Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 17:00:10 (6624)

1998-05-15 17:00:10# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, RG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[17:00]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við erum stödd í miðri 2. umræðu um húsnæðisfrv. ríkisstjórnarinnar. Þetta frv. er hið fjórða í röðinni af þeim svokölluðu stóru frumvörpum sem ríkisstjórnin hefur sett á oddinn að afgreiða á þessu vori og að baki þessari fernu, eins og við segjum stundum, liggja yfir 40 frumvörp og bíða afgreiðslu. Við þessar kringumstæður finnst mér hollt að við ræðum örlítið vinnubrögð og samskipti.

Það er hollt að bera sig saman við önnur þjóðþing. Við gerum nokkuð af því í þessum sal en fyrst og fremst gerum við það þegar stjórnarliðum finnst að ástæða sé til að setja ofan í við stjórnarandstöðuna og benda henni á að svona eða hinsegin sé ekki gert í öðrum löndum. Við viljum vera fremst meðal þinga og þess vegna höfum við tekið upp ný og betri vinnubrögð á mörgum sviðum. Þess vegna er það þinghald sem ég tek þátt í í dag allt öðruvísi þinghald en ég tók þátt í fyrir níu árum þegar ég settist á þing og þá er ég ekki að vísa til þess að þá hafi þingið verið í tveimur málstofum, nei, ég er að vísa til vinnubragða og samskipta við stjórn þingsins.

Við höfum líka tekið upp nýjungar. Stjórnarandstaðan á þrjá formenn í nefndum. Í öðrum þingum á Norðurlöndunum hefur það gerst að víðtæk samvinna er milli stjórnar og stjórnarandstöðu um stjórn þingsins. Stjórnarandstæðingur getur verið 1. forseti þingsins í nágrannalöndunum og nýtur þar mikillar virðingar. Og það er ekki puntuembætti. Það er virðulegt stjórnunarembætti þingsins og forseti stjórnarandstöðu nýtur nákvæmlega sömu virðingar og þingmenn lúta þeim lögmálum sem sett eru í samskiptum stjórnar og þings að fullu þó forsetinn komi frá stjórnarandstöðu.

Í nágrannalöndunum eru formenn frá stjórnarandstöðu í nefndum þingsins og þess vegna höfum við, til viðbótar því að eiga varaforseta þingsins í einhverju mæli, fallist á að einn stjórnarandstæðingur úr hverjum flokki hefur tekið að sér formennsku í nefndum. Þetta er með þeim formerkjum að við viljum breyta þinginu okkar í takt við það sem gerist annars staðar og halda áfram að færa það inn í framtíðina í virðingu og reisn. Þetta þýðir af okkar hálfu að okkar formenn nefnda njóti sömu virðingar af hálfu þingmanna í viðkomandi nefnd eins og þar væri um formann úr stjórnarliðinu að ræða. Þegar þannig er haldið á málum í nágrannalöndunum þá þýðir það að það eru samningar milli stjórnar og stjórnarandstöðu um hvaða mál eru afgreidd úr nefnd og hvenær og hversu mörg mál á að taka fyrir á yfirstandandi þingi. Þegar mál er afgreitt úr nefnd þá er jafnvel ákveðið hversu langan tíma það mál skuli taka í umræðu, við 2. umr., hverjir tali og hversu lengi hver.

Formennirnir í okkar nefndum stýra fundum. Þeir gera það afbragðsvel. Þeir kalla fólk á fund nefndanna eftir óskum okkar og sjá um skipulag þingfunda. En svo gerist eitt hjá okkur sem ég fullyrði að gerist ekki í öðrum þjóðþingum. Þegar meiri hlutinn telur að nú sé nóg rætt og nóg skoðað í nefndinni þá tekur hann fram fyrir hönd formanns frá minni hlutanum og afgreiðir málið út úr nefnd. Þarna byrjum við að hegða okkur öðruvísi heldur en önnur þjóðþing.

Þannig gerðist það að sveitarstjórnarfrv. umdeilt sem við höfum rætt í heila viku við 2. umr., var rifið út fyrir páska í ágreiningi og nú, á milli 2. og 3. umr., höfum við þingmenn í félmn. setið þrjá fundi félmn. til að fara yfir þá þætti sem enn voru óræddir í nefnd og átti að sjálfsögðu að ljúka umræðu um áður en málið væri afgreitt úr nefndinni. Meðal þess sem við höfum rætt þar er álit allshn. sem átti að liggja fyrir áður en málið væri afgreitt frá nefnd. Og enn er verið að skoða orðalag á greinum og brtt. sem að sjálfsögðu er mál meiri hlutans miðað við afgreiðslu okkar hér við 2. umr. þegar við höfum ákveðið að sitja hjá um þetta stóra og þýðingarmikla frv. vegna vinnubragða.

Í öðrum þjóðþingum er líka starfsáætlun eins og hjá okkur. Þar segir hvenær þing hefjist að hausti. Þar segir líka hvenær þingi ljúki að vori. Mál þingsins eru skipulögð þannig og miðað við ákveðið vinnuálag og ákveðið er hvenær mál komi fyrir, hvenær umfjöllun um þau ljúki úr nefndum og, eins og ég sagði áðan, þegar það kemur úr nefnd hversu langan tíma það taki, hversu margir tali og hversu lengi.

Herra forseti. Ég þori að fullyrða að í öðrum þingum kæmu ekki 40 stjórnarfrv. inn í þingið um það leyti sem störfum þingnefnda á að ljúka samkvæmt starfsáætlun, a.m.k. ekki með því veganesti að það eigi að ljúka lagasetningu um þau frumvörp líka fyrir starfslok ásamt öllu því sem þingmenn hafa unnið með að vetrinum.

Þess vegna gerist það, herra forseti, að ef stjórnarliðar á þingi eins og okkar rífa öll frumvörpin úr nefndunum, mismunandi vel rædd, bæði þau sem fyrir eru og þau 40 sem bæst hafa við ásamt þeim stóru fjóru sem ég hef hér nefnt, þá er eini möguleiki stjórnarandstöðu í þingi eins og okkar öflugur málflutningur, öflugur málflutningur til að koma því til skila til stjórnarliðanna hvað felist í þessum málum og til að koma því til skila til þjóðarinnar hvaða stórar ákvarðanir er verið að taka hér innan um ýmis smærri mál.

En við skulum líka á sama tíma vera þess mjög meðvituð og halda því vel til haga að í lok umræðu fer fram atkvæðagreiðsla þar sem valdið er meiri hlutans.

Í öðrum þjóðþingum er starfsáætlun og þingið hefst á ákveðnum degi og þinginu lýkur á ákveðnum degi í fullri sátt milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Í fullri sátt hefur það verið ákveðið í nefndum þingsins hvaða frumvörp skuli afgreidd og hvernig og í fullri sátt eru þau tekin fyrir á þingfundi eins og þar segir.

Í þingi eins og okkar heldur starfsáætlun ekki. Fyrst ákveða menn að ef stjórnarandstaðan verði góð og taki bara öll málin í gegn án þess að tala þá megi jafnvel hætta þinginu 22. apríl. Þegar það gengur ekki er ákveðið um sinn að láta starfsáætlun standa. Þegar það gengur ekki í þingi eins og okkar þá er starfsáætlunin sett til hliðar og lokum þingsins, Alþingis Íslendinga, er frestað viku eftir viku, frá degi til dags, í þingi eins og okkar.

Virðulegi forseti. Þannig er það og þess vegna, þegar við berum okkur saman við önnur þjóðþing nágrannalandanna, Norðurlöndin sem við eigum svo mikil samskipti við, þá skulum við halda því til haga frá öllum hliðum hvað er öðruvísi hjá viðkomandi stjórn í viðkomandi þingi og hvaða tæki stjórnarandstaða hefur í öðrum þjóðþingum.

Virðulegi forseti. Þessi litli pistill var inngangur minn að því að fjalla um fjórða stóra málið sem hefur verið til umræðu hér á hæstv. Alþingi og sem skiptir þjóðina svo miklu máli. Við erum búin að ræða sveitarstjórnarlög sem er biblía sveitarstjórnarmanna og innanborðs þar eru þessar litlu greinar sem ráða svo miklu um afstöðu fólks til miðhálendisins. Við erum búin að ræða um auðlindir í jörðu sem nú á að færa á fárra hendur en eiga ekki að vera almenningseign og er það hið nýja kvótakerfi þessara tveggja flokka, Framsfl. og Sjálfstfl. sem ávallt í samstarfi sínu færa bæði völd og auðlindir af höndum þeirra sem eiga þær yfir á hendur fárra. Við erum búin að ræða frv. um þjóðlendur sem er eina frv. af þessum fjórum sem nokkur sátt er um og er afgreitt í sátt með fáeinar brtt. Það frv. hefði við venjulegar aðstæður staðið upp úr á þessu þingi. Afgreiðsla þess hefði verið til sóma, ekki bara fyrir Alþingi heldur líka forsrh. sem lagði það fram.

En við ætlum að ræða hér frv. um húsnæðismál sem ríkisstjórnin leggur svo mikið kapp á að ná fram og afgreiða á þessu vori. Hvað felst í því? Það er sitt af hverju eins og hér hefur komið fram og sem þingmenn hafa lagt mikla áherslu á í löngu máli.

