Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 10:31:45 (6602)

1998-05-15 10:31:45# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, KH
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[10:31]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við lifum dálítið einkennilega tíma hérna á Alþingi og það er ýmislegt sem við þingmenn verðum að láta yfir okkur ganga. Það hafa orðið örlög þeirrar sem hér stendur ýmist að tala í mikilvægum málum um miðja nótt þegar flestir eru orðnir svo þreyttir að þeir geta varla fylgst með eða þá eins og núna, að hefja umræðuna að morgni þegar ýmsir eru væntanlega ekki enn búnir að ná sér eftir langa umræðu frá síðasta þingfundi. En það gleður mig að sjá Íslandsmeistarann í ræðuhöldum á Alþingi mættan og sýnir það nú hvert þrek hún hefur til fundahalda svo og fagna ég sérstaklega þreki hæstv. félmrh. og talsmanns framsóknarmanna eða meirihlutamanna í félmn. og met það mikils að þeir skuli vera viðstaddir umræðuna sem er auðvitað sjálfsagt mál og það ætti kannski ekki að þurfa að fagna því.

Herra forseti. Það er ekki einleikið með þessa ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. vegna þess að enn einu sinni á þessu vori erum við að ræða illa grundað, illa undirbúið mál sem hefur valdið gríðarlegum óróa, óvissu og áhyggjum úti í þjóðfélaginu. Þetta mál, frv. til laga um húsnæðismál sem hér er til 2. umr., hefur vakið slíka andspyrnu og áhyggjur félaga og félagasamtaka að 26 þeirra með tugþúsundir félagsmanna á bak við sig hafa séð ástæðu til þess að fá birta heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu --- hún birtist í Morgunblaðinu í gær --- með áskorun til alþingismanna að fresta þessu frv. Þetta eru allt saman félög og félagasamtök sem eðlis síns vegna hafa gríðarlegra hagsmuna að gæta fyrir umbjóðendur sína. Þau hafa ástæðu til þess að láta til sín taka í þessu máli og þau hafa sannarlega gert það. Það fer að verða spurningin hvort það sé meginmarkmið hæstv. núv. ríkisstjórnar að egna sem flesta upp á móti sér, stjórna eingöngu fyrir sjálfa sig en ekki fyrir fólkið í landinu, stjórna sem herrar fólksins en ekki þjónar þess, þjónar almennings og gæslumenn almannahagsmuna.

Þetta er vond þróun, herra forseti. Við höfum auðvitað séð vinnubrögð af þessu tagi áður, illa undirbúin mál, skort á samráði o.s.frv. En nú á þessu vori keyrir um þverbak. Hvert stórmálið af öðru sem vekur þessi sterku viðbrögð ber að höndum. Ég nefni gagnagrunnsfrumvarpið sem góðu heilli var frestað til næsta þings a.m.k. Þar var farið að óskum fjölmennra hópa manna sem eru vel kunnugir þeim málum og það er vel. Ég nefni hálendisfrumvörpin sem svo hafa verið kölluð. Þó að vissulega séu engin frumvörp skráð þannig hjá þinginu, þá hefur almenningur gefið þessum frumvörpum, og sérstaklega frv. til sveitarstjórnarlaga, þetta nafn vegna þess vægis sem 1. gr. þess frv. og ákvæði til bráðabirgða hafa í hugum fólks. Einnig er frv. um nýtingu auðlinda í jörðu ekki síður mikilvægt og mun reynast afdrifaríkt. Ég er sannfærð um það. Það hefur ekki farið fram sú grundvallarumræða sem þarf til þess að við getum sett lög um þau efni, það er langt frá því.

Þessi tvö frumvörp eru þannig vaxin að fólk hefur óskað eftir því að þeim verði frestað svo að fram geti farið ítarlegri umræða og stjórnarandstaðan hefur lagt til að þeim verði vísað til ríkisstjórnarinnar, vísað til frekari umræðu. Og svo er það frv. sem við ræðum nú.

Þetta er auðvitað ekki einleikið. Ég get ekki fallist á að þetta séu skynsamleg vinnubrögð og þetta eru ekki skynsamlegir stjórnarhættir, enda hafa menn nýleg fordæmi fyrir ólíkt skynsamlegri vinnubrögðum. Það væri hægt að nefna ýmis dæmi en ég nefni t.d. löggjöf um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem var afgreitt héðan í sátt og samlyndi eftir markvisst og víðtækt samráð sem sýnir kannski að menn hafa þó hugmynd um að slík vinnubrögð eru möguleg og hvaða árangri er hægt að ná með slíkum vinnubrögðum. Þannig vinnubrögð eru einmitt í anda lýðræðis.

Mér finnst þetta mál sem við ræðum nú fyllilega sambærilegt þar sem húsnæðismál hafa árum saman verið forgangsatriði í baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir kjörum síns fólks. Þau hafa verið forgangsatriði og launamenn hafa jafnvel selt launahækkanir fyrir úrbætur í húsnæðiskerfinu. Það er staðreynd. Þær hafa reyndar ekki allar reynst jafn vel, en það er önnur saga.

Þess vegna er alveg furðulegt og ávísun á gagnrýni og andóf þegar mál eru undirbúin eins og hér hefur verið gert. Það er léleg stjórnviska, herra forseti, og það veldur vonbrigðum að heyra og lesa það í fjölmiðlum að hæstv. félmrh. og hv. talsmaður meiri hlutans í félmn. hafa algjörlega hafnað því að taka tillit til óska, ekki bara stjórnarandstöðunnar, heldur fjölmargra félaga og félagasamtaka sem málið varðar, um að fresta málinu og gefa aukið ráðrúm til að fjalla um það. Mér þykir afar slæmt að svona skuli vera brugðist við og ég hlýt enn einu sinni að skora á hæstv. ráðherra að taka tillit til þessara óska. Ég held að hann yrði talinn maður að meiri ef hann gerði það og ég held að það væri til mikilla bóta fyrir það mál sem hér er til umræðu og varðar svo miklu fyrir fjölskyldurnar í landinu. Ég held líka, af því að hér er einmitt um að ræða fulltrúa Framsfl., að það væri meira í anda við það sem talsmenn hans hafa sagt og viljað láta kenna sig við í málum eins og þessum.

