Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 11:51:30 (6603)

1998-05-15 11:51:30# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[11:51]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mig langar til að grípa inn í þessa umræðu á þessu stigi. Hún hefur staðið býsna lengi og á sjálfsagt eftir að standa lengi enn.

Ég held að við 1. umr. hafi ég svarað flestum þeim spurningum eða öllum sem fram hafa verið bornar nú í 2. umr. Ég sé eiginlega ekki ástæðu til að endurtaka það hér og vísa til þess sem ég sagði þá. En þó eru nokkur atriði sem mig langar til að velta nánar fyrir mér.

Það er þá í fyrsta lagi hvort ástæða sé til að breyta húsnæðislöggjöfinni. Ég met það svo. Hvers vegna? Er það vegna ríkissjóðs? Nei, þetta nýja fyrirkomulag sem við erum að leggja út í verður ekki ódýrara fyrir ríkissjóð. Ég hygg að það geti jafnvel orðið fjárfrekara eða krefjist meiri framlaga og meiri aðstoðar ríkissjóðs til félagslegra húsnæðismála en það kerfi sem við búum við í dag. Er það vegna Byggingarsjóðs verkamanna sem menn hafa fjölyrt mikið um? Það er ekki sérstaklega vegna Byggingarsjóðs verkamanna. Ég gæti gert eins og fyrirrennari minn einn, hv. 13. þm. Reykv., að hækka bara vextina með einu pennastriki, einni undirskrift og þar með rétt nokkuð hag Byggingarsjóðs verkamanna. Ég held hins vegar að það sé mjög skynsamleg hugmynd að sameina Byggingarsjóð verkamanna og Byggingarsjóð ríkisins og gera úr Íbúðalánasjóð sem verður sterkur sjóður og á kost á bestu lánskjörum.

Þarf að breyta húsnæðislöggjöfinni vegna sveitarfélaganna? Ekki endilega. Það eru að vísu mörg sveitarfélög í töluverðum vandræðum vegna húsnæðismála en það er ekki aðalhvatinn í mínum huga. Ég fer í þetta vegna þeirrar reynslu íbúa í núverandi félagslegu kerfi og hafa allmargir komið að máli við mig og sagt mér reynslu sína af kerfinu. Það var það sem ýtti mér af stað framan öðru en allt verkar þetta að vísu saman. Ég vil líka gjarnan leysa vanda sveitarfélaga og Byggingarsjóðs verkamanna í leiðinni. Þar að auki tel ég að hægt sé að leysa þau verkefni sem Húsnæðisstofnun ríkisins vinnur nú að á annan og hagfelldari hátt en reynslan sýnir í dag.

Hér hafa menn talað mikið um hvort rétt væri að fresta þessu frv. eða jafnvel hætta við það. Annaðhvort er að hætta við breytingarnar og búa áfram við sama skipulag eða breyta skipulaginu núna. Skipulagsbreytingin tekur tíma og okkur veitir ekkert af þessu hálfa ári frá gildistöku laganna til áramóta til að undirbúa þá skiplagsbreytingu og eðlilegt er að skipulagsbreytingin taki gildi á áramótum. Það væri svo sem hægt að hugsa sér að hún tæki gildi um einhver önnur áramót. En það er algjörlega útilokað að ætla sér að geyma það til haustþings og afgreiða málið þá og hugsa sér að láta skipulagsbreytinguna taka gildi um áramótin 1998/1999, það yrði þá a.m.k. að fresta því til ársins 2000. Skipa þarf stjórn og hún þarf að taka til starfa, stjórn Íbúðalánasjóðs, og verkefni hennar eru mörg í undirbúningnum. Í fyrsta lagi þarf hún að ráða framkvæmdastjóra og starfsfólk, undirbúa reglugerðir og reglugerðirnar eru nú sérmál. (Gripið fram í: Tuttugu og átta.) Það er verkefni væntanlegrar stjórnar Íbúðalánasjóðs að undirbúa þær reglugerðir. Ég hef verið rukkaður um reglugerðir, að reglugerðir vanti um hitt og þetta. Það er því rétt að renna aðeins yfir hinar 28 reglugerðarheimildir sem þarna eru settar upp, með leyfi forseta:

1. Um verkefni Íbúðalánasjóðs, sbr. 4. gr. Fyrirmyndin að þessu er sótt til ákvæðis 2. gr. núgildandi laga. Með ákvæðinu er lögð áhersla á að sjóðurinn starfi í samræmi við gildandi lög og þær reglugerðir sem settar verða.

