Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 12:24:08 (6580)

1998-05-13 12:24:08# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SighB (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[12:24]

Sighvatur Björgvinsson (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kemst ekki hjá því, í tengslum við þessa atkvæðagreiðslu, að vekja athygli á þeirri alkunnu staðreynd að á Alþingi sitja 40 stjórnarþingmenn. Fram undir þetta hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslu og verið viðstaddir 20, 19 í einu tilviki, 21, 22 og 23 þm. Með öðrum orðum u.þ.b. helmingur þingmanna stjórnarliða er fjarstaddur í þessari mikilvægu atkvæðagreiðslu.

Ég vil vekja athygli virðulegs forseta á því að ef stjórnarandstæðingar sinntu ekki þingskyldum sínum, eins og þeir gera, þá mundi ríkisstjórnin ekki geta komið þessum málum fram. Þá væru ekki nægilega margir þingmenn í salnum til þess að hægt væri að afgreiða málið. Ég bið virðulega forseta að taka tillit til þessa ástands þegar menn ræða um framhald þingstarfa. Það er alvarlegur hlutur þegar annar hver þingmaður stjórnarflokkanna leyfir sér að vera fjarstaddur í atkvæðagreiðslu eins og þessari. Það er umhugsunarefni fyrir hæstv. ríkisstjórn, þessa voldugu stjórn með öll þessi varahjól, svo notuð sé lýsing hæstv. forsrh. frá því stjórnarsamstarfið hófst, að nú keyrir hæstv. ríkisstjórn, sem hafði 40 hjól undir sínum vagni, með upp undir 20 hjólin sprungin.

(Forseti (GÁS): Forseti vill vegna þessarar athugasemdar láta þess getið að hann komi henni áleiðis til þess fundar sem áður var boðaður með forsetum þingsins og þingflokksformönnum hvað varðar viðveru þingmanna.)