Auðvitað á að hlusta á þetta fólk, þessi félagasamtök sem hafa sýnt hug sinn á mjög sterkan hátt, bæði í ítarlegum umsögnum til hv. félmn. og í fyrrnefndri blaðaauglýsingu. Álit þessara samtaka er samhljóða. Þau telja að með þessu frv. sé stefnt markvisst að því að færri fjölskyldum láglaunafólks sé gert kleift að eignast eigið íbúðarhúsnæði á sanngjörnum og viðráðanlegum kjörum og þetta sé gert án þess að settar séu tryggingar fyrir nægilegu framboði leiguhúsnæðis í staðinn vegna þess að það sem hér er verið að leggja til er auðvitað ávísun á leigumarkaðinn, og að þetta sé gert án þess að réttarstaða og öryggi leigjenda sé bætt og tryggð. Þessi samtök telja að með þessu frv. sé fyrst og fremst verið að taka á vanda húsnæðiskerfisins sjálfs og nokkurra sveitarfélaga en ekki á vanda þess fólks sem kerfið á að þjóna. Það er ekki nein ágætiseinkunn sem frumvarpshöfundar fá. Það sér á að fulltrúar þessa fólks hafa ekki komið að samningu þessa frv. Og þó að þeir hafi komið að vinnunni í hv. félmn. er það þeirra niðurstaða, eftir þær breytingar sem lagðar hafa verið til á frv., að ekki sé nóg að gert, það verði að skoða málið betur.

Það skortir vissulega ekkert á að a.m.k. stærstu og öflugustu félagasamtökin hafi komið skoðunum sínum á framfæri við hv. félmn. sem hafði reyndar ekki nema u.þ.b. mánuð frá lokum umsagnarfrests til þess að fjalla um málið. Samtímis var hv. félmn. að fjalla um annað stórmál sem líka hefur verið mikið ágreiningsefni þannig að tíminn varð sannast sagna afar lítill.

Við getum kynnt okkur umsagnir í fskj. með nál. minni hluta félmn. og ég vil nota tækifærið til að þakka minni hluta félmn. fyrir afar skilmerkilegt og greinargott nál. og fyrir framlagningu þessara umsagna sem eru mjög nauðsynlegar þeim sem hafa ekki að öðru leyti aðgang að störfum hv. félmn. eins og til háttar með þingkonur Kvennalistans. Þessi gögn eru ómetanleg fyrir alla hv. þm. og skýra mjög vel það sem við er að fást. Ég vona að hv. þm. meiri hluta Alþingis lesi vel þau gögn sem hér hafa verið lögð fram. Þar kemur mjög vel fram hvílíka áherslu þessi félagasamtök leggja á húsnæðismálin vegna þess að þau eru órjúfanlegur hluti af lífskjörum almennings og sú aðstoð sem veitt er gegnum húsnæðiskerfið og skattkerfið skiptir hreinlega sköpum fyrir þá sem á einhvern hátt standa höllum fæti, láglaunafólk, einstæða foreldra, fatlaða, aldraða og námsfólk. Það er auðvitað tilgangur og markmið félagslega húsnæðiskerfisins að tryggja öllum sómasamlega úrlausn, öruggt, ódýrt og gott húsnæði, sem allir eiga rétt á án tillits til efnahags eða annarra aðstæðna.

[10:45]

Þetta ætti ekki að vera þjóðinni ofviða. Er hún ekki skilgreind sem tíunda ríkasta þjóðin meðal OECD-ríkja? Það er eins og mig minni það. Enda eru áratugir síðan Alþingi Íslendinga komst að þeirri niðurstöðu að svo skyldi gert. Ég ætla nú ekki að fara yfir söguna, það hafa aðrir gert á undan mér og ekki ástæða til að endurtaka hana. Hér hafa verið fluttar mjög efnismiklar og fróðlegar ræður í þessari umræðu. En nú eru liðin tæp 70 ár síðan fyrstu lögin um byggingu félagslegs húsnæðis voru sett, lög sem gjörbreyttu möguleikum láglaunafólks til mannsæmandi lífs og sómasamlegra aðstæðna.

Róm var ekki byggð á einum degi og hún er ekki fullbyggð enn. Auðvitað eru kröfurnar sífellt að breytast. Það sem þótti gott á þeim tíma þegar fyrstu lögin voru sett um byggingu félagslegra íbúða þykir nú harla fátæklegt. Við þekkjum það vafalaust flest hér inni, a.m.k. við sem erum orðin svo fullorðin sem á grönum má sjá, hvað þótti boðlegt á árum áður. Nú er það til marks um fátækt ef ungt fólk hefur ekki sérherbergi sem okkur þótti hreinn lúxus í mínu ungdæmi. Það var alvanalegt í þá daga að margir deildu saman herbergi á svipaðan hátt og nú er gert í sumarbústöðum eða útilegum og margt fleira má nefna sem þótti gott þá en þykir léttvægt nú eða ekki nógu gott.

Þegar lögin um byggingu félagslegs húsnæðis voru sett árið 1929 var enn langt í það að heilsuspillandi húsnæði væri að mestu útrýmt, eins og raunin er nú víðast hvar á landinu í dag. Félagslega húsnæðiskerfið hefur auðvitað þróast og breyst mikið á þessum tæplega 70 árum og m.a. hafa sveitarfélögin komið æ meira þar við sögu og nú teljast 10.600 íbúðir til félagslegs húsnæðis. Ekki þarf ekki að fara um það mörgum orðum hvers virði þetta kerfi hefur verið þeim fjölda einstaklinga og fjölskyldna sem þar hafa fengið fyrirgreiðslu.

Nú vita láglaunafólk og aðrir sem sett hafa traust sitt á þetta kerfi, námsmenn, einstæðir foreldrar, fatlaðir og aldraðir ekki sitt rjúkandi ráð vegna þess að flest er óljóst um það sem við tekur þegar þessu kerfi hefur verið gjörbylt eins og ætlunin er með þessu frv.

Það er auðvitað ekki alvont og ég ætla ekki að halda því fram að þetta frv. sé handónýtt, að það séu alvondar hugmyndir sem þar koma fram og flestir eru þeirrar skoðunar að húsnæðiskerfið þurfi endurskoðunar við. Það hefur lengi staðið til. En út af fyrir sig er markmiðið að stefna að Íbúðalánasjóði, eins og hér er gert, sem standi undir sér sjálfur en við verðum að gera okkur grein fyrir því að um leið er verið að taka ákvörðun um að leggja minna af almannafé til að styrkja þá sem standa höllum fæti að þessu leyti. Það er ekkert annað hægt að lesa út úr þessu en það vegna þess að ekki er sýnilegt hvað kemur í staðinn. Sagt er að það verði gert í gegnum skattkerfið en það er ekkert tryggt í því efni. Það er af mörgum talið mun óöruggara en niðurgreiðsla vaxta eins og verið hefur.

Það má líka nefna að sameining byggingarsjóðanna er eðlileg. Það er raunar sjálfsagt og eðlilegt að sameina Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna vegna þess að Byggingarsjóður ríkisins hefur í rauninni lokið hlutverki sínu eftir að húsbréfakerfið hefur fest sig í sessi.

Það er líka jákvætt að breyta um stefnu að því leyti að félagslegum íbúðum verði ekki lengur hrúgað saman eins og tilhneigingin hefur verið, heldur tekin upp sú stefna að menn geti fest kaup á íbúð eftir vali, bara þar sem þeir finna slíka við hæfi og þannig sé frjálsræði aukið í vali á íbúðum. Það er einn meginkostur þeirra breytinga sem frv. gerir ráð fyrir, að tekin verði upp lán til einstaklinga sem fái ákveðið frelsi til að velja sér íbúð í stað þess að fá úthlutað ákveðinni íbúð á ákveðnum stað. Það fylgir að vísu böggull skammrifi eða kann að fylgja vegna þess að því fylgir sú hætta að það valdi þenslu á húsnæðismarkaðnum, að það geti leitt til hækkunar íbúðaverðs.

