Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 19:33:40 (6536)

1998-05-12 19:33:40# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[19:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að uppstilling hæstv. iðnrh. varðandi annars vegar einkaeignarréttinn og stöðu hans, og hins vegar möguleika löggjafans til að setja þessum sama einkaeignarrétti skorður, takmarka hann, sé léleg lögfræði, í raun og veru algjör steypa.

Þó að réttur landeiganda, t.d. til jarðhita, yrði nú talinn, vegna tæknibreytinga eða af einhverjum öðrum ástæðum, eitthvað ríkari en hann var að mati Ólafs Jóhannessonar árið 1956, þá er ekki þar með sagt að hann yrði talinn algjör, ótakmarkaður, en það er það sem þetta frv. felur í sér. Og það er himinn og haf þarna á milli. Frv. er um miklu meira en það að staðfesta rétt innan einhverra eðlilegra nýtingarmarka eins og þau liggja í dag, til handa einstaklingum eða landeigendum.

Þetta frv. er um algeran einkaeignarrétt á öllu undir yfirborði jarðarinnar og inn að iðrum hennar. Enginn greinarmunur er gerður á því hvort um er að ræða málma, orku eða hvað það er. (Forseti hringir.) Þannig að þetta frv., þrátt fyrir býsna góða tilburði hæstv. iðnrh. hér til að gera lítið úr málinu og segja að þetta sé engin breyting, er gífurlega afdrifaríkt í þessum efnum.