Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 12:43:41 (6586)

1998-05-13 12:43:41# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[12:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ef það er eitthvað sem þetta frv. snýst um öðru fremur og er kjarninn í inntaki þess, þá er það hið víðtæka eignarhald landeigendanna sem hér er verið að staðfesta. Að því leyti til má segja að frv. sé eins og það kemur frá aðstandendum sínum vel úr garði gert, að það ber rétta fyrirsögn, þ.e. ,,frumvarp til laga um eignarhald og nýtingu auðlinda í jörðu``. Það er því alveg til að kóróna allt saman að meiri hlutinn skuli leggja til breytingu á fyrirsögn frv. þar sem eignarhaldið fellur út og í raun og veru er þar með verið að snúa fyrirsögninni upp í háðulegt öfugmæli miðað við inntak frv.

Þessi feluleikur á hinu víðtæka afsali almannaréttar til landeigenda sem hér á að fara fram mun ekki takast. Þetta verður hæstv. ríkisstjórn til enn frekari háðungar en það sem á undan er gengið og er þó langt til jafnað. Ég legg til að menn felli þessa brtt., herra forseti.