En það er eitt af því sem er ókannað. Það er eitt af því sem skortir við undirbúning þessa frv. En ég tel að það sé af hinu góða að færa íbúðakaup í félagslega kerfinu út á hinn almenna markað. Það verður þó ekki hægt strax þar sem það tekur sinn tíma að sveifla sér á milli kerfa. En ég segi það aftur að ekki er allt vont í þessu frv. og allir eru sammála um að húsnæðiskerfið þarf endurskoðunar við. En hér hefur að mínum dómi tekist illa til, forsendurnar eru rangar og niðurstöður að mestu leyti rangar og tryggingar eru nánast engar. Það gengur ekki að setja löggjöf af þessu tagi sem setur fjölda manns í óvissu og öryggisleysi, einmitt það fólk sem síst má við því.

Gefnar forsendur eru þær að félagslega húsnæðiskerfið sé komið í þrot. Það sé að ríða einstökum sveitarfélögum á slig þar sem þau sitji uppi með auðar íbúðir sem þau koma ekki í verð, þau hafi orðið að leysa þær til sín vegna lagaákvæða um slíkt. Sagt er að lánaskilmálar séu einfaldlega þannig að fólk reisi sér hurðarás um öxl í þessu kerfi og margsinnis hefur verið bent á það fólk sem lendir á milli kerfa, eins og sagt er, fólk sem hefur of miklar tekjur til þess að fá fyrirgreiðslu í félagslega húsnæðiskerfinu en of litlar tekjur til þess að fá greiðslumat og húsbréfalán í framhaldi af því.

Út af fyrir sig er rétt að Byggingarsjóður verkamanna á í miklum vanda og stefnir í þrot á næstu árum. Það er rétt. Það mun gerast ef ekkert verður að gert. En hver er vandinn í raun og veru? Hver er orsök þessa vanda? --- Ég sakna nú hæstv. ráðherra. Ég fagnaði því í upphafi fundar að hafa báða viðstadda, talsmann meiri hlutans í hv. félmn. og hæstv. félmrh. en þrekið er ekki meira en svo að nú sé ég hvorugan og finnst mér þó mikilvægt og raunar sjálfsagt að þeir sýni þá kurteisi að vera hér við vegna þess að talsmaður Kvennalistans hefur ekki fyrr talað í umræðunni. Ég spyr hæstv. forseta hvort ekki sé hægt að fara fram á það við a.m.k. annan hvorn þessara aðila eða einstaklinga að vera hérna við.

(Forseti (StB): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að óskir þingmannsins verði uppfylltar að þessu leyti.)

Ég þakka forseta fyrir og tel að ekki sé til of mikils mælst að fá að sjá framan í a.m.k. annan hvorn þeirra sem ég hef nefnt, hv. talsmann meiri hlutans í félmn. --- sem er nú kominn í dyrnar en heldur sér fast í stólbakið og sleppir vonandi ekki því að þá verð ég dauðhrædd um að hann sé að fara --- eða þá hæstv. ráðherra. Ég skal ekki tefja tímann með því að bíða eftir hæstv. ráðherra og geri mig ánægða með að sjá hv. þm. Magnús Stefánsson, þó að ég verði að segja það aftur að það olli mér miklum vonbrigðum að heyra yfirlýsingar hans í þætti sem hann mun hafa tekið þátt í á Rás 2 í gær, hygg ég. Það var endurflutt í nótt þegar ég var á heimleið því að ég heyrði það í útvarpinu og þar var engin miskunn hjá Magnúsi eins og nú tíðkast að segja.

Hann túlkaði þá niðurstöðu þeirra sem mestu ráða um framgang þessa frv. að því verði ekki frestað. En útskýringar voru ekki mjög gildar að mínu mati.

Ég var að fjalla um ástæður þess að Byggingarsjóður verkamanna er svo staddur sem hann er nú. Sökin er ríkisvaldsins. Ástæðan er auðvitað sú að framlög ríkisins hafa verið skorin niður jafnt og þétt á undanförnum árum og sjóðurinn hefur orðið að taka lán á miklu hærri vöxtum en þeim sem hann hefur síðan tekið fyrir útlán sín. Þetta er alveg sama klemman og Lánasjóður ísl. námsmanna var settur í. Hann fékk ekki þann tíma, ráðrúm og svigrúm sem ætlunin var við upphaflega lagasetningu um Lánasjóð ísl. námsmanna, einmitt mjög mikilvægt málefni sem Framsfl. kom mikið að. Hann fékk ekki svigrúm til að eflast og leggja þann grunn sem þurfti til að geta síðar að mestu staðið undir sjálfum sér. Ég minnist mikilla, árlegra, langvinnra umræðna um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna þar sem þingmenn Framsfl. höfðu mikið að segja og létu a.m.k. sem svo að þeir vildu leggja honum lið. Þegar staðan var orðin óbærileg var lögum og reglum um lánsjóðinn umbylt svo að hann þjónar ekki lengur sama tilgangi og upphaflega var ætlunin, heldur setur námsmönnum slíkar skorður að þeir hafa ekki sömu möguleika og áður. Það er ekki svo. Þá á ég fyrst og fremst við þá sem eru bundnir vegna barna eða vegna einhverra annarra aðstæðna, vegna annarra skyldna sem koma í veg fyrir að viðkomandi geti sinnt náminu á fullu og uppfyllt þannig skilyrði um námsárangur innan ákveðinna tímamarka.

[11:00]

Niðurstaðan er að sjóðurinn stendur betur en áður. Sjóðnum hefur batnað. Sjóðnum hefur batnað heilmikið. En þeir sem helst þurfa á fyrirgreiðslu að halda standa verr. Þessi niðurstaða hefur t.d. haft áhrif á möguleika kvenna til þess að stunda nám og njóta lána úr Lánasjóði ísl. námsmanna vegna þess að þær eru margar þannig settar að geta ekki stundað nám á fullu, eins og maður segir, og eiga erfitt með að uppfylla skilyrði um árangur innan vissra tímamarka. Það er býsna alvarlegt mál. En ekki er nú bjartara yfir þessu sem við erum hér að ræða.

Það er út af fyrir sig rétt að þess eru nokkur dæmi að sveitarfélög standi uppi með félagslegt húsnæði sem ekki er þörf á. En í raun er þarna aðeins um að ræða u.þ.b. 1% allra félagslegra íbúða. Það geta auðvitað ekki verið rök fyrir umbyltingu kerfisins eins og hér er áformað. Það geta ekki verið rök þó að 1% allra þeirra íbúða, sem eru 10.600 talsins í landinu, standi auðar. Þó þær standi auðar um lengri eða skemmri tíma þá er sá tími yfirleitt ekki svo langur. Vandinn er stærstur á ákveðnum svæðum og á þeim vanda er hægt að taka sértækt. Það er t.d. hægt með því að breyta þessum íbúðum í leiguíbúðir eða hugsanlega með einhverjum aðgerðum til þess að lækka söluverð þeirra svo að þær gangi út og fólk treysti sér til að kaupa.