2. Um styrki vegna tækninýjunga og annarra umbóta í byggingariðnaði, sbr. 6. tölul. 9. gr. Fyrirmynd heimildarinnar er sótt í 14. gr. núgildandi laga. Í stað þess að heimila lánveitingar er heimild til þess að veita styrki.

3. Um önnur verkefni Íbúðalánasjóðs, sbr. 7. tölul. 9. gr. Þarna er um nýmæli að ræða. Tilgangur hennar er að tryggja að félmrh. geti falið Íbúðalánasjóði önnur verkefni sem snerta t.d. framkvæmd fjöleignarhúsalaga, húsaleigulaga og laga um húsaleigubætur. Þetta held ég að sé alveg nauðsynlegt að hafa þarna inni.

4. Um skipulag Íbúðalánasjóðs, sbr. 12. gr. Það er sambærileg heimild í 1. mgr. 3. gr. gildandi laga.

5. Um skilyrði lánveitinga samkvæmt öðrum lánaflokkum, sbr. 2. mgr. 16. gr. Sambærileg heimild er núna í 15. gr. gildandi laga.

6. Heimild til að fela sérstökum trúnaðarmönnum mat, sbr. 18. gr. Sama heimild er núna í 20. gr. gildandi laga.

7. Hámarksfjárhæð fasteignaveðbréfa sem húsbréfadeild kaupir, sbr. 19. gr. Sambærileg heimild er nú í 26. gr.

8. Um matsverð fasteigna, sbr. 20. gr. Sama heimild er nú í 2. mgr. 27. gr.

9. Hámarksfjárhæð einstakra lánaflokka, sbr. 21. gr. Sama heimild er nú í 1. mgr. 27. gr.

10. Um framkvæmd hlutkestis, sbr. 22. gr. Sama heimild er nú í 23. gr.

11. Um frestun afborgana af fasteignaveðbréfum, sbr. 24. gr. Sama heimild er nú í 27. gr. a.

[12:00]

12. Um greiðslukjör húsbréfa, sbr. 25. gr. Sama heimild er nú í 28. gr.

13. Um ákvörðun vaxtaálags, sbr. 29. gr. Sama heimild er nú í 21. gr.

14. Frekari fyrirmæli um fyrirkomulag og tilhögun húsbréfaviðskipta, sbr. 30. gr. Þessi grein er nýmæli. Veitt er heimild til þess að setja ákvæði í reglugerð um þau atriði sem núna eru í 33. gr. og um önnur atriði sem snerta húsbréfaviðskipti. Þetta er aðeins víðtækara en í gildandi lögum.

15. Um skilyrði viðbótarlánveitinga, sbr. 2. mgr. 31. gr. Þessi grein er nýmæli en vakin er athygli á sambærilegri heimild í 64. gr. núgildandi laga, um mat á umsækjendum um kaup á félagslegu íbúðarhúsnæði.

16. Um samspil almennra lána og viðbótarlána, sbr. 3. mgr. 31. gr. Greinin er nýmæli. Rétt er að hafa í reglugerð ákvæði um það hvernig framkvæmd verður háttað við afgreiðslu á almennum lánum og viðbótarlánum og að tryggt verði fullt samræmi þar á milli. Það er óhjákvæmilegt að hafa þarna reglugerðarheimild til að fyllsta samræmis verði gætt.

17. Um hámarkslánstíma viðbótarlána, sbr. 32. gr. Þessi grein tekur mið af efni 21. gr. frv. sem á sér fyrirmynd í 1. mgr. 27. gr. núgildandi laga sem veitir sambærilega heimild.

18. Um efni samþykkta félaga sem sækja um lán til leiguíbúða, sbr. 36. gr. Greinin tekur mið af 37. gr. gildandi laga og þeirri framkvæmd sem byggt hefur verið á.

