Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 17:44:01 (6504)

1998-05-12 17:44:01# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[17:44]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum áður rætt um það hér, ég og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og er reyndar ekki ágreiningur þar um okkar í milli að taka þurfi nánar á efnistökumálum og jarðefnamálum, jarðefnavinnslu þar með talið í náttúruverndarlögum og hv. þm. hefur reyndar lagt fram fleiri en eitt frv. á þessu þingi og undanfarið sem lúta að þessum þáttum málsins. Ég hef lýst þeim vilja mínum að tekið verði á því í náttúruverndarlögum sem nú eru í endurskoðun í umhvrn. Ég ætla út af fyrir sig ekki að karpa um það við hann á þessu stigi frekar en við höfum gert áður hvort það sé endilega eðlilegt eða nauðsynlegt að slík mál fari inn í heildarendurskoðun og það geti ekki komið til að löggjafarsamkoman Alþingi Íslendinga taki á ákveðnum einstökum málum sem þurfa lagfæringar við án þess að það fari endilega inn í einhverja heildarendurskoðun en mitt viðhorf er þekkt til þessa máls, þar sem sú vinna er nú þegar í gangi.

Í 8. gr. frv. sem hér er til umræðu er verið að tala um leyfi til að rannsaka og hagnýta á eignarlandi þau efni sem þar eru upp talin. Mér finnst í raun ekki óeðlilegt að á því sé tekið og kveðið sé á um það í þessum lögum þar sem verið er að fjalla um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu. Og vissulega eru þessi efni hluti af þeim auðlindum þannig að það hlýtur að vera eðlilegt að kveðið sé á um það hér. En ég hef lýst þeirri skoðun minni áður að ég tel að önnur löggjöf eins og náttúruverndarlöggjöf, lög um Náttúrufræðistofnun, lög um byggingar- og skipulagsmál, lög um mat á umhverfisáhrifum hafa öll sitt gildi og þau ákvæði sem þar eru og þar er að finna, og þessi lög sem slík taka ekki yfir eða taka ekki af, enda er skýrt kveðið á um það bæði í nál. meiri hluta hv. iðnn. svo og í einni af brtt. nefndarinnar. Að öðru leyti er vísað til þess sem áður hefur komið fram að málin verði nánar skoðuð milli umræðna.