Á þessu er vissulega reynt að taka í frv., að auðvelda sveitarfélögunum að breyta þeim eignaríbúðum sem þau hafa leyst til sín, í leiguíbúðir og selja þær. Fjármögnun þess verkefnis er sérkennileg ef ég hef skilið það rétt. Ég fæ ekki betur séð en að þeim sveitarfélögum sem auðveldara eiga með að breyta eignarfyrirkomulagi þeirra íbúða og endurnýja þær eins og þarf, til að gera þær söluhæfari o.s.frv. og taki til þess viðbótarlán, sé ætlað að mynda sérstakan sjóð og sá sjóður eigi að vera til aðstoðar í þeim sveitarfélögum þar sem þetta gengur miður. Ég sé ekki betur en þetta sé svona, að ákveðnum sveitarfélögum sé gert að greiða niður vandann í öðrum sveitarfélögum í stað þess að framlagið komi beint úr ríkissjóði. Þetta kemur fram í frv. um þennan varasjóð sem á að bæta einstök tjón sem Íbúðalánasjóður verður fyrir vegna útlánatapa á viðbótarlánum, vegna kostnaðar við uppboðsmeðferð eigna sem á hvíla viðbótarlán o.s.frv. Ég ætla ekki að fara ítarlegar út í þetta. Ég er það nýlega komin að þessu máli með því að grafa mig virkilega niður og ofan í öll þess gögn að ég ætla ekki að fara ítarlegar út í þetta. Þetta er þó niðurstaða mín eftir tiltölulega fljótlega athugun að vandanum sé í rauninni velt yfir á sveitarfélögin sjálf og þeim gert að greiða niður hvert fyrir annað.

Vandinn er ekki allur af sama toga. Sums staðar hefur orðið fólksfækkun eða breytingar í atvinnulífi sem valda því að þörfin fyrir íbúðir í félagslega kerfinu er ekki lengur fyrir hendi. Sums staðar hafa menn þó óneitanlega notað þennan möguleika til þess að efla atvinnu við byggingarframkvæmdir --- það er staðreynd --- og reyna að laða að fólk, hafa upp á eitthvað að bjóða. Svo situr sveitarfélagið uppi með íbúðir sem er ekki lengur þörf fyrir og ofan í kaupið kannski of dýrar. Of mikið kann að vera í þær lagt, þær ganga ekki út í sveitarfélaginu vegna þess að þær eru of dýrar. Í þeim tilvikum má segja að um hreint sjálfskaparvíti sé að ræða. Þetta eru aðeins örfáar íbúðir af þeim 10.600 sem taldar eru í þessum flokki íbúða. Þetta er sértækur vandi sem ríkið á að taka á.

Annars staðar vantar stórlega félagslegar íbúðir. Það vantar t.d. húsnæði af félagslegum toga alls staðar í þéttbýlinu suðvestan lands, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og víðar. Það vantar sárlega húsnæði af þessum toga á Akureyri. Það vantar félagslegt húsnæði fyrst og fremst á stærstu stöðunum hér á landi. Það er athyglisvert að lesa umsögn frá húsnæðisskrifstofunni á Akureyri. Þar hafa menn þungar áhyggjur af því hvað taki við ef þetta frv. nær fram að ganga. Þeir segja ljóst að stór hluti þeirra sem gætu keypt sér félagslega íbúð nú geti það ekki eftir þær breytingar sem frv. boðar. Þar eru þeir samhljóða mjög mörgum sem hafa tjáð sig um þær breytingar, vegna þess að þeir muni ekki uppfylla skilyrði um greiðslumat. Hvar á svo þetta fólk að búa? Því svarar þetta frv. ekki.

Nú er mikil eftirspurn eftir leiguhúsnæði á Akureyri. Sú eftirspurn mun aukast stórlega ef frv. nær fram að ganga. U.þ.b. 100 fjölskyldur og einstaklingar kaupa nú íbúðir í félagslega kerfinu á Akureyri á hverju ári. Aðeins um þriðjungur þeirra á eitthvað upp í útborgun. Ef gert er ráð fyrir að þeir sem ekkert eiga upp í útborgun þurfi á leiguhúsnæði að halda, eftir þær breytingar sem hér eru áformaðar, þá þyrfti Akureyrarbær að fjölga leiguíbúðum um 60 á ári. Auðvitað er ljóst að bæjarfélagið mun ekki aðeins hafa kostnað af fjárfestingu í slíkum íbúðum heldur verður það að gera ráð fyrir taprekstri slíkra íbúða, það leiðir af sjálfu. Allt í allt er því hér um verulegar fjárhæðir að ræða, tugi milljóna sem það mun kosta þetta sveitarfélag. Von er að forsvarsmenn þess spyrji: Hvar eiga tekjur að koma á móti?

Ég spyr: Er enginn endir á þessum tilflutningi byrða yfir á sveitarfélögin í landinu án þess að gert sé ráð fyrir tekjum á móti?

Í umsögn húsnæðisnefndar Kópavogs kemur fram að húsnæðisnefndin gerði könnun á greiðslumati 122 fjölskyldna sem keypt höfðu íbúðir hjá nefndinni að undanförnu og höfðu staðist greiðslumat, miðað við greiðslubyrði 28% af brúttólaunum. Þessar sömu fjölskyldur voru svo greiðslumetnar miðað við 18% greiðslubyrði af brúttólaunum, sem er viðmiðunin sem stuðst er við í húsbréfakerfinu. Þá kom í ljós að aðeins ellefu fjölskyldur af þessum 122, eða 9%, hefðu staðist greiðslumat samkvæmt frv. 111 fjölskyldur eða 91% stæðust ekki matið og mundu þurfa á leiguíbúðum að halda. Þegar skoðaðar eru 186 umsóknir sem borist höfðu undanfarna 14 mánuði kom í ljós að aðeins sex fjölskyldur hefðu staðist greiðslumat eða 3,30% af umsækjendum.

Húsnæðisnefnd Kópavogs fullyrðir þar af leiðandi að þessi breyting ein mundi valda sprengingu á leigumarkaðnum og afleiðingarnar séu engan veginn fyrirsjáanlegar því augljóst sé að sveitarfélögin hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að standa undir þeirri gífurlegu aukningu leiguhúsnæðis sem þyrfti að verða. Skv. 5. gr. frv. bera sveitarstjórnir ábyrgð á og hafa frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun.

