Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 11:24:35 (6557)

1998-05-13 11:24:35# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, RG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[11:24]

Rannveig Guðmundsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það hefur alloft gerst að við höfum verið með mál á dagskrá deginum áður og atkvæðagreiðsla hefur beðið, ekki bara í daga heldur oft frá miðri viku og fram yfir næstu helgi. Það hefur verið vegna þess að forseti og þingflokksformenn hafa metið að það væri hentugt og hafa ráðslagað þar um.

Á þessum morgni var tilkynnt án samráðs um atkvæðagreiðslu klukkan hálfellefu. Á þessum morgni var beðið um þingflokksfundi til þess að skoða og undirbúa atkvæðagreiðsluna og þess vegna gátu þingmenn ekki á þessum morgni farið að skoða fjarvistaskrá og sannreyna að sá sem ber ábyrgð á málinu í þinginu og hefur borið það inn, sé í burtu. Það er þannig að þingmenn eiga að vera á þingfundum, ekki síst í lok þings þegar mikilvæg þingmál eru uppi, og oft þarf að beina fyrirspurnum til þeirra sem eru ábyrgðarmenn mála og þá er eðlilegt að ráðherrar líka láti þingfundi ganga fyrir.

Hins vegar hefur það vakið athygli okkar þingmannanna hversu oft það hefur gerst að ráðherrar og þingmenn Framsfl. hafa boðað fundi og sjálfa sig úti á landi á sama tíma og við höfum fundað hér. Og það er bara eitthvað sem ekki á að gerast, virðulegi forseti.

Ég tek undir þær óskir sem hafa komið fram að það er harla óeðlilegt að skella þessari atkvæðagreiðslu á þennan morgun þegar ljóst er að ráðherrann er í burtu og það er í hæsta máta eðlilegt og fordæmi fyrir því að fresta atkvæðagreiðslu.