Það er svolítið sérstök pólitík í þessu máli fyrir utan breytingarnar á húsnæðislöggjöfinni sjálfri og hún er að leggja á Húsnæðisstofnun niður. Það á að leggja Húsnæðisstofnun niður, þessa stofnun sem hefur gegnt svo veigamiklu hlutverki um áratuga skeið og það á að stofna nýja. Hún á að heita Íbúðalánasjóður. Við höfum spurt: Hvers vegna? Hefði ekki verið hægt að koma þessari nýju húsnæðislöggjöf fyrir í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins? Af hverju þarf að leggja Húsnæðisstofnun ríkisins niður og stofna nýja stofnun sem heitir Íbúðalánasjóður og til hvers er það gert?

Við þessari áleitnu spurningu hafa ekki fengist svör. Það er í sjálfu sér ekkert einkennilegt vegna þess að þetta er flokkspólitík. Það er flokkspólitík að mínu mati af hálfu Framsfl. að leggja niður þessa merkilegu stofnun, opna nýja og raða þangað inn fólki því það hefur líka komið fram að enginn vilji er til þess að vera með nokkur ákvæði í þessum lögum um að því starfsfólki sem í dag vinnur hjá Húsnæðisstofnun ríkisins séu tryggð sambærileg störf við hina nýju stofnun.

Innan veggja Húsnæðisstofnunar ríkisins hefur farið fram öflug starfsemi og á vegum hennar hefur átt sér stað, í samvinnu við sveitarfélögin í landinu og verkalýðshreyfinguna, áratuga uppbygging félagslega húsnæðiskerfisins. Sú áratuga uppbygging er nú á enda. Það er líka flokkspólitík. Áratuga uppbygging félagslega húsnæðiskerfisins á Íslandi er á enda. Þetta kerfi, sem nú telur rúmlega 11 þús. íbúðir og hefur verið einhver stærsti þáttur velferðarkerfisins okkar, er á enda.

[17:15]

Félagslega húsnæðiskerfið hefur verið hluti þess umhverfis sem skapar öryggi láglaunafólks. Þetta kerfi ásamt almannatryggingakerfinu hefur tryggt að enginn verði undir í lífsbaráttunni sökum alvarlegra veikinda, sökum fötlunar, sökum aldurs, ásamt félagsþjónustu sveitarfélaga sem voru öflug rammalög sem tóku við gömlum, úreltum lögum um framfærsluskyldu sveitarfélaga, þar sem fylgdi sveitfestið gamla þegar hægt var að senda fólk hreppaflutningum heim til byggðarlagsins þar sem það hafði búið ef erfiðleikar, sjúkdómar eða annað brast á í fjölskyldunni.

Þessi lög sem ég hef nefnt hér hafa verið stóru og sterku þættirnir í velferðarkerfinu og nú á að fella einn þennan þátt út úr þessu öfluga öryggisneti sem ég hef getið um.

Í þessum sal erum við alltaf að tala um stóru málin, um atvinnumálin, um heilbrigðismálin og um fjárhagslega afkomu fólks. Þetta sem ég nefni er það sem allir vilja þegar þeir eru ungir. Þegar fólk er ungt spyr það sjálft sig: Hvað ætla ég að verða þegar ég verð stór? Hvernig atvinnu vil ég stunda? Ungt fólk sem er heilbrigt á líkama og sál tekur því sem sjálfsögðum hlut að heilsan sé eitthvað sem það eigi rétt á áfram. Og svo það að vera sjálfstæður, ekki sjálfstæðismaður þó ég telji að sá flokkur hafi kannski svolítið notið nafnsins, heldur að vera sjálfstæður, sjálfstæður einstaklingur, engum háður, partur af þeirri heild sem öflugt samfélag er, samfélag þar sem velferðarkerfið er haft að leiðarljósi. Þetta allt: Að vera heilbrigður, að vera sjálfstæður, stunda atvinnuna sem mann dreymdi um og að komast af fjárhagslega er það sem allir vilja og það sem allir ætla sér þegar þeir eru ungir.

En þá er lífið svo sérkennilegt að það er ekki öllum leikur og tækifærin eru ekki endilega jöfn þó við óskum að þannig sé það. Sumir búa þess vegna við lágar tekjur, við bága heilsu, við ekki nógu góða fjárhagslega afkomu og þá gerist það að sjálfstæðið, þessi sterka tilfinning í brjóstinu, að standa fyrir sínu og sínum, fer að guggna. Maður er nefnilega ekki sjálfstæður ef atvinnan er ekki örugg, ef heilsan er bág og fjárhagslega afkoman ekki eins og hún átti að vera. Og ef það hefur orðið upplausn á heimilunum, veikindi hafa sótt að, örkuml fyrirvinnunnar eða foreldranna eða áföll af öðru tagi þá gerist það að einstaklingurinn, sem ætlaði sér svo stóra hluti og vera engum háður og gera allt sjálfur eins og allir gera, á ekki möguleika á því. Og það er einmitt þá, þegar fólk býr við lágar tekjur, afkoman verður öðruvísi en draumurinn var, skilnaður og upplausn heimila hefur dunið yfir eða veikindi foreldra og framfærenda, að eini kosturinn til að tryggja fjölskyldunni öryggi og húsaskjól er oft sá að komast inn í félagslega íbúð.

Það hefur verið reisn yfir því að geta, þrátt fyrir lágar tekjur, fengið góða fyrirgreiðslu lána á lágum vöxtum með lítilli eða jafnvel engri útborgun þegar svo hefur borið undir, skapað sér heimili til framtíðar og sagt við börnin sín: Þetta er heimilið okkar. Þetta er íbúðin okkar. Hér verðum við og héðan förum við ekki nema við kjósum svo.

Það er þetta kerfi, þessi þáttur í öryggisneti velferðarkerfisins okkar, sem ríkisstjórnin er að leggja af. Þetta frv. er í raun og veru viðbót við nokkur önnur frá sama ráðherra sem öll eiga það sameiginlegt að draga úr réttindum launafólks og þegar dregið er úr réttindum launafólks þá er verið að veikja réttarstöðu fjölskyldunnar. Ég nefni vinnulöggjöfina eða lögin sem heita stéttarfélög og vinnudeilur. Það var 1. maí gjöfin árið 1996. Ég nefni lög um Atvinnuleysistryggingasjóð sem reyndar tókst með mikilli hörku og ábyrgð stjórnarandstöðunnar að afstýra að færu óbreytt í gegn. Það tókst að koma á þeim veigamiklu breytingum að þau eru þannig að hægt er að búa við þau. Reyndar minnist ég þess og hlýt að geta þess að í þeim hóp frv. sem bíða hér afgreiðslu eru einmitt breytingar á Atvinnuleysistryggingasjóðnum þar sem verið er að færa til baka nokkur ákvæði sem félmrh. vildi ekki hlusta á vorið 1997. En breytingin á Atvinnuleysistryggingasjóðnum var einmitt vorið 1997 þannig að það var það sem menn stóðu frammi fyrir þegar þeir ræddu stöðu launþega 1. maí 1997, þ.e. hvort það hefði tekist nægilega að afstýra slysi með breytingum á Atvinnuleysistryggingasjóðnum. Nýverið höfum við verið með sjö daga umræðu um sveitarstjórnarlögin og miðhálendið og í tengslum við 1. maí blasti við afgreiðsla á félagslega húsnæðiskerfinu sem á að loka og það var líka 1. maí efni þessa árs.

Þetta er saga félmrh., sveitarstjórnarráðherrans, vinnumálaráðherrans í hnotskurn. Svona eru sendingarnar til launafólks og fjölskyldnanna í landinu og oft er sérstök áhersla lögð á að þessi mál séu um það bil að verða að lögum í kringum 1. maí. Reyndar er það, herra forseti, umhugsunarefni hver stjórnunarstíll þessarar ríkisstjórnar er. Hvert átakamálið á fætur öðru er lagt fram og þegar stjórnarandstaðan leggur til að reynt verði að ná sátt um vinnuna við þessi frumvörp og afgreiðsluna á þessum frv. og að einhver þeirra verði látin bíða vegna þess hversu stór þau eru og hversu umdeild þau eru, þá er aldrei hlustað á þau sjónarmið. Herra forseti. Það er líka, eins og ég sagði áðan, eitt af því sem er öðruvísi á Alþingi Íslendinga en í öðrum þjóðþingum. Við höfum verið með harða gagnrýni, réttmæta gagnrýni. Við höfum verið með ósk um fresti, en engu er sinnt. Þó eigin flokksmenn bendi á það að lögfesting sumra þessara frv. sé slys, slysaspor, þá skiptir það engu máli.

Ef til vill er þetta vegna þess að menn treysta á stöðu samkvæmt skoðanakönnunum og telja þá stöðu og veldi sitt ófallvalt. En slík staða getur breyst á einni nóttu, ekki síst þegar þjóðinni er ögrað æ ofan í æ.