Í þessari umsögn er upplýst að húsnæðisnefnd Kópavogs hafi á sl. fimm árum afhent að jafnaði 49 nýjar íbúðir til umsækjenda auk 56 innlausnaríbúða á ári. Það er meðaltal síðustu þriggja ára, eða samtals 105 íbúðir á ári. Niðurstaða húsnæðisnefndar Kópavogs er sú að eftir þær breytingar á kerfinu sem frv. gerir ráð fyrir er varlega áætlað að þörf verði fyrir 75 nýjar leiguíbúðir á ári næstu fjögur árin og að það muni kosta bæjarfélagið rúmar 76 milljónir auk húsaleigubóta sem mundu nema u.þ.b. 4 milljónum. Heildarkostnaður yrði því samtals um 80 milljónir á ári. Þessar tölur tala sínu máli og segja meira en mörg orð.

Ég býð hæstv. ráðherra velkominn í þingsalinn. Það virðist sem hæstv. ráðherra og hv. talsmaður meiri hlutans í félmn. skipti bróðurlega með sér verkum því að um leið og hæstv. ráðherra gekk í salinn spratt sá Magnús sem enga miskunn sýnir á fætur og hvarf. Ég treysti því að þeir beri saman bækur sínar og fari vel og vandlega yfir allt sem þeir heyra í þessari löngu og fróðlegu umræðu sem hér fer fram. (Félmrh.: Það gerum við.) Því treysti ég.

Þetta er auðvitað megingalli, hæstv. forseti, megingalli og megingagnrýnisefni þessa frv. að fjöldi fólks skuli sviptur möguleikanum á íbúðarkaupum í félagslega kerfinu án þess að nokkuð öruggt komi í staðinn. Vandanum er vísað til sveitarfélaganna og ætlast til þess að þau leysi vandann án nokkurrar tryggingar fyrir það fólk sem hér um ræðir. Þetta gengur auðvitað ekki. Það gengur ekki að vekja þessar áhyggjur og óróa og hafa ekkert til þess að róa þetta fólk, ekkert til þess að sanna fyrir því að hér sé um betri kosti að ræða, eða a.m.k. ekki verri. Það hefur ekki verið gert, ekki í þessu frv., ekki í grg., ekki í nál. meiri hlutans né brtt. og það hefur ekki tekist í þessari umræðu. Reyndar hafa talsmenn meiri hluta Alþingis verið afskaplega hljóðir og ekki talið sig þurfa að rökstyðja gjörðir sínar. Það er því miður svo í hverju málinu á fætur öðru að það eru stjórnarandstæðingar sem færa fram rök fyrir máli sínu en talsmenn meiri hlutans telja sig ekki þurfa að rökstyðja gjörðir sínar.

[11:15]

Þetta er alvarlegt umhugsunarefni og þetta er að mínum dómi atlaga við lýðræðið. Það er ekki a.m.k. til marks um lýðræðislega hugsun eða lýðræðislega umræðu að hún skuli ekki fara fram í þingsölum. Ég held að þetta sé verra en víða annars staðar þar sem fram fer mjög mikil málefnaleg umræða á rökstuddum nótum og ekki bara umræða sem byggist á málefnalegum rökum heldur vil ég leggja áherslu á að það sé líka hlustað á tilfinningaleg rök og tekið tillit til þeirra. En því miður eru það örlög þingmanna, og þá fyrst og fremst stjórnarandstöðuþingmanna, að berjast um á hæl og hnakka við að koma á framfæri skoðunum og rökum og áliti en fá ekki andsvör, að meiri hlutinn lítur svo á að hann geti farið sínu fram án þess að skýra það ítarlega. Það er miður og gengur ekki að mínu mati.

Öll hugsun þessa frv. gengur út á að sú nýja ríkisstofnun sem hér er verið að setja á stofn, Íbúðalánasjóðurinn, standi undir rekstri sínum. En vandinn sem við það skapast er óleystur. Honum er vísað til blámóðu framtíðar.

Það er harla athyglisvert að sjá brtt. meiri hluta félmn. um enn eitt ákvæði til bráðabirgða sem þar er. Þau eru ef ég man rétt 8 og ætli þetta sé ekki hið 9. sem þarna er að bætast við samkvæmt breytingartillögunum. Þetta er ákvæði sem kveður á um könnun á leigumarkaði. Það er býsna merkilegt að ranka við sér á elleftu stundu og láta sér hugkvæmast að rétt sé nú að kanna hvernig leigumarkaðurinn sé undir þá innrás búinn sem fyrirsjáanleg er ef þær breytingar sem frv. gerir ráð fyrir verða að veruleika. Einhvern tíma hefði nú þess konar verið orðað svo að seint væri í rassinn gripið og vona ég að slíkt orðbragð sé ekki of gróft fyrir þennan ræðustól sem hefur orðið vitni að ýmsu um dagana. Héðan hafa jafnvel heyrst orð eins og ,,kjaftæði`` um það sem stjórnarandstæðingar hafa haft fram að færa og við munum mörg orð sem hér féllu eitt sinn um ,,skítlegt eðli`` og voru ekki átalin héðan úr forsetastóli þannig að ég vona að þetta sé ekki of gróft orðbragð. Ég held að ástæða sé til að kynna þessa tillögu vel því ekki heyrði ég að mikið væri um hana fjallað í máli hv. talsmanns meiri hlutans. Í brtt. stendur, með leyfi forseta:

,,Við ákvæði til bráðabirgða VIII er verði IX. Ákvæðið orðist svo:

Könnun á leigumarkaði.

Við samþykkt laga þessara skal félagsmálaráðherra í samráði við fulltrúa sveitarfélaga, aðra félagslega byggingaraðila, ASÍ og BSRB vinna að úttekt á leigumarkaði hér á landi og kanna þörf fyrir leiguíbúðir næstu ár. Á grundvelli samstarfs þessara aðila skal lögð fram framkvæmdaáætlun sem framlög ríkisins og sveitarfélaga skulu taka mið af í framtíðinni. Á meðan unnið er að áætlanagerð þessari og til ársloka 2000 er heimilt að veita lán til leiguíbúða, sbr. VIII. kafla laga þessara, með óbreyttum lánskjörum. Fjöldi og upphæð lána skal taka mið af framlagi ríkissjóðs á fjárlögum og áætluðum kostnaði.``

Þannig hljóðar þessi brtt. En hefði nú ekki verið snjallt að gera þessa úttekt á leigumarkaði hér á landi og könnun og þörf fyrir leiguíbúðir næstu árin að einum þætti í undirbúningi þessa frv.? Hefði það ekki verið ráð, hæstv. ráðherra, í stað þess að hrökkva upp af værum blundi þegar málið er komið til umfjöllunar í nefnd? Þetta eru nú aldeilis vinnubrögð í lagi, en svo sem engin nýjung heldur kannski dæmigerð fyrir þau vinnubrögð sem hæstv. ríkisstjórn lætur sér sæma samanber öll þau stórmál sem fólk sárbænir okkur hópum saman um að fresta og gefa ráðrúm til athugunar.

