Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 12:34:18 (6608)

1998-05-15 12:34:18# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[12:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst málflutningur hæstv. ráðherra vera með algerum endemum. Í fyrsta lagi segir hæstv. ráðherra að ástæðan fyrir því að hann leggi í þessar miklu breytingar á kerfinu séu þær að nokkrir og svo endurtók hann sig reyndar og sagði allmargir hafi komið til sín í ráðuneytið og sagt reynslusögur sínar og borið sig illa. Dettur hæstv. ráðherra virkilega í hug að það sé dæmigert úrtak allra þeirra sem búa í öllu félagslegu íbúðarhúsnæði í landinu? Auðvitað koma til ráðherrans þeir sem eru af einhverjum ástæðum óánægðir með kerfið og eru að reka mál sín þar en hæstv. ráðherra heyrir ekkert frá hinum þúsundunum sem búa sæmilega sáttir við kerfið og fengu út á það húsnæði sem þeir hefðu ekki fengið ella.

Í öðru lagi stillir ráðherrann málum þannig upp að spurningin sé um að þröngva þessari breytingu í gegn svona, og núna eða ekkert. Þetta er fráleitur málflutningur. Fyrir liggur ríkur vilji að lagfæra kerfið en menn vilja ekki leggja það niður og þar greinir verkalýðshreyfinguna á við hæstv. ráðherra. Í þriðja lagi var áburður ráðherrans á verkalýðsforustuna með ólíkindum þegar hæstv. ráðherra sakaði verkalýðshreyfinguna um að vera í stjórnarandstöðu og í raun ganga flokkspólitískra erinda stjórnarandstöðunnar. Það var með endemum að heyra sjálfan vinnumarkaðsmálaráðherrann tala svona.