19. Skilyrði lánveitinga til byggingar eða kaupa á leiguhúsnæði, sbr. 37. gr. Sambærileg ákvæði eru nú í 37. gr.

20. Um rétt til leigu húsnæðis, sbr. 40. gr. Það er stuðst við sambærilegar reglugerðarheimildir og eru í 64. gr. gildandi laga.

21. Skilyrði þess að sveitarstjórn megi stofna félag til reksturs leiguíbúða, sbr. 41. gr. Greinin er nýmæli. Í greininni eru talin upp þau efnisatriði sem ekki verður vikið frá, eigi sveitarfélag að fá að stofna félag. Í samræmi við þau meginsjónarmið sem þar eru rakin er ráðherra heimilt að setja reglugerð.

22. Heimild til þess að ákveða mánaðarlegt leigugjald, sbr. 42. gr. Sambærilegt ákvæði er nú í 77. gr., sbr. 73. gr. gildandi laga.

23. Heimild til að kveða nánar á um störf og starfshætti kærunefndar húsnæðismála, sbr. 44. gr. Kærunefnd er nýmæli og þar af leiðandi þessi reglugerðarheimild líka.

24. Um hundraðshluta framlaga og nánari ákvæði, sbr. 47. gr. Hún er nýmæli og veitir heimild til þess að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um varasjóð viðbótarlána. Hún skal sett í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

25. Skilyrði afskrifta, sbr. 49. gr. Þessi heimild er nýmæli og fjallar um það hvernig skuli nánar staðið að framkvæmd afskriftakrafna sem glatað hafa verðtryggingu sinni.

26. Um gjaldtöku, sbr. 50. gr. Hún er samhljóða 7. gr. gildandi laga.

27. Um erindisbréf nefnda, sbr. 56. og 57. gr. Þetta er nýmæli.

28. Um nánari reglur um störf varasjóðs, sbr. ákvæði til bráðabirgða VII. Þetta er nýmæli en vakin er athygli á því að í 81. gr. laga nr. 97/1993 er veitt heimild til þess að setja í reglugerð nánari ákvæði um Tryggingarsjóð vegna byggingargalla.

Það dugir ekki að skoða hvar vitnað er til reglugerðarheimilda í frv. og telja það saman. Þetta er langflest í gildandi lögum. Þarna eru líklega sex eða átta reglugerðar\-atriði sem eru nýmæli en þau eru nauðsynleg vegna breytingar á skipulagi. Allt hitt púkkið er nú þegar í reglugerð.

Ég geri ekki ráð fyrir því að þetta verði bútað niður í margar reglugerðir. Ég geri ráð fyrir því að þessu verði safnað saman í tvær til þrjár reglugerðir. Sumar á að undirbúa í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðrar á stjórn Íbúðalánasjóðs að undirbúa. Ég held að sú gagnrýni sem fram hefur komið á fjölda þessara reglugerðarheimilda sé út af fyrir sig réttmæt, þ.e. talan er rétt. Út af fyrir sig er ágætt að ganga svo frá lagatexta að hann sé það skýr og ítarlegur að ekki þurfi að setja reglugerðir við hann. En þetta er þó eftir fyrirmynd gildandi laga að langmestu leyti.

Menn hafa fárast yfir greiðslumatinu. Gert er ráð fyrir því, við greiðslumatið, að stjórn Íbúðalánasjóðs setji viðmiðunarreglur. Ég get alveg fullyrt að greiðslumatið mun breytast. Það er fásinna að halda því fram, eins og t.d. þessi sérstaka húsnæðisnefnd í Kópavogi gerir, að það sé 18% greiðslubyrði eins og af 25 ára húsbréfunum. Í fyrsta lagi verður miðað við 40 ára endurgreiðslutíma. Hugmyndin er að reyna að taka eitthvert tillit til fjölskyldustærðar. Það er vandasamt verk og ég veit að það kemur til með að vefjast fyrir stjórn Íbúðalánasjóðs en 18% verða ekki látin gilda, það get ég fullyrt.