Virðulagi forseti. Af hverju á að loka þessu kerfi? Ég ætla að koma að því síðar en staldra aðeins við Húsnæðisstofnun ríkisins sem ég hóf mál mitt á. Hún verður lögð niður og hin nýja stofnun sem tekur við verður í grundvallaratriðum öðruvísi vegna þess að hún á að byggja á lögmálum markaðarins. Húsnæðisstofnun ríkisins hefur verið með fyrirgreiðslu til allra fjölskyldna í landinu, ýmist með húsbréfum sem lúta lögmálum markaðarins og félagslegum lánum sem lúta allt annarri hugsun, en nýja stofnunin á eingöngu að lúta lögmálum markaðarins. Og þegar við spyrjum: Af hverju ekki að breyta lögunum en halda okkur við stofnunina og halda reynslu og þekkingu sem er finna innan Húsnæðisstofnunar ríkisins til bjarga því sem bjargað verður við svo mikla grundvallarbreytingu eins og hér fer fram? --- þá eru engin svör. Og þá vaknar sú tilfinning að ein hlið þessarar breytingar sé að losa sig við starfsfólk, að það sé mikilvægara en að nýta sér reynslu og þekkingu. Og e.t.v. er það markmið að ráða nýja gæðinga í stjórnunarstörfin. Að minnsta kosti er það ljóst að starfsfólk Húsnæðisstofnunar ríkisins er í mikilli óvissu um þessar mundir. Það hefur reyndar fengið loforð um að það sitji við sama borð og starfsfólk þeirra stofnana sem breytt hefur verið á liðnum missirum. En það loforð hélt ekki. Ég nefni sérstaklega lög um Örnefnastofnun vegna þess að þar var sett alveg sérstakt ákvæði inn í ákvæði til bráðabirgða. Það er eðlilegt að benda á Örnefnastofnun vegna þess að sú stofnun er hefðbundin ríkisstofnun og breytingin og lagabreytingin varðandi hana er ekki eins og hjá sumum öðrum stofnunum, þ.e. að hún sé byggð á því að verið sé að gera stofnunina að hlutafélagi. Í ákvæði til bráðabirgða við lagasetninguna um Örnefnastofnun var sett inn, herra forseti, eftirfarandi ákvæði:

,,Þeim starfsmönnum Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns, er starfa þar við gildistöku laga þessara í heimiluðum stöðugildum, skal gefinn kostur á sambærilegum störfum við Örnefnastofnun Íslands.``

Þetta eru vinnubrögð eins og við viljum sjá. Þetta eru vinnubrögð og virðing gagnvart starfsmönnum sem við teljum eðlileg og sjálfsögð, ekki síst gagnvart þeim starfsmönnum sem hafa lagt sitt af mörkum til að byggja upp þessa öflugu stofnun. Við í félmn. höfum auðvitað fengið umsagnir frá Húsnæðisstofnun og starfsmenn og fulltrúa starfsmannafélagsins á okkar fund. Þau hafa lagt höfuðáherslu á þetta. Þegar fulltrúar starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins komu á fund félmn. lögðu þeir einmitt áherslu á það að í nýju frv. yrði kveðið skýrt á um stöðu starfsmannanna. Það eru 49 starfsmenn í færri stöðugildum og reyndar hafa þegar nokkrir sagt upp. Það hefur verið hreyfing í þessari stofnun þannig að það hefði verið hægur leikur að tryggja starfsfólki sambærileg störf, a.m.k. í þeim stöðugildum sem eru til ráðstöfunar.

Á fundi með fulltrúum starfsmanna kom fram að á fundi með félmrh. og formanni stéttarfélaga starfsfólks var leitað eftir þessu en þá var svarið að starfsmenn mundu njóta þess sama og gert hefur verið í öðrum stofnunum. Eðlilega leit starfsfólkið svo á að þar með yrði slíkt tryggt í bráðabirgaákvæði í lögunum eins og hefur verið gert varðandi aðrar stofnanir. Aðstoðarmaður ráðherra kom á fund starfsmannanna og sagði að það yrði auðsótt mál að tryggja stöðu starfsmannanna.

[17:30]

Þó var það svo, þegar við leituðum eftir því á síðasta fundi í félmn. að frv. yrði ekki tekið út úr nefndinni öðruvísi en að leitað yrði eftir því við ráðherrann hvort ekki mætti setja ákvæði inn í frv. um að starfsfólki yrðu tryggð sambærileg störf að því marki sem stöðugildi hinnar nýju stofnunar gerðu kleift, að svarið var að ekkert slíkt ákvæði yrði sett í þessi lög. Þetta er mikið umhugsunarefni, virðulegi forseti, að við skulum í þeim tilfellum sem stofnunum hefur verið breytt í hlutafélag, í þeim tilfellum sem stofnun hefur verið breytt eins og Örnefnastofnun, hafa tryggt stöðu starfsmannanna í lögum, en hér í húsnæðisfrv. eigi ekkert að gera sem létti starfsfólkinu óvissuna og geri þeim ljóst hvort það á möguleika á starfi hjá þessari nýju stofnun eða ekki. Ráðherrann féllst ekki á að setja orð um þessa stöðu í lögin.

Þegar við ræddum við starfsfólk Húsnæðisstofnunar ríkisins þá bar auðvitað á undrun á því að stofnunin væri lögð niður. Af hverju væri ekki lögum innan stofnunarinnar breytt? Það var bent á að fagþekking mundi vissulega glatast.

Virðulegi forseti. Í Húsnæðisstofnun ríkisins starfar nokkuð af eldri konum sem þar hafa lengi starfað. Flestir vita að það er erfiðara fyrir konur á miðjum aldri að leita að störfum, heldur en fyrir nokkurn annan. Þessar eldri konur, sem dyggilega hafa starfað hjá sinni stofnun, vita ekkert um stöðu sína í nýju kerfi. Að sjálfsögðu hljótum við að líta svo á að þannig hafi menn viljað að óróleikinn sem skapaðist yrði til þess að starfsfólkið mundi leita að nýju starfi, hverfa á braut og helst vera farið um það bil sem hinn nýi sjóður tekur við verkefnum sem þessi lög ætlast til.

Í vangaveltum um ástæður þess að breyta eigi bæði Húsnæðisstofnuninni og lögunum í stað þess að gera þær breytingar sem allir hefðu verið tilbúnir að skoða á kerfinu eins og það er í dag, þá hefur verið bent á fjárhag sjóðanna m.a. Það kom vel fram, í vinnu okkar í félmn., að Byggingarsjóður ríkisins mun ná fullum bata um aldamót og ástæðan fyrir því að Byggingarsjóður verkamanna stendur illa er að hann hefur verið sveltur og hefur ekki fengið þau ríkisframlög sem honum voru ætluð og áttu að fylgja hverju einasta verkefni sem honum var ætlað að sinna. Ríkisframlögin hafa alltaf verið lægri en það sem áformað var að Byggingarsjóður verkamanna sinnti.

Hið nýja lánakerfi, herra forseti, er nokkuð sérstakt og deila má um hvers vegna það er tekið upp. Það sem blasir við núna, eftir umfjöllun um frv. og ekki síst eftir meiri hlutinn hefur ákveðið hvaða brtt. hann setur fram, er að nýja lánakerfið er húsbréf upp á 65--70% og viðbótarlán upp á 20--25% og á öllu heildarláninu verða markaðsvextir. Í upphaflegu grein frv. stóð að á viðbótarláninu yrðu breytilegir vextir. Sú lagagrein gaf vísbendingu um að e.t.v. yrðu að einhverju leyti niðurgreiddir vextir á viðbótarlánunum. Í umræðunni við 1. umr. málsins var það gefið fyllilega til kynna að skoðað yrði hverjir vextirnir yrðu á viðbótarláninu. Viðbótarlánið var það sem átti að gera þetta nýja húsnæðiskerfi félagslegt.

Núna er það eina félagslega það að þeir sem eru að sækja um þetta lán geta fengið 90% lán. Hið eina félagslega er að á einum og sama staðnum er hægt að fá 90% lán, vel að merkja, ef fólk stenst greiðslumat sem eftir á að setja.

Það er svo merkilegt að mjög margir komu á fund félmn. út af þessu máli. Miklar umsagnir sem bárust félmn. út af þessu máli. Viðauki sá, við nál. félmn., sem liggur á borðum þingmanna er ekki allar umsagnirnar heldur einungis hluti þeirra, sá hluti sem minni hlutinn taldi brýnt að kæmi fyrir augu þingmanna. Það var sáralítið tillit tekið til þessara umsagna og sáralítið tillit tekið til ábendinga allra þeirra sem komu á fund nefndarinnar.

Í einu tilfelli var tekið fullt tillit til ábendinga. Það var brugðist við ábendingu frá Seðlabanka Íslands. Þannig var að bæði í umsögn Seðlabankans og í orðum fulltrúa Seðlabankans, sem kom á okkar fund, kom fram að að mati Seðlabankans væri þetta frv. til bóta. Einnig var talið til mikilla bóta að flytja stuðning yfir í skattakerfið að mati Seðlabanka Íslands. Þær athugasemdir sem Seðlabanki Íslands var með voru að ekki ættu að vera breytilegir vextir á viðbótarláninu af því að Íbúðalánasjóður ætti að verða sjálfstæð stofnun og óháð eins og banki. Þess vegna yrði Íbúðalánasjóður að vera með útlán á sömu vöxtum og væru á þeim lánum sem hann tæki. Ef Íbúðalánasjóður þarf að taka lán með 5% vöxtum til að fjármagna útlán sín þá á Íbúðalánasjóður ekki að lána nein lán á undir 5% vöxtum.

Þetta er afar einfalt peningadæmi hjá Seðlabanka Íslands. Ef þú tekur lán með 6% vöxtum til að fjármagna útlán þá átt þú ekki að lána á undir 6% vöxtum. Fulltrúi Seðlabanka Íslands benti á eitt, og sagði það bara hispurslaust. Hann sagði: Það eru stjórnmálaleg vandkvæði að erfitt er að hreyfa félagslega vexti. Það eru stjórnmálaleg vandkvæði og erfitt að hreyfa félagslega vexti. Þess vegna er miklu betra að hafa þá eins og aðra vexti og hafa síðan vaxtabætur.

