Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 12:36:18 (6610)

1998-05-15 12:36:18# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[12:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo vel til að ég er næstur á mælendaskrá og mun geta farið betur yfir þessi dæmalausu ummæli hæstv. félmrh. um verkalýðshreyfinguna sérstaklega, sem ég mun gera, varðandi það fólk sem er ánægt í kerfinu. Það getur búið þar áfram, segir ráðherrann og þar með er vandinn leystur. En það fólk sem hæstv. félmrh. er fyrst og fremst að svipta réttindum eru þær þúsundir sem hefðu á komandi árum fengið úrlausn sinna húsnæðismála í þessu kerfi en fá ekki út á það sem hér á að fara að gera. Það fólk mun ekki geta búið áfram ánægt í þessu kerfi en hæstv. ráðherra viðurkennir að hann hlaupi eftir nokkrum óánægjuröddum sem hafi komið inn í ráðuneyti til hans. Er þetta þá þannig að hægt sé að rægja niður eitthvert fyrirkomulag í þjóðfélaginu og senda nokkra óánægða menn á fund hæstv. ráðherra og þá rjúki hann upp til handa og fóta og beri fyrir borð hagsmuni þúsunda til að bregðast við kalli þessara gesta sinna? Er það nú málflutningur, herra forseti.