Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 19:36:14 (6538)

1998-05-12 19:36:14# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[19:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er bara ekki rétt hjá hæstv. iðnrh. Það er gengið miklu lengra. Það er ekki hægt að lesa 1., 2. og 3. gr. frv. öðruvísi en að þeirri niðurstöðu að þar sé gengið alla leið. Það er ekki hægt að fara lengra. Það er ekki hægt að gera einkaeignarréttinn afdráttarlausari með neinum þeim aðferðum sem mér koma í hug en gert er í þessu frv.

Ég er í grundvallaratriðum ósammála hv. þm. um möguleika löggjafans til þess að setja almennar reglur í þessu sambandi, sem takmarka einkaeignarréttinn. Ég er algjörlega ósammála því að löggjafinn, í þágu almannaheilla og þjóðarhagsmuna, megi ekki takmarka þennan rétt. Hvers vegna skyldi það verða niðurstaðan á Íslandi þegar fjölmargar þjóðir í þróuðum réttarríkjum hafa gert hið gagnstæða? Eru þeir þá illa að sér í lögfræði, á Nýja-Sjálandi, í Danmörku, í Svíþjóð, í Bandaríkjunum og víða annars staðar þar sem það er nánast reglan frekan en undantekningin að þessum rétti eru settar skorður? Er það bara hér uppi á Íslandi 1998 sem málum er þannig komið að einkaeignarrétturinn sé orðinn algjörlega heilagur, ótakmarkaður og altækur?