Hugmyndin er alls ekki að úthýsa fólki eða eyðileggja möguleika þeirra sem á annað borð eiga þess nokkurn kost að komast í eigið húsnæði. Einstætt foreldri á atvinnuleysisbótum mun geta keypt litla íbúð í þessu kerfi, enda eigi það 500 eða 550 þús. kr. til íbúðakaupanna, þ.e. þessi 10%. Það getur verið brekka fyrir ýmsa. Ég efa það ekki. En það þarf ekki meiri tekjur til þess að komast þarna inn. (KÁ: Þrátt fyrir aukinn kostnað við kerfið?) Þar er samkomulag.

Það var gott að fá þetta frammíkall. Ég var búinn að gleyma þessu. Það er samkomulag við fjmrn. um að kostnaður aukist ekki. Það verði ekki meiri kostnaður af því að komast inn í nýja kerfið en var af því að komast inn í gamla kerfið. Það á eftir að finna form á því að svolitum hluta.

Til meðferðar fyrir þinginu er frv. um stimpilgjald. Sem betur fer dagaði það uppi því ákvæði þess voru ómöguleg eins og þau voru vegna þess að þau ganga ekki upp. Það er hægt að bera þennan viðbótarkostnað af húsbréfinu uppi í vaxtabótum. Hægt væri að hugsa sér þau tilvik --- það er óleyst í málinu --- að sá sem fer inn í félagslegt kerfi og hefur dregið á vaxtabótakvótann sinn frá fyrri tíð, þ.e. hann kemur úr eignaríbúð sem hann seldi og fer inn í félagslega kerfið og er búinn að nota vaxtabótakvótann sinn að einhverju leyti, fari upp í þakið áður en hann fær þetta uppi borið. Það er heldur ekki alveg sama hvar stendur á ári í þessu sambandi. Þetta eru atriði sem við munum leysa. Meginatriðið er að það liggur fyrir samkomulag á milli ráðuneytanna um að ekki verði dýrara að fara inn í nýja kerfið en var að fara inn í gamla kerfið.

Greiðslubyrði einstæðs foreldris á atvinnuleysisbótum, sem kaupir litla íbúð og á til þess 500 eða 550 þús. kr., verður rúmar 10 þús. kr. á mánuði fyrstu árin ef er um að ræða t.d. 5 millj. kr. íbúð.

Hér hefur komið fram mikil gagnrýni á að verkalýðshreyfingin skuli ekki hafa verið látin skrifa þetta frv. Ég skal segja hv. þm. hvers vegna það var ekki gert. Ég verð að játa að ég get ekki beðið hv. stjórnarandstöðu að skrifa frumvörp fyrir mig því það gæti farið svo, og langlíklegast færi svo, að ég vildi þá bara ekki bera þau fram. (JóhS: Er verkalýðshreyfingin stjórnarandstaða?) Að mínu mati er verkalýðshreyfingin í stjórnarandstöðu. (Gripið fram í: Hún á að vera það.) Það getur vel verið að hún eigi að vera það en þeir forustumenn verkalýðshreyfingarinnar sem ég hef helst samband við eru ekki flokksbræður mínir. (Gripið fram í: En Björn Snæbjörnsson?) Jú, jú, sem betur fer á Framsfl. ágæta fulltrúa innan verkalýðshreyfingarinnar. Ég nefni t.d. hv. þm. Alþb. og óháðra, Ögmund Jónasson, sem okkur er nú næstur og kærastur af fyrirsvarsmönnum verkalýðshreyfingarinnar. Ég flokka hann alveg hiklaust með stjórnarandstöðunni og dettur ekki annað í hug. (Gripið fram í.) Sama geri ég við ágætan formann ASÍ, Grétar Þorsteinsson, ég veit ekki betur en að hann sé alþýðubandalagsmaður. Ég tel að formaður Verkamannasambands Íslands sé alveg tvímælalaust alþýðubandalagsmaður. Svona getum við talið upp. (SJS: Er verið að segja að þeir gangi bara flokkspólitískra erinda með störfum sínum fyrir verkalýðshreyfinguna?) (JóhS: Hann var að segja það.) (SJS: Hvers konar málflutningur er þetta?)

