Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 11:11:41 (6546)

1998-05-13 11:11:41# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SighB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[11:11]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er verið að afgreiða er dæmi um að línur eru að skerpast í stjórnmálum á milli flokkanna. Þarna er verið að afhenda einstökum jarðeigendum yfirráð yfir öllum auðlindum í jörðu í landi þeirra, olíu, jarðgasi, málmum, kolum, öllu því sem finnast kann allt að miðju jarðar. Auk þessa eru í frv. sniðgengnar reglur um umhverfismeðferð og gert ráð fyrir því að iðnrh. fái sjálfdæmi um að leigja aðgang að sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar hverjum sem er, hvar sem er, fyrir hvaða verð sem er. Fyrsta verk ríkisstjórnar sem vinstri menn öðlast aðild að á að vera að afnema þessi ákvæði og færa þjóðinni aftur sitt eigið land.

En það er athyglisvert, virðulegi forseti, að iðnrh. sjálfur, sem ber öðrum fremur ábyrgð á málinu, er fjarverandi við afgreiðslu þess og ég spyr: Er hæstv. ráðherra að tryggja sér fjarvistarsönnun þegar að honum verður sótt í komandi kosningum?