Ekki skal vanmeta þetta lífsmark meiri hlutans sem þarna hefur séð ástæðu til að bregðast við viðvörunum stjórnarandstöðunnar og fjölmargra félagasamtaka þess efnis að fyrirheitin um framlag til byggingar 50 leiguíbúða á næstu árum væru ekki fjarskalega metnaðarfull svo ekki sé sterkar til orða tekið vegna þess að þetta ástand er verulegt áhyggjuefni vegna aðstæðna þeirra hópa sem þessi breytta stefna mun hafa mest áhrif á. Ég nefni t.d. einstæða foreldra, en í hópi þeirra eru margir sem eru verst staddir fjárhagslega hér á landi, að langmestu leyti ungar, einstæðar mæður, lítt menntaðar. Það er sá hópur í þjóðfélaginu sem er einna verst staddur og það er staðfest í skýrslum að þessar ungu konur eru hvað verst staddar og þurfa virkilega á stuðningi að halda ef þær eiga að koma börnum sínum á legg og geta veitt þeim sómasamlegt atlæti og aðbúnað. Ég tel ekki einungis mannúðlegt að koma til liðs við þennan hóp í þjóðfélaginu heldur beinlínis skynsamlegt og þjóðhagslega hagkvæmt, vegna þess að menn vilja helst alltaf meta hlutina út frá fjárhagslegum forsendum.

Ég hef oft tekið þetta upp á Alþingi og m.a. reynt að leggja lið því gagnmerka starfi sem unnið er á vegum Félags einstæðra foreldra. Þar er margt gert til þess að reyna að styrkja og aðstoða þennan hóp. Reynt er að styrkja konur til náms og þar er t.d. boðið upp á húsnæði tímabundið meðan viðkomandi eru að koma undir sig fótunum, oft eftir erfiðan skilnað og flutning. Margir einstæðir foreldrar koma utan af landi til Reykjavíkur þar sem þessa aðstoð er að fá og þá er stærsta hjálpin sem þetta fólk fær, að langmestu leyti konur, húsaskjól, tímabundin vist í húsnæði, leiguhúsnæði á vegum Félags einstæðra foreldra.

En reyndin er því miður sú nú síðustu mánuði og ár að húsnæði Félags einstæðra foreldra sem er á tveimur stöðum í Reykjavík, er gjörsamlega sprungið. Það er löngu sprungið. Þar spilar ástandið á leigumarkaðnum auðvitað inn í. Það er þannig að það teygist úr þeim tímamörkum sem sett hafa verið hversu lengi hægt er að dveljast í þessu bráðabirgðahúsnæði sem Félag einstæðra foreldra býður upp á. Biðlistinn lengist sífellt, biðlisti þeirra sem óska eftir stundarfriði í húsakynnum Félags einstæðra foreldra.

Sama má segja um þann vanda sem blasir við námsmönnum á hverju einasta hausti. Vissulega hafa námsmannasamtökin lyft --- eru mannaskipti núna? (Félmrh.: Aðeins að heyra í símanum. Ég hlusta líka.) Já. Hæstv. félmrh. er hæfileikaríkur maður og getur bæði talað í símann við einhvern úti í bæ og hlustað á það sem ég hef að segja. Þetta er mjög mikilvægur hæfileiki fyrir svo önnum kafinn mann. En hann veit sjálfsagt allt um aðstæður námsmanna svo ég ætla vegna tímans, sem ég ætlaði nú ekki að teygja allt of mikið, (Gripið fram í: Það er nógur tími.) að halda hérna áfram í trausti þess að hæstv. ráðherra, sem er einmitt búsettur, það ég best veit, úti á landi, úti á landsbyggðinni, á sinni kæru landsbyggð og ætti að vita um aðstæður námsmanna utan af landsbyggðinni sem koma hingað til Reykjavíkur eða á þetta svæði á hverju einasta hausti, þyrpist hingað til náms í framhaldsskólum, til náms sem er ekki að hafa annars staðar en í Reykjavík. Hann þekkir vafalaust mætavel þann vanda sem blasir við námsmönnum á hverju einasta hausti, námsmönnum utan af landsbyggðinni, m.a. úr kjördæmi hæstv. félmrh.

Vissulega hafa námsmannasamtökin lyft grettistaki á undanförnum árum við byggingu húsnæðis fyrir námsmenn. Þau hafa gert það og notið til þess styrks og aðstoðar, félagslegra lána úr Byggingarsjóði verkamanna. Þau hafa byggt talsvert húsnæði. Þær breytingar hafa orðið á síðustu árum. En þegar við hæstv. félmrh. vorum ung og leituðum til náms hingað á þetta svæði var ekki um auðugan garð að gresja og ýmislegt hefur breyst í því efni. En þörfin hefur líka aukist gífurlega og enn þá er mjög langt í land með að tekist hafi að uppfylla lágmarksþörf fyrir námsmannaíbúðir.

Það er því alvarlegt mál ef nú dregur úr byggingu námsmannahúsnæðis sem margir óttast ef þetta frv. verður að lögum --- sá ótti kemur fram í umsögnum, m.a. frá námsmannasamtökunum --- því að leigumarkaðurinn getur ekki tekið við og hvað þá mætt vaxandi þörfum, auk þess sem þessar breytingar eru líklegar til að valda hækkun húsaleigu. Ekki má gleyma því að fari svo að húsaleiga hækki almennt þá hefur það áhrif til hækkunar á þeim grunni sem gengið er út frá við ákvörðun námslána. Þannig bítur hvað í annars skott.

Hið sama á auðvitað við um aðstæður aldraðra, fatlaðra og fleiri sem þurfa að reiða sig á leigumarkaðinn. Hver einasta hækkun húsaleigu hittir þetta fólk illa fyrir og þannig ber allt að sama brunni. Hér er ekki gengið til góðs.

Ein breytingin sem hér á að verða er að þenja út vaxtabótakerfið en hætta að niðurgreiða vexti. Það á sem sagt að láta markaðinn um ákvörðun vaxta á öllum húsnæðislánum, hverjir sem eiga í hlut. Í stað þess er stefnan að veita aðstoð gegnum vaxtabótakerfið og þá útfærslu höfum við séð í öðru þingmáli, 524. máli þessa þings sem þegar hefur verið afgreitt frá efh.- og viðskn. og er reyndar á dagskrá þessa fundar. Meginbreytingin er sú að vaxtabætur verði greiddar fyrir fram ársfjórðungslega og það er hið besta mál. Fyrir því hafa menn barist og gert tillögur um. En það á að greiða þær þeim sem taka lán eftir lögfestingu þessa frv. og því hefur verið mótmælt. Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hafa t.d. sett fram þá skoðun að ef þetta fyrirkomulag verði tekið upp þá eigi fyrirframgreiðslur vaxtabóta að renna til allra sem rétt eiga á vaxtabótum en ekki einungis til þeirra sem kaupa húsnæði eftir löggildingu frv. ef það verður að lögum.

