rituðu máli að þrátt fyrir eignarréttarákvæði íslensku stjórnarskrárinnar, sem að engu leyti hefur breyst í þessu tilliti, standi ekkert í vegi fyrir því að setja víðtæk almenn ákvæði um þessar auðlindir án þess að þar þurfi að reyna á bótarétt? Það er því alveg ljóst í mínum huga, virðulegur forseti, að það er pólitísk hugsun og pólitísk stefna sem ræður því sem við lesum í þessu frv. að ætla sér að lögfesta auðlindir undir yfirborði jarðar sem hluta af eignaryfirráðum landeigenda. Það er þröngsýn stefna, óskynsamleg stefna og það er hættuleg stefna fyrir velferð þjóðarinnar og hún er alveg sérstaklega varhugaverð í ljósi þeirra alþjóðasamninga sem Ísland hefur gerst þátttakandi að illu heilli, samninga eins og hins stóra samnings um hið Evrópska efnahagssvæði sem veitir nær 400 millj. manna og kannski innan tíðar mun fleiri sama rétt til að eignast land á Íslandi og ef frv. þetta verður að lögum, allar þær auðlindir sem þeim eignarréttindum á landi tengjast. Þetta er alvarleg staða, virðulegur forseti. Gegn henni var unnt að bregðast öðruvísi, með annarri stefnu, með því að lýsa auðlindirnar þjóðareign. Á það ráð átti að bregða og það verður að teljast hörmulegt að þeir sem virtust gera sér grein fyrir afleiðingum ákvæða samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði að þessu leyti, þeirra á meðal núv. hæstv. umhvrh. og einnig talsmaður meiri hluta iðnn., skuli nú standa sem tillögumenn og bakhjarlar þess frv. sem hér er fram borið um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu undir þeirri þröngsýnu og þjóðhættulegu stefnu sem þessu máli tengist.