Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 19:27:30 (6531)

1998-05-12 19:27:30# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[19:27]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Þarna kom hv. þm. kannski að kjarna málsins. Þetta er rétt. Það er raunverulega verið að lögfesta réttarframkvæmdina og þau lög og lagareglur sem eru í gildi og snúa að orkulögum og námulögum. Það er ástæðan. Ástæðan er sú að iðnn. hefur lagt til að breyta nafni laganna og kalla frv.: Frv. til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, vegna þess að þetta frv. snýr að því og full ástæða er einmitt til að setja reglur um það hvernig landeigendur eða hið opinbera eigi að standa að því að afla sér slíkra réttinda til nýtingar og rannsókna. Það er mergurinn málsins þannig að hv. þm. kom nákvæmlega að kjarna málsins. Það er verið að lögfesta réttarframkvæmdina, sameina og þar af leiðandi leggja niður lög um þann part af orkulögunum og eins um námuvinnsluna. Við erum því í raun að lögfesta réttarframkvæmdina og þær lagareglur sem í gildi eru.