Þessir góðu fulltrúar sem eru að vinna fyrir sínar hreyfingar, breyta að sjálfsögðu ekki sínum pólitísku viðhorfum. Halda ekki hv. þm. að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi svipuð pólitísk viðhorf þegar hann er hér í salnum og þegar hann er inni á kontórum BSRB? Ég ætla honum ekki að verða neinn umskiptingur á leiðinni inn á Grensásveg eða Grettisgötu eða hvar það nú er. (SJS: Þetta eru alveg óvenjuleg ummæli af innanlandsmálaráðherra.)

Tengsl verkalýðshreyfingarinnar við Húsnæðisstofnun hafa breyst í seinni tíð. Hún er hætt að fjármagna Húsnæðisstofnun eins og hún gerði í gamla daga. Þá stóðum við við gerð lánsfjáráætlunar frammi fyrir því að knýja fé frá verkalýðshreyfingunni eða lífeyrissjóðunum til Húsnæðisstofnunar. Nú eru að vísu gömul lán frá lífeyrissjóðunum, eða lán sem Byggingarsjóður verkamanna hefur tekið hjá lífeyrissjóðunum, sem sum hver eru ákaflega óhagstæð, jafnvel á okurvöxtum. Einn þátturinn í að gera Íbúðalánasjóð sjálfbæran er að skuldbreyta þessum lánum.

Það er rétt að það komi fram einu sinni enn að ég vil taka tillit til ASÍ. (Gripið fram í: Nú?) Það vil ég gera og það hef ég gert. Ég skal segja hv. þm. hvernig. 20. nóvember 1996 samþykkti sambandsstjórn ASÍ ályktun um félagslega húsnæðiskerfið og ég ætla að fara yfir hana, með leyfi forseta:

[12:15]

,,Sambandsstjórnarfundur leggur til eftirfarandi breytingar á félagslegum íbúðalánum,`` og bið ég hv. þm. að taka eftir og bera saman við frv. ,,Veitt verði sérstök lán til þeirra sem uppfylla skilyrði Byggingarsjóðs verkamanna um lán úr sjóðnum.`` --- Þetta var gert. --- ,,Lánin verði með jöfnun afborgunum eða jafngreiðslu til allt að 43 ára.`` Það er að vísu ekki farið alveg svona langt, það eru ekki nema 40 ár sem eru í frv. ,,Lánin verði að hámarki 90%. Að lántaki velji sér íbúð sem uppfyllir lágmarksskilyrði lánveitanda um gæði íbúðar.`` Þetta er nákvæmlega eins í frv. ,,Ekki verði gert út um kaup nema lánveitandi samþykki veðhæfi.`` Að sjálfsögðu er þetta í frv. ,,Lántaki beri sömu ábyrgð og skyldur og sá sem er á almennum markaði.`` Þetta er líka nákvæmlega eins í frv. ,,Eins og lántaki velur sér íbúð velur hann sér kaupanda þegar hann selur fasteignina enda er ekki kaupskylda sveitarfélags.`` Það er alveg farið eftir þessu. ,,Lántaki flytji lán sitt á aðra viðurkennda íbúð eða greiði það upp við sölu fasteignar.`` Þetta er nákvæmlega það sem við gerum í frv.

Forskriftin að þessari lagasetningu, grundvöllurinn að þessari lagasetningu er þessi ályktun frá sambandsstjórn ASÍ um félagslega húsnæðiskerfið frá 20. nóv. 1996. (JóhS: Stóð þar að það ætti að loka kerfinu?) Það stóð ekki. (JóhS: Stóð þar ekki eitthvað um markaðsvexti?) (SJS: Hver er afstaða ASÍ í dag? Vill ráðherra ekki ræða hana?)

Ég vil ræða afstöðu ASÍ eins og hún var 20. nóv. 1996. Kannski hefur það verið af pólitískum ástæðum, kannski hefur það verið fyrir áhrif frá hv. stjórnarandstæðingum að afstaða ASÍ hefur breyst til málsins. (SJS: Það er bara samsæri.) Ja, ég veit það ekki. Það kann að vera rannsóknarefni.

En mér þykir sannarlega hafa skipt um hljóð í ASÍ frá því að þeir samþykktu þessa ályktun, sem ég í góðri trú var að reyna að vinna eftir.

