Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 19:37:33 (6539)

1998-05-12 19:37:33# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[19:37]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að einkaeignarrétturinn, ef við höldum okkur við umræðuna um jarðhitann og boranir af því að hv. þm. gerði mikið úr því í sínu máli hér fyrr við umræðuna í ágætri ræðu, nær eins langt niður og menn geta hagnýtt sér auðlindina. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Það að bera það saman við framkvæmdina í öðrum löndum hefur enga merkingu, af þeirri ástæðu að við byggjum þessa niðurstöðu okkar á því og við teljum að það þurfi að fara þessa leið til að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar standist. Við höfum allt aðra stjórnarskrá, og ekki hægt að bera það saman, en þessar þjóðir sem hér var vitnað í. Þess vegna geta eignarréttarákvæði í stjórnarskrá þeirra landa, verið allt önnur heldur en eignarréttarákvæðin hjá okkur. (LB: Erum við ekki að tala um sömu stjórnarskrána?) Við erum að tala um íslensku stjórnarskrána og stjórnarskrár annarra landa.