Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 11:21:27 (6555)

1998-05-13 11:21:27# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SighB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[11:21]

Sighvatur Björgvinsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er nú svo að það er svolítið erfitt að skamma Albani fyrir Kínverja, svolítið erfitt að beina máli sínu að hæstv. forseta, sem nú situr á forsetastóli sem var ekki kunnugt um það fyrr en korteri áður en að atkvæðagreiðsla átti að hefjast að það hefði verið ákveðið.

En svo vill til að hæstv. aðalforseti situr í þingsal og mér finnst mjög eðlilegt að snúa máli okkar til hæstv. aðalforseta og biðja hann um að beita áhrifum sínum til þess að fresta atkvæðagreiðslunni þangað til ráðherra er mættur. Ég man ekki eftir fordæmi fyrir því að ráðherra sem ber ábyrgð á jafnstóru máli og hér um ræðir taki þann kostinn að vera fjarstaddur í atkvæðagreiðslu. Ég er alveg sannfærður um það að ef forsn. Alþingis hefði vitað það eða ef aðalforseti hefði vitað að hæstv. iðnrh. yrði fjarverandi í upphafi fundar mundi hann ekki hafa ákveðið að hafa atkvæðagreiðsluna á þeim tíma og þá síst ef hann hefði haft eitthvert samráð um það við þingflokkaformenn og þeir hefðu óskað eftir því að atkvæðagreiðslan biði ráðherrans.

Virðulegi forseti. Ég óska eindregið eftir því við hæstv. aðalforseta, sem á sæti meðal óbreyttra þingmanna, að hann beiti sér fyrir því að atkvæðagreiðslunni verði frestað þar til hæstv. iðnrh. kemur. Ég skil það mjög vel að það sé erfitt fyrir sitjandi forseta, sem er úr hópi stjórnarandstæðinga, að taka á þeim eindregnu tilmælum.