Í máli fulltrúa Seðlabankans kom það fram að þó halli væri á Byggingarsjóði verkamanna þá stæðist hann á móti Byggingarsjóði ríkisins, þannig að hinn nýi sjóður væri í góðri stöðu. Þarna væri áhættugrunnur kannski 90 milljarðar. 200 milljarðar væru í útlánum, 20 milljarðar hjá sveitarfélögunum, þar sem áhættan væri lág, og 180 milljarðar í lánum til einstaklinga. Þetta þýddi að hið fræga BIS væri nálægt 20% og það væri góð staða. Það er mjög mikilvægt að láta það koma fram hér, þegar svo oft er talað um bága stöðu Byggingarsjóðs verkamanna og m.a. vegna þess sé nauðsynlegt að gera miklar breytingar á kerfinu. Ég minni á það, herra forseti, að það kom mjög vel fram við 1. umr. málsins að það var ekki mikil andstaða gegn því að sameina Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna, þar sem verkefnum Byggingarsjóðs ríkisins er að mestu lokið, miðað við lagabreytingar síðari ára, og það hefði verið full ástæða til að skoða það að sameina þessa sjóði til þess að veita áfram öflug félagsleg lán. Hér kom það skýrt fram að þessi nýi sjóður, með Byggingarsjóð ríkisins innanborðs og Byggingarsjóð verkamanna, þó halli væri á honum, væri með BIS nálægt 20% sem teldist góð staða.

Ef það yrði hins vegar ekki vaxtahækkun í Byggingarsjóði verkamanna þá gæti staðan farið úr 18 milljörðum niður í 12 milljarða og þá færi að versna í því. Þess vegna var lögð höfuðáhersla á það að sjóðurinn mundi ekki lána með niðurgreiddum vöxtum, heldur lána á markaðsvöxtum og vaxtabæturnar hafðar á móti.

Við þetta, virðulegi forseti, til viðbótar við annað í frv. og brtt. aðrar sem ég á eftir að koma inn á, er allt félagslegt farið út úr þessu kerfi. Það eina félagslega er að fólk getur fengið 90% lán, svo fremi að það standist greiðslumat. Hins vegar er það svo merkilegt að það greiðslumat sem fólkið á að standast er óþekkt. Í dag, þegar fara á að afgreiða frv. á næstu dögum, veit enginn hvort greiðslumatið veðrur miðað við 18% eða hvort það verði miðað við 28%. Nei, það veit enginn. Stjórn hins nýja Íbúðalánasjóðs, stjórn hinnar nýju stofnunar, á líka að ákveða hver mörk greiðslumatsins verði.

Við höfum bent á það, það er hárrétt hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hvað gerðist ef viðmiðin í greiðslumati væru of há. Við höfum fært fyrir því rök hversu margir muni falla utan við kerfið, til viðbótar við alla þá sem ekki eiga möguleika á að komast inn í eigin íbúð vegna þess að nú eiga allir að eiga 10% og enginn möguleiki lengur að fá 100% lán --- nema ef sveitarfélögin taka upp á því að lána 10% sín til einhvers lengri tíma og leyfa fólki þannig hægt og sígandi að eignast 10% hlut. Það er auðvitað allt annar hlutur. Þess vegna munu hundruð fjölskyldna falla utan við þetta kerfi. Þeim er vísað til sveitarfélaganna. Þetta eru ekki sleggjudómar vegna þess að þetta hefur skýrt komið fram í umsögnum húsnæðisnefndanna. Ég mun hér síðar vísa í umsagnir húsnæðisnefndanna og sérstaklega kom þetta vel fram í skýrri framsetningu húsnæðisnefndar Kópavogs.

Fleira er afskaplega undarlegt í þessu máli. Við höfum upplifað það á liðnum árum að þegar ríkisstjórnir setja starfshópa til að vinna frv., þá er óskað eftir fulltrúum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Og þegar frv. koma til umfjöllunar í nefndum þingsins þá eru þessi frv. m.a. send til Sambands ísl. sveitarfélaga. Í æ ríkari mæli hefur nákvæmlega sama fólkið sest í starfshópana hjá ráðuneytunum. Það tekur þátt í að smíða frv. og þar með stimpla viðkomandi frv. fyrir viðkomandi ráðherra. Sama fólkið sem kemur síðan á fund nefnda þingsins og lýsir yfir að þetta sé hið besta mál.

Það er umhugsunarefni, af því að mér finnst Samband sveitarfélaga svo mikilvægt fyrir sveitarstjórnarstigið í landinu, að í dag virðist einhver fámennishópur stjórna því, hvaða mál fá náð hjá sambandinu og hver ekki. Þar virðast sömu einstaklingarnir hafa ráðin. Þetta þurfum við líka að skoða ekki síst þegar við komum að umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

[17:45]

Þess vegna gerist það líka að þegar farið er yfir stór mál á einhverjum stærri fundum hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga eru það þeir einstkalingar sem hafa átt mjög ríkan þátt í að smíða viðkomandi frv. sem fara yfir málið frá sínum sjónarhóli og leggja eflaust mikla áherslu á að vera sannfærandi við þann hóp sem er mættur til leiks um það að þetta sé gott frv. Þannig gerðist það að fulltrúaráð Sambands sveitarfélaga á Egilsstöðum lýsti yfir stuðningi við það frv. sem við ræðum hér, felldi að vísu út að leggja áherslu á að frv. yrði afgreitt á þessu þingi vegna þess að eitthvað náði það í gegn að kannski væri viturlegt að skoða það ögn betur. En það gerði það að verkum að þegar við fengum umsagnir frá sveitarfélögum, sem við óskuðum eftir að fjölluðu um frv., var mjög algengt að frá sveitarstjórnunum sjálfum kæmi umsögn á þá leið að sveitarstjórnin hefði ekkert við frv. að athuga en hún vísaði til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga.

Ekkert skrýtið því að þeirra mati var það fagaðilinn sem þau mundu styðja sig við. En í þessu máli vísuðum við húsnæðisfrv. líka til umsagnar húsnæðisnefnda sveitarfélaganna þar sem fagþekkingin er. Til þeirra sem vinna með fólkið sem er að bíða eftir íbúðum. Til fólksins sem þekkir kerfið út og inn sem viðgengst í dag, galla þess og kosti og sem gerir sér mjög vel grein fyrir hvað það þýðir að breyta um kerfi og hefur til þess öll tæki að skoða hvernig nýtt kerfi virkar fyrir hópana sem þeir eru að vinna fyrir.

Þá kemur í ljós að húsnæðisnefndir sömu sveitarfélaga hafa gífurlega mikið við málið að athuga. Fram kemur í umsögnunum að allrar húsnæðisnefndirnar í stóru sveitarfélögunum á Íslandi hafa mörg varnaðarorð um málið. Í sumum tilfellunum hefur sveitarstjórn viðkomandi húsnæðisnefndar sagt ,,vísum til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga.`` Það hlýtur að vera okkur öllum umhugsunarefni af hverju beiðni um umsögn er ekki sjálfkrafa vísað úr bæjarráðunum til þeirra sem hafa gersta þekkingu, nefnilega húsnæðisnefndanna sem eru skipaðar af fulltrúum þeirra flokka sem stjórna í bæjarfélögunum. Það er mikið umhugsunarefni.

En fyrir okkur var fróðlegt að sjá hversu húsnæðisnefndirnar tóku málið alvarlega og hversu gjörla þær áttuðu sig á breytingunum sem þetta hefði í för með sér og hvað það hefði að segja fyrir hópana sem eru á biðlistum hjá þeim og ég mun koma að því síðar.

Ég spurði áðan af hverju félagslega íbúðakerfið væri lagt af. Af hverju er Húsnæðisstofnun lokað og ný stofnun, Íbúðalánasjóður, látinn taka við þessum veigamikla þætti í félagslega öryggisnetinu sem núna er rifinn upp með rótum? Ástæðan hefur oft verið tíunduð af hæstv. félmrh. Það sem hann leggur mikla áherslu á er vandi sveitarfélaganna, vandi sveitarfélaganna sem séu sum hver að sligast undan félagslega kerfinu, undan íbúðum sem standi auðar, undan íbúðum sem seljast ekki, undan íbúðum sem þarf að innleysa.

Þessi vandi er af tvennum toga. Í sumum tilfellum er hann af fólksfækkun. Þá er hægt að ræða það mjög ítarlega hvort það hafi verið fyrirsjáanlegt á einhverjum tíma að fólksfækkun yrði í viðkomandi sveitarfélagi og menn flotið að feigðarósi eða hvort það var alls ekki fyrirsjáanlegt og það hafi verið eðlileg uppbygging sem átti sér stað miðað við ríkjandi aðstæður í sveitarfélaginu. En í öðru lagi er um að ræða ógætni og það er vægt til orða tekið.

Ég ætla að rifja upp hér, úr ræðustól Alþingis, hvernig það var að vera formaður í Húsnæðisstofnun ríkisins, fullur af ákefð eftir að gera vel þegar ný lög voru sett af Alþingi um kaupleiguíbúðir. Nú skyldi skoða málin ítarlega og nota þennan nýja kost til uppbyggingar. Í fyrsta sinn var leitað eftir samvinnu við Byggðastofnun í tengslum við húsnæðislán. Kallað var eftir skoðun á því hvar væri vaxtarbroddur í sveitarfélögum og hvort úthlutun kaupleiguíbúða sem gat verið geysilega fínn kostur ef fólk vildi koma í byggðarlag þar sem næg atvinna var og kanna hvort að þarna væri staður sem það kysi að búa á án þess að þurfa að vera í ótryggu leiguhúsnæði eða fara að kaupa húsnæði án þess að vita hvert stefndi.

