Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 11:29:48 (6560)

1998-05-13 11:29:48# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[11:29]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum að fjalla um eitt stærsta og alvarlegasta mál sem komið hefur til kasta Alþingis, ekki bara síðustu mánuði eða síðustu ár heldur sennilega nokkru sinni. Við erum að fjalla um stærri eignatilfærslu en um getur í sögu okkar. Þegar spurt er hvort fyrir því séu rök að verða við óskum stjórnarandstöðuþingmanna um að fresta atkvæðagreiðslunni er svarið komið undir afstöðu manna til lýðræðislegra óska sem eru settar fram. Í huga mínum eru óskir sem fram koma frá fjölmörgum þingmönnum, formönnum þingflokkanna úr stjórnarandstöðu og öðrum þingmönnum rök í sjálfu sér. Ef menn vilja hins vegar blása á slík rök og virða lýðræðislegar óskir að vettugi hefur það að sjálfsögðu áhrif á allt samstarf í þessum sal. Ég hvet til þess að við stuðlum að góðu samstarfi á lokadögum þingsins en það er komið undir æðstu stjórn þingsins og ríkisstjórninni sem hefur sitt að segja í þessum efnum hver niðurstaðan verður og hvert framhaldið verður.