[11:30]

Minni hluti hv. efh.- og viðskn. hefur lagt til að frv. um breytingar á vaxtabótum eða breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt að því er varðar vaxtabætur, verði frestað og bæði það og frv. sem við nú ræðum verði tekin til gagngerðar endurskoðunar. Það er meginkrafan í þeirri von að betri útkoma verði hér til umfjöllunar en við höfum nú.

Menn óttast þessar breytingar vegna þess að niðurgreiddir vextir á húsnæðislánum virðast líklegri til að halda betur en vaxtabæturnar sem sífellt er verið að krukka í. Frá því að kerfið var tekið upp fyrir áratug hefur fjórum sinnum verið krukkað í vaxtabótakerfið þannig að það hefur augljóslega reynst mun ótryggara en sú aðstoð sem veitt hefur verið með því að halda niðri vöxtum, greiða niður vexti.

Nú fara umtalsverðar upphæðir í vaxtabætur, eða um 3,8 milljarðar á þessu ári samkvæmt fjárlögum. Og að mati hæstv. fjmrh. mun sú upphæð hækka um 120 milljónir á ári á næstu tíu árum við það að margir þeirra sem nutu áður niðurgreiddra vaxta koma inn í vaxtabótakerfið, ef þetta frv. verður að lögum. Það er mikill ótti meðal fólks um að það kerfi, þessi stefna, haldi ekki, það verði krukkað í þetta kerfi og reynt að halda þessum lið, útþenslu vaxtabótakerfisins, í skefjum og það komi alls ekki að því gagni sem stjórnvöld vilji vera láta. Það er mikill uggur í fólki gagnvart þessum áformum og fyrir því hafa verið færð rök að við þessar breytingar þyngist greiðslubyrði láglaunafólks frá því sem nú er.

Nú er það svo, herra forseti, að mönnum ber engan veginn saman í þessu efni og gefa sér e.t.v. ekki sömu forsendur. Aðstandendur frv. fá allt aðrar tölur út. En fulltrúar þessara félagasamtaka, þessara 26 félagasamtaka sem skoruðu á alþingismenn að fresta umfjöllun um þetta mál, fá allt aðrar niðurstöður. Þeir hafa lagt fram aðrar tölur og þetta er einmitt einn þeirra þátta sem menn þurfa að setjast yfir og ná saman um niðurstöður, komast a.m.k. að sameiginlegri niðurstöðu um afleiðingar þessara breytinga.

Ýmsir hafa t.d. bent á þann veikleika í útreikningunum sem lagðir hafa verið fram í tengslum við frv., að þar sé gengið út frá algjörum stöðugleika, engri verðbólgu, engum sveiflum í atvinnulífi eða í hagkerfinu. Er það nú líklegt? Og jafnvel virðist gengið út frá því að fólk eldist ekki heldur verði einstæð móðir með börn jafnsett eftir 40 ár, að aðstæður hennar breytist ekkert á 40 árum, hún sé bara jafngömul og eigi jafngömul börn eftir 40 ár og sé nákvæmlega jafnsett í þjóðfélaginu. Það er nú ekki mjög líklegt, herra forseti. Þannig virðast forsendur aðstandenda frv. dálítið út úr takti við raunveruleikann.

Ýmislegt fleira væri ástæða til að ræða, t.d. það reglugerðarvald sem hæstv. ráðherra veitir sjálfum sér með þessu frv. En það er ljóst að hann fær nóg að gera við setningu reglugerða, eingöngu vegna þessa eina máls. Ég hef ekki talið saman reglugerðarheimildirnar í frv., en samkvæmt nál. minni hlutans eru þær 28.

Svo er það, herra forseti, meðferðin á starfsfólki Húsnæðisstofnunar ríkisins, en þá stofnun á að leggja niður og setja nýja ríkisstofnun á fót. Annað eins hefur gerst. Ríkisstofnanir hafa verið lagðar niður og nýjar tekið við. Rekstrarformi ríkisstofnana hefur verið breytt. Við þekkjum mörg dæmi þess og mörg nýleg dæmi. Og við allar slíkar breytingar hefur verið leitast við að taka tillit til starfsfólks, reynt að tryggja því rétt til svipaðra starfa eftir því sem hægt hefur verið, tryggja því forgang til starfa hjá nýrri stofnun, eins og sjálfsagt er þegar um starfsemi á vegum ríkisins er að ræða.

Meiri hluti félmn. viðurkennir reyndar réttmæti ábendinga og áskorana starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins þess efnis að þeim verði tryggður réttur til sambærilegra starfa hjá hinum nýja Íbúðalánasjóði. En meiri hlutinn hikstar á því að festa þennan rétt í lögum. Hann treystir sér ekki til þess en fer um málið nokkrum orðum í nál. Starfsmenn Húsnæðisstofnunar ríkisins hafa svo sannarlega látið í sér heyra. Þeir hafa barist fyrir rétti sínum til vinnu. Þeir hafa sent áskorun til félmrh. og skora þar á hann að hann beiti sér fyrir því að við frv. þetta verði bætt ákvæði sem tryggi núverandi starfsmönnum Húsnæðisstofnunar sambærileg störf hjá hinum nýja sjóði. Ég þykist alveg vita að hæstv. félmrh. hefur ekki látið undir höfuð leggjast að lesa þessa áskorun og hugsa það mál. Og starfsmennirnir, Félag starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins bendir á í sinni áskorun að í lagasetningu um breytingar á starfsemi opinberra stofnana að undanförnu hafi verið að finna ákvæði er tryggja atvinnuöryggi starfsmanna viðkomandi stofnana. Þau minna t.d. á stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunarinnar þar sem tekið er á þessu í 8. gr. laga nr. 103/1996. Það er svo aftur spurning hvernig sú útfærsla reyndist. Þau minna á 8. gr. laga nr. 50/1997, um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Þau minna á 10. gr. laga nr. 60/1997, um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og loks 13. gr. laga nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins. Allt eru þetta nýleg dæmi og í öllum þessum lögum er kveðið á um að allir starfsmenn þeirra sjóða og stofnana sem verið er að breyta eða leggja niður skuli fá sambærileg störf hjá nýjum félögum, stofnunum eða sjóðum sem taka við starfsemi þeirra. Því er ekki að undra að Félag starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins telur að sömu rök hljóti að liggja til þess að tryggja starfsöryggi og nýta starfsreynslu þeirra 49 starfsmanna sem vinna nú hjá Húsnæðisstofnun ríkisins, nýta þá starfsreynslu í þágu hins nýja Íbúðalánasjóðs.