Það var líka merkilegt að upplifa hvernig á sama tíma og beðið var um heimildir til að úthluta fólki sem væri með tekjur yfir tekjumörkum, af því aðrir væru ekki fyrir hendi, lágu fyrir umsóknir frá sömu sveitarfélögum um að fá fleiri íbúðir til úthlutunar. Það var merkilegt að gera sér grein fyrir hvernig sum sveitarfélög ákváðu opinskátt að það að byggja upp félagslegar íbúðir væri hluti af að viðhalda byggingariðnaði í sveitarfélagi og hvernig sums staðar var hreinlega gert út á félagslega kerfið. Það átti ekki að verða hlutverk Byggingarsjóðs verkamanna að vera atvinnuskapandi nema að sjálfsögðu þegar það færi saman með því að það væri þörf fyrir íbúðir.

Sum sveitarfélög sýndu mikla ásókn í úthlutun. Það sem er sárt í umræðunni í dag er að sum þeirra eru þau sömu og kveina nú og kenna öðrum um, kenna félagslega kerfinu um stöðuna.

Á að kenna þessu félagslega kerfi og Byggingarsjóði verkamanna um? Ég segi nei. Ég segi nei, alls ekki. En ég viðurkenni hins vegar að vandinn, hvernig svo sem hann varð til er til staðar og þann vanda verður að leysa. Margar hugmyndir hafa komið fram um hvernig á að leysa hann en það er fráleitt að sá vandi sé leystur með því að leggja kerfið af.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir hversu Byggingarsjóður verkamanna og félagslegar íbúðir eru stór hluti velferðarkerfis okkar og okkar félagslega öryggisnets. Margir hafa í þessari umræðu lagt áherslu á það hvað það voru merkileg lög sem voru sett 1929 um byggingu félagslegs húsnæðis og hversu dýrmæt þau lög voru fyrir fátækt fólk og láglaunafólk sem kúrði í kjöllurum og seinna meir í bröggum, og ég ætla ekkert að endurtaka það. Ég ætla bara að taka undir hversu þessi kostur, félagslegar íbúðabyggingar, hafa haft mikil áhrif á kjör fjölskyldna og möguleikann á að eiga þak yfir höfuðið. Þetta var eitt af baráttumálum Alþfl. og baráttumálum verkalýðshreyfingar og á þeim tíma var það sameiginlegt afl sem lagði mikið á vogarskálarnar til að ná fram öflugu velferðarkerfi. Þess vegna breyttu þessi lög lífi tuga fjölskyldna eins og segir í nál. okkar.

Á þeim tíma sem liðinn er höfum við náð því að vera með 10.600 íbúðir í félagslega húsnæðiskerfinu. Á tímabili í stjórn Sjálfstfl. og Alþfl. var hvergi hvikað frá því viðmiði að byggja í kringum 500 félagslegar íbúðir á ári. Samstaða var um það í þessari ríkisstjórn. Það var samstaða um það í ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. að leggja áherslu á að geta byggt u.þ.b. 500 íbúðir á ári.

Það voru mjög erfiðir tímar hjá þjóðinni, mikið atvinnuleysi og það var aflabrestur og það voru því skrambi erfiðir tímar í ríkisstjórninni. Það var samdráttur og það þurfti að draga saman seglin alls staðar. En það voru þættir sem sú ríkisstjórn stóð vörð um. Hún stóð vörð um félagslegar íbúðabyggingar og hún stóð vörð um málaflokk fatlaðra. Ég upplifði það þannig að á þessu væri skilningur og samstaða. Það eru ekki allir sömu einstaklingar í ríkisstjórninni núna af hálfu Sjálfstfl. og voru þá. En það er líka alveg ljóst að ríkisstjórnin sem hefur birst okkur síðustu þrjú árin er allt öðruvísi ríkisstjórn. Engin áhersla hefur verið á málaflokk fatlaðra, engin áhersla á félagslegar íbúðabyggingar. Þar hefur verið dregið svo saman að öll námsmannasamtök kveinka sér, öll félagasamtök kveinka sér og langir biðlistar eru í sveitarfélögunum.

Því er svo undarlegt að nú bregður svo við að ríkisstjórnin ákveður að gjörbylta húsnæðiskerfinu. Þegar við spyrjum hvað verði um fólkið sem ekki fær lán þá er sagt: Það á að fara í leiguíbúðir. Þegar við bendum á að samkvæmt frv. eigi eingöngu að byggja 50 leiguíbúðir á tveimur árum er vísað til þess að það eigi að gera samninga, fyrst við sveitarfélögin, seinna er í brtt. sagt að það eigi að gera samninga við sveitarfélögin og verkalýðshreyfinguna og reyna að búa til áætlun um hvað þurfi að byggja og hvernig eigi að fjármagna.

Auðvitað fengum við fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga á fund okkar. Og þó að þeir styðji frv. í einu og öllu þá vilja þeir ekki ákvæði um 50 íbúðir á tveimur árum. Þeir vilja opið ákvæði þar sem settir eru peningar á fjárlögum í að byggja og að lána sveitarfélögum til að byggja íbúðir. Því var lýst yfir í nefndinni að enginn áhugi væri á að ganga til samninga við ríkisvaldið um fjármögnun leiguíbúða. Þetta var marg\-ítrekað á fundi félmn., enginn áhugi á að ganga til samninga um fjármögnun leiguíbúða, við viljum óbreytt fyrirkomulag lánveitinga til leiguíbúða og við höfnum bráðabirgðaákvæði VIII skýrt og skorinort af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga.

Samt sem áður er ítrekað vísað til þess að ganga eigi til samninga við þessa aðila til þess að reyna að leysa vandann um leiguíbúðir því að það er alveg ljóst að það verður gífurlegur fjöldi sem kemur til með að leita eftir leiguíbúðum verði þessi lög að veruleika eins og áformað er.

[18:00]

Það er fróðlegt að skoða hver viðbrögð námsmannasamtakanna eru varðandi þessi lög. Alls staðar vantar íbúðir. Hjá Félagsstofnun stúdenta kom fram að þeir hefðu 368 íbúðir til útleigu og að uppbygging hjá þeim væri algjörlega grundvölluð á lánum frá Byggingarsjóði verkamanna, 50 ára lánum með 1% vöxtum. Einnig kom fram að þeir fengu ekki úthlutun síðast, þrátt fyrir þá miklu uppbyggingu sem þeir hafa bent á að þörf sé fyrir. Miðað við umfjöllunina um hve með margar íbúðir teljist eðlilegt að hafa fyrir námsmenn þá er mjög langt í land með að við séum komin með það hlutfall af námsmannaíbúðum sem er að finna í nágrannalöndunum, sem okkur finnst oft svo geysilega gott að miða okkur við.

Einnig hefur verið bent á að það af námsmannasamtökunum, fyrir utan það hversu miklu það breytir um uppbyggingu námsmannaíbúða að félagsleg lán með 1% vöxtum verða felld út, að ef stimpilgjöld verða tekin upp þá gjörbreytir það stöðunni. Þá komum við líka að öðrum þætti sem er mjög merkilegur í meðferð félmn.

Þegar við vorum að fjalla um þetta frv. vantaði algjörlega ákvæði um stimpilgjöld. Sagt var að ákvæði um stimpilgjöld yrði í öðrum lögum um stimpilgjöld sem væru til meðhöndlunar hjá þinginu. Þegar við afgreiddum frv. út úr nefnd var búið að leggja fram brtt. meiri hlutans. Þá var komið inn eitt gott ákvæði. Það átti ekki að vera stimpilgjald af viðbótarlánunum, af þessum svokölluðu félagslegu lánum, sem eru félagsleg fyrir að vera 90%, og það áttu heldur ekki að vera stimpilgjöld af almennum lánum, þ.e. húsbréfalánum, ef þau voru veitt samhliða viðbótarláni. Þetta var góð breyting ein jákvæð breyting, a.m.k. eitthvað sem spornaði gegn þeim miklu hækkunum sem yrðu hjá því fólki sem fer yfir í nýtt kerfi.

Ég taldi ekki þörf á því, eftir að hafa fengið að sjá breytingar meiri hlutans og fara yfir þær í félmn., að taka síðan þingskjalið með brtt., saumfara það og gá hvort brtt. meiri hlutans væru ekki örugglega alveg eins og brtt. sem lagðar voru fram í nefndinni. Ég var svo heppin að hjá mér var þingmaður sem var að undirbúa sig undir langa ræðu. Sá fer vendilega ofan í öll mál. Ég hafði látið þingmanninn hafa brtt. svo hann gæti farið mjög vel yfir það hvað þær þýddu. Þingmaðurinn skoðaði þingskjalið en þá kom annað í ljós. Þá var búið að breyta tillögunum. Það á auðvitað ekkert að sleppa stimpilgjaldi af almenna láninu. Það á bara að sleppa stimpilgjaldi af 20--25% láninu. Menn áttuðu sig á því að það væri stór hætta á því að þeir væru að verða of félagslegir svo þessu var snarbreytt frá því að meiri hluti nefndarinnar kynnti tillögur sínar í nefndinni, þar til frv. var prentað hér í þskj. Það er mjög mikilvægt að þingmenn geri sér grein fyrir þessu, sérstaklega þeir þingmenn sem hafa e.t.v. ekki skoðað þessar breytingar.

