Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 12:08:10 (6570)

1998-05-13 12:08:10# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[12:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þessi viðauki við orðskýringuna á því hvað skuli teljast jarðefni samkvæmt ákvæðum þessa frv. sýnir í raun og veru einstaka hugkvæmni höfundanna hvað það varðar að tryggja með öllum hugsanlegum ráðum að engin þau verðmæti komi nokkurn tíma til með að finnast undir yfirborði landsins sem jarðeigandinn eigi ekki. Með því að aftan við upptalningu á flestum þekktum verðmætum í föstu formi sem þarna eiga við, eins og gosefni, steindir málmar, málmblendingar, kol, jarðolía og jarðgas, er bætt við orðunum ,,og önnur nýtanleg efni sem finnast kunna í jörðu`` þá er nú held ég róið fyrir hverja vík í þessum efnum.

Ég tel með öllu ástæðulaust að slá því föstu að hvaða efni af nýtanlegu tagi sem kunna hugsanlega að finnast einhvern tíma á komandi öldum djúpt í jörðu niðri, kannski tugi kílómetra undir yfirborði jarðarinnar, skuli vera eign landeigandans. Mér finnst þessi viðbót, herra forseti, með miklum endemum og hvet menn til þess að hugsa sig mjög vandlega um áður en þeir samþykkja hana.