Meiri hluti félmn. treysti sér ekki til þess að verða við þessu. En meiri hlutinn hefur greinilega svolitlar áhyggjur af málinu því í nál. meiri hluta félmn. segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin ræddi sérstaklega stöðu þeirra starfsmanna sem nú starfa hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að það er hlutverk undirbúningsnefndar, skv. 56. gr. frumvarpsins, að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna stofnunar Íbúðalánasjóðs og yfirtöku réttinda og skyldna samkvæmt frumvarpinu, þar á meðal að taka á réttindum og málefnum starfsmannanna. Meiri hlutinn leggur þunga áherslu á að starfsmönnunum verði gefinn kostur á störfum hjá hinni nýju stofnun eftir því sem frekast er unnt og þannig nýtt starfsreynsla þeirra og sérþekking.``

Í þessari grein er hins vegar ekkert sem tryggir eitt né neitt í þessu efni og mér er óskiljanlegt, herra forseti, hvers vegna meiri hlutinn treystir sér ekki til þess að taka á þessu í lögunum og reyna að tryggja rétt starfsmannanna sem eru haldnir öryggisleysi og sjá fram á óvissu í sínum málum.

Herra forseti. Orðið ,,húsnæði`` er afskaplega fallegt orð. Það er eitt af þessum fallegu gagnsæju orðum íslenskrar tungu. Það vísar til náðar og næðis, kyrrðar og skjóls. Ekki veitir nú af í þessum heimshluta þar sem vandað og skjólgott húsnæði telst til nauðþurfta. Víða annars staðar á jarðkringlunni komast menn af með ódýrt og óvandað húsaskjól. En hér er raunverulegt húsnæði ekki bara æskilegt heldur beinlínis lífsnauðsynlegt. Því er ekki að undra þótt húsnæðismál séu veigamikill þáttur í stefnumörkun allra stjórnmálaflokka og stjórnmálasamtaka hér á landi. Ef ég man rétt, þó ég sé ekki mjög vel lesin í stefnu Framsfl., þá þykist ég muna að Framsfl. hafi ávallt lagt talsverða áherslu á húsnæðismál.

Húsnæðisstefna undanfarinna áratuga hefur fyrst og fremst einkennst af aðgerðum stjórnvalda til að gera einstaklingum og fjölskyldum kleift að eignast sitt eigið húsnæði. Séreignarstefnan hefur verið ríkjandi langt umfram það sem þekkist víðast annars staðar og eiginlega langt umfram það sem eðlilegt hefði verið. Hlutskipti leigjenda hefur verið erfitt, húsaleiga há og skortur á leiguíbúðum. Kvennalistinn hefur alveg frá upphafi haft þá stefnu að allir ættu að eiga möguleika á að velja á milli kosta, velja á milli þess að búa í eignarhúsnæði eða leiguíbúð, en þar hefur raunverulega hallað á. Kostirnir hafa ekki verið raunverulegir heldur hefur fólki beinlínis verið þrýst inn í eignaríbúðakerfið og ofan af slíkri stefnu er ekki einfalt að vinda.

[11:45]

Ég minni á að Kvennalistinn hefur oftar en einu sinni á ferli sínum lagt fram tillögur um átak í byggingu leiguhúsnæðis til að fjölga kostum fyrir fólk í þessu efni og þeim tillögum hefur ekki verið tekið betur en svo að þær hafa ekki fengið afgreiðslu hér. Forgöngu um þær tillögur hefur hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir haft meðan hún var í Kvennalistanum. Þetta hefur verið okkar stefna alveg frá upphafi, að það þyrfti að bjóða upp á fleiri kosti í húsnæðismálum, sérstaklega að tryggja þeim fleiri möguleika sem kjósa það fyrirkomulag að búa í leiguhúsnæði.

Með þessu er auðvitað ekki verið að segja að ekki hafi ýmislegt verið gert gott í húsnæðismálum enda hefur þessi málaflokkur verið mjög ofarlega á forgangslista verkalýðshreyfingarinnar eins og kom fram í upphafi. Hann hefur verið það sennilega um áratugi og flest í þeim efnum raunar verið gert að frumkvæði og vegna þrýstings frá verkalýðshreyfingunni. Þannig hafa húsnæðismál ítrekað verið liður í samningum verkalýðshreyfingarinnar eða verkalýðsfélaga og jafnvel að þeir hafi fórnað launahækkunum fyrir aðgerðir í húsnæðismálum.

Þetta frv. sem við ræðum nú hér er ekki unnið í samráði við samtök launafólks, námsmannasamtökin, samtök fatlaðra né annarra sem lengi hafa haft þessi mál í fyrirrúmi. Þessi samtök hafa mikið við frv. að athuga. Þau óska frestunar og ráðrúms til að kanna afleiðingar þess betur og leggja endurskoðun lið. Mjög athyglisverðar eru umsagnirnar og þær beinu tillögur frá verkalýðshreyfingunni sem lesa má um í þeim umsögnum sem hér hafa verið lagðar á borðin að forgöngu minni hlutans í hv. félmn.

Í frv. eru allt of margir þættir óljósir, allt of margir lausir endar. Það er ekkert sem vísar veginn til öryggis í framtíðinni fyrir þá sem fyrst og fremst þurfa á því að halda. Ekki er tekið á ýmsum vandamálum sem einkenna núgildandi kerfi svo sem reglur um endursölu. Þær breytingar sem frv. boðar hafa í för með sér stóraukinn kostnað fyrir sveitarfélögin. Ég legg áherslu á að þær munu hafa í för með sér stóraukinn kostnað fyrir sveitarfélögin. Þær munu kannski bjarga einhverjum, fáum þeirra, taka á vanda þeirra en í heildina munu þessar breytingar hafa í för með sér stóraukinn kostnað sveitarfélaganna og vísa reyndar hundruðum fjölskyldna út á leigumarkað sem er lítill og vanþróaður og mun kosta hundruð milljóna að byggja upp. Breytingarnar munu leiða til þess að dýrara verður fyrir láglaunafjölskyldur að eignast eigið húsnæði, bæði vegna breyttra reglna, svo og vegna þess að búast má við hækkun íbúðarverðs þegar fleiri koma á markaðinn.

Það er, herra forseti, verið að skekja, jafnvel brjóta grunninn undir öryggi hundraða fjölskyldna sem þurfa á fyrirgreiðslu að halda til að njóta þeirra mannréttinda sem eru sjálfsögð í velferðarþjóðfélagi að hafa öruggt og mannsæmandi húsnæði. Við kvennalistakonur tökum heils hugar undir með þeim fjölmörgu félögum og félagasamtökum sem telja að þessu frv. þurfi að fresta og vísa því til ríkisstjórnarinnar, það þurfi að endurvinna það í samráði við öll þessi félög, 26 félagasamtök sem hafa skorað á Alþingi að fresta frv.

Herra forseti. Þessi ríkisstjórn þarf að bæta vinnubrögð sín og jafnvel læra sitt af hverju um lýðræði. En fyrst og fremst þyrftu núverandi stjórnarflokkar að taka sér langa og góða hvíld og leita sér endurhæfingar í hvíldarbúðum stjórnmálamanna. Eftir allar þessar uppákomur síðustu vikurnar hlýtur fólki að fara að skiljast nauðsyn þess að gefa þessum flokkum frí.