Það er mjög mikið atriði fyrir okkur, til viðbótar öflugum lánasjóði og því að ungt fjölskyldufólk geti fengið barnagæslu, að við séum með gott framboð af námsmannaíbúðum og þær séu á viðunandi verði. Það hafa þær verið. Þær hafa verið á viðunandi verði. En nú mun það breytast. Í umsögn Félagsstofnunar stúdenta kemur fram að skv. 38. gr. frv. verði lán til leiguíbúða allt að 90% af byggingarkostnaði til 50 ára. Það er jákvætt en miðað við að vaxtakjör séu breytileg --- ég tek það fram að síðan þessi umsögn kom er búið að fella ,,breytileg`` út, þannig að markaðsvextir verða á lánunum --- þá hafa breytingar á vöxtum gríðarleg áhrif á rekstur stúdentagarða og leiguverð.

Ég vil benda þingmönnum á þau áhrif sem vextirnir hafa. Þeir nota verð í mars 1998 á 36 m2 einstaklingsíbúð á stúdentagörðum. Miðað við 1% vexti er leiguverðið 21.581. Miðað við 2% vexti hækkar leiguverðið um nærri 7,5% og fer í yfir 23 þúsund. Miðað við 3% vexti fer leigan í nærri 25 þúsund, miðað við 4% vexti yfir 26 þúsund og miðað við 5% vexti 28.042 kr. Þá hefur leigan hækkað um tæp 30%.

Þetta frv. segir að það skuli vera almennir vextir á lánunum og þeir eru ekki undir 5% í dag. Það þýðir, herra forseti, að leigan á 35 m2 einstaklingsíbúð hækkar um 30%. Auðvitað er prósentan hlutfallsleg þannig að stærri íbúðir og hjónaíbúðir hækka að sama skapi. Þetta er því bara dæmi til að fólk átti sig á tölum og prósentum og hvað leiðir af því að hinn nýi Íbúðalánasjóður, sem á að bera sig, verði ekki með niðurgreidda vexti.

Umsagnir allra sjóðanna, Kennaraháskólans, Samvinnuháskólans á Bifröst, Byggingarfélags námsmanna, Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Félagsstofnunar stúdenta, hníga í sömu átt. Athugasemdir eru gerðar við hve miklu þetta breyti um kostnaðinn við að byggja, um leiguna og um möguleikana fyrir námsfólk.

Virðulegi forseti. Námsmennirnir eru bara einn hópur þeirra sem eru uggandi um breytta stöðu núna. Það er klárt að áhrif á kjör bæði kaupenda og væntanlegra leigjenda í þessu nýja kerfi eru algjörlega óljós. Töluvert mikið greinir á milli þeirra útreikninga á greiðslubyrði sem liggja fyrir hjá félmrn. annars vegar og hjá ASÍ og BSRB hins vegar. Svo mikið liggur á að afgreiða þetta frv. að frv. um húsnæðissamvinnufélög liggur eftir. Það þýðir að lagaleg staða þeirra sem byggt hafa samkvæmt þeim lögum, eins og t.d. Búseta, er mjög óljós í dag og alls ekki ljós við afgreiðslu þessa frv.

Við höfum nefnt hvað það þýðir að vísa fólki sem áður átti kost á 100% lánum algjörlega frá. Mér finnst mjög mikilvægt að halda því til haga að það eru aðeins 17% vanskil hjá hópnum sem hefur fengið 100% lán. Það hefur oft verið nefnt í umfjölluninni að það væri bjarnargreiði að lána þessu fólki en staðan er sú, og það er skjalfestí gögnum sem hafa verið lögð fram við okkur, að það eru bara 17% vanskil.

Margir hafa vísað til þess að í umsögn húsnæðisnefndar Kópavogs kemur fram að þar var gerð könnun á greiðslumati 122 fjölskyldna sem hafa keypt íbúðir í félagslega kerfinu. Þessar fjölskyldur voru metnar miðað við greiðslubyrði sem notuð er í húsbréfakerfinu. Þá kom í ljós að aðeins 11 fjölskyldur af 122, eða 9% þeirra sem bíða, mundu standast greiðslumat samkvæmt frv. Það er útilokað annað en að nota þessa staðreynd sem vísbendingu um hvað felst í þessu frv.

Þá segja menn: Það er skylda sveitarfélaganna að aðstoða fólk í húsnæðismálum. Og það er alveg rétt að í rammalögum um félagsþjónustu sveitarfélaga segir, með leyfi forseta: ,,Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.`` Þetta er þáttur sem kom inn í rammalöggjöf um félagslega þjónustu þegar þau lög voru sett og urðu einn hluti þess velferðarkerfis og öryggisnets sem ég hóf mál mitt á að fjalla um.

En hver verður staða sveitarfélaganna miðað við þessi lög? Hver verður fyrirgreiðsla þessarar nýju stofnunar til sveitarfélaganna til að gera þeim kleift að byggja upp á einhvern hátt? Það hef ég líka farið yfir.

Þegar við skoðum stóru bæina sem sinnt hafa þessum málum þá eru alls staðar hörð viðbrögð frá húsnæðisnefndunum. Ég gríp hér niður í umsögn Húsnæðisnefndar Mosfellsbæjar, sem er mjög andvíg að frv. verði lögfest í vor. Hún bendir á hvað þessi lög skipti fjölskyldur í landinu miklu máli og hversu erfitt sé að þessi lög verði sett án nánari útfærslu á aðalatriðum. Þeim finnst það mjög óábyrgt. Húsnæðisnefnd Mosfellsbæjar tekur undir með þeim fjölmörgu samtökum sem leggja til að málinu verði frestað til haustsins og samráð verði haft við launþegasamtök og Húsnæðisstofnun.

Sama er að segja um stóru bæina, Kópavog og Akureyri. Frá þeim koma mjög miklar viðvaranir, ekki bara varðandi það sem ég hef nefnt, að einungis fáir mundu standast matið og fá inni í nýja kerfinu, heldur hafa þau líka skoðað hvernig það verði fyrir sveitarfélögin að byggja upp leigumarkað miðað við stöðuna í þessum nýja Íbúðalánasjóði. Húsnæðisnefnd Kópavogs fer yfir það. Þar segir að sem dæmi um áætlaðan kostnað Kópavogsbæjar vegna leiguíbúða samfara því að þetta frv. verði að lögum, og þau skoða dæmi um íbúð og miða við meðalverð íbúðar upp á 8 millj. kr., þá yrði 10% framlag sveitarfélags 800 þús., lántökugjald 72 þús. Stimpilgjald --- nú er það óljóst, við héldum að fella ætti stimpilgjaldið út, því er haldið inni á almennu lánunum og óljóst hvernig farið verður með leiguíbúðirnar --- þar eru 100 þúsund. Við getum svo sem tekið það út fyrir sviga ef svo kynni að fara að því yrði breytt. Þinglýsingargjald er 2.400. Samtals verða það 1 milljón í kostnað við hverja þá félagslegu leiguíbúð sem sveitarfélagið hugsanlega fengi lán fyrir, við þær aðstæður að frv. kveður á um 50 íbúðir á tveimur árum.

[18:15]

Í útreikningi segir að gengið sé út frá því að sveitarfélög þurfi ekki að greiða 5% framlag í tryggingarsjóð sem mundi nema 100 þús. kr. í viðbót á hverja íbúð. Það sé heldur ekki reiknað með fjármagnskostnaði í dæminu og þeir benda á að á síðustu fimm árum hefur húsnæðisnefnd Kópavogs afhent að jafnaði 49 íbúðir til umsækjenda, auk 56 innlausnaríbúða á ári sem er meðaltal síðustu þriggja ára en þetta þýðir um 105 íbúðir samanlagt á ári og þeir segja:

,,Miðað við að frv. verði samþykkt óbreytt er varlega áætluð þörf fyrir 75 nýjar leiguíbúðir á ári næstu fjögur árin og mun það kosta bæjarfélagið 76 millj. kr. auk húsaleigubóta sem mundu nema um 4 millj. kr.``

Nú getum við spurt hvort þetta sé ekki allt í lagi? Við viljum öflug sveitarfélög og öfluga velferðarþjónustu, það er bara gott mál að sveitarfélögin í landinu sjái um leigumarkaðinn, að sveitarfélögin í landinu kosti því til sem þarf til að í boði séu í öllum sveitarfélögum landsins leiguíbúðir fyrir þá sem hafa of lágar tekjur, eiga ekki heima í eignaríbúð að mati stjórnarflokkanna og er vísað inn í leiguíbúðakerfið. Ég ætla að svara: Má vera. Við höfum sett lög um að sveitarfélög skuli sjá til þess að hafa húsnæði á boðstólum, m.a. fyrir þessa fjölskyldu sem ég hef þegar tilgreint. En ef við erum þeirrar skoðunar að svo stór pakki eigi að fara til sveitarfélaganna sem hér blasir við og er langt umfram það sem hefur verið inni í útreikningum um félagslegan kostnað sveitarfélaga þá verðum við að fara að skoða það að gera þeim mögulegt að vera með alla þessa félagslegu þjónustu hjá sér. Ekki er hægt að veifa lögum og góðum áformum, segja að menn vilji hafa velferðarþjóðfélag en draga úr alls staðar, draga úr tryggingabótum, veikja almannatryggingakerfið, veikja atvinnuleysistryggingakerfið, vera ekki með neina stefnu gagnvart láglaunafólki þannig að launin í landinu eru allt of lág og segja svo: Þið hafið ekkert að gera með að fara inn í eigin íbúir, þið skuluð fara á leigumarkaðinn og sveitarfélagið skal sjá um það. Þá verður að sjá til þess að sveitarfélögin í landinu hafi til þess burði, að þeim séu færðir þeir tekjumöguleikar að þau eigi möguleika á þessu. Þá verðum við að horfast í augu við að Alþingi Íslendinga hefur nýlega flutt skólamálin eins og þau leggja sig yfir til sveitarfélaganna í fullri sátt og reiknað var út af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga og framkvæmdarvaldsins hvað sá tilflutningur mundi kosta og hvað þau ættu að fá í tekjur. Alls staðar blasir það við núna að bæði er örari þróun, kallað er eftir meiri þróun í skólamálum hjá sveitarfélögunum og kostnaður sveitarfélaganna af skólunum verður meiri en áformað var og ríkisvaldið og Alþingi verður þá að fara að horfast í augu við það ef stöðugt á að vísa yfir á sveitarfélögin. Þetta er gott mál að mörgu leyti vegna þess að sveitarfélögin hafa nándina, þekkinguna á umhverfi sínu en þau eru ekki til þess bær ef þau fá ekki til þess tekjur. Það er það sem skortir líka á hjá þessari ríkisstjórn.