Hér hefur verið talað mikið um leiguíbúðaþörfina sem vonlegt er. Því að það liggur fyrir að þeir sem koma nýir inn á markaðinn og eiga ekkert fé til að leggja til íbúðarkaupa eiga erfitt öðruvísi en að fara í leiguhúsnæði meðan þeir eru að komast í þær álnir að þeir geti eignast 10% af íbúðarverði. Ég held að það sé miklu farsælla en verið sé að ginna menn til að reisa sér hurðarás um öxl. Og það ber að skoða þetta með leiguíbúðirnar í ljósi þess að nú er búið að breyta húsaleigubótum og þær eru greiddar um allt land á allt leiguhúsnæði. Þær eru einn þátturinn í þessari endurskipulagningu.

Það er rétt að við rennum dálítið blint í sjóinn með hvað þörfin verður mikil á leiguíbúðum. Nú er ekki hægt að tala um að húsnæðisvandræði séu í þjóðfélaginu. Við eigum út af fyrir sig, sem betur fer, nóg af íbúðarhúsnæði yfir þjóðina. Hins vegar hafa þjóðflutningar verið innan lands þannig að sums staðar búa menn óþarflega rúmt og sums staðar kannski of þröngt. Það er alveg ljóst að fjölga þarf leiguíbúðum, og Reykjavíkurborg hefur t.d. uppi áform um að kaupa litlar íbúðir, 100 að tölu, til þess að nota sem leiguíbúðir og verið er að skoða það hvernig það muni verða fjármagnað.

Til að fá vandaða mynd af þessu, þá verður tekið á málinu þannig að sett verður á fót nefnd með fulltrúum frá félmrn., fjmrn., Sambandi ísl. sveitarfélaga, Öryrkjabandalagi og námsmannasamtökum. Þessi nefnd á að kanna þörf í fyrsta lagi fyrir leiguhúsnæði. Í öðru lagi á hún að gera áætlun um úrbætur og taka þátt í samningum um fjárframlög frá hinu opinbera til að fullnægja þeirri þörf sem kann að vera, og að endingu að endurskoða húsaleigulögin. Ég held að það þurfi að gera bæði í því skyni að auka öryggi leigjenda, og síðan hafa menn misskilið húsaleigulögin, þ.e. í húsaleigulögunum er heimildarákvæði til að vísitölubinda húsaleigu. Og þessu heimildarákvæði hefur verið beitt í a.m.k. ýmsum tilfellum. En ég legg áherslu á að þarna er einungis um heimildarákvæði að ræða og það er samningsatriði á milli leigjanda og húseiganda hvernig verðbreytingar eru gerðar eða hvort yfirleitt er gert ráð fyrir verðbreytingum. Það er því alls ekki hægt að túlka það þannig að húsaleigulögin mæli fyrir um að vísitöluhækkanir komi á húsaleigu.

Einhvern veginn hefur þessi umræða skapast, sem er mjög óheppileg, að húsaleigulögunum sé um að kenna að leigufjárhæðir hækka og húseigendur hafa í einhverjum og kannski allt of mörgum tilfellum notað sér þetta ákvæði til að hækka leiguna, sem leigjendurnir voru út af fyrir sig ekkert skyldugir að hlíta, nema þeir vildu það sjálfir.

Það er rétt að geta þess að líka er verið að endurskoða lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í félagsþjónustulögunum tel ég að styrkja þurfi ákvæðið, sem er reyndar skýlaust, að sveitarfélaginu ber skylda til að sjá þeim sem lakar eru settir í sveitarfélaginu fyrir húsnæði. Það er bara skylda sveitarfélagsins. (KÁ: Ef kostur er og þörf er á.) Menn hafa vitnað í það hér að Garðabær, Seltjarnarnes og einhver fleiri sveitarfélög hafi reynt að koma sér undan þessari skyldu, en hún er þarna. --- Ef þörf er á, já. Ef kostur er og þörf er á. Það getur vel verið að rétt sé að styrkja þetta orðalag, (KÁ: Bráðnauðsynlegt.) ég er ekkert frá því. Af því að við höfum dæmi þess að sveitarfélög hafi reynt að koma sér hjá því. Ég tel að Garðabær sé það vel efnum búinn og Seltjarnes líka að þeir bæir geti alveg fullnægt þeirri þörf sem fyrir er í sveitarfélaginu í þessu efni. (JóhS: Hverjir stjórna þar?)

