Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 19:25:19 (6529)

1998-05-12 19:25:19# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[19:25]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt ef hv. þm. hefur ekki móttekið þau rök sem ég hef reynt að færa fram í þessu máli. Þau eru mjög einföld. Það er mat ríkisstjórnarinnar, stjórnarflokkanna, að sú leið sem þarna er valin sé leið sem standist eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, af því að við erum sannfærðir um að ekki sé hægt með lögum að taka þennan eignarrétt af sem tengist landareigninni. Þetta eru rökin. Hv. þm. getur ekki svarað því með að segja: ,,Þetta eru ekki rök af því að ég er ekki sammála þeim.`` Þetta eru þau rök sem við höfum og færum fyrir málinu. En ég veit að hv. þm. er þeim ósammála.

Nú veit ég ekki í hvaða dóm hv. þm. var að vitna, en ef hv. þm. er að vitna í þann dóm sem hv. þm. Ragnar Arnalds fór gríðarlega vel yfir í gær, tel ég, og hefði kannski átt að gera grein fyrir því í umræðunni áðan, að hægt sé að færa mjög gild rök fyrir því að þetta frv. sé eiginlega alveg nauðsynlegt til að skýra eignarréttinn.