Á fundi okkar með fulltrúum bæði frá Akureyri og Kópavogi var aðalmálið hve mörgum spurningum var ósvarað. Það voru spurningar eins og: Ef afskrifa á íbúðir á landbyggðinni hver á að borga inn í varasjóðinn af því kostnaðurinn er talinn samkvæmt frv. aðeins 10 millj. kr.? En það á auðvitað að taka þá inneign sem er í varasjóðnum og nota hana í þessar greiðslur og það hefur komi fram í nefndinni, hvort sem það hefur komið fram hér. Það hvað lögin voru óljós, og hver staðan yrði var mjög mikið áhyggjuefni þeirra sem komu á fund okkar. Það kom líka fram að tekjur upp á 150 þús. væru mjög algengar hjá láglaunafólki. Það borgaði jafnvel 40 til 50 þús. kr. í leigu, getur alls ekki lagt fyrir fyrir 10%, það á stundum eitthvað upp í. Flestir spjara sig við að kaupa og þeir segja að það séu mjög fáar nauðungarsölur á ári og hafi eingöngu verið um 2 til 3 af þeim 600 íbúðum sem lánað var 100% lán út á. Þetta er mjög athyglisvert miðað við málflutninginn sem hefur átt sér stað hér af hálfu félmrh.

Það var líka bent á hvað það muni hafa mikil áhrif á leiguverð ef vextirnir fara úr 1% í 5,1% sem lá ekki fyrir þá en lá fyrir þegar breytingartillögurnar voru gerðar. Að vísu hafa menn kosið að setja visst spurningarmerki við það hvað verði gert í sambandi við leiguíbúir og fjármögnun þeirra en það segir í skýringum við breytingartillögur að með því að fella út varðandi húsbréfalánin að þau skuli eingöngu vera til einstaklinga, opnist þar m.a. möguleiki fyrir félagasamtök og sveitarfélög að fá þannig í gegnum húsbréfakerfið lán fyrir leiguíbúðunum og allir vita hvaða kjör eru á húsbréfunum. Bent var á hvað fyrirgreiðslan hefur mikið að segja varðandi leigufjárhæðina.

Virðulegi forseti. Mjög margar merkilegar ábendingar komu fram í umfjöllun nefndarinnar og því miður var mjög fátt af því sem fram kom tekið gilt. Mörg sveitarfélög gagnrýndu það t.d. að þau ættu að greiða 5% af viðbótarláninu fyrir hverja íbúð sem íbúi í bæjarfélaginu fengi að kaupa inn í varasjóðinn sem á síðan að fara til þess að greiða niður mismuninn á markaðsverði á stöðunum og því verði sem er uppfært á íbúðinni í félagslega kerfinu. Það kom líka fram og það höfum við vissulega rætt ef sveitarfélag neytir ekki forkaupsréttar á stað þar sem er mikið framboð á íbúðum og einstaklingur stendur með íbúðina sína í þessu verði er það einstaklingurinn sem tekur á sig afföllin og áföllin við að selja íbúðina á markaðsverðinu en ekki uppfærða verðinu sem sveitarfélagið er að kveinka sér undan og ákvæðið um 5% í varasjóð til þess að greiða niður mismuninn kemur alls ekki til einstaklinganna. Þarna er því verið að búa til lagfæringu gagnvart sveitarfélögum um leið og búin er til mismunun milli sveitarfélaganna og þess sem þau selja og einstaklinganna á staðnum þegar þeir selja. Þetta er gífurlega stórt atriði sem hefur verið blásið á og ekkert gert með. Það var líka ýmislegt óklárt í frv. sem átti að vera svo óskaplega gott. Eitt var það hvort sveitarfélag yrði krafið um framlag til varasjóðsins oftar en einu sinni vegna sömu íbúðarinnar. Það er eitt af því sem menn verða að horfa á. Það er mjög eðlilegt að reikna með því að þegar fram líða stundir sé einstaklingur með nýtt viðbótarlán að fara inn í íbúð sem annar einstaklingur er að fara úr og þá spyrja sveitarfélögin: Hversu oft eigum við að greiða 5% út á viðbótarlánin?

Herra forseti. Það var frekar merkilegt að sjá hve mörgum spurningum var í raun ósvarað miðað við yfirlýsingarnar sem hafa komið fram í þessum stól. Það er líka alveg ljóst að það er skylda að setja húsnæðisnefndir á laggirnar og húsnæðisnefndirnar benda á að staða þeirra og verkefni gjörbreytist með þessum nýju lögum vegna þess að það eru svo stór verkefni sem fara frá þeim. Margar húsnæðisnefndir hafa staðið fyrir miklum byggingarframkvæmdum og hafa áorkað því að vera með miklu lægra íbúðarverð en gerist á almenna markaðnum og þetta hefur haft að segja fyrir fólkið sem hefur farið inn í íbúðirnar. Það er ekki af engu að fasteignasalar eru í hópi þeirra sem fagna mjög þessu frv. og formaður Félags fasteignasala lýsti því yfir að það væri mikill ávinningur að fá þennan stokk íbúða upp á 10.600 inn í sölukerfi þeirra og það mundi vissulega hafa einhver áhrif á íbúðaverð. Það hefur komið fram að íbúðaverð þeirra félagslegu íbúða sem hafa verið byggðar af húsnæðisnefndunum er lægra og væntanlega mun það þá gerast að íbúðaverðið hækkar til jafns við það sem er á markaðnum. Það er líka mjög stór spurning hjá húsnæðisnefndunum hvernig þær fara með biðlistana og það er ein af breytingartillögunum sem settar voru fram við þetta frv. að þar er kveðið á um hvernig á að fara með þá sem eru búnir að fá úthlutað íbúðum en munu ekki fá þær afhentar strax, hvort á að rifta samningum við viðkomandi eða taka þá út úr listanum þar sem sagt er: Þið munuð fá í næstu úthlutun og svo þeirra sem eru u.þ.b. að fá íbúðirnar sínar. Búið er að setja mörkin á mitt árið og kveða upp úr með það að þeir sem eru komnir með viðurkenndar úthlutanir fyrir mitt ár skuli fá í gamla kerfinu. Þeir sem eru ekki með úthlutanir fyrr en eftir mitt ár skuli bíða og samningar stöðvaðir og þeir fái í nýja kerfinu.

Ég ætla líka að benda á það, virðulegi forseti, af því ég er að drepa á þá þætti sem merkilegir voru í umsögnunum sem lagðar voru fyrir félmn. að Samband íslenskra sveitarfélaga lagði mikla áherslu á að það yrði að skýra núna verkefni húsnæðisnefndanna. Þeirra er getið í 14. gr. og hvað þær eigi að sjá um og vakin er athygli á að í 1. mgr. er talað um að húsnæðisnefndirnar eigi frumkvæði að því að afla húsnæðis til að aðstoða einstaklinga við húsnæðisöflun og menn skilja ekki hvað átt er við með þessu ákvæði. Þeir vita ekki hvort í því felist heimild húsnæðisnefndar til að byggja eða kaupa fasteignir til endursölu eða hvort þetta sé eingöngu milliganga gagnvart þeim sem eru að fara í leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaganna.

Virðulegi forseti. Það hefur komið vel og skýrt fram í umræðunni að verið er að klippa endanlega á áratuga tengsl aðila vinnumarkaðarins við húsnæðismálin. Þeir hafa haft einhverja bestu yfirsýn yfir þarfir félagsmanna sinna. Hvorki verkalýðshreyfingin né þau félagasamtök sem eiga hvað mestra hagsmuna að gæta komu að samningu frv. enda hafa þau mótmælt innihaldi þess harðlega. Það tóku allir eftir því, herra forseti, að heilsíðuauglýsing birtist í Morgunblaðinu í gær, skuggaleg og dökk, þar sem óskað er eftir því af öllum þessum félagasamtökum og stéttarfélögum að frv. bíði, því verði frestað og skoðað ögn betur hvort ekki megi bjarga meiru. Margir hafa farið yfir viðhorf verkalýðshreyfingarinnar og þess vegna ætla ég, virðulegi forseti, ekki að víkja að þeim þætti í ræðu minni. Ég mun skoða hvort ég muni koma að þessu máli aftur síðar í umræðunni og þá má vera að ég skerpi þar á því sem mér fannst athyglisvert í gagnrýni þeirra en ég ætla að nefna, virðulegi forseti, að það er feikilega margt óútfært í þessu frv.