Hv. 13. þm. Reykv. er áreiðanlega jafn vel kunnugt um það og mér. (SJS: Eru það ekki samstarfsaðilar ráðherrans?)

Rétt er að taka það líka fram að næstu tvö árin ákveður Alþingi hvaða fjárhæð verður varið til að stuðla að byggingu leiguíbúða. Og það er náttúrlega alveg fásinna sem hér gengur aftur og aftur og aftur í umræðunni að hugmyndin sé að byggja 25 leiguíbúðir á ári. Það er aldeilis, aldeilis ekki rétt. (Gripið fram í.)

Ég man þá tíð þegar hv. 13. þm. Reykv. var félmrh., þá tók hún það ekki alltaf eins og guð segði það þó að þeir settu eitthvað á blað í fjmrn. Það er hins vegar bara verið að snúa út úr þessu. Það er verið að tala um 25 innlausnaríbúðir til að breyta þeim í leiguíbúðir, sem er annað mál.

Eins og kom hér fram, og var reyndar staðfest af hæstv. forsrh. við 1. umr., þá gildir lagatextinn en ekki einhver umsögn frá fjmrn. Það er Alþingi sem hefur í hendi sér hve hárri fjárhæð verður varið til þess arna.

En þetta er gert vegna þess að fyrir árslok árið 2000 á þessi nefnd sem sett er á fót að vera búin að ná niðurstöðu. Samningum á þá að vera lokið á milli ríkisins, sveitarfélaganna og þessara byggingaraðila sem ég tilgreindi, Öryrkjabandalags og námsmannasamtaka.

Sú hugmynd hefur komið upp í fjmrn. að hverfa frá því að niðurgreiða vexti og veita heldur styrki út á hverja leiguíbúð. Mér finnst að hægt sé að skoða vel þá hugmynd. Ég hef ekki séð útfærslu á henni en ég tel að fullkomin rök séu til að skoða hana.

Það er rétt að taka það enn einu sinni fram vegna athugasemdar, sem hér féll í einhverri smáræðu í gær, að allir þeir sem eru í núverandi kerfi halda réttindum sínum, ekki er tekinn réttur af nokkrum. Og með endursölu eða við skil á íbúðinni til sveitarfélags verður farið eftir gömlu lögunum. (JóhS: En ef kaupskyldan er fallin?) Það er ekki hróflað við því. Með þeim frestum sem eru í gildandi lögum er sveitarfélaginu skylt að innleysa íbúðina með þeim reglum sem gilt hafa. Hins vegar ef viðkomandi sveitarfélag eða viðkomandi vill losna við íbúðina og ekki nota kaupskylduna og sveitarfélagið gengur ekki eftir því að nota sinn forkaupsrétt, þá getur hann selt íbúðina á frjálsum markaði, borgað upp hið félagslega lán og fengið lán með nýjum kjörum. (JóhS: Og setið uppi með mismuninn á markaðsverði og áhvílandi lánum?) Setið uppi með? (JóhS: Setið uppi með mismuninn á markaðsverði íbúðarinnar og áhvílandi lánum.)

(Forseti (GÁS): Ekki samtöl.)

Nú á að vera samræmi á milli markaðsverðs og áhvílandi lána. (JóhS: Samræmi?) Annars er búið að yfirveðsetja. En allir þeir sem eru í gamla kerfinu halda réttindum sínum.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira. Ég vísa til þess sem ég sagði við 1. umr. málsins og ég held að ég sé búinn að svara þeim spurningum sem fyrir mig hafa verið lagðar. Ég hef útskýrt og leiðrétt, eftir því sem ég hef getað, missagnir sem hafa komið fram í umræðunum. Ég geri hins vegar ekkert ráð fyrir því að það haldi eða það hafi nokkra þýðingu því að ég á alveg von á því að hlusta áfram á sömu gömlu tugguna sem hér hefur verið tuggin um alllanga stund. (Gripið fram í: Er það ekki nema von.)