Samráð um þingstörfin

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 11:03:48 (6541)

1998-05-13 11:03:48# 122. lþ. 126.92 fundur 381#B samráð um þingstörfin# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[11:03]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs er sú að það hefur verið venja hér um nokkurra ára skeið, hygg ég, að hafa samráð um það hvenær atkvæðagreiðslur fari fram. Þó að það sé í sjálfu sér hægt að reikna með því að atkvæðagreiðslur fari fram fljótlega eða strax eftir að umræðu lýkur, þá er það góður siður að hafa samráð um þetta. Það var ekki gert í þessu tilviki.

Okkur nefndarmönnum í iðnn. var tilkynnt um það um tíuleytið í morgun að atkvæðagreiðsla væri væntanleg eftir u.þ.b. hálfa klst. Mér finnast þetta ekki góð vinnubrögð, herra forseti, ég mótmæli þeim og óska eftir því að sá háttur verði upp tekinn á ný að hafa samráð um þann tíma sem valinn er fyrir atkvæðagreiðslur um hin meiri mál. Ég held að það geti ekki talist ósanngjörn ósk.

Í öðru lagi við ég geta þess, herra forseti, að nú hefur ekki átt sér stað samráð af neinu tagi, milli formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar og forseta, í tíu daga. Það er einsdæmi þann tíma sem ég hef gegnt þessu starfi. Ég tel að það eitt sé mjög alvarlegt merki. En vegna þess að forseti hefur kosið að ræða ekki við okkur þingflokksformenn þá hlýt ég að tilkynna um að við munum, þingmenn Alþb. og óháðra, nota okkur þann rétt sem kveðið er á um í þingsköpum, að ákveða sjálf hvenær við efnum til utandagskrárumræðna. Við höfum þann rétt alveg tvímælalaust, að efna til utandagskrárumræðna í hálfa klukkustund og ég lýsi því hér með yfir fyrir hönd þingflokks Alþb. og óháðra að við munum ákveða þann tíma sjálf eftir því sem efni og aðstæður leyfa.