[18:30]

Setja á 28 reglugerðir og við höfum verið að fá athugasemdir um það á síðustu árum að reglugerðarvald ráðherra sé of mikið. Talið er mikilvægt að Alþingi kveði í lagagreinum skýrt á um útfærslu á því sem lögin kveða á um. Oft og tíðum koma frv. hingað inn af því að menn hafa sett reglugerðir sem eiga sér ekki næga lagastoð og þess vegna höfum við í félmn. tekið það sérstaklega fyrir, í nokkrum af þeim lögum sem við höfum unnið með á þessu kjörtímabili, að reyna eins og unnt er að fækka reglugerðum. Hér á að setja 28 reglugerðir og ráðherrann hefur tíundað það rækilega í dag hverjar af þeim áttu sér tilsvarandi lagastoð í núverandi kerfi en það eru ekki rök. Það eru ekki rök vegna þeirra breytinga sem Alþingi hefur verið að gera, að reyna að komast fram hjá því, að vera með svo margar reglugerðir í lögum og taka frekar inn í lögin sumt af því sem áformað er að taka í reglugerð. Ég hefði talið að það væri mjög mikilvægt að fara yfir það og reyna að fækka reglugerðunum.

Við fórum fram á að sá þáttur yrði skoður en það eina sem við fengum var listi yfir hvað fælist í reglugerðunum og hvaða reglugerðir hefðu áður verið tengdar núgildandi lögum. Mér finnst það frekar veikur málflutningur, herra forseti, að segja: Það er allt í lagi hjá mér, að vera með þessar reglugerðir, af því að í lögunum sem voru sett áður voru reglugerðirnar svo margar.

Virðulegi forseti. Ég hóf mál mitt á því að fjalla um öryggisnetið sem við höfum verið að smíða alla þessa öld og varð svo öflugt upp úr 1939. Það merkilega er að öflug lög sem mynda þetta öryggisnet hafa verið sett í samstarfi Alþfl. og Sjálfstfl. Þess vegna er ég undrandi á því hve mikil afturhaldslög það eru sem koma inn í þingið þegar Framsfl. og Sjálfstfl. starfa saman. Það verður mér til ævarandi umhugsunar. En hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir minntist á ein lög í langri ræðu sinni í gær sem ég ætla að leyfa mér að koma örlítið inn á í lok máls míns. Þó að það sé mjög margt sem ég hefði viljað koma inn á í frv. og umsögnunum þá hef ég einsett mér að stikla á stóru í umfjöllun minni um það hér og fjalla aðeins um greiðsluaðlögun og greiðsluerfiðleika og erfiðleika fólks.

Við höfum öll gert okkur grein fyrir því að þrátt fyrir þetta öryggisnet, sem ég hef talað um, þá skortir á þegar miklir erfiðleikar verða hjá fólki. Á samdráttartímanum urðu þeir erfiðleikar sýnilegir. Það var líka nokkuð mikið um að fólk skrifaði upp á, ungt fólk fyrir foreldra, foreldrar fyrir börn, vinir fyrir vini sína, af því að þeir litu svo á að þeir væru fyrst og fremst að lána nafnið sitt en menn hugsuðu dæmið ekki þannig að þeir væru að bjóðast til að greiða skuldirnar fyrir viðkomandi. Því varð það mjög ljóst á síðasta kjörtímabili að mikill fjöldi fólks átti í miklum greiðsluerfiðleikum og var með gífurlegar skuldir. Það þurfti aðstoð til að komast út úr þeim erfiðleikum. Í sumum tilfellum dugði að einstaklingar seldu eignir sínar og minnkuðu við sig. Þeir sem áttu hús minnkuðu við sig í litla íbúð, þeir sem áttu íbúð seldu hana og fóru í leiguhúsnæði. Í mörgum tilfellum hefur þetta ekki dugað til.

Þess vegna var það á síðasta kjörtímabili að mönnum var umhugað um að setja lög um greiðsluaðlögun. Þá var starfshópur á vegum þáv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur, að störfum við að reyna að ná sátt um slíka lagasetningu. Það var rekið mjög eftir henni og miklar fyrirspurnir um hvað liði þeirri lagasetningu. Ég minnist þess að á meðan sú sem hér stendur sat í stóli félmrh., þá var gerð hörð hríð að því að nú skyldi setja lög um greiðsluaðlögun. Á þessum tíma voru lögð fram þingmannafrv. um þetta mál. Þar fóru fremstir í flokki framsóknarmennirnir sem nú eru ráðherrar, hæstv. núv. félmrh., Páll Pétursson, og hæstv. núv. viðskrh., Finnur Ingólfsson.

Auðvitað var kallað eftir því að þeir stæðu við þessa miklu stefnumörkun þegar þeir komust í ríkisstjórn, að ég tali nú ekki um þegar hagurinn vænkaðist hjá ríkissjóði og allt varð með þeim brag sem menn hafa haldið á lofti þegar þeir eru uppteknir af því vel gengur. Þá, virðulegi forseti, fundu menn lausnina. Menn fundu lausnina á því hvernig þeir kæmust hjá því að setja lög um greiðsluaðlögun. Þeir gerðu breytingar á lögum og settu lagaákvæði um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga. Þeir settu lög um nauðasamninga samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þeir settu lög um Innheimtustofnun sveitarfélaga, um það að menn gætu óskað eftir niðurfellingu á meðlagsskuldum.

Á þessum vetri hef ég kallað eftir því hversu margir hafi leitað eftir þessari aðstoð og hversu margir hafi fengið. Ég hef talið alveg víst að þetta ákvæði, sem átti að bjarga öllu, í staðinn fyrir greiðsluaðlögun, yrði lítið nýtt og mundi ekki nýtast fólki í erfiðleikum til jafns við greiðsluaðlögun. Þá kom í ljós að aðeins ein af þessum breytingum hefur komið mönnum til góðs og það er ákvæðið um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Alls 560 eintaklingar leituðu eftir samningum á grundvelli þessara nýju laga, um að fá niðurfellingu á meðlagsskuldum, og 355 umsóknir hafa verið samþykktar. Aðeins 160 umsóknum hefur verið synjað og 45 hefur verið frestað vegna ófullnægjandi upplýsinga. Þegar spurt er um þá félagslegu erfiðleika umsækjenda sem áhrif höfðu á samþykkt framangreindra umsókna þá var svarið að þarna tvinnuðust gjarnan saman félagslegir og fjárhagslegir erfiðleikar og oft væru fleiri en ein ástæða fyrir því að umsóknir væru ekki samþykktar. Síðan var gerð grein fyrir því hverjar ástæðurnar væru. Þær voru t.d. lágar tekjur, skert starfsorka, barnamergð, mikil greiðslubyrði og aðrar ástæður svo sem frestun skuldar á meðan á námi stendur, allt það sem menn hafa bent á varðandi þá sem þyrftu að fá aðstoð og greiðsluaðlögun.

En þegar spurt var um hve margir hefðu óskað eftir réttaraðstoð við að leita nauðasamninga samkvæmt lögunum þá kom í ljós að dómsmrn. höfðu aðeins borist tíu umsóknir á þessu tímabili og réttaraðstoð var veitt alls átta sinnum.

Í svari við fyrri spurningunni, um hversu margir hafi leitað heimilda til samninga um greiðslu eignarskatts eða tekjuskatts samkvæmt lögunum og hversu margir hafi leitað nauðasamnings við skuldheimtumenn, kom í ljós að á umræddu tímabili, þ.e. frá setningu laganna, uppfyllti engin af þeim beiðnum sem fram komu ákvæði framangreindra laga og því var ekki hægt að fallast á neina. Beiðnirnar voru, virðulegi forseti, fimm erindi, skráð í málaskrá ráðuneytisins, tvö af þeim enn þá óafgreidd, og hinum þremur hafnað. Þetta er ótrúleg einkunn, herra forseti, fyrir leið sem átti að koma á móti þeim sem kölluðu eftir lögum um greiðsluaðlögun.

Virðulegi forseti. Ég hef farið á mikilli hraðferð yfir þetta stóra mál. Ég hef velt því fyrir mér hvort ég ætti að einhverju marki að fylgja úr hlaði þeim brtt. sem komu fram í meðferð nefndarinnar. Ég hef kosið að gera það ekki. Ég hef valið að benda mönnum á hvaða brtt. draga úr stöðu frv., eins og þetta með stimpilgjöldin. Ég hef bent á að menn kusu að verða við ábendingum Seðlabankans af því að þeir töldu að vextir ættu alls ekki að vera breytilegir, það væri svo erfitt fyrir stjórnmálamenn að hreyfa breytilega vexti en miklu auðveldara að hreyfa vaxtabætur. Mér finnst mikilvægt að koma því á framfæri við þingmenn, hvaða umsagnir hlutu hljómgrunn og til hvers tekið var tillit í yfirferð meiri hlutans í þessu stóra máli.

Ég vil einnig vekja athygli á því, virðulegi forseti, að það bárust mjög ítarlegar og áhugaverðar ábendingar frá Ríkisendurskoðun þó lítið tillit væri tekið til þeirra. Ég hefði einmitt talið að til að forðast mistök, þegar Ríkisendurskoðun kemur með ábendingar um bæði orðalag og ákvæði, þá ættum við að taka tillit til þess.

Virðulegi forseti. Ég hef kosið að fara ekki í ríkari mæli yfir þetta frv., brtt. og umsagnirnar, í þessari fyrri ræðu minni um húsnæðisfrv. félmrh. Ég vek athygli á því hversu alvarlegir þættir það eru sem fram hafa komið í máli mínu og hversu rík ástæða er til að verða við óskum þeirra fjölmörgu sem leggja til að þessu máli verði frestað.