Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 12:42:24 (6616)

1998-05-15 12:42:24# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[12:42]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil lýsa undrun minni yfir því að hæstv. ráðherra vinnumarkaðsmála hefur lýst því yfir í ræðu sinni að verkalýðshreyfingin sé í stjórnarandstöðu. En af hverju er hún í stjórnarandstöðu? Jú, vegna þess að helstu forustumenn hreyfingarinnar eru ekki flokksbundnir framsóknarmenn eins og hæstv. ráðherrann. Mér finnst þetta alveg ótrúleg ummæli og þau sýna best skilningsleysi hæstv. ráðherra Páls Péturssonar á starfsemi og eðli verkalýðshreyfingarinnar sem er þverpólitísk hreyfing sem hefur áratugalanga hefð fyrir að starfa sem slík. Þetta sýnir best eigið viðhorf hans til þess hver máttur flokksskírteinisins er. Hæstv. ráðherra, Páll Pétursson, talar ekki við verkalýðshreyfinguna vegna þess að þar eru ekki í forustu genetískir framsóknarmenn eins og hæstv. ráðherra en það er greinilega eini lykillinn að hjarta hæstv. ráðherrans. Ég vil kannski spyrja ráðherrann í tilefni þessara orða hans: Mundi verkalýðshreyfingin hætta að vera í stjórnarandstöðu ef Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðsambands Íslands, gengi í Framsóknarflokkinn? Ég verð þó að lýsa yfir í leiðinni að það verður að teljast harla ólíklegt af svo skynsömum manni eins og Grétar Þorsteinsson er.